Velferðarráð - fundur nr. 146

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 4. nóvember, var haldinn 146. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 14.40 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Lóa Birna Birgisdóttir, Ingibjörg Sigurþórsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfs- og fjárhagsáætlun 2011.
Sviðsstjóri kynnti drög að starfs- og fjárhagsáætlun 2011.
Málinu er frestað til næsta fundar þann 17. nóvember nk.

2. Tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins um hækkun fjárhagsaðstoðar og breytingar á reglum:
Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg verði breytt í samræmi við meðfylgjandi fylgiskjal og taki gildi frá og með 1. janúar 2011. Breytingarnar eru í meginatriðum eftirfarandi:
1. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir þá sem reka eigið heimili verður 149.000 kr. á mánuði.
2. Grunnfjárhæð þeirra sem búa með öðrum eða bera ekki kostnað vegna húsnæðis verður áfram óbreytt 125.540 kr. á mánuði.
3. Grunnfjárhæð hjóna/sambúðarfólks verður 223.500 kr. á mánuði.
4. Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem býr hjá foreldrum verður 74.500 kr. á mánuði.
5. Aukinn verði stuðningur við foreldra sem hafa fjárhagsstoð til framfærslu tvisvar á ári; vegna skólabyrjunar 15. ágúst og vegna jólahalds 1. desember. Stuðningurinn verði 12.640 kr. fyrir hvert barn í hvort skipti.
6. Heimilt verður að veita styrk til foreldra vegna sérstakra þarfa barna enda sé það hluti af umfangsmikilli stuðningsáætlun og til þess fallið að tryggja að árangur vinnu í máli viðkomandi glatist ekki.
7. Rýmkaðar verði reglur um námsstyrki til að koma til móts við nemendur sem eiga á hættu að flosna upp úr námi vegna verulega breyttra aðstæðna.
Greinargerð fylgir tillögunum.
Formaður gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til næsta fundar.

3. Tillögur fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins að aukinni fjárhagsaðstoð í desember 2010:
1. Lagt er til að þann 1. desember 2010 verði foreldrum, sem fá greidda fjárhagsaðstoð í desember, greidd sérstök desemberuppbót vegna hvers barns sem á lögheimili hjá viðkomandi foreldri/ foreldrum. Upphæðin nemi kr. 12.640 vegna hvers barns.
2. Lagt til að sérstök fjárhagsaðstoð í desember, sem veitt er á grundvelli 27. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, 31.385 kr., verði veitt til þeirra sem fengið hafa greidda fulla fjárhagsaðstoð undangengna 3 mánuði, í stað 6 mánaða.
Greinargerð fylgir tillögunum.
Formaður gerði grein fyrir málinu.
Málinu er frestað til næsta fundar.

4. Þjónustusamningur vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og leigusamningur um húsnæðið ásamt umsögn fjármálastjóra borgarinnar.
Málinu er frestað til næsta fundar.

5. Breyting á fulltrúa Besta flokksins í velferðarráði. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 2. nóvember 2010, þess efnis að Elsa Hrafnhildur Yeoman taki sæti í velferðarráði í stað Margrétar K. Blöndal.
Lagt til að Ágúst Már Garðarsson verði kjörinn varaformaður velferðarráðs í stað Margrétar K. Blöndal.
Samþykkt.

6. Skipan nýs fulltrúa í þjónustuhópi aldraðra.
Lagt til að Berglind Magnúsdóttir, forstöðumaður Heimaþjónustu Reykjavíkur, taki sæti Margrétar K. Blöndal í hópnum.
Samþykkt.

7. Lykiltölur janúar – ágúst 2010 lagðar fram.

8. Bókhaldsstaða janúar – ágúst 2010 kynnt.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

9. Þjónusta talmeinafræðinga; lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs og Talþjálfunar Reykjavíkur um þjónustu talmeinafræðinga.

- Bjarni Karlsson vék af fundi kl. 16.55.

10. Starfs-kraft samstarfssamningur Velferðarsviðs og Námsflokka Reykjavíkur um verkefnið lagður fram til kynningar.

11. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að gerð fjárhagsáætlunar Velferðarsviðs verði gefin meiri tími svo kjörnum fulltrúum gefist ráðrúm til að taka upplýstar ákvarðanir og hafa samráð um þær.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Fulltrúi Vinstri grænna dró tillöguna til baka.
Formaður velferðarráðs lagði fram eftirfarandi bókun:
Tillaga fulltrúa Vinstri grænna um að gefinn verði meiri tími við gerð fjárhagsásætlunar Velferðarsviðs var lögð fram þar sem formaður ráðsins taldi að ráðið þyrfti að vísa endanlegum tillögum til borgarráðs fyrir 5. nóvember. Það var misskilningur. Hið rétta er að velferðarráð þarf að vísa tillögum Velferðarsviðs til borgarráðs eigi síðar en 17. nóvember.

12. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að fjárhagsaðstoð verði hækkuð frá og með næstu mánaðamótum. Hækkunin taki mið af lífskjararannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2009 þar sem lágtekjumörkin voru metin kr. 160.800 í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling. Litið verði á þá upphæð sem lágmark.
Málinu er frestað til næsta fundar.

13. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að fjárhagsaðstoð verði ekki skert ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða. Reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt í þessa veru og taki breytingin gildi um næstu áramót.
Málinu er frestað til næsta fundar.

14. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúi Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 1. nóvember 2010:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að þegar í stað verði hafist handa við greiningu á stöðu barna í alvarlegum fjárhagsvanda.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan var samþykkt.
Tillögunni er vísað til gerðar starfsáætlunar og haft verði samráð við flytjanda tillögunnar um útfærslu aðgerðar í starfsáætlun.

15. Svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 21. október varðandi fjárhagsáætlun 2011 lagt fram.

16. Framvinda undirbúnings á málefnum fatlaðra.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fyrir ráðinu liggja tillögur Besta flokksins og Samfylkingarinnar um hækkun á fjárhagsaðstoð á næsta kjörtímabili. Með þeirri hækkun felast skilaboð til aðila vinnumarkaðarins um að almenn hækkun lægstu launa sé nauðsynleg. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því fram fyrirspurn um hvort sé búið að áætla fyrir þeim launahækunum sem “skilaboðin” gætu haft í för með sér þar sem kjarasamningar eru lausir um þessar mundir, hvaða kostnaðarauka það muni hafa í för með sér fyrir Reykjavíkurborg og hvort búið sé að gera ráð fyrir þeim við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Fundi slitið kl.17.25

Björk Vilhelmsdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Ágúst Már Garðarsson
Áslaug Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson