Velferðarráð - Fundur nr. 142

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 16. september var haldinn 142. fundur s og hófst hann kl. 13:45 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Úttekt á smáhýsum sbr. samþykkt velferðarráðs frá 11. ágúst sl. lögð fram ásamt eftirfarandi tillögu Velferðarsviðs til úrbóta.
Lagt er til:
• að þjónusta og stuðningur við íbúa smáhýsa verði aukinn
• að eftirlit með smáhýsum verði aukið
• að aðgengi íbúa að sólarhringsþjónustu verði tryggt
• að fræðsla og stuðningur við nærumhverfið verði aukinn
• að skoðaðir verði möguleikar á að breyta uppröðun smáhýsanna.

Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi breytingartillögu við aðaltillöguna:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði leggur til að stöðugildi vegna smáhýsa á Granda verði aukin úr 0,50#PR í 4,2#PR til að eftirlit og eftirfylgni geti farið fram allan sólarhringinn alla daga ársins.

Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er ekki hlutverk velferðarráðs að meta þörf á fjölda starfsmanna, heldur fara að niðurstöðu faglegrar úttektar og tryggja fjármagn til þeirrar þjónustu sem lagt er til að veita. Því er ekki ástæða til að samþykkja breytingartillögu fulltrúa Vinstri grænna sem leggur til fjölda stöðugilda án þess að það hafi verið faglegt mat úttektaraðila, né starfsmanna Velferðarsviðs sem lögðu fram tillöguna sem kemur til afgreiðslu á eftir.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Til þess að eftirlit og eftirfylgni vegna smáhýsanna geti verið allan sólarhringinn, 365 daga ársins þarf 4,2#PR stöðugildi. Ekki er ásættanlegt að það veika fólk sem býr í húsunum verði án aðstoðar sem veitt er skjólstæðingum Velferðarsviðs með samsvarandi heilbrigðisvanda í annarstaðar í miðborginni og talin er nauðsynleg.
Í tillögu meirihlutans er ekki auðséð, hversu mikið eftirlit og eftirfylgni verði með íbúum húsanna og úttektaraðila leggja til aukið eftirlit en segja ekki hversu mikið það þarf að vera.
Ekki er að sjá að Samfylkingin og Besti flokkurinn taki alvarlega eigin samstarfsyfirlýsingu en þar segir meðal annars:
#GL„Tekið verði af myndugleik á vanda útigangsfólks og tillögur gerðar um úrbætur í samráði við félagasamtök og fagfólk.“

Aðaltillagan var borin upp til atkvæða og samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarráð samþykkir nú tillögu þess efnis að auka þjónustu og stuðning við íbúa smáhýsanna í samræmi við niðurstöður úttektar á smáhýsunum. Með auknum stuðningi og aðgengi að sólarhringsþjónustu er það von velferðarráðs að þær úrbætur sem nú verður ráðist í, muni skila sér í betri lífsgæðum íbúa og samskiptum þeirra við umhverfi sitt. Staðan verður skoðuð að nýju innan nokkrurra mánaða.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltúar Sjálfstæðisflokksins taka undir að mikilvægt er að skoða hvernig Velferðarsvið getur aukið umrædda þjónustu. Í ljósi þess að ekkert liggur fyrir um fjárhagsáætlun og forgangsröðun verkefna velferðarráðs fyrir árið 2011 telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki góð vinnubrögð né ábyrgt að samþykkja tillöguna og ítreka áhyggjur sínar af því hversu seint undirbúningur og forgangsröðun fjármála hefst.

2. Þjónustusamningur vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og leigusamningur um húsnæðið kynntir.
Formaður velferðarráðs og forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerðu grein fyrir málinu.
Málinu var frestað og óskað eftir umsögn frá Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

3. Þjónusta við fatlaða; Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá ágúst 2010 lögð fram ásamt greinargerð félags- og tryggingamálaráðuneytisins um yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og samantekt formanns verkefnastjórnar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Formaður velferðarráðs og sviðsstjóri gerðu grein fyrir málinu.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar og leggur áherslu á að kostnaðarútreikningar vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra taki mið af þeim athugasemdum sem þar koma fram.

4. Ósk um gerð samstarfsyfirlýsingar um málefni mögulegra fórnarlamba mansals, bréf dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins dags. 10. september 2010 lagt fram.

Velferðarráð samþykkti beiðni dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um gerð samstarfsyfirlýsingar.

5. Minnisblað skrifstofustjóra á Velferðarsviði vegna tillögu sem samþykkt var á fundi velferðarráðs 30. júní s.l. varðandi kostnaðarmat á því að koma Reykvíkingum sem lifa á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins upp yfir lágtekjumörk lagt fram.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

6. Tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 25. ágúst s.l. varðandi hækkun á fjárhagsaðstoð lögð fram að nýju.
Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs lýsir yfir eindregnum vilja sínum til að hækka fjárhagsaðstoð í síðasta lagi um áramót eða samhliða gerð fjárhagsáætlunar borgarinnar. Sú fátækt sem ríkir í reykvísku samfélagi er ekki boðleg þeim sem við hana búa og er samfélagi okkar til skammar. Markmiðið er áfram að koma fólki upp yfir lágtekjumörk, en við útfærslu þess á undanförnum mánuðum hafa komið upp ýmis vandamál, þar sem málið er stærra. Má þar helst nefna:
-Lágmarksframfærsla hefur ekki verið skilgreind.
- Lægstu laun, lífeyrir almannatrygginga og atvinnuleysisbætur eru það lág að hækkun fjárhagsaðstoðar getur leitt til þess að þeir sem hafa framfærslu sína af þessum tekjum geta átt rétt til fjárhagsaðstoðar. Erum við þá komin frá þeirri meginreglu að fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins sé tímabundin neyðaraðstoð og er þá sveitarfélagið farið að veita uppbætur á lægstu laun, lífeyri og aðrar bætur. Það er ekki réttlætanlegt.
Það þarf að jafna tekjur í samfélaginu með því að færa frá þeim tekjuhærri til hinna tekjulægstu. Þá verður að klára þá vinnu sem nú er talað um að verði í lok þessa árs, að lágmarksframfærsla sé skilgreind. Velferðarráð óskar eftir því að þeir sem koma að stöðugleikasáttmálanum; ríkisstjórnin, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðilar vinnumarkaðarins, taki á þessum vanda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir að mikilvægt er að líta heildstæðar á málin eins og fram kemur í bókun Samfylkingarinnar og Besta flokksins. Fjárhagsaðstoð er skilgreind sem neyðaraðstoð sem hefur ekki verið talin langtímaúrræði eða sem lífsviðurværi fólks til lengri tíma. Nú er staðan sú í Reykjavík að þúsundir einstaklinga eru atvinnulausir. Hluti þeirra á ekki rétt á atvinnuleysisbótum og eru því atvinnulausir án bótaréttar. Í þeim tilfellum á fólk rétt á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi, í mörgum tilfellum er því staðan sú að eina framfærslan yfir langan tíma er fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Þá vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda á að í umræðu um þessi mál verður einnig að horfa til þess að stór hópur þeirra sem er á vinnumarkaði og stendur í stappi við að greiða afborganir af skuldum hafa eflaust margir lágar fjárhæðir til að mæta grunnþörfum fjölskyldu og heimilis.
Hér er því ljóst að grípa þarf til mun stærri aðgerða, samstarfs og breytinga þar sem tekið er tillit til þessara breyttu aðstæðna í þjóðfélaginu.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Það er eftirtektarvert að fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Besta flokks í velferðarráði hafi tekið höndum saman um að viðhalda sárri fátækt skjólstæðinga Reykjavíkurborgar.
Sjálfstæðismenn eru reyndar samkvæmir sjálfum sér en það eru vonbrigði að fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar skulu nú sveigja af leið og hafna tillögu sem er í anda bókunar sem flokkarnir gerðu með Vinstri grænum í vor en þar segir:
„Ekkert réttlætir að stilla upp lágtekjuhópum hvor gagnvart öðrum. Það er skýrt að lágtekjumörk eru ráðstöfunartekjur að meðtöldum félagslegum greiðslum. Til að ná þessu markmiði myndi framfærsla einstakling hækka í 143.500 og hjóna í 223.000 enda gert ráð fyrir að fólk hafi húsaleigubætur vegna húsnæðiskostnaðar. Þetta er aðeins lítið og fyrsta skref í átt að því að vinna gegn þeim ójöfnuði sem ríkir í okkar samfélagi“.
Í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar skilgreina flokkarnir sjálfir lágtekjumörk en þar segir:
„ Stefnt verði að því að tryggja að samanlögð fjárhags- og húsnæðisaðstoð nái lágtekjumörkum Hagstofunnar sem eru nú 160.800 kr. á mánuði.“
Tillaga velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna eru í samræmi við þann málflutning sem meirihluti ráðsins hefur flutt til þessa án þess þó að það sé viðurkennt að umrædd hækkun dugi til framfærslu.
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði hefur þegar óskað eftir að tillagan verði sett á dagsskrá borgarstjórnar á þriðjudaginn kemur.

7. Tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 11. ágúst s.l. um könnun á því hvort fordómar í garð vímuefnaneytenda skaði möguleika þeirra til viðunandi heilbrigðisþjónustu lögð fram að nýju.
Tillagan var lögð fram að nýju svo breytt:
Velferðarráð samþykkir að fela Velferðarsviði að gera könnun meðal sinna lykilstarfsmanna sem vinna með utangarðsfólki, um hvort þeir telji að fordómar í garð utangarðsfólksins skaði möguleika þeirra til viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

8. Minnisblað aðgerðarteymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs lagt fram.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

9. Bókhaldsstaða janúar til júní 2010 ásamt greinargerð lögð fram.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

10. Greining á þróun fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta frá janúar til júní á árunum 2007 og 2010.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

11. Lykiltölur janúar til júní 2010 lagðar fram til kynningar.

12. Þjónustusamningur við Félag heyrnarlausra lagður fram.
Samþykkt.

13. Samningur um þjónustu fyrir geðfatlaða milli Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness og Sigríðar Steingrímsdóttur lagður fram til kynningar.

14. Fræðsluáætlun fyrir starfsmenn Velferðarsviðs lögð fram til kynningar.

15. Ályktun velferðarvaktarinnar í upphafi skólastarfs lögð fram til kynningar.

16. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 25. ágúst s.l. varðandi trúnað á skýrslu eftirlitsmanna Reykjavíkurborgar um smáhýsi.

Fundi slitið kl. 16.40

Björk Vilhelmsdóttir
Margrét Kristín Blöndal Ágúst Már Garðarsson
Bjarni Karlsson Áslaug Friðrksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson