Velferðarráð - Fundur nr. 175

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2011, fimmtudaginn 17. nóvember var haldinn 175. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarnveig Magnúsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Kynnt 9 mánaða bókhaldsstaða Velferðarsviðs.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

2. Lagt fram til kynningar bréf velferðarráðuneytisins dags. 3. nóvember 2011 um skipan sviðsstjóra í nefnd um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga.

Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 12.50.

3. Lagt fram til kynningar verklag um meðferð hugmynda sem teknar hafa verið af Betri Reykjavík til umfjöllunar í fagráðum.

Bjarni Karlsson tók sæti á fundinum kl. 13.02.

4. Betri Reykjavík. Athvarf geðsjúkra, Vin verði opið áfram.
Lögð fram efsta hugmynd í velferðarflokki á Betri Reykjavík frá 31. október 2011, um að Vin - athvarf fyrir geðsjúka, verði opið áfram, ásamt samantekt og rökum.

5. Vin athvarf fyrir fólk með geðraskanir, lögð fram eftirfarandi tillaga velferðarráðs:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að fara í formlegar viðræður við Rauða kross Íslands (RKÍ), Vinafélagið Velunnara Vinjar og fulltrúa velferðarráðuneytis með það að markmiði að tryggja áframhaldandi rekstur í Vin til ársloka 2014. Gengið er út frá því að rekstur og dagleg þjónusta verði í höndum RKÍ. Í samvinnu við önnur sértæk þjónustutilboð s.s. Hugarafl, Geysi, Hlutverkasetur, Fjölmennt og Geðhjálp verði horft til þess hvaða þjónustu þurfi að þróa til þess að koma betur á móts við núverandi notendahóp í Vin. Kortlagning á þjónustuþörf taki mið af aðferðafræðinni Notandi spyr notanda (NsN). Skipa skal stýrihóp samstarfsaðila sem hefur yfirsýn yfir núverandi þjónustu og þróa hana í tengslum við niðurstöður kortlagningar Jafnframt skal stýrihópurinn móta framtíðarsýn út frá þjónustuþörf og taka mið af þróun félagsstarfs innan Reykjavíkurborgar þar sem félagsmiðstöðvar/Virknimiðstöðvar séu fyrir alla, óháð aldri og hvort þátttakendur búi við fötlun eða ekki. Áætlun um fjárþörf Reykjavíkurborgar vegna áframhaldandi reksturs athvarfsins verði lögð fyrir velferðarráð eins fljótt og kostur er.

Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð vill koma á framfæri að það sé sameiginlegur vilji ráðsins að tryggja áframhaldandi rekstur Vinjar við Hverfisgötu. Ennfremur er fagnaðarefni að stofnað hafi verið Vinafélag í tengslum við þennan mikilvæga og góða stað.

6. Lagt fram til kynningar minnisblað vegna niðurstöðu á úttekt Notandi spyr Notanda um þjónustu við geðfatlaða á þremur búsetukjörnum.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu

7. Lögð fram að nýju tillaga samráðshóps um forvarnir um styrkúthlutun úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur.
Guðrún Halla Jónsdóttir, félagsráðgjafi, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna telur að verið sé að styrkja marga þarfa starfsemi en furðar sig hinsvegar á því að á meðan verið er að hafna styrkjum til Ung – SÁÁ á að styrkja fermingarfræðslu KFUM.

8. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir samþykktar styrkumsóknir úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur af hálfu hverfisráða.

9. Lagðar fram til kynningar reglur um Forvarnarsjóð Reykjavíkur og samantekt um reynslu af fyrstu úthlutun úr Forvarnarsjóði Reykjavíkur.
Skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Velferðarráð óskar eftir að í janúar 2012 liggi fyrir tillaga um hvernig staðið verði að næstu úthlutun og hvort og þá hvernig reglur þurfi að breytast. Skoðað verði hvort nota megi vefinn Betri Reykjavík í tengslum við val á verkefnum.

10. Umræður um fjárhagsaðstoð og virkni.

Eftirtaldir starfsmenn Velferðarsviðs tóku sæti á fundinum undir þessum lið:
Sigrún Skaftadóttir, Þórarinn Þórsson, Ella Kristín Karlsdóttir, Hugrún Guðmundsdóttir, Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, Dögg Hilmarsdóttir, Helga Sigurjónsdóttir, Íris Gunnarsdóttir, Lilja Þorkelsdóttir, Kristjana Gunnarsdóttir, Hulda Gunnarsdóttir, Unnur Árnadóttir og Magdalena Kjartansdóttir.

Geir Sveinsson tók sæti á fundinum kl.14.20.
Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl.14.50.

11. Lagt fram bréf velferðarráðuneytisins, dags. 30. september 2011, þar sem óskað er eftir umsögn Velferðarsviðs um drög að leiðbeinandi reglum samkvæmt 21., 27., og 35. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum. Ennfremur lögð fram til kynningar umsögn Velferðarsviðs um drögin.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Mikilvægt er að viðurkenna í reynd rétt fatlaðra til að lifa í samfélagi án aðgreiningar. Velferðarráð telur margt jákvætt í leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins varðandi ferðaþjónustu fatlaðra, stuðningsfjölskyldur, og um styrki til náms og til verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Það er ljóst að ef Reykjavíkurborg myndi breyta sínum reglum til samræmis við þessar leiðbeiningar yrði það kostnaðarauki upp á tugi milljóna á ári eins og fram kemur í umsögn Velferðarsviðs. Það er vilji Reykjavíkurborgar að veita fötluðum íbúum þjónustu sem mætir þörfum þeirra og hjálpar þeim til sjálfstæðs lífs í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og samþykkta framtíðarsýn Reykjavíkurborgar varðandi þjónustu við fatlað fólk. Reykjavíkurborg þarf að geta forgangsraðað í samræmi við vilja og þarfir þeirra Reykvíkinga sem búa við fötlun og ráðstafa því viðbótarfjármagni sem þarf að koma í þjónustuna. Velferðarráð leggur ríka áherslu á að allar reglur sem settar eru af ríkinu og eru fjárhagslega íþyngjandi verði kostnaðarmetnar og bættar af ríkinu.

12. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – september 2011.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. nóvember 2011 varðandi tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar sem vísað er til meðferðar velferðarráðs.

Samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum að vísa tillögunni til gerðar fjárhagsáætlunar.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins samþykktu eftirfarandi bókun:

Tillögu Vinstri grænna er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. Rétt er að bóka að fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar eru að skoða hvernig hækka megi fjárhagsaðstoð í Reykjavík þannig að fólk komist yfir lágtekjumörk í samræmi við stefnuyfirlýsingu flokkanna. Tillaga þar að lútandi verður lögð fram áður en fjárhagsáætlun verður endanlega afgreidd í borgarstjórn.

14. Skipan starfshóps um styrki og þjónustusamninga sbr. reglur velferðarráðs um styrkúthlutanir.
Fulltrúi meirihlutans í starfshópnum verður Diljá Ámundadóttir.
Fulltrúi minnihlutans í starfshópnum verður Sveinn Skúlason.
Fulltrúi Velferðarsvið verður Stella K. Víðisdóttir.

Fundi slitið kl. 16.45

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Bjarnveig Magnúsdóttir
Bjarni Karlsson Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson