Velferðarráð - Fundur nr. 183

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2012, fimmtudaginn 15. mars var haldinn 183. fundur s og hófst hann kl. 12.25 í Þjónustumiðstöð Laugardals Háaleitis, Síðumúla 39. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Haukur Jóhannesson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt staða breytinga í félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun í Laugardal/ Háaleiti.
Eftirtaldir starfsmenn sátu fundinn undir þessum lið:
Óskar Dýrmundur Ólafsson, Lóa Birna Birgisdóttir, Sigrún Ingvarsdóttir, Ingibjörg Þórisdóttir, Sigþrúður Arnardóttir og Herdís Skarphéðinsdóttir félagsráðgjafanemi. Berglind Magnúsdóttir, forstöðumaður Heimaþjónustu Reykjavíkur og Aðalbjörg Traustadóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis kynntu stöðu breytinga í heimaþjónustu og heimahjúkrun í Laugardal/Háaleiti.

Geir Sveinsson tók sæti á fundinum kl. 12.35.
Áslaug María Friðriksdóttir tók sæti á fundinum kl. 12.40.
Bjarni Karlsson tók sæti á fundinum kl. 13.00.

2. Lögð fram drög að áherslum og forgangsröðun velferðarráðs til næstu fimm ára í samræmi við leikreglur um gerð fjárhagsáætlunar. Jafnframt lagt fram minnisblað Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar dags 5. mars sl. vegna skila á gögnum vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2013-2017.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Drögin, með áorðnum breytingum, voru samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir margt í áherslum meirihluta velferðarráðs. Það vekur þó furðu að á sama tíma og það er staðfest að „stækkandi hópur samferðafólks lifi við eða undir fátækramörkum í æ lengri tíma“ skuli grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar ekki vera nefnd. Það hlýtur að teljast grunnskylda velferðarsamfélags að allir hafi í sig og á og þak yfir höfuðið og að öll börn hafi möguleika á að þroskast á eðlilegan hátt. Til þess að svo megi vera þarf fjárhagsaðstoð að duga fyrir nauðþurftum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að atvinnuleysi og skortur á hagvexti veldur því að við velferðarþjónustunni í Reykjavík blasir gríðarleg ógn. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ekki hafa mikinn dug í að bregðast við þeim vanda. Fjöldi þeirra sem fær fjárhagsaðstoð hefur vaxið ár frá ári og hefur aldrei verið jafnmikill. Ljóst er að forgangsröðun verkefna á árunum 2013-2017 mun þurfa að vera mjög skýr til þess eins að vernda grunn-velferðarþjónustuna. Jafnvel þarf að ganga svo langt að draga úr eða falla frá þjónustu sem ekki er lögbundin og horfa mun stífar til verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eitt af brýnustu verkefnunum er að vinna á fjölda þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og skerpa á réttindum og skyldum þeirra sem hennar njóta, t.d. að það að vera á fjárhagsaðstoð geti ekki falið í sér að viðkomandi hætti að vera virkur þátttakandi í samfélaginu heldur taki fullan þátt. Endurskoða verður ýmsa þjónustuþætti frá grunni og skoða af alvöru nýjar leiðir til að veita þjónustu. Þessar leiðir geta til dæmis verið að gefa fólki færi á að hafa meira um eigin þjónustu að segja, geta valið hvaða aðilar sinna þeim á eigin heimili, bjóða upp á þjónustutryggingu í stað þess að halda úti hefðbundnum þjónustueiningum eða að byrja að skoða hvernig byggja má upp sveigjanlegra kerfi sem getur betur komið til móts við hvern og einn. Um leið þarf að leggja áherslu á að endurskoða rekstur og vinnuferla með því að horfa til rafrænna leiða sem stytt gætu og þar með hagrætt í þeirri vinnu sem nú er unnin en með nútímatækni má nálgast þjónustu á annan hátt en gert hefur verið hingað til.

3. Lagt fram bréf frá Umsjónarfélagi einhverfra, dags. 25. febrúar s.l., um stöðu einhverfuráðgjafarmála hjá Reykjavíkurborg.
Samþykkt samhljóða að vísa málinu til vinnslu á Velferðarsviði með beiðni um tillögur varðandi það hvernig þekkingu verði deilt á milli þjónustumiðstöðva.

4. Minnisblað aðgerðateymis um samanburð milli áranna 2011 og 2010 vegna fjárhagsaðstoðar.
Málinu er frestað til næsta fundar.

5. Lagðar fram lykiltölur janúar til desember 2011.
Málinu er frestað til næsta fundar.

6. Lagt fram bréf Félagsbústaða dags. 1. mars 2012 varðandi aðkomu Velferðarsviðs að leiguskuldum Félagsbústaða hf. í útburðarferli. Ennfremur lögð fram eftirfarandi tillaga:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði í samstarfi við Félagsbústaði að leggja fyrir velferðarráð, eigi síðar en 12. apríl, útfærðar tillögur um hvernig eigi að mæta vanda leigjenda sem eru í alvarlegum vanskilum við Félagsbústaði. Í þeim tillögum verði m.a. horft til jafnræðissjónarmiða, heildarstuðnings við fjölskyldur sem í viðkomandi húsnæði búa sem og þeirrar skyldu einstaklinga, sem að teknu tilliti til húsnæðisstuðnings og greiðslubyrði hafa til þess greiðslugetu, að standa skil á sinni leigu.
Málinu er frestað til næsta fundar.

7. Lagður fram undirskriftalisti vegna málefna heimilislausra.
Velferðarráð samþykkir að vísa undirskriftunum inn í fyrirhugaða vinnu um endurskoðun á stefnu um málefni utangarðsfólks sem unnin verður á komandi hausti.

8. Betri Reykjavík, bréf mannréttindaskrifstofu dags. 24. febrúar s.l. þar sem hugmynd borgin reki áfram Konukot er vísað til velferðarráðs.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Nýlega var samið við Rauða krossinn um áframhaldandi rekstur Konukots þar sem Reykjavíkurborg greiðir að fullu fyrir þjónustuna. Þar með er búið að uppfylla tillöguna.

9. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 1. mars s.l.
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að samningur um rekstur Gistiskýlisins að Þingholtsstræti fyrir yfirstandandi ár verði lagður fyrir velferðarráð áður en frá honum verður endanlega gengið af hálfu sviðsins.
Samþykkt samhljóða.

10. Lagðir fram til kynningar samningar Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða fyrir hönd Velferðarsviðs og Samhjálpar um rekstur Gistiskýlis og um rekstur stuðningsheimilis.
Sviðsstjóri og framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða gerðu grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hér er verið að leggja fram samning við Samhjálp um rekstur gistiskýlis fyrir karla án þess að farið hafi fram útboð eða verið auglýst eftir áhugasömum um reksturinn eða lagt til að Velferðarsvið sinni þessu verkefni sjálft. Talið var nauðsynlegt að auglýsa eftir áhugasömun áður en samið var við RRKÍ um rekstur gistiskýlis fyrir konur.
Af þessu tilefni er spurt:
1. Hvað mun samningur við Samhjálp vegna Gistiskýlisins hækka mikið á milli ára?
2. Samræmist það innkaupareglum borgarinnar að semja við Samhjálp um rekstur gistiskýlis á þeim grunni sem hér er kynntur án þess að auglýst sé eftir áhugasömum eins og gert var með Konukot?
3. Sé þetta í samræmi við innkaupareglur, hvers vegna var ekki samið við RRKÍ án undangenginnar auglýsingar?
4. Hver yrði kostnaðurinn ef Velferðarsvið sinnti þessarri þjónustu sjálft ?
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að ekki verði samið við Samhjálp heldur verði Velferðarsviði falið að reka Gistiskýlið að Þingholtsstræti 25 með öðrum úrræðum fyrir utangarðsfólks sem sviðið rekur.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fella tillögu um að Velferðarsvið taki nú þegar yfir rekstur Gistiskýlisins. Í gangi er starfshópur sem m.a. var falið að skoða fagleg og fjárhagsleg rök fyrir mismunandi rekstrarfyrirkomulagi Gistiskýlisins. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum. Það er því ánægja að við getum tryggt áframhaldandi rekstur Gistiskýlisins út þetta ár og í samninginn var bætt inn fjármagni þar sem Velferðarsvið setti inn auknar faglegar kröfur.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að auglýst verði eftir áhugasömum um rekstur Gistiskýlisins á sama hátt og gert var með Konukot.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Þegar rekstarfyrirkomulag Gistiskýlsins verður ákveðið til framtíðar verður rekið tillit til faglegra og fjárhagslegra sjónarmiða, og það verður alveg örugglega unnið í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði mun svara bókunum meirihlutans þegar svör hafa borist við fyrirspurn um málið.

11. Lagður fram til kynningar samningur Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða f.h. Velferðarsviðs og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um rekstur Konukots.
Sviðsstjóri og framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða gerðu grein fyrir málinu.

13. Lagt fram svar Velferðarsviðs vegna fyrirspurnar fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 2. febrúar s.l.

Fundi slitið kl. 15.30

Björk Vilhelmsdóttir
Diljá Ámundadóttir Haukur Jóhannesson
Bjarni Karlsson Þorleifur Gunnlaugsson.
Geir Sveinsson Áslaug María Friðriksdóttir