Velferðarráð - Fundur nr. 182

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2012, fimmtudaginn 1. mars var haldinn 182. fundur s og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Lárus Rögnvaldur Haraldsson, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist :

1. Lagðar fram tillögur að útfærslu á aukinni þjónustu við utangarðsfólk;
- Færanlegt teymi Borgarvarða,
- Eflingu Dagseturs,
- Samstarf við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.
Greinargerð fylgir.
Ennfremur lögð fram drög að samkomulagi milli Velferðarsviðs og Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmd verkefnisins Borgarverðir. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Tillögurnar og drög að samkomulagi voru samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði fagna mjög að tilraunaverkefnið Borgarverðir sé að hefjast. Um er að ræða góða og nauðsynlega viðbót í þjónustu við utangarðsfólk, fólk með áfengis- og vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika. Við bindum miklar vonir við að með þessum hætti verði hægt að ná betur til þessa hóps og sinna honum af meiri krafti, en upplýsingar hafa komið frá grasrótinni um að mæta þyrfti þessum hóp betur og á þennan hátt. Þá er það afar jákvætt að nú komist á formlegt samstarf við lögregluna. Fyrir liggur að endurskoða stefnu í málefnum utangarðsfólks. Í þeirri vinnu verður m.a. skoðað hvort og þá hvernig þessi þjónusta mætir þörfum utangarðsfólks og verður tekin ákvörðun um framhald þessa tilraunaverkefnis út frá reynslunni.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar aukinni þjónustu við utangarðsfólk. Færanlegt teymi fagfólks úr röðum starfsmanna borgarinnar, samvinna við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands á tvímælalaust eftir að auka lífsgæði margra úr röðum þeirra sem teljast utangarðs. Það er þó miður að Reykjavíkurborg skuli jafnhliða þessari ákvörðun kjósa að beina utangarðsfólki í auknum mæli í dagsetur á vegum gildishlaðinna lífsskoðunarsamtaka. Fulltrúi Vinstri grænna hefur ekkert við sjálfboðastarf Hjálpræðishersins að athuga en telur ekki ásættanlegt að verið sé að veita fjármagni og faglegri aðstoð af hálfu borgarinnar til úrræðis á þeirra vegum þegar aðrir valkostir eru ekki til staðar. Vandi flestra ef ekki allra sem teljast til utangarðsfólks er heilbrigðisvandi sem taka á sömu tökum og önnur heilbrigðisvandamál en ekki í anda trúboðasjúkraskýla liðinna alda. Þar sem þetta verkefni er til eins árs og sannarlega til bóta fyrir umræddan hóp greiðir fulltrúi Vinstri grænna því atkvæði. Þetta ár þarf hins vegar að nota vel því ekki verður lengur undan því vikist að taka heilsstætt á vanda utangarðsfólks í Reykjavík og hefjast handa við endurnýjaða stefnu um málaflokkinn fyrir næstu ár sem tryggir eðlileg mannréttindi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fyrir velferðarráði liggja tillögur um útfærslu um aukna þjónustu við utangarðsfólk samkvæmt tillögu sem borgarstjóri lagði fram í borgarstjórn 6. desember 2011. Tillagan hljóðaði svo „Lagt er til að 40 milljónum kr. verði varið til aukinnar þjónustu við utangarðsfólk í Reykjavík. Dagþjónusta verði aukin, stofnað verði færanlegt teymi (borgarverðir) í samstarfi við lögreglu til stuðnings utangarðsfólki ásamt fleiri aðgerðum sem mótaðar verði af Velferðarsviði og samstarfsaðilum“. Gera verður alvarlegar athugasemdir við málið. Í fyrsta lagi að engin formleg þarfagreining fór fram og því fráleitt að velferðarráð samþykki tillögurnar án ítarlegri skoðunar. Það að bera fyrir sig að upplýsingar úr grasrót sé nægileg þarfagreining eru vægast sagt ófagleg vinnubrögð. Í öðru lagi að tillaga borgarstjóra var ekki unnin í samvinnu við starfshóp velferðarráðs um að endurskoða og greina þjónustu við utangarðsfólk sem þegar var að störfum. Í þriðja lagi er hér verið að samþykkja að borgin taki að sér verkefni sem að hluta til á heima hjá ríkinu án þess að taka upp viðræður um aðkomu ríkisins að því. Samkvæmt tillögunum er gert ráð fyrir að hópur fagfólks ferðist um á bíl og veiti utangarðsfólki heilbrigðisþjónustu meðal annars. Eflaust þarf að vinna að því að bæta heilbrigðisþjónustu við utangarðsmenn en engin umræða hefur farið fram um þessa ákvörðun sem er alvarlegt. Fjörutíu milljónir króna er mikið fé og þörfin á velferðarþjónustu er mikil og vaxandi. Þegar ákvörðun er tekin um að útvíkka velferðarhlutverk borgarinnar þarf að gæta þess að svo verði ekki á kostnað þeirra lögbundnu þjónustu sem sveitarfélagið þarf að sinna. Í áherslum starfsáætlunar velferðarráðs 2012, samþykktri af meirihlutanum kemur skýrt fram að unnið skuli að endurskoðun á starfsemi Velferðarsviðs og forgangsröðun fjármagns og þjónustu til hagsbóta fyrir þá sem mest þurfa á þjónustu og aðstoð að halda. Einnig kemur fram að jafnframt því að sinna velferðarmálum skuli tryggja hagkvæma nýtingu á fjármagni. Hér verður því ekki annað séð en að það sem meirihlutinn setti fram og samþykkti sem sínar áherslur fyrir nokkrum mánuðum síðan sé tómt hjóm. Í fjórða lagi er meirihlutinn að fara gegn þeirri meginstefnu sem unnið hefur verið að þvert á alla málaflokka eða að hverfa frá því að veita einstökum hópum sérstaka þjónustu og vinna frekar að því að bæta almenna þjónustu og aðgengi að henni þannig að það henti öllum (mainstreaming). Í fimmta lagi liggur fyrir að þjónusta við utangarðsfólk í Reykjavík er mjög góð. Rekinn er fjöldi úrræða sem ekki eru alltaf fullnýtt og húsaskjól stendur til boða á hvaða tíma sólarhrings sem er. Þrátt fyrir að ekki sé um lögbundna þjónustu að ræða hefur Reykjavíkurborg sinnt þessum hópi vel. Engan veginn er því hægt að segja að í samanburði við aðra málaflokka sé mest aðkallandi að auka þjónustu við þennan hóp. Í ljósi þess hve illa málið er unnið og að þarfagreining liggur ekki fyrir geta fulltrúar Sjálfstæðisflokks ekki samþykkt ofangreindar tillögur. Sjálfstæðismenn ítreka hér með að unnið verði að þarfagreiningu í málefnum utangarðsfólks sem geri ráðsmönnum fært að taka upplýstar ákvarðanir áður en vaðið er af stað.

2. Minnisblað aðgerðateymis um samanburð milli áranna 2011 og 2010 vegna barnaverndar lagt fram.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram tillaga að breytingu á reglum um styrki til áfangaheimila.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram stöðuskýrsla vegna verkefnisins Virkni til velferðar.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

5. Lögð fram drög að samningi Velferðarsviðs, velferðarráðuneytis, Vinafélagi velunnara Vinjar og Rauða kross Íslands um rekstur Vinjar - athvarfs fyrir fólk með geðraskanir sbr. samþykkt velferðarráðs frá 17. nóvember 2011.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir nú fyrir sitt leyti samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, Rauða kross Íslands og Vinafélags Vinjar sem tryggir rekstur Vinjar út árið 2014. Það er ánægjulegt hvað Vinafélag Vinjar kemur rausnarlega að starfseminni og vill velferðarráð þakka þeim frjálsu félagasamtökum sérstaklega fyrir sinn hlut.

6. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir innkaup Velferðarsviðs sbr. 3. mgr. 37. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

- Lárus Rögnvaldur Haraldsson vék af fundi kl. 14.50.

7. Lögð fram umsögn Velferðarsviðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007.
Málinu er frestað til næsta fundar.

8. Opinn fundur velferðarráðs og Skóla- og frístundasviðs um sérfræðiþjónustu fyrir börn í skólum verður haldinn þann 27. mars nk. kl. 14.00.

9. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:

Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að samningur um rekstur Gistiskýlisins að Þingholtsstræti fyrir yfirstandandi ár verði lagður fyrir velferðarráð áður en frá honum verður endanlega gengið af hálfu sviðsins.

Málinu er frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 15.15

Björk Vilhelmsdóttir

Heiða Kristín Helgadóttir Diljá Ámundadóttir
Áslaug María Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson