Velferðarráð - Fundur nr. 165

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2011, fimmtudaginn 30. júní var haldinn 165. fundur s og hófst hann kl.13.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Lárus R. Haraldsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram tillaga um atvinnutorg fyrir atvinnuleitendur með fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Greinargerð fylgir tillögunni.
Velferðarráð samþykkir að Velferðarsvið vinni á næstu mánuðum að undirbúningi að stofnun Atvinnutorgs, sem er tilraunaverkefni til þriggja ára um starfsþjálfun og vinnu fyrir atvinnuleitendur með fjárhagsaðstoð. Leitað verði eftir samstarfi við Vinnumálastofnun og haft verði samráð við ÍTR og Mannauðsskrifstofu Reykjavíkurborgar. Tillaga að útfærslu verkefnisins, staðsetningu, tíma- og kostnaðaráætlun verði lögð fyrir velferðarráð í september n.k.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð hefur nú samþykkt að hefja undirbúning að stofnun Atvinnutorgs. Markmiðið með þessu torgi er að aðstoða fólk til að viðhalda virkni með ráðgjöf, markvissri starfsþjálfun og tímabundinni ráðningu hjá Reykjavíkurborg eða úti á almennum vinnumarkaði. Það er von okkar að þetta verkefni gefi fólki sem nú er atvinnulaust án bótaréttar nýja möguleika sem munu bæta líf þeirra og um leið fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fram hefur komið að mikill árangur hefur náðst með verkefnum af þessu tagi t.d. í Stokkhólmi þar sem greiðsla fjárhagsaðstoðar hefur algjörlega verið tengd þátttöku í starfsþjálfun eða atvinnuleitarúrræðum enda hefur árangurinn þar ekki látið að sér standa. Sú tillaga sem hér liggur fyrir gengur þó ekki eins langt og í Stokkhólmi þar sem bætur falla alveg niður taki vinnufært fólk ekki þátt í virkniverkefnum heldur er lagt til að reglur um fjárhagsaðstoð verði óbreyttar frá því sem nú er og að bótagreiðslur þeirra sem ekki taka þátt skerðist um 50#PR. Í tillögunni um Atvinnutorg er verið að taka algjörlega nauðsynlegt skref í þágu velferðar í Reykjavík og eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mjög hlynntir henni.

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði lagði fram eftirfarandi bókun:
Það hefur aldrei verið mikilvægara að styðja atvinnuleitendur úr röðum þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð til vinnu. Að því leyti er tillagan góð. Að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna er greinargerðin með henni hinsvegar of bindandi þar sem sagt er að #GLfyrirmynd verkefnisins eru fimm Atvinnutorg sem rekin hafa verið í Stokkhólmi#GL. Verið er að benda mjög ákveðið á eina leið sem er lítið kynnt og ekki liggur fyrir samanburður aðferða sem aðrar borgir, til dæmis á Norðurlöndum, beita til lausna á umræddum vanda.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Staðsetning Atvinnutorgs og nákvæmt fyrirkomulag er enn á þróunarstigi og þannig eiga hugmyndir sem horft er til ekki að binda hendur sviðsins í sinni vinnu. Atvinnutorgið í Stokkhólmi og fyrirmyndar starf sem hefur verið unnið í Árbæ eru þó góður grunnur til að byggja á. Fram kemur í greinargerð að það eigi eftir að skoða hvers konar staðsetning hentar best, hvernig samstarfi á milli stofnana borgarinnar sem vinna í þjónustu við fólk án atvinnu verði háttað og hvort ástæða er til að hafa frekar hverfabundna þjónustu en sameinaða. Margt verður því unnið á næstu vikum.

Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er mjög skýrt í greinargerðinni að „fyrirmynd verkefnisins er fimm Atvinnutorg sem rekin hafa verið í Stokkhólmi“.

2. Válisti Velferðarsviðs í tengslum við fjárhagsáætlun 2012 og fimm ára áætlun 2012-2016, kynntur.
Sviðsstjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

3. Umsögn Velferðarsviðs á tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar sem lögð var fram í borgarráði 16. júní sl.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það að meirihluti borgarráðs hafi í morgun hafnað tillögu um hækkun á fjárhagsaðstoð til fátækra skjólstæðinga sinna til jafns við hækkun atvinnuleysisbóta. Þetta er þvert á málflutning meirihlutans til þessa og greinilegt að vilji er ekki lengur fyrir því að vinna gegn sárri fátækt í borginni. Forgangsröðunin er ámælisverð, þar sem samþykkt eru fjárútlát hiklaust til annarra málaflokka en velferðar á meðan fátækt er blákaldur veruleiki allt of margra borgarbúa. Afstaða Sjálfstæðisflokks, Besta flokks og Samfylkingar í borgarráði byggði á rökstuðningi Velferðarsviðs sem er lagður fram til kynningar á fundi velferðarráðs og er honum að nokkru leyti svarað hér:
1. Meginrök Velferðarsviðs eru þau að endurskoðun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar skuli fara „fram í tengslum við vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 eins og áður og mælir [sviðið] því ekki með að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð nú.“ Sviðið ber fyrir sig 11. grein reglna um fjárhagsaðstoðar þó endurskoðun sé alls ekki óheimil á öðrum tíma ársins. Grunnfjárhæð þeirra sem hafa forsjá með börnum og búa hjá foreldrum var endurskoðuð til lækkunar 17. febrúar sl., meira en tveimur mánuðum eftir samþykkt fjárhagsáætlunar ársins 2011. Við það tækifæri benti fulltrúi Vinstri grænna á umrædda reglugerð eins og sjá má í bókun frá fundinum en á þeim tíma þótti reglugerðin ekki bindandi. Rök Velferðarsviðs hvað þetta varðar einkennast því af hentistefnu.
2. Velferðarsvið notar lágtekjumörk Hagstofunnar í röksemdafærslu sinni en þau voru kr. 156. 900 í ráðstöfunartekjur fyrir einstakling árið 2010. Mörkin voru hinsvegar kr. 160.800 árið 2009 og lækkuðu því um kr. 3.900 á milli ára. Þetta skýrist af því að hæstu uppgefnar tekjur (háar og ofurtekjur) hafa lækkað eftir hrunið sem síðan hafði áhrif á útreikninginn þrátt fyrir það að fátækt ykist. Þetta sýnir hversu varasamt þar er að nota umrædd lágtekjumörk sem mælikvarða á fátækt.
3. Velferðarsvið ber fyrir sig starfshóp um fátækt sem skipaður var þann 14. júlí 2010, áfangaskýrslu hópsins og drög að lokaskýrslu. Hópurinn sem samkvæmt erindisbréfi átti að skila af sér í janúar sl. hefur ekki enn gert það. Skýrslan er því á ábyrgð Bjarna Karlssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar og formanns starfshópsins sem lagði sérstaka áherslu á að leggja hana fram sem drög í vor og því fylgdu loforð um samráð sem ekki hafa verið efnd þrátt fyrir margvíslegar athugasemdir minnihluta hópsins. Aftur notar Velferðasvið það sem því hentar betur. Yfirlýst markmið hópsins og reyndar meirihluta borgarstjórnar var að hækka fólk á fjárhagsaðstoð yfir lágtekjumörk Hagstofunnar fyrir árið 2009 en þau voru þá kr. 160. 800 í ráðstöfunartekjur og sú upphæð var nefnd í erindisbréfi hópsins. Nú vitnar Velferðarsvið í ósamþykkta skýrslu og notar fátækramörk fyrir árið 2010 sem eru mun lægri og byggir rökstuðning sinn á þeim. Það er nöturlegt að skýrsla starfshóps sem átti að vinna gegn fátækt skuli nú vera notuð til að vinna gegn fátækum.
4. Velferðarsvið mælir gegn hækkun á þeim grundvelli að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé „fyrst og fremst hugsuð sem tímabundin neyðaraðstoð“ og því hafi „verið litið svo á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé að jafnaði lægri en lægstu tekjur eða atvinnuleysisbætur“. Um leið er þó viðurkennt er að staðan hafi breyst og þeim fjölgi „stöðugt sem njóta fjárhagsaðstoðar til langs tíma“ sem er í takt við stóraukið langtímaatvinnuleysi. Aftur notar sviðið rök sem henta því. Núverandi meirihluti hækkaði fjárhagsaðstoð til tæplega helmings skjólstæðinga sinna upp að atvinnuleysisbótum um síðustu áramót. Þá var því lýst yfir að vilji væri til að hækka bæturnar meira en slíkt myndi skaða borgina þar sem hún yrði að standa straum af kostnaði vegna mismunar fjárhagsaðstoðar og atvinnuleysisbóta. Þessari hindrun hefur nú verið rutt úr vegi með hækkun atvinnuleysisbóta 1. júní sl.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsaðstoð Reykjavíkur hækkaði um 19#PR um sl. áramót fyrir þá sem reka eigið heimili. Velferðarsvið mælir ekki með hækkun nú með margvíslegum rökum er snúa að lágtekjumörkum, aðstoð annarra sveitarfélaga og að nú sé mest þörf að að veita fjármagn í virkniaðstoð til þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð. Þá er vísað í reglur um fjárhagsaðstoð sem segja skýrt að fjárhæðir verði endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Hækkun fjárhagsaðstoðar verður skoðuð við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 þar sem m.a. verður tekið mið af pólitísku markmiði Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að koma Reykvíkingum yfir lágtekjumörk. Áfram er vilji til þess að mæta Reykvíkingum sem búa við fátækt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ótrúlegt er að fylgjast með hvernig vinstri flokkarnir nota umræðuna um fátækt. Í Reykjavík má gjarnan heyra hvernig hinar og þessar tillögur geta ekki samræmst því markmiði að vinna gegn fátækt. Á meðan gengur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna berseksgang með skattastefnu sinni og Besti flokkurinn syngur með. Hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur ásamt hækkunum útsvars á fjárhag heimila borgarbúa eru hærri en þær hækkanir sem flokkarnir hafa staðið fyrir til að sporna gegn fátækt, skattastefnan hindrar fyrirtæki gagngert til að ráða í fleiri störf og verðlagshækkanir og verðbólguskrið er hættulega mikið. Óskað er eftir því að fulltrúar vinstri flokkana fari að taka til heima hjá sér í stað þess að breiða yfir klúðrið með umræðu um fátækt.

4. Lögð fram til kynningar samþykkt borgarráðs frá 16. júní 2011 um samninga vegna þjónustumiðstöðvar í Spönginni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Gerðar eru athugasemdir við að enginn frá menningar- og ferðamálasviði skuli eiga sæti í undirbúningsnefndinni og spurningar vakna um hvernig menningarstarfi í Spönginni verði háttað. Er t.d. verið að hverfa frá því að bókasafn verði á staðnum. Ljóst er að með því er verið að glutra niður mikilvægu tækifæri í uppbyggingu hverfisins.

Fundi slitið kl. 15.10

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Lárus R. Haraldsson Áslaug Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson