Velferðarráð - Fundur nr. 157

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2011, fimmtudaginn 17. febrúar var haldinn 157. fundur s og hófst hann kl. 12.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Bjarni Karlsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 16. febrúar þess efnis að Heiða Kristín Helgadóttir taki sæti í velferðarráði í stað Ágústs Más Garðarssonar í velferðarráði. Varamaður í ráðinu í stað Heiðu verði Bjarnveig Magnúsdóttir.
Lagt er til að Heiða Kristín Helgadóttir verði kjörin varaformaður ráðsins og varamaður í áfrýjunarnefnd velferðarráðs í stað Ágústs Más Garðarssonar.
Samþykkt samhljóða.

2. Stöðuskýrsla vegna verkefnisins “Virkni til velferðar” lögð fram. Vísað til starfsdags.

3. „Bara það kom mér í gang“ : Úttekt á aðstæðum og virkni þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Lögð fram skýrsla Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Vísað til starfsdags.

4. Skýrsla starfshóps um skólaþjónustu í grunnskólum sem skipaður var samkvæmt erindisbréfi sviðsstjóra Velferðarsviðs dags. 1. júlí 2010.
Þorsteinn Hjartarson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og formaður starfshópsins, mætti á fundinn og kynnti skýrsluna.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Öflug sérfræðiþjónusta við leikskóla – og grunnskólabörn er nauðsynlegur þáttur í alhliða velferð barna og fjölskyldna í borginni. Sérfræðiþjónustan er afar mikilvæg en mikilvægast er að samfélagið viðurkenni í raun að hvert barn er einstakt og að börn hafa ólíkar þarfir og þroskast mismunandi. Vilji velferðarráðs stendur til þess að tryggja að börn fái þjónustu við hæfi, án óhóflegs biðtíma og að hægt sé að hefja veitingu þjónustu út frá fyrstu skimun, án þess að beðið sé eftir formlegri greiningu. Með snemmtækri íhlutun fá nemendur kennslu og stuðning við hæfi í leik- og grunnskólum án aðgreiningar en einnig stuðning til að mæta félagslegum og sálrænum vanda. Velferðarráð fagnar framkomnum tillögum starfshópsins og vonast til þess að unnið verði áfram að innleiðingu þeirra. Sumt af því er í starfsáætlun Velferðarsviðs þessa árs, annað útfærist á vettvangi. Það sem snýr að Velferðarsviði og þjónustumiðstöðvum er að kortleggja og miðla sérþekkingu á þjónustumiðstöðvum, að námskeið á þjónustumiðstöðvum verði opin íbúum óháð búsetu og að reglur um gjaldtöku verði skýrar.

5. Fjárhagsaðstoð; Lögð fram tillaga að breytingum á 11. og 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð ásamt greinargerð.
Samþykkt með fimm samhljóða atkvæðum gegn einu.
Geir Sveinsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Í tilefni þess að skerða á fjárhagsaðstoð til hluta barnafólks sem hennar nýtur óskar fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði eftir upplýsingum um þá sem fá skerta fjárhagsaðstoð á grundvelli þess að þeir búa hjá öðrum, hjá foreldrum og eru í sambúð eða hjón. Óskað er eftir fjölda í hverjum hópi fyrir sig og hvað það myndi kosta borgina að þetta fólk fengi óskerta fjárhagsaðstoð sem nemur nú 149 000 kr.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúi VG í velferðarráði mótmælir þeirri ákvörðun meirihluta velferðarráðs að skerða umtalsvert fjárhagsaðstoð til barnafólks sem býr hjá foreldrum. Aðeins eru liðnir 3 mánuðir frá því að meirihluti borgarráðs samþykkti breyttar reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg en þar segir skýrum stöfum: „hafi einstaklingur, sem fellur undir ofangreint, forsjá barns, skal viðkomandi reiknuð full grunnfjárhæð, þ.e 149.000 kr. á mánuði.“ Nú liggur fyrir meirihlutaákvörðun um að lækka aðstoðina við umrædda einstaklinga um rúmar 23.000 kr. eða í 125.540 kr. Þetta kemur til viðbótar þeim skerðingum sem ákveðnar voru um áramót en samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsviði frá því í nóvember sl. fá um 280 einstaklingar skerta fjárhagsaðstoð í tengslum við ákvörðun meirihluta velferðarráðs frá því í nóvember. Um er að ræða hjón og sambúðarfólk, þá sem, „sem búa hjá öðrum“ og þá sem búa hjá foreldrum. Ákvörðun meirihluta velferðaráðs er í hróplegir andstöðu við tilmæli Velferðarráðherra frá því í janúar sl. sem er eru skýr og varða lágmarksupphæð fyrir alla einstaklinga sem njóta fjárhagsaðstoðar, þ.e. að lágmarksupphæð sé miðuð við að fjárhagsaðstoð nái að lágmarki samsvarandi upphæð og atvinnuleysisbætur. Fullar atvinnuleysisbætur nema tæpum 150.000 kr. á mánuði. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eiga allir sem eru atvinnulausir sama rétt til þeirra, burtséð frá hjúskaparstöðu, fjölskyldutengslum eða sambúðarmynstri. Ákvörðun velferðarráðs nú er ekki aðeins árás á barnafólk í neyð heldur er hún vafasöm í ljósi þess að í 11. gr. nýsamþykktra regla um fjárhagsaðstoð segir „Fjárhæðir verða endurskoðaðar af velferðarráði árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.“ Það má því líta svo á að næsta endurskoðun ætti ekki að fara fram fyrr en við gerð næstu fjárhagsaðstoðar í desember nk.“

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:

Í fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar er tekið tillit til þess hvort fólk rekur heimili eða ekki. Við breytinguna 1. janúar sl. voru þau mistök gerð í textavinnu að einstæðir foreldrar sem búa í foreldrahúsum fá sömu upphæð og einstæðir foreldrar sem reka sitt eigið heimili. Með þessari breytingu er verið að lagfæra þetta, þannig að ungir foreldrar í foreldrahúsum munu hér eftir fá 125.540 kr. á mánuði eins og aðrir sem reka heimili með öðrum.

6. Kynnt drög að tillögum, starfshóps um styrki og þjónustusamninga sem skipaður var á fundi velferðarráðs 8. desember s.l., um úthlutun styrkja og þjónustusamninga fyrir árið 2011.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 15.30

Björk Vilhelmsdóttir
Heiða Kristín Helgadóttir Bjarni Karlsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Áslaug Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson