Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2010, miðvikudaginn 25. ágúst var haldinn 141. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.15 að Síðumúla 39. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Bjarni Karlsson, Áslaug Friðriksdóttir, Geir Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Ellý A Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Aðalbjörg Traustadóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Samningur Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis f.h. Velferðarsviðs og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík um frekari liðveislu að Sléttuvegi 3, 7 og 9, kynntur.
Framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis gerði grein fyrir málinu.
2. Yfirfærsla á málefnum fatlaðra. Kynnt staða undirbúningsvinnu.
María Rúnarsdóttir, verkefnastjóri á Velferðarsviði, mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
Ágúst Már Garðarsson mætti á fundinn kl. 12.35.
3. Samstarf Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnessbæjar um málefni fatlaðra. Bréf Seltjarnarnessbæjar, dags. 5. ágúst 2010, þess efnis lagt fram til kynningar.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
4. Heimili fyrir utangarðskonur, tillaga um opnun nýs heimilis.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
5. Kostnaðarútreikningar við hækkun fjárhagsaðstoðar lagðir fram til kynningar, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 30. júní 2010.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að ráðast ekki í hækkun fjárhagsaðstoðar með þeim hætti sem fram kom í tillögu Samfylkingarinnar og Besta flokksins enda þurfi að horfa mun heildstæðar á málin en lagt var af stað með þegar tillagan kom fram.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Lagt er til að fjárhagsaðstoð til einstaklinga hækki um kr. 17.000 kr. á mánuði og kr. 22.000 á mánuði til sambúðarfólks, frá og með næstu mánaðamótum. Samsvarandi hækkun taki til heimildagreiðslna.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
6. Tillaga fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 11 ágúst s.l. um að aflétta trúnaði á áfangaskýrslu eftirlitsmanna Reykjavíkurborgar í smáhýsum á Granda, lögð fram að nýju. Lagt fram bréf sviðsstjóra dags. 13. ágúst 2010 þar að lútandi.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn einu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tillögu Vinstri grænna er hafnað með vísan í bréf sviðsstjóra Velferðarsviðs sem haft hefur samband við borgarlögmann og Persónuvernd vegna málsins. Hægt er að vísa slíkri synjun til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Gott yrði ef slíkur úrskurður kæmi fram. Vakin er athygli á því að velferðarráð er ekki matsaðili varðandi lögmæti birtingar gagna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Samstaða meirihluta velferðarráðs með Velferðarsviði þegar það hafnar ósk um að trúnaði um áfangaskýrslu eftirlitsmanna Reykjavíkurborgar um smáhýsi við Faxaslóð verði aflétt, vekur furðu. Vísað er í bókun velferðarráðsfulltrúa Vinstri grænna um málið frá síðasta fundi ráðsins og sú skoðun ítrekuð að hvorki sé um að ræða persónurekjanlegar upplýsingar né ástæða til trúnaðar á grundvelli þess að um vinnuskjal sé að ræða. Í raun fjallar þetta mál um þá almennu og opnu stjórnsýslu sem núverandi meirihluti hefur lofað. Velferðarráðsfulltrúi Vinstri grænna getur ekki, stöðu sinnar vegna kært málið til úrskurðarnefndar upplýsingamála en almenningur er hvattur til þess að óska eftir skýrslunni og kæra neitunina síðan til nefndarinnar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir skriflegum svörum frá borgarlögmanni og Persónuvernd varðandi trúnað um áfangaskýrslu eftirlitsmanna Reykjavíkurborgar um smáhýsi við Faxaslóð.
7. Lögð fram svör við fyrirspurn VG frá fundi velferðarráðs frá 11. ágúst s.l.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Svör meirihluta velferðarráðs eru rýr og ekki síst með það í huga að annar flokkurinn í meirihlutanum, Besti flokkurinn, lagði sérstaka áherslu á úrlausnir varðandi utangarðsfólk. Ekkert nýtt virðist vera í farvatninu í aðdraganda fjárhagsáætlunar borgarinnar fyrir næsta ár sem gefur væntingar um aukið fjármagn til málaflokksins og sérstöku samstarfi við minnihlutann um hefur verið hafnað. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði mun því leitast við að vera duglegur við að setja mál er varða utangarðsfólk á dagskrá ráðsfunda og leitast við að leggja fram tillögur til þess að bæta stöðu þessa hóps. Jafnframt er farið fram á að allar upplýsingar sem til staðar eru um stöðu utangarðsfólks verði aðgengilegar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins vísa til framlagðs svars við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna.
8. Lagðar fram upplýsingar um nýtingu á fjölskylduheimilum ásamt upplýsingum um kostnað vegna reksturs heimilanna.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
9. Fjölsmiðjan, tilnefning í stjórn.
Lögð fram tillaga um að Geir Sveinsson verði kjörinn aðalmaður í stjórn Fjölsmiðjunnar og Ágúst Már Garðarsson verði kjörinn varamaður.
Samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 15.10
Björk Vilhelmsdóttir
Margrét Kristín Blöndal Bjarni Karlsson
Ágúst Már Garðarsson Áslaug Friðriksdóttir
Geir Sveinsson Þorleifur Gunnlaugsson