Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2011, fimmtudaginn 20. janúar var haldinn 154. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Áslaug Friðriksdóttir, Sveinn H. Skúlason og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist
1. Endurskoðuð fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2011 kynnt vegna yfirfærslu málefna fatlaðra.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur sig ekki vera nægjanlega upplýstan um endurskoðaða fjárhagsáætlun sviðsins með tilliti til yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Sárlega vantar greinargerð um málið og sumt er óljóst hvað varðar upplýsingar um tekjur.
2. Lögð fram eftirfarandi tillaga sviðsstjóra Velferðarsviðs um hækkun húsaleigu í húnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk.
Lagt er til að Velferðarsvið, fyrir hönd Reykjavíkurborgar nýti heimild til hækkunar á húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk frá og með 1. apríl næstkomandi samanber ákvæði til bráðabirgða nr. II í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu nr. 1054/2010.
Greinargerð fylgir.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að tillögu um hækkun húsaleigu í húnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk verði vísað til umsagnar Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Málið verður tekið aftur fyrir á næsta fundi ráðsins þann 26. janúar n.k.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ámælisvert að velferðarráðherra hafi ekki afgreitt hækkun vegna búsetureglugerðar áður en málaflokkurinn fluttist yfir til sveitarfélagana. Velferðarráðuneytið hefur haft nægan tíma til framfylgja ákvæði um hækkun en ekki sinnt því frá árinu 2003. Það kemur því í hlut velferðarráðs Reykjavíkurborgar að framfylgja þessari hækkun og svara þeirri óánægju sem eflaust á eftir að hljótast af henni. Mjög óheppilegt er að þessi afgreiðsla verði sú fyrsta sem ráðið fjallar um enda hefur sveitarfélagið unnið að kappi og miklum metnaði að undirbúningi yfirfærslunnar svo notendur upplifi hana á sem jákvæðastan hátt. Ekki verður hjá því komist að álykta svo að ráðherra sé hér að veigra sér við að taka á málum og láti aðra um að taka á sig erfið mál.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tekið er undir að það sé miður að velferðarráð þurfi á þessum tímapunkti að nýta heimild í reglugerð um hækkun húsaleigu í húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk. Það þarf að gera fyrir 1. febrúar skv. ákvörðun velferðarráðuneytisins. Það er hins vegar ljóst að leiga skv. fyrri reglugerð sem hefur ekki hækkað frá 1. janúar 2003, þarf að hækka í áföngum án þess að það megi verða íþyngjandi fyrir þá sem búa í þessum húsnæðisúrræðum. Vonandi mun þetta mál ekki skyggja á þann metnað og þá jákvæðni sem ríkir við yfirfærslu á þjónustu við fatlaða íbúa borgarinnar.
3. Námsmenn á fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar; Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins frá fundi velferðarráðs þann 13. janúar s.l.
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði, í samráði við Mannauðsskrifstofu Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun að útfæra leiðir sem tryggi atvinnuþátttöku sem flestra námsmanna og koma þannig í veg fyrir að þeir þurfi á fjárhagsaðstoð til framfærslu að halda yfir sumartímann, nema í sérstökum tilfellum. Markmiðið er að námsmenn hafi launatekjur sér til framfærslu yfir sumartímann.
Greinargerð fylgir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði, í samráði við ÍTR, Mannauðsskrifstofu Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun að útfæra leiðir sem tryggi atvinnuþátttöku sem flestra námsmanna og koma þannig í veg fyrir að þeir þurfi á fjárhagsaðstoð til framfærslu að halda yfir sumartímann, nema í sérstökum tilfellum. Markmiðið er að námsmenn hafi launatekjur sér til framfærslu yfir sumartímann.
Breytingartillagan var samþykkt samhljóða.
Aðaltillagan var borin upp til atkvæða svo breytt.
Samþykkt samhljóða
Bjarni Karlsson vék af fundi kl. 15.05
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð mun þegar tillögur liggja fyrir leita álits hagsmunasamtaka stúdenta.
4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs þann 13. janúar s.l.
Lagt er til að grunnfjárhæð þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg og fengu hlutfallslega skerðingu og/ eða enga hækkun um áramót verði hækkuð til samræmis við tilmæli velferðarráðherra frá 3. janúar sl. þess efnis að sveitarstjórnir tryggi að einstaklingar hafi að lágmarki sambærilega fjárhæð og atvinnuleysisbætur.
Greinargerð fylgir.
Hanna Lára Steinsson tók sæti á fundinum kl. 15.10.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með breytingum sem tóku gildi 1. janúar sl. er fjárhagsaðstoð einstaklinga í Reykjavík sem reka heimili 149.000 kr. á mánuði sem er sambærilegt við atvinnuleysisbætur. Reykjavíkurborg uppfyllir þannig þau tilmæli sem velferðarráðherra leggur til og vísað er til í tillögu fulltrúa Vinstri grænna. Í erindi ráðherra til sveitarstjórna er engin útfærsla á hvernig æskilegt sé að sveitarfélög veiti fjárhagsaðstoð. Samkvæmt tillögu Vinstri grænna sem hér er hafnað er gert ráð fyrir sömu fjárhæð til allra, þeirra sem reka heimili, þeirra sem búa með öðrum og til ungs fólks sem býr í foreldrahúsum. Reglur Reykjavíkurborgar taka tillit til aðstæðna fólks sem er réttlátt.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Samkvæmt upplýsingum frá Velferðarsviði fá um 280 einstaklingar skerta fjárhagsaðstoð í tengslum við ákvörðun meirihluta velferðarráðs síðan um áramót. Um er að ræða hjón og sambúðarfólk, þá sem, „sem búa hjá öðrum“ og þá sem búa hjá foreldrum. Hluti þessa hóps fær skerðingu þannig að aðstoðin lækkar um tæpan helming eða úr 149.000 kr. í 74 500 kr. á mánuði. Fullar atvinnuleysisbætur nema tæpum 150. 000 kr. á mánuði. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum eiga allir sem eru atvinnulausir sama rétt til þeirra, burtséð frá hjúskaparstöðu, fjölskyldutengslum eða sambúðarmynstri. Tilmæli ráðherra eru skýr og varða lágmarksupphæð fyrir alla einstaklinga sem njóta fjárhagsaðstoðar, lágmarksupphæð sem er miðuð við atvinnuleysisbætur. Það er því bókstaflega rangt sem kemur fram í bókun meirihlutans að „Reykjavíkurborg uppfyllir þannig þau tilmæli sem velferðarráðherra leggur til“.
5. Lagðir fram til kynningar þjónustusamningar Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða f.h.Velferðarsviðs og Samhjálpar um rekstur Gistiskýlis, Stuðningsheimilis og heimilis fyrir karlmenn.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð óskar eftir því við Velferðarsvið að verklag við gerð þjónustu- og rekstarsamninga verði skoðað og skýrt og tillaga lögð fram í velferðarráði í framhaldi af því.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það ber ekki vott um gagnsæ eða lýðræðisleg vinnubrögð að samið hafi verið við aðila um áframhaldandi verktöku á sviði velferðarmála á sama tíma og tillaga um að það yrði ekki gert lá fyrir ráðinu. Úr því sem komið er bindur velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna vonir við að nefndin sem kosin var á síðasta fundi ráðsins og meta á úrræði fyrir umræddan hóp taki fljótt til starfa og skili útfærðum tillögum tímanlega fyrir fjárhagsáætlun næsta árs.
6. Kynnt samþykkt borgarráðs frá 13. janúar s.l. um að atvinnulausir Reykvíkingar og fólk sem nýtur fjárhagsaðstoðar hjá Reykjavíkurborg fái áframhaldandi endurgjaldslausan aðgang að sundstöðum borgarinnar og frítt bókasafnskort út árið 2011.
Sveinn H. Skúlason vék af fundi kl. 15.50
Fundi slitið kl. 16.01
Björk Vilhelmsdóttir
Ágúst Már Garðarsson Elsa Hrafnhildur Yeoman
Áslaug Friðriksdóttir Þorleifur Gunnlaugsson
Hanna Lára Steinsson