Velferðarráð - Fundur nr. 148

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 18. nóvember, var haldinn 148. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Geir Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fjárhagsáætlun 2011.
Lögð fram greinargerð um helstu þætti í fjárhagsáætlun Velferðarsviðs 2011 og samantekt yfir framlögð gögn og ferli vegna vinnu við fjárhagsáætlun.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Málinu er vísað til borgarráðs.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Velferðarsviðs árið 2011 er sanngjörn. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði þakka starfsfólki Velferðarsviðs þá vinnu og alúð sem það hefur lagt af mörkum við gerð fjárhagsáætlunarinnar og eins öllum fulltrúum í ráðinu fyrir samráð og þátttöku í stefnumótun, allt frá því í sumar. Það er mat okkar að þær tillögur að breytingum sem hér eru lagðar til, séu sanngjarnar og vel unnar þar sem tekið hefur verið tillit til fjölmargra sjónarmiða en faglegt mat starfsmanna ráðið mestu, jafnframt því sem tekið hefur verið mið af pólitískri stefnumörkum ráðsins. Í fjárhagsáætlun næsta árs er sama krónutala til ráðstöfunar á Velferðarsviði og er á þessu ári. Í áætluninni eru gerðar ýmsar breytingar og tilfærslur innan sviðsins til að mæta aukinni aðsókn borgarbúa á þjónustumiðstöðvar vegna margvíslegs vanda, fjölgunar í ferðaþjónustu fatlaðra, aukinnar þjónustu í Gistiskýlinu, barnavernd og fleira. Til að mæta þessum viðbótum þarf að forgangsraða upp á nýtt. Ekki eru allar breytingar tilkomnar vegna þarfar á fjármunum á öðrum stöðum. Í sumum tilfellum er verið að þróa þjónustu í átt að nýrri hugmyndafræði, þar sem þjónustan verður ódýrari. Aðrar tillögur eru viðkvæmar gagnvart einstökum hópum, og því er framundan mikilvægt samráð þar sem farið verður í útfærslur á þjónustunni með þeim sem hennar njóta. Sátt þarf að vera um velferðarþjónustu og velferðarútgjöld. Það væri ekki sanngjarnt þegar veittar eru hundruð milljóna viðbætur til að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í samfélaginu, að við værum ekki tilbúin að spara þar sem það er hægt í því skyni að bæta þjónustu þar sem mjög brýn ástæða er til. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði er þakklátur fyrir það fjármagn sem veitt er til velferðarmála úr borgarsjóði og einsetur sér að bregðast ekki trúnaði borgarbúa en tryggja góða nýtingu fjárins.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði þakkar starfsfólki Velferðarsviðs fyrir mikið og erfitt starf i þágu borgarbúa. Í tillögum meirihlutans að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 sem hér liggja frammi er gert ráð fyrir talsverðum niðurskurði og er þetta þá þriðja árið í röð sem skorið er niður á málaflokkinn. Það má því segja að verið sé að skera inn í bein, með auknu álagi á starfsfólk sem þar að auki hefur orðið að taka á sig launalækkanir. Eins og ítrekað hefur komið fram hefur það ekki verið til að auðvelda vinnu við gerð fjárhagáætlunar að tímaáætlanir meirihlutans hafa reynst orðin tóm, skilaboðin óljós og ómarkviss og gögn borist seint og illa. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hefur ekki kynnst eins slæmum vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar og nú. Það er bagalegt að nú sem og á síðustu árum hefur skort yfirsýn meðal fulltrúa í fagráðum um heildarmynd fjárhagsáætlunar. Þetta heftir það sem mestu máli skiptir, umræðu um forgangsröðun á milli sviða. Í leiðarljósi meirihlutans sem kom seint og um síðir segir að það sé „ forgangs-verkefni að verja velferðarkerfið og þjónustu við börn og unglinga“. Þetta rímar ekki við áherslu borgarstjóra í gjaldskrármálum en þar eru öll sviðin nánast með jafnmikla gjaldskrárhækkunarkröfu hvort sem um er að ræða byggingar eða börn. Það liggur ekki ennþá fyrir hvort meirihlutinn kýs að fullnýta útsvarsheimild borgarinnar en þegar hefur verið ákveðið að leggja á jaðarskatta í formi gjaldskrárhækkana, enda ljóst að gjaldtaka fyrir grunnþjónustu er skattur. Leik- og grunnskólar, frístundaheimili og velferðarþjónusta er ekki val og því er meirihlutinn að leggja auknar byrðar á það fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda - sem í mjög mörgum tilfellum er fólkið sem minnst hefur.Það liggur ekki fyrir hvort um verði að ræða fækkun starfsfólks á sviðinu en það er ljóst að miðað við þann þrönga ramma sem gefinn er má búast við því að á árinu 2011 verði ekki í öllum tilvikum staðinn vörður um störfin eða ráðið inn í störf sem losna þó að þörf sé á ráðningu þar sem fjármagn verði ekki til staðar. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði áskilur sér rétt til að taka áframhaldandi þátt í gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar með það að meginmarkmiði að verja velferðina.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftifarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði þakka starfsmönnum Velferðarsviðs mikla vinnu vegna fjárhagsáætlunar 2011. Velferðarráð fær ekki á sig hagræðingarkröfu eins og önnur svið borgarinnar og tekjur vegna bundinna liða aukast verulega á næsta ári sérstaklega vegna áætlaðra hækkunar Samfylkingarinnar og Besta flokksins á fjárhagsaðstoð sem er umhugsunarverð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði telja að betur hefði þurft að standa að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar eigi hún að skila borgarbúum góðum og farsælum lausnum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki stutt fyrirliggjandi áætlanir þegar skýra forgangsröðun skortir, engin aðgerðaráætlun er í gildi og fundir aðgerðarhóps tilviljanakenndir. Nægileg yfirsýn liggur því ekki fyrir svo hægt sé að taka nægilega upplýstar ákvarðanir. Varðandi einstakar tillögur um hagræðingu innan ramma eru margir þættir og framkvæmd ákveðinna aðgerða óljós þrátt fyrir mikla vinnu sviðsins, s.s. hvernig breytingum á félagsstarfi aldraðra verður háttað og hvernig verður farið í lækkun almennra styrkja og þjónustusamninga. Þetta skýrist fyrst og fremst vegna þess að vinna við fjárhagsáætlun hefur verið allt of seint á ferðinni og eins og áður sagði að skýr stefnumörkun hefur ekki verið lögð fram fyrir borgina í heild. Þá er búist við miklum útgjaldaauka Velferðarsviðs vegna hækkunar á fjárhagsaðstoð og fjölgun bótaþega eða um 680 milljónir sem borgarráð á enn eftir að fjalla um og taka afstöðu til. Í þessu samhengi er mikilvægt að nefna að Reykjavíkurborg stendur nú frammi fyrir að hagræða um 4,5 milljarða og aðeins 700 milljónir af þeirri tölu eru vegna tekjutaps. Önnur hagræðing þarf að verða vegna viðbótarþjónustu, reksturs og gjaldskrárhækkana. Gjaldskrárhækkanir þær sem fyrir liggja eru þannig úr garði gerðar að engin leið er að taka afstöðu til þeirra og engan veginn skýrt hvaða forsendur eru að baki breytingum. Að auki telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að verulega skorti vinnu við að koma auga á lausnir sem raunverulega skila þeim árangri að hjálpa fólki af fjárhagsaðstoð s.s.virkniúrræði sem miða markvisst að því að fækka fólki sem þarf fjárhagsaðstoð til lengri tíma og um leið og bótaþegum fjölgar sé minna rými til að veita þeim sem mesta félagslega erfiðleika hafa betri þjónustu og meiri hjálp.

2. Áfangaskýrsla starfshóps um fátækt í Reykjavík, nóvember 2010 lögð fram.
Málinu er frestað.

3. Framvinda undirbúnings á málefnum fatlaðra – tillaga að framtíðarsýn í málefnum fatlaðra lögð fram.
Málinu er frestað.

4. Úttekt á Gistiskýlinu lögð fram ásamt tillögu um breyttan opnunartíma Gistiskýlisins.
Málinu er frestað.

5. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 7. október 2010.
Lagt er til að samningar og reynsla Velferðarsviðs af samstarfi við Samhjálp verði tekin á dagskrá á næsta fundi ráðsins.
Málinu er frestað.

6. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

7. Lykiltölur janúar – september 2010
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

8. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. nóvember 2010, þess efnis að Jórunn Frímannsdóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Óskars Arnar Guðbrandssonar.

9. Svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá fundi velferðarráðs 4. nóvember s.l.
Málinu er frestað.

10. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:
a) Má ætla að fjárhagsáætlanir velferðarráðs hafi í för með sér fækkun á fastráðnu starfsfólki sviðsins og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf er að ræða?
b) Má ætla að fjárhagsáætlun sviðsins hafi í för með sér að tímabundnir ráðningarsamningar verði ekki endurnýjaðir og ef svo er, hversu margir og um hvaða störf er að ræða?
c) Má ætla að fjárhagsáætlun sviðsins hafi í för með sér fækkun á sumarstörfum og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf er að ræða?
d) Stendur til að lækka almennra styrkja og þjónustusamninga og sé svo, um hvaða styrki og samninga væri að ræða og hvað verður lækkunin mikil á hvern fyrir sig?
e) Stendur til að spara í liðveislu og sé svo hver verður sparnaðurinn og er það fullvíst að allir njóti betri liðveislu?
f) Stendur til að spara í félagsstarfi aldraðra og sé svo, hversu mikið og hvernig verður starfinu háttað?
g) Hefur meirihlutinn endurmetið tillögur fulltrúa VG frá síðasta kjörtímabili um það að ÍTR taki við félagsstarfi aldraðra?
h) Stendur til að lækka niðurgreiðslu í strætó fyrir aldraða og öryrkja og sé svo, hvað verður gjaldið fyrir einstakling úr umræddum hópum?
i) Stendur til að lækka niðurgreiðslu v/ferða eldri borgara í sund og sé svo, hvernig verður sú skerðing og verður einhverju leiti tekið tillit til efnahags hvers einstaklings fyrir sig?
j) Stendur til að fækka gjaldfrjálsum eða leggja á aukagjald vegna akstursþjónustu aldraðra og sé svo, gæti það orðið til þess að notendur einangrist frekar?
k) Munu gjaldskrár sviðsins hækka meira en 5,35#PR og sé svo, hver er ástæðan fyrir því og hversu há verður meðaltalshækkunin ?

11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að velferðarráð samþykki að vinna enn frekar að því markmiði að aðstoða fólk á fjárhagsaðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn með viðeigandi stuðningi eða í annað viðeigandi úrræði en fjárhagsaðstoð. Í starfsáætlun Velferðarsviðs er fjallað um virkniúrræði. Lagt er til að til viðbótar því sem þar kemur fram verði eftirfarandi kostnaðarmetið og svo lagt fyrir ráðið til umræðu og samþykktar.
1) Ásamt því að halda áfram að kortleggja þarfir þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð með því markmiði að fá yfirsýn yfir það hverjir séu tilbúnir til að nýta virknitilboð og hverjir geti ekki nýtt tilboð um virkni skal safna almennum upplýsingum um bakgrunn, menntun o.fl. en einnig lögð áhersla á að safna upplýsingum sem gefa innsýn inn í áhugamál, getu og hæfni einstaklinga. Slík þarfagreining yrði notuð til að sníða verkefni og námskeið sem svaraði þörfum einstaklinga með skilvirkum hætti. Niðurstöðu þarfagreiningarinnar skal nota til að auglýsa eftir úrræðum sem svara ólíkum þörfum einstaklinga í hvaða formi sem er (t.d. námskeiða, vinnustofa, fyrirlestra, markþjálfunar o.s.frv.). Bæði til að auka færni til þátttöku á vinnumarkaði en einnig til að auka virkni eða bæta sjálfsmynd.
2) Útbúið verði svokallað “virknikort”, ekkert ósvipað og frístundarkort. Viðkomandi notar kortið í það sem honum finnst klárlega áhugavert og er á hans sviði. Ekki þarf því alltaf að setja í gang námskeið sem er alltaf háð einhverjum lágmarksfjölda. Þarna yrði horft til þess að nýta úrræði sem í boði eru eins og til dæmis hjá EHÍ, Opna Háskólanum og fleiri aðilum. Hver og einn getur þannig fundið eitthvað við sitt hæfi og þarf ekki að upplifa eins og hann sé á einhverju sérstöku námskeiði sem er sérstaklega sett upp fyrir atvinnulausa á fjárhagsaðstoð.
3) Hefja innleiðingu verkefnis sem miðar að því að fá fólk á fjárhagsaðstoð til að vinna að áætlunum um hvernig það geti nýtt eigin getu og færni á vinnumarkaði eða til hjálpar öðrum sem um leið verður atvinnuskapandi og eykur möguleika fólks á að komast af fjárhagsaðstoðinni. Megináherslan verður að unnið sé á grundvelli frumkvæðis einstaklinganna sjálfra, þ.e. að þeir komi sjálfir með hugmyndir og lausnir sem unnið verði út frá. Skoðaðar verði hugmyndir um að útvega aðstöðu fyrir þá sem taka þátt í þessum verkefnum þar sem hægt er að komast í tölvur og síma og jafnvel nýta ónýtt húsnæði í eigu borgarinnar og hitta ráðgjafa sér til aðstoðar og leiðbeiningar.
4) Að innleiða rými í fjárhagsaðstoðarreglur til að geta veitt sérstaka uppbót eða umbun vilji einstaklingar taka þátt í virkniverkefnum, greiða mótframlag fái viðkomandi atvinnutilboð þar sem gert er ráð fyrir mótframlagi t.d. að skoða sambærilega möguleika að vinnusamninga Vinnumiðlunar ríkisins.
5) Þróa virknibraut eða starfsbraut sem felur í sér að hægt sé að ráða atvinnulausa á fjárhagsaðstoð í vinnu við eigin atvinnuleit eða við að hjálpa öðrum. Unnið verði að því að finna 20-30 störf hjá Reykjavíkurborg og öðrum fyrirtækjum sem miða að því að rjúfa langtíma óvirkni og atvinnuleysi.
Virkniráðgjafar hafi umsjón með virknibrautinni sem og öðrum ofangreindum liðum.

Málinu er frestað til næsta fundar.

12. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem skili hugmyndum og tillögum til ráðsins um hvernig auka megi aðgengi hugsjónafólks og fólks með hugmyndir um nýjungar í rekstri að velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Niðurstöður liggi fyrir í febrúar og á þeim verði byggt þegar rekstur á sviðinu verður endurskoðaður í samræmi við fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2011. Mikilvægt er að opinber þjónusta og þar með talin velferðarþjónusta taki sífelldum breytingum eftir þörfum og aðstæðum þeirra sem njóta hennar. Með sífelldri endurskoðun og tilraunum um hvernig þjónustan er veitt skapast tækifæri til að veita enn betri þjónustu og tækifæri til að nýta fjármagn enn betur en gert er. Slík vinna á bæði að fara fram með samráði við notendur en einnig með því að kalla eftir hugmyndum þeirra sem vildu hugsanlega taka að sér rekstur þjónustueininga eða afmarkaðra verkefna. Ekki er hægt að ganga út frá því að nýjar hugmyndir búi allar innan kerfisins sjálfs eins og það er rekið í dag. Mikilvægt er að óska eftir hugmyndum til dæmis með að bjóða þjónustuna út, með þeim skilyrðum að lagðar séu fram hugmyndir um nýsköpun í rekstrinum. Hvetja þarf til fjölbreytileika í úrræðum og aðferðum og þess að hugsjónafólk um bætta velferðarþjónustu fái tækifæri til nýsköpunar.

Málinu er frestað til næsta fundar.

Fundi slitið kl. 16.55

Björk Vilhelmsdóttir formaður
Elsa Hrafnhildur Yeoman Ágúst Már Garðarsson
Bjarni Karlsson Geir Sveinsson
Áslaug Friðriksdóttir Þorleifur Gunnlaugsson