Velferðarráð - Fundur nr. 152

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 16. desember var haldinn 152. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14.00 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Líf Magneudóttir.
Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir, Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Kristín Ösp Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Yfirfærsla málefna fatlaðra. Kynning á fyrirkomulagi þjónustunnar.
Sviðsstjóri og María Rúnarsdóttir verkefnastjóri yfirfærslu málefna fatlaðra gerðu grein fyrir málinu.
Lögð fram tillaga Velferðarsviðs að fyrirkomulagi þjónustu við yfirfærslu málaflokks fatlaðra. Greinargerð fylgir.
Vegna flutnings málaflokks fatlaðra frá ríki til Reykjavíkurborgar leggur Velferðarsvið til eftirfarandi fyrirkomulag:
1) Ráðgjöf og þjónusta við einstaklinga verði vistuð á þjónustumiðstöðvum.
2) Stefnumótun, stoðþjónusta, samhæfing og eftirlit verði vistuð á skrifstofu Velferðarsviðs.
3) Búsetuúrræði, þar sem um langvarandi búsetu er að ræða verði vistuð hjá þjónustumiðstöðvum í viðkomandi hverfi.
4) Sammtímavistanir verði vistaðar hjá þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness.
5) Dagþjónusta, hæfing, vinnumál og samningur við Ás styrktarfélag verði vistað á skrifstofu Velferðarsviðs.
6) Verkefni um þróun NPA - notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og yfirsýn yfir fjölda þjónustusamninga vegna einstaklinga verði vistað í þjónustumiðstöð Laugardals-Háaleitis.

Tillaga samþykkt samhljóða.

2. Lögð fram dög að samkomulagi Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk og samstarf varðandi þjónustu og vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur sem njóta félagsþjónustu hjá Reykjavíkurborg.
Drög að samkomulagi samþykkt. Jafnframt samþykkt að samkomulagið verði sent Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálpar til kynningar.

3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 2. desember s.k. varðandi Gistiskýlið.
Við tillögu um opnunartíma Gistiskýlisins bætist: „Forstöðumaður sjái til þess að veikir einstaklingar sem ekki fara á spítala fái að vera í herbergjum eins og þurfa þykir meðan á veikindum hans stendur.“

Tillögunni er vísað til framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða til frekari úrvinnslu.

4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 18. nóvember sl. um að velferðarráð samþykki að vinna enn frekar að því markmiði að aðstoða fólk á fjárhagsaðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn með viðeigandi stuðningi eða í annað viðeigandi úrræði en fjárhagsaðstoð. Ennfremur lagt fram minnisblað Velferðarsviðs dags. 13. desember 2010 um þá möguleika sem felast í framlagðri tillögu.

5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 18. nóvember sl. um að stofnaður verði starfshópur sem skili hugmyndum og tillögum til ráðsins um hvernig auka megi aðgengi hugsjónafólks og fólks með hugmyndir um nýjungar í rekstri að velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Ennfremur lagt fram minnisblað Velferðarsviðs dags. 9. desember 2010.
Tillögunni vísað frá með 5 atkvæðum.
Lögð fram bókun fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins:
Tekið er undir að opinber þjónusta þurfi að þróast og breytast í samræmi við þarfir og aðstæður þeirra sem njóta hennar. Til að tryggja að svo sé gerir Velferðarsvið, í umboði velferðarráðs, þjónustusamninga við á fjórða tug hugsjónaraðila sem veita og þróa margvíslega velferðarþjónustu fyrir borgarbúa. Nefna má Stígamót, SÁÁ, Hlutverkasetur, Kvennaathvarfið og Vímulausa æsku. Forvarnarsjóður Velferðarsviðs úthlutaði nýlega 14 styrkjum til þeirra sem sóttu um. Virknisjóður hefur auglýst í fjórgang eftir samstarfsaðilum um úrræði fyrir notendur fjárhagsaðstoðar. Samið hefur verið við 11 aðila utan borgar og 3 innan borgar um úrræði fyrir þennan hóp. Í janúar verður unnið úr tugum styrkumsókna sem bárust ráðinu nú í haust og varða velferðarverkefni sem verða unnin á næsta ári. Framundan er einnig endurskoðun á helstu þjónustusamningum sem renna út um áramót. Í ljósi þessa víðfeðma og virka starfs sem hér er lýst þar sem kerfisbundið er lýst eftir nýjum hugmyndum á sviði velferðarþjónustu og aðilar hvattir til að gera sig gildandi og láta hugmyndir sínar í ljósi teljum við ekki ástæðu til að skipa starfshóp að svo stöddu um að auka aðgengi hugsjónafólks og fólks með hugmyndir um nýjungar í rekstri. Á næsta ári mun Velferðarsvið auglýsa að nýju eftir samstarfsaðilum og að sjálfsögðu munu þeir sem hafa góðar hugmyndir um velferðarþjónustu óska eftir samstarfi og eða styrkjum. Tillögunni er vísað frá á þessum grundvelli auk þess sem gæta verður að því að nú er velferðarsvið borgarinnar í þann mund að ríða á vaðið með umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á velferðarþjónustu borgarinnar um árabil með tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til borgar sem fylgt verður eftir með tilfærslu málefna aldraðra. Því er það álit okkar, um leið og undirstrika skal gildi hugsjóna- og frumkvöðlastarfs á sviði velferðarmála, að nú sé ekki rétti tíminn til þess að stofna starfshóp af því tagi sem hér er lagt til.

6. Hlutverkasetur, lögð fram drög að þjónustusamningi Velferðarsviðs og Hlutverkasetur (AE starfsendurhæfing).
Drögin samþykkt samhljóða.

7. Lykiltölur janúar til október 2010 lagðar fram til kynningar.

8. Forvarna- og framfarasjóður, bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 2. desember s.l. um tilnefningu velferðarráðs í þriggja manna starfshóp sem yfirfari reglur um forvarnar- og framfarasjóð.
Samþykkt að Björk Vilhelmsdóttir taki sæti í starfshópnum.

9. Kosning varamanns í velferðarráð. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 7. desember s.l. um að Heiða Kristín Helgadóttir taki sæti varamanns í velferðarráði í stað Elsu Hrafnhildar Yeoman sem tók sæti aðalmanns í ráðinu 2. desember s.l. Lagt fram til kynningar.

Geir Sveinsson vék af fundi kl. 16.50.
Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 16.50.

10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúar Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 2. desember um að Velferðarsviði verði falið að útfæra í tilraunaverkefni til tíu mánaða með einu hjúkrunarheimili borgarinnar um að taka að sér alla heimaþjónustu innan skilgreinds hverfis kringum heimilið. Lagt er til að þegar verði unnið að því að koma svona verkefni í gang og miðað við að heimilið taki yfir þjónustuna þann 1. mars næstkomandi. Ennfremur lagt fram minnisblað Velferðarsviðs dags.15. desember 2010.

Tillögunni vísað frá með 5 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Besta flokksins og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Allt kapp er lagt í að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í hverfum borgarinnar. 1. mars nk. verður tekið næsta skrefið í þá veru þegar dagþjónusta í Laugardal og Háaleiti verður samþætt kvöld og helgarþjónustu í hverfinu. Næstu hverfi munu koma í kjölfarið. Þróunarverkefni á sviði heimaþjónustu hefst á Sléttuvegi um áramót. Samningur er við ríkið um heimahjúkrun sem runnur út eftir 1 ár. Í þeim samningi er kveðið á um ýmislegt sem erfitt er að framkvæma ef nýr þjónustuaðili er fengin til heimaþjónustunnar, þar má nefnda eina þjónustugátt, samstarfsverkefni um teymi tengd vissum sjúklingahópum og innleiðingu á matskerfi. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samningum milli ríkis og borgar um heimaþjónustuna, en ekki bara það, heldur einnig að sveitarfélögin taki við málefnum aldraðra og vonandi takast samningar milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að heilsugæslan flytjist til borgar, eins og borgarstjórn hefur nýlega samþykkt. Tillagan gerir ráð fyrir tilraunaverkefni í 10 mánuði frá og með 1. mars nk. Sá tímarammi er óraunsær þar sem reynslan sýnir að það þarf mikinn og langan undirbúningstíma fyrir svona verkefni a.m.k. eitt ár. Einnig þarf slíkt verkefni að taka yfir lengri tíma, þannig að hægt sé að meta árangur af því. Vegna alls þess sem rakið hefur verið, er ekki hægt að verða til tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tilraunaverkefni þess efnis að fela einu hjúkrunarheimili heimaþjónustu þó það sé innan skilgreinds hverfis. Í framtíðinni þegar öll nærþjónusta við íbúa; heimaþjónusta, heimahjúkrun, búsetu og persónuleg stuðningsþjónusta við fatlaða og aldraðra og heilsugæslan komin til Reykjavíkurborgar, þá er hægt að skoða þróun þjónustunnar. Við þurfum að taka eitt skref í einu og á næsta ári hefur velferðarsvið fullt í fangi með að samþætta heimaþjónustuna í hverfum, meta og endurnýja samninga við ríkið og semja um yfirfærslu á þjónustu við aldaðra og heilsugæslu.

Líf Magneudóttir vék af fundi kl. 17.00.
Fulltrúar sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er leitt að heyra að ekki sé vilji til þess að ganga strax í það að þróa þetta tilraunaverkefni og vinna að því fullum fetum og finna flöt á því að láta þetta verða að veruleika. Fyrrverandi meirihluti velferðarráðs hafði allar götur frá því að heimaþjónusta og heimahjúkrun var sameinuð talað um að fara þessa leið í einu hverfi borgarinnar til þess að fá reynslu á þessa hugmyndafræði og tækifæri er til þess á næsta ári, við vitum ekkert hvað árin eftir það munu bera í skauti sér. Heimaþjónusta út frá hjúkrunarheimili í hverfinu er leið sem farin hefur verið í langan tíma víða á norðurlöndunum og gefist afar vel. Þjónustuklasi er orð sem má nota yfir þessa hugmyndafræði sem lítur fyrst og fremst að því að hjúkrunarheimilið í hverfinu sjái um alla heimaþjónustu á skilgreindu svæði kringum heimilið. Það er afar mikilvægt að fara í svona tilraunaverkefni nú á meðan samningurinn við ríkið um heimahjúkrun er í gangi. Það er einungis rúmt ár eftir af þeim samningi og ef við ætlum að ná að fá reynslu og þekkingu á að þjónusta með þessum hætti þarf að setja verkefnið í gang sem allra fyrst. Þessi hugmyndafræði lítur að því að einstaklingar fái þjónustu heim frá hjúkrunarheimilinu í sínu hverfi. Þannig fengi t.d. Einstaklingur sem býr í blokk við Sóltún í Reykjavík þjónustu frá hjúkrunarheimilinu Sóltúni en aftur einstaklingur í vogahverfi fengi þjónustu frá Hjúkrunarheimilinu Mörk. Með þessum hætti mætti nýta þá miklu flóru fagfólks sem er starfandi við hjúkrunarheimilin, einstaklingarnir gætu sótt félagsstarf, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, farið í mat og fleira á hjúkrunarheimilinu í nágrenninu, allt eftir þörfum hvers og eins. Með þessu móti er sólarhringsþjónusta tryggð. Þessi tillaga er höfð ansi opin fyrir meirihlutann til að útfæra hana frekar og ákveða hvaða hjúkrunarheimili best er til þess fallið að vinna svona tilraunaverkefni með. Eftir er auk þess að ákveða hve stórt þjónustusvæðið á að vera, en það getur í raun verið frá því að vera t.a.m. einungis Túnahverfið í kringum Sóltún upp í það að vera allur Grafarvogur í kringum Eir í Grafarvogi. Það er í raun alveg sama hvar borið er niður það væri hægt að útfæra þessa hugmynd með hvaða hjúkrunarheimili í Reykjavík sem er. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að fara í verkefnið eru í raun allir vegir færir varðandi útfærslu á því og mætti jafnvel bjóða hjúkrunarheimilunum að útfæra hugmyndina hvert um sig á sínu svæði og bjóða borginni þjónustuna. Úr þeim tillögum yrði svo valið eitt verkefni til tilraunar í tíu mánuði til að byrja með, með mögulegri framlengingu til þriggja ára.

Fundi slitið kl. 17.05

Björk Vilhelmsdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Ágúst Már Garðarsson
Bjarni Karlsson Áslaug Friðriksdóttir
Jórunn Frímannsdóttir