Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2010, miðvikudaginn 17. nóvember, var haldinn 147. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 18.25 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ágúst Már Garðarsson, Hanna Lára Steinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að starfsáætlun Velferðarsviðs fyrir árið 2011.
Sviðsstjóri kynnti helstu áherslur í starfsáætluninni.
Geir Sveinsson mætti á fundinn kl. 18.45.
Samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði vekur sérstaka athygli á því að í greinargerð með tillögu um greiningu á stöðu barna í alvarlegum fjárhagsvanda sem samþykkt var á síðasta fundi ráðsins er sérstaklega tekið fram að greiningin verði gerð í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og sérstaklega verði brugðist við þörfum barnanna. Hvorugt kemur fram í starfsáætlun sviðsins og veldur það áhyggjum. Fulltrúi Vinstri grænna leggur á það ríka áherslu að þessari ákvörðun ráðsins verði framfylgt.
2. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2011. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 10. nóvember varðandi fjárhagsramma 2011. Tillögur að breytingum á gjaldskrám Velferðarsviðs sem taka gildi 1. janúar 2011 kynntar.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til 18. nóvember 2010.
Elsa Hrafnhildur Yeoman vék af fundi kl. 19.15 Haukur Jóhannsson tók sæti á fundinum kl. 19.15.
3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs þann 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að fjárhagsaðstoð verði hækkuð frá og með næstu mánaðamótum. Hækkunin taki mið af lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2009 þar sem lágtekjumörkin voru metin kr. 160.800 í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling. Litið verði á þá upphæð sem lágmark.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Umsnúningur Besta flokksins og Samfylkingarinnar í velferðarráði er slíkur að ekki er hægt að tala um annað en svik við gefin fyrirheit til fátæks fólks. Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar frá því í vor segir: „ Stefnt verði að því að tryggja að samanlögð fjárhags- og húsnæðisaðstoð nái lágtekjumörkum Hagstofunnar sem eru nú 160.800 kr. á mánuði.“ Þann 30 júní sl. fengu flokkarnir síðan samþykkt í ráðinu að gert yrði „kostnaðarmat á því að koma Reykvíkingum sem lifa á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins upp yfir lágtekjumörk.“ Þegar Sjálfstæðismenn bókuðu af þessu tilefni: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eigi ekki að vera hærri en lágmarkslaun.“ svöruðu fulltrúar flokkanna tveggja ásamt fulltrúa Vinstri grænna svona: „Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa ríkan skilning á vanda lágtekjufólks, hvaðan sem tekjur þeirra koma. Ekkert réttlætir að stilla upp lágtekjuhópum hvor gagnvart öðrum“ og „Þetta er aðeins lítið og fyrsta skref í átt að því að vinna gegn þeim ójöfnuði sem ríkir í okkar samfélagi.“Þann 7. júlí sl. þegar tillaga Vinstri grænna um sumaruppbót til fátækra var samþykkt á aukafundi í ráðinu bókuðu fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna:
„ Það er afleitt að hér á landi skuli hundruð einstaklinga þurfa að leita til hjálparsamtaka í viku hverri til að þiggja matargjafir. Það fer því ekki á milli mála að lægstu laun, hvort sem um er að ræða laun á vinnumarkaði eða bætur hins opinbera eru of lág.“ og „Nú vinnur velferðarráð að því að finna leiðir til að koma fólki sem lifir á fjárhagsaðstoð upp fyrir lágtekjumörk, og einnig er byrjað að vinna að tillögum um hvernig borgin getur á ýmsan annan hátt bætt kjör fátækra Reykvíkinga“ Eins og sést þegar umræddar fundargerðir ráðsins eru lesnar er tillaga velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna í samræmi við málflutning meirihluta ráðsins sem er nú að ganga á bak orða sinna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar frá því í vor er lagt til að koma fólki yfir lágtekjumörk. Það er stefnan. Samt greiða fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar atkvæði gegn tillögu Vinstri grænna og vísa til eigin tillögu um verulega hækkun fjárhagsaðstoðar til einstaklinga sem reka heimili og til barnafjölskyldna. Að tala um svikin fyrirheit og að ganga á bak orða sinna þegar við leggjum til 19#PR hækkun og útgjöld einungis vegna hækkunar eru a.m.k. 350 milljónir kr. á næsta ári, er málflutningur sem ekki er tekið undir. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar er í raun þakklátur fyrir að koma þessu í gegn við þær aðstæður sem eru í fjármálum borgarinnar. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögu okkar er ekki hægt að hækka ráðstöfunartekjur fólks upp að lágtekjumörkum þar sem borgin verður þá komin með á framfæri þúsundir atvinnulausra Reykvíkinga sem eru undir þessum mörkum. Það er von okkar að á þeim fjórum árum sem samstarfsyfirlýsingin tekur til, þá munum við ná því markmiði að koma Reykvíkingum yfir lágtekjumörk. Nú höfum við tekið fyrsta skrefið – aðrir þurfa einnig að taka stór skref.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna telur að íslenskt samfélag sé að breytast úr því sem kalla má velferðarsamfélag í ölmususamfélag. Við svo búið má ekki standa og það er því brýnasta verkefni borgarstjórnar að forgangsraða fjármunum þannig að skjólstæðingar hennar fái lifað með reisn, hafi í sig og á og þak yfir höfuðið.
4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs þann 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að fjárhagsaðstoð verði ekki skert ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða. Reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt í þessa veru og taki breytingin gildi um næstu áramót.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði vill tengja fjárhagsaðstoð við lágtekjumörk, eins og stefna Besta flokksins og Samfylkingarinnar er samkvæmt samstarfssamningi flokkanna. Í skilgreiningum á lágtekjumörkum er tekið tillit til fjölskyldustærðar og hagkvæmni í rekstri þar sem fleiri en einn búa undir sama þaki. Hjón og sambúðarfólk eru samkvæmt þessum skilgreiningum með einn og hálfan kvarða og er gert ráð fyrir því í nýjum reglum um fjárhagsaðstoð. Einnig er gert ráð fyrir að aðrir fullorðnir sem búa saman hafi sama hagræði af búsetu hvor með öðrum. Bent skal á að Tryggingastofnun ríkisins og Lánasjóður íslenskra námsmanna gera einnig ráð fyrir hagræði af búsetu með öðrum í sínum framfærsluútreikningum. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar hafna því tillögu Vinstri grænna á þessum forsendum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Þó svo að aðrir fari þessa leið er hún í þessu tilfelli hvati til undirheimaveraldar hjónaskilnaða, sambúðarslita og þess að fólk skrái sig til heimilis annars staðar en það býr. Þessu til sönnunar er staðan núna þannig að einungis 20 pör á fjárhagsaðstoð eru skráð hjón eða í sambúð. Sömuleiðis munu tillögurnar, nái þær fram að ganga, hindra fátækt fólk í viðleitni til að gera lífið bærilegra með hagræðingu sem byggir á samvinnu og samnýtingu húsnæðis.
5. Tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins frá 4. nóvember 2010 um hækkun fjárhagsaðstoðar lögð fram að nýju ásamt eintaki af reglunum með þeim breytingum sem lagðar eru til:
Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg verði breytt í samræmi við meðfylgjandi fylgiskjal og taki gildi frá og með 1. janúar 2011.
Breytingarnar eru í meginatriðum eftirfarandi:
1. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir þá sem reka eigið heimili verður 149.000 kr. á mánuði.
2. Grunnfjárhæð þeirra sem búa með öðrum eða bera ekki kostnað vegna húsnæðis verður áfram óbreytt 125.540 kr. á mánuði.
3. Grunnfjárhæð hjóna/sambúðarfólks verður 223.500 kr. á mánuði.
4. Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem býr hjá foreldrum verður 74.500 kr. á mánuði.
5. Aukinn verði stuðningur við foreldra sem hafa fjárhagsstoð til framfærslu tvisvar á ári; vegna skólabyrjunar 15. ágúst og vegna jólahalds 1. desember. Stuðningurinn verði 12.640 kr. fyrir hvert barn í hvort skipti.
6. Heimilt verður að veita styrk til foreldra vegna sérstakra þarfa barna enda sé það hluti af umfangsmikilli stuðningsáætlun og til þess fallið að tryggja að árangur vinnu í máli viðkomandi glatist ekki.
7. Rýmkaðar verði reglur um námsstyrki til að koma á móts við nemendur sem eiga á hættu að flosna upp úr námi vegna verulega breyttra aðstæðna.
8. Önnur ákvæði sem sett eru vegna nauðsynlegra orðalagsbreytinga eða til frekari útskýringar eða fyllingar á efni reglnanna.
Greinargerð fylgir tillögunni ásamt minnisblöðum forstöðumanns lögfræðiskrifstofu dags. 3. nóvember og 15. nóvember 2010.
Fyrst var borin upp til atkvæða eftirfarandi breytingartillaga frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks:
Lagt er til að breytingar á fjárhagsaðstoð verði endurskoðaðar með tilliti til virkniúrræða og af þeim 350 milljónum sem áætlaðar hafa verið í hækkun grunnfjárhæða fari a.m.k. þriðjungur upphæðarinnar í virkniúrræði.
Tillagan var felld með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar styðja það heilshugar að virkja fólk sem er á fjárhagsaðstoð þannig að það komist aftur í nám eða út á vinnumarkaðinn. Það eru ekki góð lífsgæði að lifa á fjárhagsaðstoð og því er vonandi hægt að ná samstöðu um aukið fé til virkniátaks, eins og til stendur. Hinsvegar telja fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærslu Reykjavíkurborgar og hafna því breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna telur að leggja þurfi meira fé í virkniúrræði en það megi ekki taka af grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar.
Aðaltillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með áorðnum breytingum með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er gleðiefni að samþykkja í velferðarráði hækkun fjárhagsaðstoðar frá og með 1. janúar nk. sem kemur til móts við þá sem eru allra verst settir í borgarsamfélaginu. Það eru því vonbrigði að ekki hafi náðst samstaða í ráðinu um hækkun sem nemur 19#PR til einstaklinga og 11#PR til hjóna. Þá eru í sömu tillögum verið að auka stuðning við foreldra á fjárhagsaðstoð sem fá vegna hvers barns sérstakan stuðning við skólabyrjun og í jólamánuðinum, ofan á þær viðbætur sem fólk á rétt á í dag. Þessar hækkanir kalla á a.m.k. 352 milljónir kr. í viðbótarfjármagn á næsta ári. Því þarf að vísa málinu til borgarráðs sem mun staðfesta þennan vilja velferðarráðs samhliða því að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verður afgreidd.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun :
Fyrir liggur tillaga Samfylkingarinnar og Besta flokksins um að verja um 350 milljónum króna á næsta ári í hækkun fjárhagsaðstoðar. Það er alltaf gott ef hægt er að hækka ráðstöfunartekjur fólks og sérstaklega þeirra sem minna mega sín en það er umhugsunarvert þegar ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru orðnar hærri en þeirra sem hafa atvinnuleysisbætur, og jafnháar ráðstöfunartekjum þeirra sem vinna fyrir lægstu launum á vinnumarkaðnum því hafa ber í huga að fjárhagsaðstoð er neyðaraðstoð og flokkast sem styrkur en ekki laun. Fjárhagslegur hvati til að sækja út á vinnumarkaðinn horfinn. Eins og sést á samanburðartöflum um ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð, atvinnuleysisbótum og á vinnumarkaði er fjárhagslegur hvati til að sækja út á vinnumarkaðinn að þurrkast út með tillögum Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Við hækkun fjárhagsaðstoðar um 19#PR er sá munur sem er á ráðstöfunartekjum launamanns sem þiggur tæpar 200 þúsund krónur í mánaðarlaun og þess sem er á fjárhagsaðstoðinni í raun orðinn lítill sem enginn, sé tekið tillit til þess að hinn vinnandi þarf að greiða kostnað við að koma sér til og frá vinnu auk annars kostnaðar sem fylgir því að vera vinnandi. Hvatinn til að vinna í svokölluðum láglaunastörfum fer því þverrandi þar sem fólk hefur það ekkert betra fjárhagslega en ef það hættir að vinna og fer á fjárhagsaðstoð. Þegar of viðtekið er að erfitt sé að finna vinnu verður innri virkni fólks minni en venjulega og því þarf meiri hjálp og hvatningu til að komast út á vinnumarkaðinn. Í því ástandi sem nú ríkir, þar sem almennt er talið erfitt að finna sér vinnu og nokkuð vonleysi ríkir almennt, er alls ekki heppilegt að jafna fjárhagsaðstoð við stöðu þeirra sem lægstu launin hafa því það mun valda því að fólki á fjárhagsaðstoð fjölgar og hægjast mun á því að fólk sæki út á vinnumarkaðinn. Virkniúrræði til að efla sjálfshjálp er raunveruleg aðstoð við að brjótast út úr fátækt Það er mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að betur væri með féð farið með því að nýta það í svokölluð virkniúrræði og önnur atvinnuskapandi úrræði. Hækkun grunnfjárhæða muni ekki ein og sér bæta úr vandanum. Mun meiri hjálp þarf að koma til að leysa úr raunverulegum vanda fólksins og sporna gegn fátækt til lengri tíma. Leggja ætti áherslu á virkniúrræði sem miða að því að efla og skerpa á getu og kunnáttu þeirra sem nú er á fjárhagsaðstoð og hjálpa þeim að komast út í atvinnulífið. Verði ekkert gert er hætta á því að enn fleiri festist í viðjum fátæktar til lengri tíma og tillaga meirihlutans vinni því í raun ekki að framsettum markmiðum eða að sporna gegn fátækt.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar taka heilshugar undir mikilvægi þess að fólk taki virkan þátt í samfélaginu. Þá þarf fólk í öll störf enda virkar ekki samfélag öðruvísi. Það er von okkar að aðilar vinnumarkaðarins, ríkisvald og sveitarfélög geri átak í komandi samningum til að hækka lægstu laun og atvinnuleysisbætur. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lýsa enn og aftur yfir vilja til samstarfs um virkni og eflingu til sjálfshjálpar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að með tillögum fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar um fjárhagsaðstoð er meirihluti borgarstjórnar að ganga á bak orða sinna um það að færa notendur fjárhagsaðstoðar yfir lágtekjumörk. Í tillögum meirihlutans er gert ráð fyrir því að fyrir þá sem reka eigið heimili verði gunnfjárhæð kr. 149.000 og það rökstutt með því að ekki megi færa notendur fjárhagsaðstoðar upp fyrir þá sem njóta atvinnuleysisbóta í stað þess að herja á ríkið um að hækka bæturnar. Fjárhagsaðstoð við hjón eða sambýlisfólk verður skert hlutfallega þannig að í stað þess að annar makinn fái 0.6 #PR af grunnfjárhæð fær hann 0.5#PR og þeir sem búa með öðrum eða bera ekki kostnað vegna húsnæðis fá enga hækkun á milli ára en til þeirra skal samkvæmt tillögunum renna kr. 125.540 og mánaðarleg fjárhæð til þeirra sem búa hjá foreldrum verður kr. 74.500. Enginn sem nýtur fjarhagsaðstoðar nær lágtekjumörkum og tveir síðasttöldu hóparnir munu verða með sömu upphæð í krónutölu og ákveðin var í desember í fyrra út næsta ár. Tekjur þeirra munu því ekki hækka til jafns við verðlagshækkanir ársins sem þó hefur tíðkast undanfarin ár og er því um launalækkun að ræða. Verði þessi leið farin er hún hvati til undirheimaveraldar hjónaskilnaða, sambúðarslita og þess að fólk skrái sig til heimilis annars staðar en það býr. Sömuleiðis munu tillögurnar, nái þær fram að ganga, hindra fátækt fólk í viðleitni til að gera lífið bærilegra með hagræðingu sem byggir á samvinnu og samnýtingu húsnæðis. Það er einnig umhugsunarvert að samkvæmt þessum tillögum myndi fullorðinn einstaklingur sem nyti fjárhagsaðstoðar og ákvæði að flytja inn til að aðstoða aldrað foreldri til að vera lengur heima, lækka í tekjum úr kr. 149.000 í kr. 74.500 nema hann fari torsótta leið og nýti sér núgerða breytingu 27 gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Fulltrúi Vinstri grænna hvetur fátækt fólk í Reykjavík að berjast fyrir lífvænlegri fjárhagsaðstoð og minnir á að tillögur Besta flokksins og Samfylkingarinnar verða ekki að veruleika fyrr en borgaráð og borgarstjórn hefur afgreitt þær.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Vísað er í greinargerð með tillögunni þar sem skýrt er af hverju fólk kemst ekki yfir lágtekjumörk í þessu skrefi.
6. Tillögur fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins frá 4. nóvember 2010 að aukinni fjárhagsaðstoð í desember 2010 lagðar fram að nýju.
1. Lagt er til að þann 1. desember 2010 verði foreldrum, sem fá greidda fjárhagsaðstoð í desember, greidd sérstök desemberuppbót vegna hvers barns sem á lögheimili hjá viðkomandi foreldri/ foreldrum. Upphæðin nemi kr. 12.640 vegna hvers barns.
2. Lagt til að sérstök fjárhagsaðstoð í desember, sem veitt er á grundvelli 27. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, 31.385 kr., verði veitt til þeirra sem fengið hafa greidda fulla fjárhagsaðstoð undangengna 3 mánuði, í stað 6 mánaða.
Greinargerð fylgir tillögunum.
Tillögurnar voru samþykktar með sjö samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er ánægjulegt að velferðarráð geti nú samþykkt sérstaka desemberuppbót vegna barna, 12.640 kr. vegna hvers barns foreldris sem er á fjárhagsaðstoð í desember. Þetta ætti að létta undir með þeim barnafjölskyldum sem eru allra verst settar. Þá er verið að fjölga þeim sem rétt eiga á desemberuppbót. Í stað þess að þann rétt hafi einungis þeir sem hafa verið á fjárhagsaðstoð samfellt í sl. 6 mánuði er verið að veita þeim uppbót að upphæð 31.385 kr. sem verið hafa á aðstoð undanfarna 3 mánuði. Þessar breytingar kalla á aukin útgjöld upp á 16 milljónir kr. umfram það sem hafði verið ráðgert.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði fagnar tillögu meirihlutans um að hækka sérstaka desemberuppbót vegna barna um 140 kr. en borgarfulltrúar Vinstri grænna fengu samþykkta uppbót í desember uppá 12.500 kr við gerð fjárhagsáætlunar þessa árs.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Rétt er að fulltrúi Vinstri grænna fékk samþykkta desemberuppbót barna í borgarstjórn á síðasta ári sem ekki rataði inn í áætlanir Velferðarsviðs. Þegar tillaga þessa efnis var lögð fram 4. nóv. sl. var ekki vitað um þessa samþykkt frá síðasta ári. Áfram þurfti að afgreiða þessa tillögu og tengja hana reglum um fjárhagsaðstoð og viðbótarútgjöld vegna hennar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er gott að vita af því hvað meirihlutinn fylgist vel með.
Fundi slitið kl. 23. 47
Björk Vilhelmsdóttir
Haukur Jóhannsson Ágúst Már Garðarsson
Hanna Lára Steinsson Áslaug Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson