Velferðarráð - Fundur nr. 172

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2011, fimmtudaginn 27. október var haldinn 172. fundur s og hófst hann kl. 9.00 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Diljá Ámundadóttir, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Akstursþjónusta aldraðra.
Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir akstursþjónusta aldraðra.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar Félags eldri borgara.
Málsmeðferðartillögunni var vísað frá með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

2. Félagsleg heimaþjónusta í Reykjavík.
Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldskrá í félagslegri heimaþjónustu í Reykjavík ásamt svo breyttri gjaldskrá.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar Félags eldri borgara og Öryrkjabandalags Íslands.
Málsmeðferðartillögunni var vísað frá með fjórum atkvæðum gegn einu.
Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

3. Foldabær.
Lögð fram tillaga að hækkun þjónustugjalda í Foldabæ.
Skrifstofustjóri velferðarþjónustu gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillagan fari til umsagnar Félags eldri borgara og Félags aðstandenda alzheimersjúklinga.
Málsmeðferðartillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Tillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

4. Fæði og veitingar.
Lögð fram tillaga um hækkun á gjaldskrá fyrir fæði og veitingar.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

5. Félagsstarf.
Lögð fram tillaga um hækkun á gjaldskrá í félagsstarfi.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

6. Þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.
Lögð fram tillaga um hækkun á gjaldskrá um þjónustugjöld í íbúðum aldraðra.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

7. Húsnæðis- og fæðisgjald í búsetuúrræðum.
Lögð fram tillaga um hækkun á húsnæðis- og fæðisgjaldi í búsetuúrræðum.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

Formaður velferðarráðs lagði fram tillögu þess efnis að afgreiða dagskrárliði nr. 4, 5, 6 og 7 í einu lagi.
Tillagan var samþykkt.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi málsmeðferðartillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að þær tillögur sem varða aldraða fari til umsagnar Félags eldri borgara.
Málsmeðferðartillögunni var vísað frá með fjórum atkvæðum gegn einu.
Tillögur í dagskrárliðum nr. 4, 5, 6 og 7 voru bornar upp til atkvæða og samþykktar með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna leggur til að gjaldskrárhækkanir sem varða eldri borgara og öryrkja og voru samþykktar af meirihluta velferðarráðs þann 27. október 2011 fari til umsagnar Félags eldri borgara, Félags aðstandenda alzheimersjúklinga og Öryrkjabandalags Íslands.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Gjaldskrár Velferðarsviðs hækka að meðaltali um 8.8#PR. Er þetta verðlagsbreyting síðasta árs auk viðbótar vegna frystingar gjaldskráa undanfarinna ára. Gjaldskrá fyrir akstursþjónustu eldri borgara breytist og allir munu greiða fyrir þrif í heimaþjónustu, hámark 6 tíma á mánuði. Báðar þessar breytingar ná þó ekki til þeirra eldri borgara sem eru verst settir fjárhagslega og hafa einungis bætur frá almannatryggingum eða samsvarandi framfærslu. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði vilja koma því einlæglega á framfæri, að áður en breytingar á gjaldskrár verða afgreiddar í borgarstjórn, verður fundað með og leitað umsagnar hlutaðeigandi samtaka eins og FAAS, Félags eldri borgara og Öryrkjabandalagsins. Áfram verður Reykjavíkurborg með lægstu gjaldskrár sem þekkjast miðað við önnur sveitarfélög í kring.

8. Fjárhagsáætlun 2012.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar kynnti drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Lagt fram minnisblað um helstu þætti í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2012 og tillögur til að mæta breytingum í þjónustu. Ennfremur lögð fram greinargerð um gjaldskrár Velferðarsviðs.
Fjárhagsáætluninni var vísað til borgarráðs.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði þakkar starfsfólki Velferðarsviðs fyrir þrautseigju við erfiðar aðstæður, aukið álag og fjárskort. Í ákvörðun meirihlutans um fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir niðurskurði og er þetta fjórða árið í röð sem skorið er niður á málaflokkinn. Ekki er verðbætt vegna almennra verðlagshækkana á árinu og ýmis kostnaður er fyrirsjáanlegur og má þar nefna leigubifreiðakostnað vegna breytinga á áætlun Strætó bs, verðbætur vegna þjónustusamninga við þriðja aðila, kostnað vegna námskeiða og handleiðslu fyrir starfsmenn, kostnað vegna úrbóta gæðamála og skjalamála, kostnaður vegna endurnýjunar á þjónustusamningi við ríkið og frekari flutningi heimahjúkrunar út í hverfin og kostnað vegna nýrra barnaverndarlaga sem nú kalla á aukna þjónustu. Í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs er ekki gert ráð fyrir hækkun fjárhagsaðstoðar þó svo fyrir liggi tillaga þess efnis og verðbólga hafi verið mikil á árinu. Niðurskurður og gjaldskrárhækkanir virðast að öðru leiti bitna helst á öldruðum og meðal annars er verið að hækka gjaldskrár til þeirra vegna akstursþjónustu, þrifa, veitinga, félagsstarfs, íbúða aldraðra, og Foldabæjar. Það er bagalegt að nú sem og á síðustu árum hefur skort yfirsýn meðal fulltrúa í fagráðum um heildarmynd fjárhagsáætlunar. Þetta heftir það sem mestu máli skiptir, umræðu um forgangsröðun á milli sviða og mikilvægi þess að forgangsraða í þágu velferðarmála.
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði áskilur sér rétt til að taka áframhaldandi þátt í gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar með það að meginmarkmiði að verja velferðina.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs liggur nú fyrir. Vinnan við hana hefur hefur átt sér stað án þess að meirihlutinn í Reykjavík hafi lagt fram nokkuð sem kallast getur heildarsýn. Svo virðist sem meirihlutinn hafi kosið að fela fagsviðunum að taka ákvarðanir án þess að gefa út hvert skuli stefna, einungis liggur fyrir hvaða liðir verða bættir s.s. vegna kjarasamninga og innri leigu en hvergi er að finna stefnu meirihlutans. Engan veginn er hægt að svara því hvort verið er að hagræða fyrir íbúa eða fyrir kerfið. Stórum spurningum er ósvarað og forsendur áætlunarinnar eru ekki trúverðugar. Skatttekjur borgarinnar á þessu ári urðu mun meiri en áætlað var sem veltir upp spurningum um hvort meirihlutinn hyggst halda áfram á sömu braut álagna í stað hagræðingar. Meirihlutinn hefur ekki horft til þess að fyrir utan þær álögur sem lagðar hafa verið á íbúa hefur kaupmáttur lækkað verulega, fjölskyldur eru enn í miklum skuldakröggum og verðbólga í hámarki og um leið hefur meirihlutinn seilst í vasa borgarbúa af of miklu offorsi. Óþarfi var að hækka skatta, ósanngjarnt var að leyfa íbúum ekki að njóta lægra fasteignamats og óráð var að slengja hærri orkugjöldum beint á bak fjölskyldna. Enginn metnaður hefur verið fyrir því að hagræða. Áætlanir Velferðarsviðs hafa staðist en engu að síður ber að nefna að sú hagræðing sem sett var fram í fjárhagsáætlun 2011 hefur ekki náð að standast hjá öllum fagsviðum borgarinnar og meirihlutinn þarf að svara hvernig hann hyggst glíma við það. Forsendur fjárhagsáætlunarinnar eru ekki trúverðugar. Meðal annars er gert er ráð fyrir að einkaneysla, samneysla og verg landsframleiðsla aukist og að atvinnuleysi minnki. Þetta er varhugavert og hefur verið gagnrýnt enda sjá aðilar vinnumarkaðarins fram á doða í atvinnulífinu, þungt hljóð er í íbúum sem hafa þurft að draga klafann sem stjórnvöld hafa ofhlaðið, skilyrði fyrir fjárfestingum eru lítil og of bratt farið í hagvaxtarspá. Gengið er út frá 7.2#PR atvinnuleysi í Reykjavík en í síðasta mánuði var það 7.7#PR og er þá ekki talinn sá fjöldi sem er atvinnulaus en í raun skjólstæðingar borgarinnar þar sem þessi hópur á ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Þá verður að taka fram að vinnumiðlun í landinu virðist ekki nógu virk og þurfa miklar endurbætur að eiga sér stað. Á meðan er ekki líklegt að takist að ná tökum á atvinnuleysisvandanum eins og spálíkön gera almennt ráð fyrir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs fyrir næsta ár, inniheldur bæði góðar og slæmar fréttir. Ekki er gerð almenn hagræðingarkrafa á sviðið og því ekki hægt að tala um niðurskurð. Velferðarsvið fær 204 milljónir í viðbætur til að bæta þjónustu við börn í vanda, til að virkja fólk sem er á fjárhagsaðstoð og til að mæta auknu álagi á þjónustumiðstöðvar borgarinnar sem takast á við vanda borgarbúa með þeim á margvíslegan hátt. Samt sem áður þarf að forgangsraða og hagræða fyrir nauðsynlegum viðbótum í lögbundinni þjónustu. Helstu ástæður eru að fleiri þarfnast heimaþjónustu, ferðaþjónustu og matarþjónustu þar sem fólk dvelur lengur heima og er útskrifað fyrr af sjúkrastofnunum. Til að mæta m.a. þessum útgjöldum mun Velferðarsvið hækka gjaldskrár fyrir akstursþjónustu aldraðra gagnvart þeim sem eru með tekjur umfram tryggingabætur og allir munu greiða fyrir þrif í heimaþjónustu, hámark 6 tíma á mánuði. Þó verður áfram gjaldfrjálst fyrir þá sem einungis hafa tekjur frá TR eða þar undir. Hagrætt verður í félagsstarfi og forgangsraðað í félagslegri heimaþjónustu í þágu þeirra sem mesta þörfina hafa. Þrátt fyrir þetta, teljum við fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar að þessi fjárhagsáætlun sé eins sanngjörn og mögulegt er og mæti brýnustu þörfinni fyrir viðbótarþjónustu við börn, ungt fólk og þá sem þurfa aðstoð í daglegu lífi. Unnið verður að því að þróa þjónustu við fatlaða íbúa borgarinnar og mæta þörfum þeirra eftir bestu getu. Enn er margt óljóst í fjármögnun þess þáttar í þjónustunni, en ekki eru uppi sparnaðaráform í þeim hluta þrátt fyrir það. Við erum stolt af því að velferðarþjónusta í Reykjavík og þjónustustigið sem við bjóðum upp á er langt umfram það sem þekkist í nágrannasveitarfélögum okkar. Um 17#PR útsvarstekna Reykjavíkurborgar fara í velferðarmál, en önnur sveitarfélög veita um 7 – 9#PR af sínum útsvarstekjum til þessa málaflokks. Að lokum vilja fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar þakka starfsfólki Velferðarsviðs fyrir mikla og óeigingjarna vinnu við þessa fjárhagsáætlun. Ennfremur er ástæða til að þakka öllu starfsfólki sviðsins fyrir þeirra framlag síðastliðið ár við að standast fjárhagsáætlun og leita allra leiða við að sinna þessari mikilvægu þjónustu á erfiðum tímum á sem hagkvæmastan hátt.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er undarlegt að meirihlutinn skuli ekki vilja kannast við að enn sé verið að skera niður. Í minnisblaði Velferðarsviðs vegna fjárhagsáætlunar segir: #GLVelferðarsvið þarf ekki að mæta sérstakri kröfu um hagræðingu. Sviðið þarf hins vegar að veita þjónustu innan sama krónutöluramma og árið 2011 að viðbættum kjarabótum og bótum vegna hækkaðrar leigu.#GL

9. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna sem lögð var fram á síðasta fundi ráðsins þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hversu mikill niðurskurður er á ramma sviðsins með tilliti til áætlaðra verðlagsbreytinga þessa árs.

Fundi slitið kl. 11.45

Björk Vilhelmsdóttir

Heiða Kristín Helgadóttir Bjarni Karlsson
Diljá Ámundadóttir Áslaug María Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson