Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2011, fimmtudaginn 3. mars var haldinn 158. fundur s og hófst hann kl. 13.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Bjarnveig Magnúsdóttir, Bjarni Karlsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Áslaug María Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Styrkir og þjónustusamningar; Lögð fram tillaga starfshóps um úthlutun styrkja og þjónustusamninga fyrir árið 2011. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
Fulltrúi VG í velferðarráði leggur til að þjónustusamningur við SÁÁ inniberi sömu upphæð og samið var um í samstarfsamningi árið 2007 eða 20 milljónir króna.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í rökstuðningi fyrir því að samningi um göngudeildarþjónustu SÁÁ verði breytt og framlag til samtakanna verði ekki verðbætt og auk þess lækkað um rúm 30#PR segir: „Reynsla sl. 2 og 1/2 árs af nýtingu hinna ýmsu þátta sem samið var um, sýnir að ákveðnir þættir samningsins hafa verið mjög vel nýttir en aðrir síður, jafnvel aðeins svo nemur 5-10#PR af upphaflegum samningsviðmiðum. Lagt er til að samningurinn verði einfaldaður og áhersla lögð á þá þjónustuþætti sem greinilega hafa nýst vel með sérstaka áherslu á þjónustu við unglinga.“
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir eftirfarandi upplýsingum:
1. Hvaða þættir samningsins hafa verið vannýttir, að hvað miklu leyti og hvert er kostnaðarmat á hvern þátt fyrir sig ?
2. Hvaða þættir samningsins hafa verið fullnýttir ?
3. Hvaða þáttum samningsins hefur SÁÁ veitt þjónustu umfram það sem samið var um, að hvað miklu leiti og hvert er kostnaðarmat á hvern þátt fyrir sig ?
4. Hvaða þjónustu hefur SÁÁ veitt gjaldfrjálst sem ekki er tiltekin í samningunum en er veitt á grundvelli samstarfsins og hvert er kostnaðarmat vegna þessa ?
Óskað er eftir skriflegum svörum áður en málið verður afgreitt í ráðinu.
Breytingartillaga fulltrúa Vinstri grænna var borin upp til atkvæða og felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ekki er ástæða til að fresta afgreiðslu málsins þar sem þessir þættir hafa verið til skoðunar í starfshópi um styrkúthlutanir sem leggur fram þessa og aðrar tillögur
Meirihluti velferðarráðs metur það mikla og góða starf sem SÁÁ innir af hendi í þágu áfengissjúkra og aðstandenda þeirra og leggur áherslu á gildi þess. Við endurnýjun þjónustusamnings um þjónustu sem samtökin veita einstaklingum er upphæðin lækkuð úr 20 milljónum í tæpar 14 milljónir í ljósi þess að sú þjónusta sem verið er að greiða fyrir hefur breyst að umfangi. Í öllum styrkveitingum borgarinnar er lögð áherslu á að fjármunir sem veittir eru úr sjóðum borgarinnar nýtist Reykvíkingum og um það hefur verið góð samvinna við SÁÁ. Einnig skal tekið fram að þjónustusamningur þessi snýr ekki að heilbrigðisþjónustu SÁÁ, því það væri utan við verksvið borgarinnar, heldur er hér um að ræða stuðning við ráðgjöf.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði harmar það að verið sé að skera niður framlög Reykjavíkurborgar til göngudeildarþjónustu SÁÁ um meira en 30#PR. Það er skylda kjörinna fulltrúa að taka upplýsta ákvörðun en rökstuðningur fyrir niðurskurðinum er að mati velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna vægast sagt vafasamur. Það er því undarlegt að afgreiða þurfi málið áður en fulltrúum í velferðarráði berast svör við spurningum er varða forsendurnar. Starfshópur á vegum ráðsins er ráðgefandi og upplýsingar sem vitnað er í hafa ekki borist ráðinu. SÁÁ er langstærsti þjónustuaðili velferðarþjónustu þriðja geirans á Reykjavíkursvæðinu og ekkert er eðlilegra en það komi fram í framlögum frá opinberum aðilum. Göngudeild SÁÁ nýtur ekki góðs af daggjöldum ríkisins og niðurskurður á framlögum til hennar kemur til með að bitna á börnum, ungmennum og aðstandendum alkóhólista.
Aðaltillagan var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. Þriðja árið í röð er verið afgreiða styrki og þjónustusamninga til mikilvægrar velferðarþjónustu án verðbóta og jafnvel verið að skera niður mikilvæga þjónustu. Það vekur furðu að samþykktar hafi verið tillögur um styrki til Fjölskylduhjálparinnar og Mæðrastyrksnefndar sem veita á með því skilyrði að umrædd samtök undirriti þjónustusamning sem hvorki velferðarráð eða umrædd samtök hafa séð. Þetta er enn furðulegra í ljósi þess að Mæðrastyrksnefnd hefur tekið þá meðvituðu ákvörðun að sækja ekki um styrk frá ráðinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkti í dag að styrkja og gera þjónustusamninga við 43 félög og samtök sem starfa á sviði velferðarþjónustu í Reykjavik. Samtals nema greiðslur vegna samninga og styrkja 154,5 milljónum króna. Samstarf við félög og samtök um framkvæmd velferðarþjónustu í borginni er mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem Velferðarsvið veitir. Velferðarráð fagnar því að á erfiðum tímum í fjárhag borgarinnar er hægt að halda þessu samstarfi áfram.
2. Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir Foldabæ.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
3. „Börn sem eru vitni að heimilisofbeldi“ ; Rannsókn Barnaheilla á félagslegum stuðningi og úrræðum 2011 lögð fram. Ennfremur lagt fram bréf frá Barnaverndarstofu dags. 15. febrúar sl., fréttatilkynning Velferðarsviðs dags. 17. febr. sl. og bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkur dags. 22. febrúar sl.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun.
Velferðarráð þakkar Barnaheill fyrir að vekja athygli á og kalla á umræðu um aðstæður barna sem búa við heimilisofbeldi. Þá fagnar velferðarráð tillögu Barnaverndarstofu um að komið verði á fót tilraunaverkefni til að auka stuðning við börn á vettvangi þegar lögregla er kölluð til vegna heimilisófriðar/ofbeldis. Velferðarráð tekur undir með Barnaverndarnefnd Reykjavíkur að Barnavernd Reykjavíkur gangi til samstarfs við Barnaverndarstofu um verkefnið, enda full ástæða til. Velferðarráð tekur undir bókun Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá fundi 22. febrúar sl. og beinir því til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að kanna hvort sú barnaverndarbakvakt sem rekin er allan sólarhringinn, allan ársins hring geti verið sameiginleg á höfuðborgarsvæðinu öllu.
4. Samantekt samráðshóps um forvarnir lögð fram ásamt tillögu að skipan starfshóps um endurnýjun forvarnarstefnu.
Málinu er frestað.
5. Áskorun frá íbúum Dalbrautar 21-27 og nágrennis um að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum á eldhúsi á Dalbraut 27 og bréf dags. 11. febrúar s.l frá íbúum ásamt undirskriftarlista. Ennfremur lagt fram bréf Velferðarsviðs dags. 23. febrúar 2011 til íbúa ásamt minnisblaði Velferðarsviðs um erindið.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að íbúar og gestir sem borða í eldhúsinu á Dalbraut 21 – 27 vilja halda óbreyttri þjónustu. Við breytinguna sem mun taka gildi í sumar eða í haust verður matarþjónusta á Dalbraut sambærileg við það sem er á öðrum þjónustuíbúðakjörnum. Tilbúinn matur kemur frá eldhúsinu í Lindargötu og hann framreiddur á diska, eins og verið hefur. Með þessari breytingu er verið að hagræða um 12.5 milljónir.kr. á ári og velferðarráð getur ekki sleppt slíkri hagræðingu þegar við teljum að verið sé að bjóða áfram sambærilega þjónustu þó breytt sé. Vonandi verður fólk ánægt með matinn þegar þar að kemur, eins og raunin er með þá sem njóta sama matar í dag.
6. Minnisblað aðgerðateymis um samanburð milli áranna 2010 og 2009 vegna fjárhagsaðstoðar lagt fram til kynningar.
Málinu er frestað.
7. Lykiltölur janúar til desember 2010 lagðar fram til kynningar
Málinu er frestað
8. Fræðsluáætlun Velferðarsviðs vorönn 2011 lögð fram til kynningar.
9. Íslensk neysluviðmið: Skýrsla velferðarráðuneytisins frá febrúar 2011.
Lára Björnsdóttir og Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingar frá velferðarráðuneytinu, komu á fundinn og kynntu skýrsluna.
Bjarnveig Magnúsdóttir vék af fundi kl. 16.15.
Velferðarráð samþykkti að fela Velferðarsviði að vinna umsögn um neysluviðmið sem lögð verður fyrir næsta fund ráðsins.
Fundi slitið kl. 17.45
Björk Vilhelmsdóttir
Bjarni Karlsson Elsa Hrafnhildur Yeoman
Áslaug María Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson