No translated content text
Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2011, fimmtudaginn 16. júní var haldinn 164. fundur s og hófst hann kl. 13.42 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Lárus R. Haraldsson, Áslaug Friðriksdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Elín Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Sólveig Reynisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram skýrsla starfshóps um sjálfbært félagsstarf, valdeflingu og þátttöku, maí 2011. Ennfremur lagt fram minnisblað sviðsstjóra.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
2. Úttekt á á fasteignum í Reykjavík sem ætlaðar eru fötluðu fólki lögð fram sbr. samþykkt velferðarráðs frá 7. apríl s.l. Ennfremur lögð fram eftirfarandi tillaga ásamt greinargerð:
Í samræmi við samþykkt velferðarráðs dags. 7. apríl s.l. hafa Félagsbústaðir hf. gert úttekt á fasteignum í Reykjavík sem ætlaðar eru fötluðu fólki og eru í eigu Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Alls var gerð úttekt á 21 eign. Út frá fyrirliggjandi úttekt er lagt til að gengið verði til samninga við Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um kaup á 20 eignum sjóðsins sem notaðar eru í þjónustu við fatlað fólk í Reyjavík og leigu á einni eign. Lagt er til að Félagsbústöðum hf. verði falið að hefja samningaviðræður við Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um kaup á þeim eignum sem nýttar eru til búsetu, alls 17 eignum og leigu á einni. Ennfremur verði Framkvæmda- og eignasviði falið að hefja samningsviðræður um kaup á þeim eignum sem nýttar eru undir annars konar starfsemi, alls 3 eignir.
Hliðsjón skal höfð af mati á kostnaði við endurbætur og fasteignamati eigna.
Formaður velferðarráðs lagði fram eftirfarandi breytingartillögu á lokamálsgrein tillögunnar:
Hliðsjón skal höfð af fasteignamati eigna að frátöldum kostnaði vegna endurbóta.
Breytingatillagan var samþykkt samhljóða.
Aðaltillagan var borin upp svo breytt og samþykkt samhljóða.
3. Bókhaldsstaða Velferðarsviðs 31. mars kynnt.
Fjármálastjóri gerði grein fyrir málinu.
4. Kynnt skýrsla starfshóps um aukið eftirlit með framkvæmd fjárhagsaðstoðar, maí 2011 sbr. starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2010 og samþykkt velferðaráðs frá 25. nóvember 2009.
Sviðsstjóri og fjármálastjóri gerðu grein fyrir málinu.
Elín Sigurðardóttir vék af fundi 14.58.
Þorleifur Gunnlaugsson tók sæti á fundinum kl. 14.58.
5. Breyting á húsaleigu í búsetuúrræðum fatlaðra: Lögð fram tillaga sbr. reglugerð nr. 1054/2010.
Lagt er til að Velferðarsvið fyrir hönd Reykjavíkurborgar nýti heimild til hækkunar á húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Hækkað verði í þremur áföngum sem nemur vísitöluhækkun á tímabilinu janúar 2003 – desember 2010 samanber ákvæði til bráðabirgða nr. II i reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu nr. 1054/2010. Fyrsta hækkun verður 1. október 2011, önnur 1. apríl 2012 og þriðja 1. október 2012.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu við aðaltillögu:
Fulltrúi VG í velferðarráði leggur til að umrædd húsaleigu vegna húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk taki breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs frá 2003 til maí 2008. Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillögunni vísað frá með 4 atkvæðum gegn 1 atkvæði.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með þeirri hækkun sem verið er að samþykkja á húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk, er verið að framfylgja reglugerð á eins ívilnandi hátt eins og mögulegt er fyrir íbúa. Ekki er möguleiki að Reykjavík eitt sveitarfélaga ákveði hækkanir skv. annarri vísitöluhækkun en reglugerðin gerir ráð fyrir og því er tillögunni vísað frá.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu við aðaltillögu
Fulltrúi VG í Velferðarráði leggur til að gefinn verði hálfs til eins árs fyrirvari á hækkun húsaleigu vegna húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk í til samræmis við húsaleigulög og athugasemdir Öryrkjabandalag Íslands frá 25. janúar sl. Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillögunni vísað frá með 4 atkvæðum gegn 1 atkvæði.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Verið er að hækka húsaleigu í samræmi við reglugerð sem sett var um síðastliðin áramót og fyrsta hækkun mun taka gildi 1. október nk. eða 10 mánuðum síðar. Lög um húsaleigubætur eiga ekki við í þessu tilfelli og því er tillögunni vísað frá.
Aðaltillaga var borin upp til atkvæða og samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 atkvæði.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með þeirri hækkun sem verið er að samþykkja á húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk, er Reykjavíkurborg að framfylgja reglugerð frá Velferðarráðuneytinu á eins ívilnandi hátt eins og mögulegt er fyrir íbúa. Hækkun greiðslubyrði íbúa af herbergjum og íbúðum verður frá 1800 kr. og hæst 4200 kr. á mánuði þegar tekið hefur verið tillit til húsaleigubóta.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Frávísunartillögur meirihluta velferðarráðs eru umhugsunarverðar með tilliti til mikilvægi þess að ná sátt um flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til Reykjavíkurborgar. Húsaleigubætur hafa ekki hækkað síðan í maí 2008. Sú hækkun var í raun, bætur fyrir það að húsaleigubætur höfðu staðið í stað í nokkur ár. Þrátt fyrir umræður um nauðsyn þess að leigjendur sitji við sama borð og húsnæðiseigendur hafa húsaleigubætur ekki hækkað í 3 ár á meðan kaupmáttur launa hefur lækkað svo um munar. Á meðan húsaleigubætur eru ekki hækkaðar er varla sanngjarnt að hækka leigu í því mæli sem hér er lagt til og tekur mið af vístölu frá því 2003 til dagsins í dag. Velferðarráðsfulltrúi VG tekur undir umsögn ÖBÍ frá 25 janúar sl. og telur að hún skýri málið til fullnustu en þar segir m.a: „Öryrkjabandalag Íslands telur að fyrirhugaðar hækkanir á húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk séu áætlaðar með alltof skömmum fyrirvara. Ef gæta á sanngirni er eðlilegast að hafa hliðsjón af 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 undir XI. kafla. Lok leigusamnings, uppsögn o.fl. Í 2. málsgrein 56. greinar stendur „Sex mánuðir af beggja hálfu á íbúðum, en íbúð telst hvert það húsnæði þar sem fjölskylda getur haft venjulega heimilisaðstöðu. Hafi leigjandi haft íbúð á leigu lengur en fimm ár skal uppsagnarfrestur af hálfu leigusala vera eitt ár”. „Öryrkjabandalagið leggur til að ekki verði ráðist í hækkanir á húsaleigu fyrr en að ári til að gæta jafnræðis meðal leigjenda og að því tilskildu að bætur almannatrygginga hafi verið hækkaðar. Mikilvægt er að leigjendur fái tíma til að laga sig að breyttum aðstæðum. Áríðandi er að hækkununum verði dreift á sama hátt og gert var ráð fyrir í reglugerðinni eða í fjórum áföngum á tveimur árum, 2012 og 2013. Auk þess leggur ÖBÍ til að húsaleigubætur verð hækkaðar og að hægt sé að sækja um sérstakar húsaleigubætur óháð því hver leigusalinn er.“
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram eftirfarandi bókun:
Ítrekuð er sú skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem áður hefur komið fram í umræðum um málið (á fundi 20. febrúar 2011) að ámælisvert megi telja að velferðarráðherra hafi ekki afgreitt hækkun vegna búsetureglugerðar áður en málaflokkurinn fluttist yfir til sveitarfélagana.
Marta Guðjónsdóttir vék af fundi 15.39.
Hörður Hilmarsson vék af fundi 15.40.
6. HVERT lokaskýrsla lögð fram ásamt minnisblaði skrifstofustjóra velferðarrmála.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
7. Lögð fram framvinda starfsáætlunar 2011.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
8. Minnisblað aðgerðateymis vegna aðstæða í efnahagslífi.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
9. Lagt fram stöðumat í viðbragðsáætlun í barnavernd og til stuðnings börnum í borginni ásamt eftirfarandi tillögu.
Viðbragðsáætlun í barnavernd sem samþykkt var í velferðarráði þann 10. júní 2009, kynnt í barnaverndarnefnd 16. júní 2009 og í borgarráði 18. júní 2009 verði lokað.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar starfsfólki Velferðarsviðs ásamt samstarfsfólki í borginni sem hefur innleitt og eða lokið 25 af þeim 26 verkþáttum sem ákveðnir voru í viðbragðsáætlun í barnavernd sem samþykkt var sumarið 2009. Verður öllum þáttum lokið þegar upp verður staðið. Áfram verður starfshópurinn Börnin í borginni starfandi og áfram mun Aðgerðateymi Velferðarsviðs og velferðarráð vakta aðstæður barna þannig að hægt verður að bregðast við þegar við á.
10. Lagðir fram til kynningar þjónustusamningar Velferðarsviðs við SÁÁ og Stígamót sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. mars s.l.
Fundi slitið 16.21
Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Lárus R. Haraldsson Áslaug Friðriksdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson