Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2011, fimmtudaginn 6. október var haldinn 170. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Diljá Ámundadóttir. Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjóra dags 20. september 2011 um tillögu að úthlutun fjárhagsramma fyrir árið 2012 sem samþykkt var í borgarráði 29. september 2011. Ennfremur lögð fram greinargerð fjármálastjóra dags. 19. september 2011 um forsendur fjárhagsáætlunar 2012. Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Málinu er vísað til frekari vinnslu á Velferðarsviði.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði lýsir yfir vonbrigðum með það að fjórða árið í röð er ekki verið að verðbæta veigamikla þætti í fjárhagsramma Velferðarsviðs fyrir næsta ár.
2. Kynnt bókhaldsstaða Velferðarsviðs 31. júlí 2011.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
3. Lagt fram til kynningar minnisblað aðgerðateymis vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna vekur athygli á því að hópur þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar til lengri tíma en níu mánaða fer ört stækkandi og 23#PR skjólstæðinga borgarinnar sem reiðir sig á fjárhagsaðstoð hefur notið hennar í 13 til 24 mánuði. Þetta segir það að ekki er lengur hægt að líta á fjárhagsaðstoð sem skammtímaúrræði nema að takmörkuðu leyti og vekur upp spurningar um það hvort ekki sé rétt að skipta fjárhagsaðstoð í skammtímaaðstoð og langtímaaðstoð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Gífurlega stór vandi blasir nú við Reykjavík og öðrum sveitarfélögum. Fjöldi fólks með fjárhagsaðstoð eykst jafnt og þétt. Viðbrögð við vandanum virðast ekki skila nægum árangri og störfum fjölgar ekki. Það þéttist í röðum ungs fólks sem hefur þurft fjárhagsaðstoð til langs tíma enda lítil sem engin tækifæri á vinnumarkaði. Slíkt leiðir til mikilla félagslegra og sálfræðilegra erfiðleika sem mjög erfitt getur verið að vinda ofan af. Þá má geta þess að hluti þeirra sem nú hafa fjárhagsaðstoð eru í raun sjúklingar og engan veginn færir um að fara út á vinnumarkaðinn. Í mörgum tilfellum má því segja að sá hópur eigi í raun að vera skjólstæðingar almannatryggingakerfisins eða heilbrigðiskerfisins en ferlið þangað er langt og strangt. Þrátt fyrir að sveitarfélögin sitji nú með ofangreindan vanda í fanginu blasir nú við að vandinn verði enn stærri. Á næsta ári mun stór hópur fólks ekki eiga lengur rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta er vegna þess að fjögurra ára atvinnuleysisbótaréttur þeirra fellur þá niður. Þessi hópur mun að öllum líkindum þá leita til sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð til að eiga í sig og á. Sveitarfélögin gætu því átt von á því að taka við þessum hópi á árinu 2012. Fyrir Reykjavík getur þetta þýtt að í lok ársins hafi útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar aukist um hundruðir milljarða króna. Nú í byrjun október liggur ekkert fyrir um hvernig bregðast á við þessum vanda. Ljóst er að sveitarfélögin eru ekki í stakk búin að taka ein á honum og velferðarráðherra verður að skoða möguleg viðbrögð. Að öðrum kosti er fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagana í algjöru uppnámi.
4. Lögð fram drög að svarbréfi sviðsstjóra Velferðarsviðs við erindi dags. 19. júlí s.l. um beiðni frá FAAS um stuðning við rekstur Fríðuhúss. Erindinu var vísað til meðferðar velferðarráðs frá skrifstofu borgarstjórnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Dagþjálfun fyrir fólk með heilabilaða er lagaskylda ríkis ekki sveitarfélaga, enda um heilbrigðisþjónustu að ræða. Í ljósi þessa telur meirihluti velferðarráðs ekki fært að auka frekar styrki Reykjavíkurborgar til þjónustu FAAS, en Reykjavíkurborg styrkir nú þegar starfsemi FAAS í Maríuhúsi. Það er hins vegar fullur skilningur á mikilvægi og nauðsyn þessarar þjónustu og velferðarráð er tilbúið til að styðja umsókn FAAS um aukin framlög frá ríkinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði harmar að velferðaráð telji sér ekki fært að styðja dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun sem fram fer í Fríðuhúsi. Styrkbeiðnin er mjög hófleg og ef litið er til ítrekaðra aukafjárveitinga sem samþykktar hafa verið í borgarráði vegna menningarmála, nú síðast vegna Tónlistarþróunarmiðstöðvar, hlýtur borgarráð að samþykkja umrædda styrkbeiðni. Í það minnsta að veita samsvarandi styrk og rennur til Maríuhúss þar sem er verið að sinna fólki með svipuð vandamál.
5. Lögð fram til kynningar umsögn Velferðarsviðs um erindi sem vísað var til umsagnar Velferðarsviðs vegna tillagna verkefnahóps SSH um mögulegt samstarf um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna fagnar vilja til aukinnar samvinnu um ferðaþjónustu fatlaðra hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Tillögur um útboð á þessari þjónustu geta þó vart talist ákjósanlegar þar sem það liggur í augum uppi að byggðarsamlagið Strætó sem sinnt hefur þessari þjónustu fyrir Reykjavíkurborg, getur sinnt þessari þjónustu fyrir umrædd sveitarfélög. Það verður þó að hafa í huga að ekki verði teknar afdrifaríkar ákvarðanir um ferðaþjónustu fatlaðra án samráðs við hagsmunasamtök fatlaðra.
6. Lögð fram til kynningar umsögn Velferðarsviðs um erindi sem vísað var til umsagnar Velferðarsviðs frá skrifstofu borgarstjórnar um vinnu við eflingu samvinnu í málefnum sem tengjast barnavernd, sbr. lokaskýrslu framkvæmdahóps SSH.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
7. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs: lagt fram til kynningar minnisblað, dags okt. 2011 um verkefni áfrýjunarnefndar ásamt tölulegum upplýsingum frá árinu 2005 til júní 2011.
8. Lögð fram skýrsla starfshóps um hvatningarverðlaun velferðarráðs 2011 sbr. markmið í starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2011 ásamt tillögu sviðsstjóra.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
9. Nýsköpunarsjóður námsmanna; Lögð fram skýrslan: „Atvinnuleitendur sem fá fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Líðan, staða og þjónustuþörf“.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, kom á fundinn og kynnti skýrsluna.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð vill koma kærum þökkum til Nýsköpunarsjóðs og rannsóknaraðilanna sem að baki skýrslunni og vinnunni stóðu. Í henni eru dregnar fram upplýsingar sem varpa enn betra ljósi á líðan þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð og munu nýtast í störfum ráðsins. Enginn vafi leikur á því að nýsköpunarstyrkir til námsmanna geta aukið þekkingu á velferðarmálum og sýna hversu verðmætt er að tvinna saman skólasamfélagið og atvinnulífið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í skýrslunni um líðan, stöðu og þjónustuþörf atvinnuleitenda sem fá fjárhagsaðstoð kemur fram að brýn þörf er fyrir virkniúrræði og hvatningu. Í niðurstöðum greinir frá því að líðan, staða og þjónustuþörf er mun verri en hjá fólki almennt og að ungt fólk eða fólk sem er á fjárhagsaðstoð og undir þrítugu sé í miklum félagslegum og sálfræðilegum erfiðleikum. Í skýrslunni er fólkið sjálft spurt út í það hvað það telji að það þurfi sér til aðstoðar og fram kemur að það telji sig þurfa stuðning við atvinnuleit, sjálfsstyrkingu og meðferð hjá sérfræðingi. Auk þess er þörf á meðferð við áfengis- og vímuefnavanda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt mikla áherslu á mikilvægi aukinnar virkni og uppbyggingu hvetjandi kerfis en þrátt fyrir að fulltrúar meirihlutans hafi ítrekað tekið undir að virkni sé mikilvæg virðist árangurinn ekki sýnilegur. Virkniráðgjafar hafa sýnt fram á að hægt er að ná árangri og mjög mikilvægt er að þeir og aðrir sem að þessu ættu að koma fái nauðsynlegt svigrúm til að halda áfram að þróa árangursríkar lausnir. Fyrir liggja hugmyndir um úrræði til stuðnings fólks í atvinnuleit eins og Atvinnutorg en ekkert liggur fyrir um hvenær það tekur til starfa. Þróun viðundandi lausna og skipulags ætti að vera algjört forgangsatriði velferðarráðs.
10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Mikilvægt er að auka árangur í að virkja og hvetja þá sem eru atvinnuleitendur á fjárhagsaðstoð. Lagt er til að óháður aðili verði fenginn til að gera úttekt á því hvort tilhögun og vinnulag það sem nú er notað sé nógu árangursvænt og hvort ástæða sé til að gera gagngerar breytingar á því. Rætt verði við þá sem að starfa við virkni bæði á Velferðarsviði og utan þess, t.d. þá sem bjóða upp á úrræði við þennan hóp. Einnig verði leitað til notendanna sjálfra um hvernig haga megi þjónustunni þannig að hún nýtist þeim og henti þeim betur.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fram hefur komið gegnum gangandi í kynningum, samantektum og rannsóknum um fjárhagsaðstoð að erfitt er að ná í þá sem aðstoðina fá. Erfitt er að ná í fólk til að bjóða þeim að taka þátt í úrræðum sem miða að sjálfshjálp eða jafnvel til að bjóða því starf. Mikilvægt er að velferðarráð gefi frá sér skýr skilaboð vegna þessa. Eðlilegt er að fjárhagsaðstoðinni fylgi bæði réttindi og skyldur. Skyldur sveitarfélagsins eru fólgnar í því að aðstoða viðkomandi við að komast til sjálfsbjargar. Um leið er ein af meginskyldum þeirra sem hafa fjárhagsaðstoð að hægt sé að ná í viðkomandi, hvort sem er að hægt sé að ná í viðkomandi símleiðis, í tölvupósti, eða að viðkomandi svari skilaboðum innan ákveðins frests. Lagt er til að skilaboð velferðarráðs séu þau að fari svo að ekki náist í einstaklinga yfir ákveðið langan tíma og þeir svara ekki skilaboðum eða tölvupósti sé eðlilegt að líta svo á að viðkomandi hafi ekki lengur þörf fyrir þjónustu né aðstoð.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
Fundi slitið kl. 16.27
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Bjarni Karlsson
Diljá Ámundadóttir Áslaug María Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson