Velferðarráð - Fundur nr. 144

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 21. október var haldinn 144. fundur s og hófst hann kl. 13.45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Bjarni Karlsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Lóa Birna Birgisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfs- og fjárhagsáætlun 2011.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri Velferðarsviðs gerðu grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð Reykjavíkurborgar hvetur ríkisstjórn Íslands til að tryggja tekjulægstu hópum samfélagsins viðunandi húsaleigubætur og falla frá áformum um niðurskurð fjármagns til húsaleigubótakerfisins. Öll skerðing húsaleigubóta mun bitna á þeim sem hafa lágar tekjur. Nú þegar hafa lágtekjuhópar orðið að þola raunverulega skerðingu því húsaleigubætur hafa ekki hækkað síðan 1. apríl 2008, á meðan húsaleiga flestra hefur hækkað sem nemur verðlagshækkunum á þessum tíma eða um 25#PR. Velferðarráð hvetur eindregið til að ríkisstjórnin taki frekar ákvörðun um að auka fjármagn til húsaleigubóta í takt við verðlagshækkun til að bæta stöðu tekjulægstu hópa samfélagsins. Velferðarráð bendir á að húsaleigubætur fyrir þá sem eru með 180.000 í tekjur á mánuði og greiða 120.000 í húsaleigu eru 16.400 á mánuði sem er skerðing upp á 1.600 kr. vegna of hárra tekna. Einungis fólk sem lifir á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins fengi óskertar húsaleigubætur eða 18.000 á mánuði miðað við 120.000 kr. húsaleigu. Loks er bent á að einstaklingar með heildartekjur á bilinu 310 – 320 þús. á mánuði fá alls engar húsaleigubætur vegna ákvæða um tekjutengingu bótanna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Á fundi velferðarráðs í dag var kynnt úthlutun ramma sem samþykkt var í borgarráði í morgun. Af því tilefni óskar velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Hversu mikil verður hagræðingarkrafa á Velferðarsvið ef áhrif verlagshækkana á milli ára eru teknar inn í reikninginn?
2. Hversu mikill er niðurskurðurinn á fagsviðin á milli ára, reiknaður í prósentum og hvaða aðferðum var beitt?
3. Tekur rammi Velferðarsviðs mið af núverandi grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar eða er reiknað með hækkun hennar og ef svo er, hversu há verður aðstoðin?
4. Er reiknað með að borgin leggi fram aukna fjármuni í til að hækka húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur til einstaklinga og fjölskyldna og sé svo, um hversu mikla fjármuni er um að ræða?

2. Svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 7. október 2010 varðandi fjárhagsáætlun 2011.
Málinu er frestað og svar verður lagt fram á næsta fundi ráðsins.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun :
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram spurningar í 15 liðum um tímaáætlun fjárhagsáætlunar 2011-2014 og 5 ára áætlun á fundi ráðsins fyrir hálfum mánuði síðan. Spurningar voru settar á dagsskrá ráðsfundar 7. október sl. og málinu var þá frestað. Í fundargerð þess fundar má lesa að „málinu er frestað og skrifleg svör munu berast#GL. Meirihlutanum og sviðinu hefur gefist nægur tími til að afla upplýsinga og leggja fram skrifleg svör sem ráðrúm gafst til að fara yfir í samráði við aðra fyrir þennan fund. Þess í stað er farin sú leið að gefa fulltrúum minnihlutans óljós munnleg svör á fundinum sjálfum og síðan sagt að svör berist síðar. Spurningarnar varða gerð fjárhagsáætlunar og úr þeim má lesa áhyggjur af því að ekki sé verið að fara eftir áætlun sem samþykkt var í borgarráði þann 18. ágúst sl. og lögð var fram í velferðarráði í ágúst sl. eða að öðrum kosti sé ekki verið að framfylgja boðuðu samráði um gerð áætlunarinnar. Hvoru tveggja er til minnkunar meirihluta borgarstjórnar sem lýst hefur yfir því að ætlunin sé að stuðla að samráði, sagst ætla að vinna heiðarlega og fyrir opnum skjöldum og taka fjármálin föstum tökum. Engar upplýsingar hafa borist ráðinu um efnahagslegar forsendur fjárhagsáætlunar svo sem spá um gengisvístölu, atvinnuleysi eða verðbólgu næsta árs og engar fréttir hafa borist af áætlun meirihlutans um tekjuöflunarleiðir sem hugsanlega fælust í aukinni skattlagningu. Nú þegar komið er fram yfir miðjan október er þetta sleifarlag og samráðsleysi óásættanlegt þegar hagsmunir borgarbúa er hafðir í huga. Því minni tími sem gefst til raunverulegrar vinnu og samráðs um forgagnsröðun fjármuna á erfiðum tímum, því meiri líkur eru á því að fjárhagsáætlun borgarinnar verði óraunhæf og ósanngjörn.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun :
Velferðarráð hefur ekki hlutverk borgarráðs við gerð fjárhagsáætlunar. Fyrirspurnir Vinstri grænna frá síðasta fundi velferðarráðs um fjárhagsáætlun næsta árs, beinast að mestu að verkefnum borgarráðs og fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þeim spurningum er ekki hægt að svara í velferðarráði. Nokkrum spurningum er þó svarað í dag með því að leggja fram endurskoðaða tímaáætlun og tillögu að úthlutun ramma til fagráða. Gert er ráð fyrir að velferðarráð muni fjalla um starfs- og fjárhagsáætlun á aukafundi í byrjun nóvember og síðan á reglulegum fundi 4. nóvember nk. Þar verða lögð fram skrifleg svör eins og kostur er.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun :
Það lýsir hroka að svara spurningum velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna þannig að ráðið gegni ekki hlutverki borgarráðs við gerð fjárhagsáætlunar. Spurningarnar varða áætlun sem lögð var fram í velferðarráði og varða upplýst samstarf ráðsins um gerð fjárhagsáætlunar og eru þær því ítrekaðar hér:
• Hvenær mun velferðarráð ljúka stefnumörkun í málaflokknum en henni átti að ljúka í ágúst?
• Liggur fyrir endurskoðuð verk– og tímaáætlun sem leggja átti fyrir aðgerðahóp þann 19. ágúst og sé svo, í hverju er hún fólgin?
• Var farin yfirferð með sviðsstjórum og formönnum fagráða þann 26. ágúst og sé svo, í hverju var sú yfirferð fólgin?
• Liggja fyrir fyrstu drög að tekjuspá og efnahagsforsendum borgarhagfræðings sem átti að birtast þann 27. ágúst og sé svo, hvernig er spáin?
• Liggja fyrir fyrstu drög að fjárfestingaáætlun 2011 og 2012–2016 sem birtast áttu þann 27. ágúst og í hverju er áætlunin fólgin?
• Liggja fyrir fyrstu drög að tillögu um rammaúthlutun FMS o.fl. sem birtast áttu þann 27. ágúst og sé svo í hverju eru drögin fólgin?
• Liggja fyrir sviðsmyndagreining og forsendur áætlunar 2011–2016 sem kynna átti þann 31. ágúst og í hverju eru þær þá fólgnar?
• Liggja fyrir forsendur fjárhagsáætlunar og 3ja (5) ára áætlun. 2011–2016 sem leggja átti fyrir Borgarráð þann 2. september og í hverju eru forsendurnar þá fólgnar?
• Liggja fyrir tillögur um rammaúthlutun sem leggja átti fyrir borgarráð þann 2. september og í hverju eru þær þá fólgnar?
• Liggja fyrir tillögur að forgangsröðun vegna fjárfestinga sem leggja átti fyrir Borgarráð þann 2. september og í hverju eru þær þá fólgnar?
• Hefur undirbúningur að forgangsröðun innan ramma sem átti að fara fram í september sl. verið hafin og í hverju er forgangsröðin þá fólgin?
• Liggja fyrir sviðsmyndagreining og forsendur áætlunar 2011–2016 sem kynna átti þann 10. september og í hverju eru þær þá fólgnar?
• Liggja fyrir tillögur að forgangsröðun innan ramma sem ræða átti á fagsviðum þann 24. september og sé svo, í hverju eru þær tillögur fólgnar?
• Hvers vegna hefur stefnumótun vegna þriggja ára áætlunar ekki verið lögð fyrir fagráð eins og gera átti, þann 30. september?
• Í hverju verður samráð við minnihlutann um fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun fólgin ?

3. Stöðuskýrsla III vegna verkefnisins “Virkni til velferðar” lögð fram.
Íris Eik Ólafsdóttir, verkefnastjóri, mætti á fundinn og kynnti skýrsluna.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi tillögu:
Velferðarráð tekur undir mikilvægi þess að vinna að virkni einstaklinga með fjárhagsaðstoð. Þeim fjölgar sem hafa verið með fjárhagsaðstoð í langan tíma. Mikilvægt er að vinna gegn því að enn fjölgi í þessum hópi og vinna gegn doða, depurð, aðstoða og hvetja fólk til athafna. Velferðarráð samþykkir að þróa og efla tilraunaverkefnið “Virkni til velferðar” og að gerð verði sérstök sóknaráætlun fyrir árið 2011 með það að markmiði að styrkja þau úrræði sem nýst geta til að hjálpa þeim sem eru á fjárhagsaðstoð út á vinnumarkaðinn. Velferðarsviði er falið að útfæra þessa vinnu við gerð starfsáætlunar.

4. Þjónustusamningur vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og leigusamningur um húsnæðið.
Málinu er frestað þar sem umsögn fjármálastjóra borgarinnar liggur ekki fyrir.

5. Dagsetur Hjálpræðishersins; Áfangaskýrsla II félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg, dags. 29. september 2010, lögð fram. Skrifstofustjóri velferðarmála kynnti skýrsluna,

Margrét Kristín Blöndal vék af fundi kl. 16.10.

6. Minnisblað aðgerðarteymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs lagt fram. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

7. Skemmtanahald barna og ungmenna: Lagt fram að nýju bréf samráðshóps um forvarnir og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 13. september 2010.
Velferðarráð samþykkti að fela sviðsstjóra að fylgja málinu eftir og vísa því til meðferðar við endurskoðun forvarnastefnu.

8. Rangársel 16-20: Samningur um samþætta þjónustu við íbúa í þjónustukjarna lagður fram til kynningar.

9. Framvinda undirbúnings yfirfærslu á málefnum fatlaðra. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

10. Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun einróma:
Velferðarráð fagnar þeim börnum sem koma í heiminn í Reykjavík sem og á landinu öllu í dag. Ástæðan er að samherji okkar í velferðarráði, Ágúst Már Garðarsson eignaðist dóttur í morgun. Lífið er ljúft og við fögnum því.

Fundi slitið kl. 16.40

Björk Vilhelmsdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Bjarni Karlsson
Áslaug Friðriksdóttir Geir Sveinsson
Þorleifur Gunnlaugsson