Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Árið 2011, fimmtudaginn 5. maí var haldinn 162. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Sólveig Reynisdóttir, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Lagt fram stöðumat vegna sameiningar þjónustu á Sléttuvegi 3, 7 og 9 og þróunarverkefnis um einstaklingsbundna samninga.
Aðalbjörg Traustadóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis og Berglind Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Heimaþjónustu Reykjavíkur, komu á fundinn og kynntu stöðumatið.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði fagna því að þróunarverkefni um einstaklingsbundna samninga skuli hafa skilað sér í því að nokkrir íbúar við Sléttuveg séu nú komnir með slíka samninga rúmu ári eftir að verkefnið fór í gang. Þessir samningar miða að því að efla sjálfstæði og sjálfræði notenda, þannig að þeir stýri því sjálfir hvenær þjónustan er veitt og af hverjum. Við teljum mikilvægt að þetta verkefni haldi áfram svo að meiri reynsla fáist bæði hjá þeim sem veita þjónustuna og nota hana. Þannig hefur þjónusta við íbúa svæðisins sem áður var í höndum fjögurra aðila verið færð á eina hendi, sem á að skila sér í betri þjónustu fyrir þessa borgarbúa.
Lögð fram drög að þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og leigusamningur um húsnæðið ásamt umsögn fjármálastjóra borgarinnar. Enn fremur lagt fram minnisblað frá borgarlögmanni, dagsett 29. apríl 2011.
Drögin voru samþykkt með sex samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með þessum samningi milli Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs er verið að uppfylla fyrri samninga og viljayfirlýsingar um uppbyggingu þjónustuíbúða og þjónustukjarna við Sléttuveg. Það er mikilvægt að þessi uppbygging geti átt sér stað og það er von okkar að þessir samningar, með þeim breytingum sem gerðar hafa verið, muni leiða til þess að við Sléttuveg verði íbúðir á viðráðanlegu verði m.a. fyrir tekjulága eldri borgara og góð þjónusta fyrir alla þá sem munu njóta hennar. Reykjavíkurborg mun leigja þarna 20 íbúðir af þeim 100 sem byggðar verða. Samningnum er vísað til borgarráðs til endanlegrar afgreiðslu.
Málinu er vísað til afgreiðslu borgarráðs.
Lagt fram til kynningar bréf frá SÁÁ, dagsett 26. apríl 2011, ásamt minnisblaði Velferðarsviðs.
Lögð fram tillaga Velferðarsviðs vegna styrkumsóknar frá Ekron.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 7. apríl s.l. ásamt greinargerð. Einnig lagt fram minnisblað Velferðarsviðs.
Unnið verði að því að fá ungt fólk á aldrinum 18 – 24 ára á fjárhagsaðstoð til að finna sér samfélagslegt verkefni að eigin vali en með hjálp og stuðningi ráðgjafa borgarinnar í því markmiði að efla starfsgetu og virkni. Mikilvægt er að þessi hópur sé virkur í samfélaginu og að kraftar hans og hugmyndir fái notið sín í enn meira mæli en nú er. Nánari útfærslur á verkefninu verði unnar af Velferðarsviði og lagt fyrir velferðarráð ekki síðar en 1. júní nk. með það til hliðsjónar að hægt verði að hvetja og bjóða ungu fólki þátttöku sem fyrst.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir efni minnisblaðsins.
Tillagan var samþykkt samhljóða. Hvað varðar nánari útfærslu er vísað til minnisblaðs Velferðarsviðs.
Rekstraruppgjör Velferðarsviðs, janúar – febrúar 2011: Kynnt fylgiskjal með útreikningum með og án áætlunar vegna málefna fatlaðs fólks .
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Minnisblað aðgerðateymis vegna aðstæðna í efnahagslífi kynnt.
Bjarni Karlsson vék af fundi kl.15.45.
Lárus R. Haraldsson tók sæti á fundinum kl.15.45
Umsögn velferðarráðs um tillögu mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð hefur farið yfir tillögu mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Ráðið telur að eðli málsins samkvæmt eigi umsagnir að berast frá fagráðum sem fara með málefni barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum, mennta-, leikskóla- og íþrótta- og tómstundaráði. Af þeim sökum telur velferðarráð ekki í sínum verkahring að veita umsögn um málið.
Formaður velferðarráðs lagði til að tillögunni yrði vísað frá.
Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tillögunni er vísað frá þar sem umræddar reglur geta komið inn á þjónustu er heyrir undir Velferðarsvið, þ.e. þjónustu fagfólks á þjónustumiðstöðum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun.
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðaráði fagnar tillögu mannréttindaráðs. Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar kveður á um að ekki skuli mismuna borgarbúum eftir lífs- og trúarskoðunum. Í því fjölmenningarsamfélagi sem nú er að mótast í borginni er gríðarlega mikilvægt að þessari stefnu verði fylgt eftir og það verður að vera í forgangi að tryggja rétt þeirra sem ekki geta talað sínu máli sem í þessu tilfelli eru börn og möguleiki þeirra til þátttöku í skólastarfi, óháð trúar- og lífsskoðun. Verði það ekki gert munu Reykvíkingar búa við samfélag aðskilnaðar en ekki sameiningar. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekar það, að eðli málsins samkvæmt eiga umsagnir að berast frá fagráðum sem fara með málefni barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum þ.e. mennta-, leikskóla- og íþrótta- og tómsundaráði. Af þeim sökum er það ekki í verkahring velferðarráðs að veita umsögn um málið en færi afgreiðsla þess þjónustumiðstöðum aukin verkefni verður það tekið fyrir síðar. Það fæðist hins vegar sá grunur að þjóðkirkjumeðlimir úr röðum Samfylkingarfólks hafi krafist þess að málið yrði tekið á dagskrá ráðsins til þess að hafa áhrif afgreiðslu þess.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Aðdróttun í lok bókunar fulltrúa Vinstri grænna á ekki við rök að styðjast.
Af hálfu velferðarráðs voru lagðar fram eftirfarandi umsagnir um tillögu mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa:
- Umsögn fulltrúa Samfylkingarinnar í velferðarráði.
- Umsögn fulltrúa Besta flokksins í velferðarráði.
- Umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði.
- Umsögn fulltrúa Vinstri grænna í velferðarráði.
Umsagnirnar verða sendar mannréttindaráði.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn
Hver er ástæðan fyrri því að umrædd tillaga sem send var til ráðsins síðastliðið haust og afgreidd var í öðrum fagráðum fyrir jól er tekin svo seint á dagskrá velferðarráðs?
Lykiltölur janúar – mars kynntar.
Lárus R. Haraldsson vék af fundi kl. 16.05
Bjarni Karlsson tók sæti á fundinum kl. 16.05
Niðurstöður Fjölmenningarþings Reykjavíkurborgar kynntar.
Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar, kom á fundinn og kynnti niðurstöðurnar.
Bjarni Karlsson vék af fundi kl. 16.30
Lagðir fram til kynningar eftirtaldir þjónustusamningar Velferðarsviðs við hagsmunasamtök sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. mars s.l., Blindrafélagið, Félag einstæðra foreldra, Félag eldri borgara, Félag heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélag Öskjuhlíðarskóla, Geðhjálp, Gigtarfélagið, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn, Hrafnista vegna sundlaugar, Samtök um Kvennaathvarf, MS félagið, Sjónarhól, Vímulaus æska, Sjálfsbjörg vegna reksturs sundlaugar í Hátúni og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.
Fundi slitið kl. 16.50
Björk Vilhelmsdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Geir Sveinsson Heiða Kristín Helgadóttir
Þorleifur Gunnlaugsson