Velferðarráð - Fundur nr. 151

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, miðvikudaginn 8.desember var haldinn 151. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 16.10 í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Ágúst Már Garðarsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Tillaga og greinargerð um breytingu á reglum og uppbyggingu gjaldskrár í félagslegri heimaþjónustu í Reykjavík lögð fram að nýju ásamt umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands og Félagi eldri borgara í Reykjavík. Ennfremur lagt fram minnisblað um kostnaðarmat á breytingartillögu um tekjuviðmið í gjaldskrá.

Ennfremur lögð fram drög að gjaldskrá í félagslegri heimaþjónustu í Reykjavík.
Bjarni Karlsson tók sæti á fundinum kl. 16.20

Ennfremur lögð fram að nýju eftirfarandi breytingartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins:
Lagt er til að 2. gr. gjaldskrárinnar hljóði svo:
Undanþegnir gjaldskyldu eru þeir notendur sem einungis hafa tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði TR eða þar undir. Árið 2010 er framfærsluviðmiðið 180.000 fyrir þá sem búa einir og eru með heimilisuppbót og 153.500 kr. fyrir þá sem ekki búa einir.
Upphæðir munu hækka í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga.
Þeir notendur heimaþjónustu sem hafa tekjur umfram tekjur frá TR eða samsvarandi fjárhæð, greiða aldrei hærri upphæð fyrir þjónustu en sem nemur 50#PR af umframtekjum.
Þjónusta umfram 6 vinnustundir á mánuði á hvert heimili er endurgjaldslaus.

Breytingartillaga við aðaltillögu var borin upp til atkvæða.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Aðaltillagan var borin upp til atkvæða svo breytt.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Frá og með 1. janúar næstkomandi breytist gjaldskrá fyrir heimaþjónustu í Reykjavík þannig að nú verður öll persónuleg umönnunarþjónusta á vegum borgarinnar gjaldfrjáls. Það er réttlætismál að þeir sem þurfa aðstoð við venjubundin verkefni daglegs lífs þurfi ekki lengur að greiða gjald fyrir. Þetta er í samræmi við áherslur Reykjavíkurborgar um að íbúar geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum og allir hafi jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Þeir sem fá eingöngu þjónustu við þrif frá borginni munu framvegis greiða 1000 kr. fyrir hverja klukkustund sem samsvarar 50#PR kostnaðarþátttöku. Enginn mun þó greiða umfram 6 vinnustundir það er meira en 6000 krónur á mánuði. Áður greiddi fólk heimaþjónustu allt að 10 tímum á viku og því er um lækkun að ræða í mörgum tilfellum.
Þeir íbúar sem hafa einungis tekjur sem nema framfærsluviðmiðunum Tryggingastofnunar eða þar undir verða undanþegnir allri gjaldtöku fyrir heimaþjónustu og eru tekjuviðmið rýmkuð verulega frá því sem áður var m.a. til að koma á móts við athugasemdir ÖBÍ.
Ennfremur lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 2. desember s.l. um að óska eindregið eftir því að þeim tekjum sem renna munu í borgarsjóð vegna gjaldskrárhækkana á félagslegri heimaþjónustu verði veitt til málaflokksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráðsfulltrúi VG fagnar aðgreiningu í gjaldskrá milli þrifa og annars félagslegs stuðnings í félagslegri heimaþjónustu ef breytingarnar verða til þess að skerpa á áherslum og forgangsröðun í þjónustu. Það er löngu ljóst að hróplegt ósamræmi var í gjaldtöku félagslegrar heimaþjónustu annarsvegar og gjaldfrelsi heimahjúkrunar og kvöld og helgarþjónustu. Fulltrúi VG leggur þó ríka áherslu á að vel verði fylgst með því að umræddar breytingar verði ekki til þess að auka einangrun þeirra sem þurfa nauðsynlega á samveru og samtölum að halda.
Þau úrræði sem bókstaflega eru til þess að auðvelda fólki að vera lengur heima með aðstoð til daglegs lífs og fjarri stofnunum eiga að vera gjaldfrjáls því þau tilheyra ekki aðeins sjálfsögðum mannréttindum heldur eru þau einnig þjóðhaglega hagkvæm. Umræður um þessar breytingar hafa staðið í nokkur ár og fulltrúar hagsmunasamtaka hafa tekið þátt í henni. Það var þó fyrst á lokaspretti fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar að meirihlutinn lagði fram tillögu um að samfara breytingunum yrði gjaldtaka vegna þrifa aukin svo mikið að þegar upp yrði staðið mundi hún færa borgarsjóði 55 milljónir. Eitthvað hefur meirihlutanum fatast í útreikningum þar sem 55 milljónirnar eru nú orðnar 25. Það er samt sem áður sjálfsögð krafa að verði um að ræða tekjur vegna gjaldskrárhækkana vegna félagslegrar heimaþjónustu til þeirra sem vegna aldurs, sjúkdóma, fötlunar eða annarra aðstæðna þurfi á henni að halda, renni til málaflokksins. Stefna yfirvalda um að auðvelda fólki að vera lengur heima, hækkandi aldur íbúanna og sú staðreynd að sjúkrahús senda sjúklinga heim fyrr en áður gerir það að verkum að ummönnunarþáttur félagslegrar heimaþjónustu verður stöðugt meiri og kostnaðarsamari. Á sama tíma og þessar breytingar eiga sér stað er meirihlutinn í velferðaráði að tala fyrir gjaldskrárhækkunum sem eru þó nokkuð yfir þeim kröfum sem gerðar voru og munu bitna á þeim hópum sem hér er verið að fjalla um. Fulltrúi VG situr því hjá við afgreiðslu þessa máls.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Töluverð óvissa ríkir um það kostnaðarmat sem liggur til grundvallar breytingum á gjaldskrá í heimaþjónustu og því er ekki hægt að verða við tillögu fulltrúa VG. Við undirbúning fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 þarf hins vegar að skoða hvað hefur komið út úr þessum breytingum bæði hvað varðar tekjur og hvort þjónustan sem veitt er hefur breyst. Ef veruleg þróun verður í heimaþjónustunni t.d. með aukinni eftirspurn eftir persónulegri aðstoð mun það kalla á endurskoðun þar sem hægt verður að líta til mögulegs tekjuauka af gjaldskrá ef af verður. Að mati meirihlutans er óábyrgt að ráðstafa mögulegum tekjum áður en niðurstaða er fengin. Þetta telst því ekki fundið fé enda aðallega til þessara breytinga stofnað til að auka faglega þjónustu samanber umsögn Félags eldri borgara.

2. Yfirlit yfir styrkumsóknir til velferðarráðs fyrir árið 2011 lagt fram að nýju.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Farið yfir skipan starfshóps um styrki og þjónustusamninga sbr. reglur velferðarráðs um styrkúthlutanir.
Fulltrúi meirihlutans í starfshópnum verður Ágúst Már Garðarsson.
Fulltrúi minnihlutans í starfshópnum verður Sveinn Skúlason.
Einn fulltrúi Velferðarsviðs.
Fundi slitið kl. 17.35

Björk Vilhelmsdóttir
Ágúst Már Garðarsson Elsa Hrafnhildur Yeoman
Bjarni Karlsson Áslaug Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson