Velferðarráð - Fundur nr. 171

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2011, fimmtudaginn 20. október var haldinn 171. fundur s og hófst hann kl. 13.40 í Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Diljá Ámundadóttir, Lárus Rögnvaldur Haraldsson, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar til ágúst 2011.

2. Kynnt bókhaldsstaða janúar til ágúst 2011.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram til kynningar umsögn Velferðarsviðs um erindi sem vísað var til umsagnar Velferðarsviðs frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 8. september sl. um vinnu við undirbúning að breytingum á rekstri félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, sbr. lokaskýrslu framkvæmdahóps SSH.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð tekur undir markmið starfshóps SSH um að allt höfuðborgarsvæðið verði „eitt félagslegt íbúðarsvæði án búsetuskilyrða eða annarra takmarkana…“ samræmist það nýsamþykktri húsnæðisstefnu Reykjavíkur. Velferðarráð telur að vinna þurfi að þessu markmiði í nokkrum áföngum. Hægt er að hafa sameiginlegan fasteignarekstur sé það álitið hagstætt en rétt er að bíða niðurstöðu úttektar sem borgarráð hefur falið Innri endurskoðun á Félagsbústöðum hf. Eins og fram kemur í umsögn Velferðarsviðs sem tekið er undir, mun það taka talsverðan tíma að samræma reglur um sérstakar húsaleigubætur og matskerfi fyrir úthlutanir. Þá þarf að tryggja að Reykvíkingar á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði sem eru afar illa settir á húsnæðismarkaði muni ekki líða fyrir það þegar kemur að úthlutunum hvað mikill munur er á fjölda íbúða í eigu sveitarfélaganna miðað við íbúafjölda. Velferðarráð tekur undir með Velferðarsviði að ekki sé hægt að fækka félagslegum leiguíbúðum borgarinnar á næstu árum eins og tillaga 11 gerir ráð fyrir.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna tekur undir bókun ráðsins. Því skal þó til haga haldið að tæplega 700 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni og ekkert hefur verið gert af hálfu borgarinnar í langan tíma til að fjölga íbúðum. Það er því ekki aðeins krafa að félagslegum íbúðunum verði ekki fækkað heldur að þeim verði fjölgað. Ennfremur vill fulltrúi Vinstri grænna árétta það að kerfisbreytingar, sem tóku gildi í maí 2008 þegar borgin hætti hlutfallslegri niðurgreiðslu á félagslegu húsnæði en tók þess í stað upp sérstakar húsaleigubætur, hafa haft í för með sér hlutfallslega aukningu á greiðslubyrði íbúanna. Þetta þarf að leiðrétta sem fyrst.

4. Fjárhagsáætlun 2012.
Sviðsstjóri kynnti stöðuna í gerð fjárhagsáætlunar 2012.

Heiða Kristín Helgadóttir vék af fundi kl. 15.20

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði óskar eftir því að fá upplýsingar það hversu mikill niðurskurðurinn er á ramma sviðsins með tilliti til áætlaðra verðlagsbreytinga þessa árs.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð samþykkir að fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar og njóta fullrar fjárhagsaðstoðar hækki frá og með 1. janúar næstkomandi um 12.000 kr. á mánuði til samræmis við hækkun atvinnuleysisbóta sem í dag nema kr. 161.523
1. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili og fær í dag 149.000 kr. á mánuði hækki í 161.000 kr. á mánuði.
2. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna/sambúðarfólks sem fá í dag 223.500 kr. á mánuði hækki í 247.500 kr.
3. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði og fær í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
4. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr hjá foreldrum og fær í dag 74.500 kr. hækki í 86.500 kr.
5. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til þeirra sem fara með forsjá barns og búa hjá foreldrum og fá í dag 125.540 kr. hækki í 137.540 kr.
6. Í samræmi við eingreiðslur vegna atvinnuleysisbóta fái fjárhagsaðstoðarþegar sem notið hafa fullrar fjárhagsaðstoðar frá 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fái 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verði út 1. janúar næstkomandi.
7. Fjárhæðir til þeirra sem eru með skerta fjárhagsaðstoð hækki hlutfallslega jafn mikið og að sama skapi fái þeir sem einhverra hluta vegna fá skerta fjárhagsaðstoð greidda hlutfallslega eingreiðslu. Eingreiðslan verði aldrei lægri en 12.500 kr.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

5. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi velferðarráðs þann 6. október 2011.
Mikilvægt er að auka árangur í að virkja og hvetja þá sem eru atvinnuleitendur á fjárhagsaðstoð. Lagt er til að utanaðkomandi aðili verði fenginn til að gera úttekt á því hvort tilhögun og vinnulag það sem nú er notað sé nógu árangursvænt og hvort ástæða sé til að gera gagngerar breytingar á því. Rætt verði við þá sem að starfa við virkni bæði á Velferðarsviði og utan þess, t.d. þá sem bjóða upp á úrræði við þennan hóp. Einnig verði leitað til notendanna sjálfra um hvernig haga megi þjónustunni þannig að hún nýtist þeim og henti þeim betur.
Tillagan var samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum og vísað til sviðsstjóra.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

6. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi velferðarráðs þann 6. október 2011.
Fram hefur komið gegnum gangandi í kynningum, samantektum og rannsóknum um fjárhagsaðstoð að erfitt er að ná í þá sem aðstoðina fá. Erfitt er að ná í fólk til að bjóða þeim að taka þátt í úrræðum sem miða að sjálfshjálp eða jafnvel til að bjóða því starf. Mikilvægt er að velferðarráð gefi frá sér skýr skilaboð vegna þessa. Eðlilegt er að fjárhagsaðstoðinni fylgi bæði réttindi og skyldur. Skyldur sveitarfélagsins eru fólgnar í því að aðstoða viðkomandi við að komast til sjálfsbjargar. Um leið er ein af meginskyldum þeirra sem hafa fjárhagsaðstoð að hægt sé að ná í viðkomandi, hvort sem er að hægt sé að ná í viðkomandi símleiðis, í tölvupósti, eða að viðkomandi svari skilaboðum innan ákveðins frests. Lagt er til að skilaboð velferðarráðs séu þau að fari svo að ekki náist í einstaklinga yfir ákveðið langan tíma og þeir svara ekki skilaboðum eða tölvupósti sé eðlilegt að líta svo á að viðkomandi hafi ekki lengur þörf fyrir þjónustu né aðstoð.
Samþykkt með fjórum atkvæðum gegn tveimur að vísa tillögunni frá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Þar er bæði tekið á réttindum til aðstoðar og skyldum fólks að framfæra sjálft sig og fjölskyldu sína. Í núgildandi lögum er ekki að finna ákvæði um skilyrðingar fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar, þó svo reglur kveði á um að unnt sé að skerða fjárhagsaðstoð í afmörkuðum tilfellum skv. 3. gr. Ekki er hægt að fallast á tillögu Sjálfstæðisflokksins miðað við óbreytt lög.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 kemur skýrt fram að hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka og börn. Einnig er kveðið á um skyldur sveitarfélaga til að veita fjárhagsaðstoð. Fram kemur að um skyldur til að veita aðstoðina gildi almennar reglur laganna en að sveitarfélög skuli svo setja sér reglur um framkvæmd hennar. Ef horft er til reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð í því ljósi sem haldið er fram um að ekki sé unnt að skilgreina betur skyldur þeirra sem þjónustunnar njóta er ljóst að nú þegar er um ákveðnar skilyrðingar að ræða. Til dæmis er gert ráð fyrir að leggja þurfi fram umsókn á þjónustumiðstöð sveitarfélagsins, einnig er gert ráð fyrir að fólk tali við félagsráðgjafa o.s.frv. Með því að breyta reglum um fjárhagsaðstoð og kveða á um strangari reglur en fyrir liggja má láta á það reyna að slíkt standist lög. Þá er rétt að geta þess að í lögunum er einnig kveðið á um markmið félagsþjónustunnar en þau eru meðal annars að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991. Sérstaklega er þar minnst á að markmiðið sé að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Nákvæmlega vegna þess er mjög mikilvægt hvetja fólk til að vera í samskiptum við þá sem geta veitt þeim hjálp og því verður að teljast eðlilegt og innan lagarammans að hægt sé að gera þær kröfur um skyldur þeirra sem njóta fjárhags aðstoðar eins og tillagan kveður á um. Með því að endurskoða reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð með hlíðsjón af þessu má því ná enn betri tengslum við þann hóp sem verið er að þjónusta og ná meiri árangri.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er með ólíkindum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði skuli beita sér jafn hart og raun ber vitni gegn þeim sem njóta fjárhagsaðstoðar. Fulltrúum í velferðarráði á að vera það vel kunnugt að hluti þeirra sem nýtur fjárhagsaðstoðar er algerlega ófær um að verða við skilyrðingum vegna veikinda sinna.
Mikil fjölgun þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar í dag neyðast til þess í kjölfar atvinuleysis, vandamáls sem þeir bjuggu ekki til. Um var að ræða hörmungar sem dundu yfir þjóðina í kjölfar efnahagshruns sem var fyrst og fremst á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Því má segja að vandi fjölmargra þeirra sem verða að reiða sig á fjárhagsaðstoð sé að stórum hluta Sjálfstæðisflokknum að kenna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Eins og fulltrúa Vinstri grænna er fullkunnugt um er vandi atvinnulausra mun meiri vegna getuleysis núverandi ríkisstjórnar. Aðgerðaleysi þar á bæ hefur dýpkað kreppuna um nokkur ár. Vandi fjölskyldna er aldrei meiri en þegar hin norræna velferðarstjórn hefur setið við stjórnartauminn. Rétt er að geta þess að tillögur um skilyrðingar hafa snúist um að aðstoða þann hóp sem er atvinnulaus, án bótaréttar og á ekki við félagslegan vanda að stríða. Þessari vitleysu er því vísað á bug.

7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að lögfræðingar sviðsins skili greinargerð til velferðarráðs um hvernig þeir telji að breyta megi reglum um fjárhagsaðstoð í Reykjavík með tilliti til þess að hægt verði að ná betur til þeirra sem þjónustu njóta, hvort skilgreina megi skýrar hverjar skyldur þeirra eru, hvort hægt sé að beita skilyrðingum þegar um þátttöku t.d. fólk sem er atvinnulaust án félagslegs vanda og bótaréttar er að ræða.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.

Fundi slitið kl. 16.02

Björk Vilhelmsdóttir
Diljá Ámundadóttir Lárus Rögnvaldur Haraldsson
Áslaug María Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson