Velferðarráð - Fundur nr. 150

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 2. desember var haldinn 150. fundur s og hófst hann kl. 13.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Geir Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Lóa Birna Birgisdóttir, Sigtryggur Jónsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Tillaga og greinargerð um breytingu á reglum og uppbyggingu gjaldskrár í félagslegri heimaþjónustu í Reykjavík lögð fram að nýju ásamt umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands. Ennfremur lögð fram drög að gjaldskrá í félagslegri heimaþjónustu í Reykjavík.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksisns lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu:
Lagt er til að 2. gr. gjaldskrárinnar hljóði svo:
Undanþegnir gjaldskyldu eru þeir notendur sem einungis hafa tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði TR eða þar undir. Árið 2010 er framfærsluviðmiðið 180.000 fyrir þá sem búa einir og eru með heimilisuppbót og 153.500 kr. fyrir þá sem ekki búa einir.
Upphæðir munu hækka í samræmi við hækkanir á bótum almannatrygginga.
Frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Á síðasta fundi ráðsins óskaði fulltrúi Vinstri grænna eftir því að málinu yrði frestað og beðið um umsagnir Öryrkjabandalags Íslands og Félags eldri borgara í Reykjavík. Aðeins hefur vika liðið á milli funda en umsögn hefur borist frá Öryrkjabandalagi Íslands sem verður til þess að tillögunni sem lá fyrir hefur verið breytt. Lagt er til að beðið verði eftir umsögn Félags eldri borgara.
Samþykkt.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fallist er á að fresta afgreiðslu gjaldskrár vegna heimaþjónustu m.a. þar sem það á eftir að kostnaðarmeta áhrif ívilnandi breytingartillögu frá fulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð óskar eindregið eftir því að þeim tekjum sem renna munu í borgarsjóð vegna gjaldskrárhækkana á félagslegri heimaþjónustu verði veitt til málaflokksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.

2. Áfangaskýrsla starfshóps um fátækt í Reykjavík lögð fram að nýju. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Starfshópur um fátækt fékk það ákveðna verkefni frá velferðarráði 30. júní sl. að kortleggja fjölda og aðstæður þeirra Reykvíkinga sem búa við fátækt. Sviðsstjóri afhenti hópnum síðan erindisbréf en þar er gert ráð fyrir að „hópurinn starfi frá ágúst 2010 – janúar 2011 en skili áfangaskýrslu og tillögum um fyrstu aðgerðir til velferðarráðs eigi síðar en 1. október 2010“. Um leið var Bjarni Karlsson skipaður hópstjóri.
Það var öllum í velferðarráði ljóst að ástæðan fyrir því að hópurinn átti að skila tillögum fyrir 1. október var sú að þær átti að nota við gerð fjárhagsáætlunar og þá sérstaklega með tilliti til loforða meirihluta borgarstjórnar um að færa notendur fjárhagsaðstoðar upp fyrir lágtekjumörk. Það var því undarleg staða fyrir hópinn í miðjum klíðum vinnunnar, þegar haft var eftir formanni velferðarráðs í fjölmiðlum að ekki væri hægt að efna loforðið, vegna þess að þá komi kostnaður vegna atvinnulausra að hluta einnig á borgina. Enn undarlegra var að frétta það að á sama fundi og skýrsla hópsins átti fyrst að leggjast fram í velferðarráði væri lögð fram tillaga meirihlutans sem byggð var á vinnu sem ekki hafði verið lögð fyrir starfshópinn.
Starfshópur sem þessi á ekki að geta breytt verkefni sínu upp á sitt einsdæmi en hann getur að sjálfsögðu gert um það tillögu til velferðarráðs eins og gert er nú. Í skýrslunni segir um hópinn að „vinna hans muni best nýtast fátækum Reykvíkingum ef hann fái áfram að safna upplýsingum án þess að vera knúinn í tillögugerð“. Þetta rímar við það að starfshópurinn lagði ekki fram tillögur eins og hann átti að gera, 1. október og að mati velferðarráðsfulltrúa VG ætti hópurinn því í raun að skila af sér með þessari skýrslu. Það væri síðan velferðarráðs að meta það, hvort skipa eigi nýjan hóp og þá hvernig hann verði mannaður. Það er í sjálfu sér ofrausn að nú séu með hópnum tveir starfmenn þjóðkirkjunnar en enginn fulltrúi annarra hjálparsamtaka og það væri vafalaust til bóta að fá aðila frá Börnin í borginni, Velferðarvaktinni og Félagsbústöðum með í starfið.
Fulltrúi VG hefur gert ýmsar skriflegar athugasemdir við skýrsluna og óskar eftir því að þeim verði haldið til haga. Það er til að mynda ekki gefin rétt mynd af starfinu þegar sagt er „hópurinn telur sig ekki hafa forsendur til að leggja fram útfærðar tillögur að bráðaaðgerðum í þágu fátækra þar sem hann væri þá stiginn út úr því skapandi samtali sem fram hefur farið innan starfshópsins og inn á spennusvið stjórnmála.“ Hið rétta er að mikið af tíma hópsins hefur farið í að ræða tillögur sem tilheyra „spennusviði stjórnmálanna“ Fulltrúi VG lagði til að mynda, fljótlega fram tillögur um ákveðnar aðgerðir sem ekki náðist sátt um.
Það er skoðun velferðarráðsfulltrúa VG að í samfélagi okkar sé umræða um fátæktina sjaldan lausnarmiðuð. Rætt er um vandamálin, hring eftir hring, haldnar ráðstefnur og fundir og skrifaðar lærðar greinar og bækur og lítið gerist á meðan það liggur í augum uppi að ef fundið er sanngjarnt lágmarks framfærsluviðmið og öll laun, hvort sem um væri að ræða lágmarkslaun, lífeyrir, framfærslustyrkir eða bætur eru færð upp fyrir það þá er vandamálið mun minna. Viljinn er allt sem þarf. Það er til nóg af peningum í landinu, vandamálið er mikil og vaxandi misskipting.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í starfshópi um fátækt telur að ýmislegt hafi betur mátt fara í störfum hópsins. Þær hugmyndir fulltrúa Sjálfstæðisfokksins sem sendar voru inn til hópsins og óskað að yrðu ræddar voru sniðgengnar þrátt fyrir að hafa átt fullt erindi inn í umræðuna. Fyrir liggur að hópurinn mun halda áfram störfum og vilji sagður vera til þess að færa vinnubrögðin til hins betra. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hópnum áskilur sér þann rétt að leggja til að skýrslan taki aðra stefnu síðar meir og þeir þættir sem áform eru um sem að skoða enn frekar verði endurskoðaðir og þeim fjölgað ef svo ber undir.

3. Könnun um álag meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2010 kynnt.
Starfsmannastjóri Velferðarsviðs gerði grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að gerð verði sambærileg könnun um álag meðal notenda eða þeirra sem fá fjárhagsaðstoð regulega svo fylgjast megi með þróun yfir tíma. Áhugavert væri að fá upplýsingar um þá þætti sem mældir eru í könnunum sem þessum fyrir þann hóp og geta gefið góða innsýn inn í aðstæður skjólstæðinga Velferðarsviðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja visa málinu til starfshóps um fátækt.

4. Forvarnir, tillaga að úthlutun styrkja samráðshóps um forvarnir. Ennfremur lagðar fram til kynningar reglur um styrkúthlutanir úr forvarnasjóði Reykjavíkurborgar.
Stefanía Sörheller, verkefnisstjóri, sat fundinn undir þessum lið og gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt.

Geir Sveinsson vék af fundi kl.16.10.
Jórunn Frímannsdóttir tók sæti á fundinum kl. 16.10.

5. Þjónustusamningur vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og leigusamningur um húsnæðið lagður fram ásamt umsögn fjármálastjóra borgarinnar.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt var að fresta málinu.

6. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 7. október 2010 um að leggja til að samningar og reynsla Velferðarsviðs af samstarfi við Samhjálp verði tekin á dagskrá á næsta fundi ráðsins.

Tillaga fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Velferðarráð samþykkir að taka saman fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að Reykjavíkurborg reki núverandi úrræði fyrir utangarðsfólk og alvarlega veika fíkla, eða að aðrir aðilar geri það með þjónustusamningum við borgina. Sérstaklega verði litið til reynslu af samstarfi við Samhjálp sem nú rekur Gistiskýlið og heimili fyrir þennan hóp og SÁÁ sem rekur búsetuúrræði með félagslegum stuðningi. Nýlegar úttektir á Gistiskýlinu, Smáhýsunum og búsetuúrræði með félagslegum stuðningi verði hafðar að leiðarljósi, svo og annað sem varpað getur ljósi á hvernig best og hagkvæmast er að veita þessum hópi viðeigandi þjónustu
Málinu er frestað.

7. Yfirlit yfir styrkumsóknir til velferðarráðs fyrir árið 2011 lagt fram.
Formaður gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað.

8. Bókhaldsstaða janúar – september 2010 lögð fram ásamt greinargerð.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

9. Framvinda undirbúnings á málefnum fatlaðra.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

10. Úttekt á Gistiskýlinu lögð fram ásamt tillögu um breyttan opnunartíma Gistiskýlisins.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi viðbótartillögu:
Við tillögu um opnunartíma Gistiskýlisins bætist: „Forstöðumaður sjái til þess að veikir einstaklingar sem ekki fara á spítala fái að vera í herbergjum eins og þurfa þykir meðan á veikindum hans stendur.“
Frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi viðbótartillögu:
Velferðarráð felur Velferðarsviði að hefja þegar handa við að finna hentugra húsnæði fyrir gistiskýli borgarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi viðbótartillögu:
Velferðarráð felur Velferðarsviði að hefja þegar undirbúning þess að Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða taki við rekstri Gistiskýlisins.
Frestað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði þakkar aðgengilega úttekt á Gistiskýlinu. Eftir lesturinn og kynnisferð í húsið er það mat velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna að brýn nauðsyn sé á að Velferðarsvið taki við úrræðinu og því fundinn hentugri staður.

Það sætir furðu að í annars vandaðri skýrslu skuli engar athugasemdir vera gerðar við húsnæðið sjálft. Um er að ræða hús sem var upphaflega byggt sem spítali árið 1884 og er barn síns tíma, byggt úr timbri með þrönga og bratta stiga og klætt að innan að hluta til með striga og pappa. Eldhætta í húsi sem þessu er því talsverð en í skýrslunni er greint frá því að „ ólykt væri í húsinu“ og hún kæmi að hluta til „vegna reykinga innanhúss“ og ennfremur er greint frá því að það hafi „mörg tilfelli komið upp þar sem gluggar hefðu verið brotnir af notendum sem ekki hefði verið hleypt inn af þeirri ástæðu að þeir hafi verið að koma eftir miðnætti“. Þröngir og brattir stigar myndu, ef eldsvoða bæri að höndum hamla því að rýming hússins gengi vel en hafa ber það í huga að þeir sem það gista eru veikir menn sem sumir sofa stundum á stigapöllum. Það er því ljóst að húsnæðið sem slíkt getur varla talist ákjósanlegur kostur fyrir viðkvæmt velferðarúrræði á 21. öldinni en við þetta hefur velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna ítrekað gert athugasemdir.

Þegar skýrslan er rýnd, fer það ekki á milli mála að starfsfólk Velferðarsviðs telur að starfsemin sé ekki fagleg. Þeir „bentu á að Gistiskýlið væri mannað af starfsmönnum sem væru ekki fagmenntaðir“ og „starfsmenn Gistiskýlisins væru sumir hverjir ekki nóg langt komnir í sínum eigin bata“ „Þeir væru kannski sjálfir nýhættir í neyslu. Starfsfólk Velferðarsviðs segir um samstarfið við Samhjálp að því finnist „sem fagaðila erfitt að gera faglegar kröfur á starfsfólk og rekstraraðila, sem hafa ekki til þess menntun eða reynslu“ og „Gistiskýlið þurfi á sterkum starfsmannahóp að halda þar sem notendahópurinn geti verið mjög erfiður.“ Starfsfólk Velferðarsviðs tekur það fram að „ starfsmenn Gistiskýlisins væru allir af vilja gerðir og létu sér annt um notendur skýlisins. Hins vegar væri hugsanlegt að óöryggi og hræðsla starfsmanna við ákveðna notendur spilaði inn í samskipti þeirra við þá.“ Viðmælendurnir úr röðum starfsmanna Samhjálpar „höfðu ekki kynnt sér mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar frá árinu 2006.“ „Starfsmenn og forstöðumaður Gistiskýlisins höfðu ekki kynnt sér stefnuna og fagaðilarnir sögðust ekki geta svarað því hvort starfsmenn Gistiskýlisins og yfirstjórn færi eftir þeim sjónarmiðum sem þar væru sett fram við rekstur skýlisins.“

Í skýrslunni segir „ að sögn framkvæmdastjórans ( þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða) hefur hann þurft nokkuð oft að ræða um það hvernig hús– og verklagsreglum er framfylgt í Gistiskýlinu, jafnframt hefði hann þurft að ræða við stjórnendur Samhjálpar um framkomu starfsmanna við notendur.“ Fagaðilar töldu jafnframt að „ekki væri farið nægjanlega eftir verklagi um brottvísanir: notendum skýlisins væri mismunað og mönnum vísað út til lengri tíma.“ Og einn viðmælendanna benti á að það væri „mótsagnakennt að reka einstaklinga úr úrræði sem hafa engan annan stað til að fara á.“ „Sem dæmi var talað um að mönnum hefði verið vísað út til lengri tíma en einnar nætur en það væri ekki í samræmi við verklagsreglurnar. „ Starfsfólk Velferðarsviðs fullyrðir að „Það að starfsmenn taki upp hjá sjálfum sér að neita um gistingu ef notendur koma eftir miðnætti væri jafnframt ekki leyfilegt enda stæði ekkert um það í samningum eða hús– eða verklagsreglum.“

Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna tekur undir með því starfsfólki Velferðarsviðs sem lætur hafa eftir sér í skýrslunni að það vanti að „að Gistiskýlið sé í takt við ný úrræði eins og til dæmis smáhýsin og búsetuúrræðið á Njálsgötu sem við erum mjög ánægð með“ og „hefur alltaf fundist skrítið að Reykjavíkurborg hafi gert þetta samkomulag við Samhjálp. Ég myndi vilja sjá Reykjavíkurborg reka Gistiskýlið með starfsfólki/fagfólki sem þekkir til málaflokksins.“

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins þakkar fyrir góða skýrslu sem gefur skýra mynd af starfsemi Gistiskýlisins. Í henni koma fram sjónarmið starfsmanna, notenda og starfsfólks Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, og þegar allt er tekið saman lýsir skýrslan ágætis starfsemi þó með ýmsum vanköntum. Margir þeirra vankanta eru leystir á meðan skýrslan er unnin eins og kemur fram um tvöföldun vakta sem nú er staðfest í velferðarráði. Meirihluti velferðarráðs varar við því að ein hlið skýrslunnar sé dregin út úr henni og gert hærra undir höfði en öðrum, slíkt gefur ranga mynd af mjög viðkvæmri starfsemi sem varðar líf utangarðsmanna í Reykjavík

11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 18. nóvember sl. um að velferðarráð samþykki að vinna enn frekar að því markmiði að aðstoða fólk á fjárhagsaðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn með viðeigandi stuðningi eða í annað viðeigandi úrræði en fjárhagsaðstoð.
Frestað.
Óskað er eftir minnisblaði frá Velferðarsviði um þá möguleika sem felast í framlagðri tillögu.

12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi velferðarráðs 18. nóvember sl. um að stofnaður verði starfshópur sem skili hugmyndum og tillögum til ráðsins um hvernig auka megi aðgengi hugsjónafólks og fólks með hugmyndir um nýjungar í rekstri að velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar.
Málinu er frestað.

13. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að Velferðarsviði verði falið að útfæra í tilraunaverkefni til tíu mánaða með einu hjúkrunarheimili borgarinnar um að taka að sér alla heimaþjónustu innan skilgreinds hverfis kringum heimilið. Lagt er til að þegar verði unnið að því að koma svona verkefni í gang og miðað við að heimilið taki yfir þjónustuna þann 1. mars næstkomandi.
Málinu er frestað.

Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 17.40

Fundi slitið kl. 18.20

Björk Vilhelmsdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Ágúst Már Garðarsson
Bjarni Karlsson Áslaug Friðriksdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson