Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2010, miðvikudaginn 30. júní var haldinn 138. fundur s og hófst hann kl. 12.00 að Borgartúni 12-14. Mættir: Björk Vilhelmsdóttir, Margrét Kristín Blöndal, Ágúst Már Garðarsson, Bjarni Karlsson, Jórunn Frímannsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Þorsteinn Hjartarson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Tillaga fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að kortleggja fjölda og aðstæður þeirra Reykvíkinga sem búa við fátækt. Ennfremur lögð fram drög að erindisbréfi. Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða og sviðsstjóra og hópstjóra var falið að ganga frá erindisbréfi fyrir hópinn.
2. Tillaga fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar um kostnaðarmat á því að koma Reykvíkingum sem lifa á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins upp yfir lágtekjumörk.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eigi ekki að vera hærri en lágmarkslaun. Nánast enginn munur er á ráðstöfunartekjum einstaklinga með lágmarkslaun og lágtekjumörkunum. Grundvallarstefið í uppbyggingu velferðarþjóðfélags er að þeir sem njóti aðstoðar hafi ekki hærri ráðstöfunartekjur en þeir sem eru á vinnumarkaðnum. Jafnframt verður að horfa til þess að þeir sem eru á vinnumarkaði greiða af sínum launum lífeyrissjóð og til stéttarfélags og njóta jafnvel ekki sömu bóta og hlunninda og þeir sem fá fjárhagsaðstoð. Mjög mikilvægt er að fjárhagslegur hvati sé fyrir einstaklinga að sækja út á vinnumarkaðinn. Frekar ætti að einbeita sér að því að byggja kerfið upp þannig að einstaklingar fái enn meiri hvatningu í þessa veru. Í frumvarpi til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um samspil milli ábyrgðar sveitarfélags og einstaklinga. Þar kemur fram að þrátt fyrir að mælst sé til margvíslegra skyldna sveitarfélagana til að tryggja félagslega velferð einstaklinga verður að leggja áherslu á það grundvallaratriði að einstaklingum er engu að síður ætlað að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er neyðaraðstoð sem oftast er tímabundin aðstoð til þeirra sem hana þurfa en ekki langtímaúrræði.
Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur.
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögð fram eftirfarandi bókun.
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og VG hafa ríkan skilning á vanda lágtekjufólks, hvaðan sem tekjur þeirra koma. Ekkert réttlætir að stilla upp lágtekjuhópum hvor gagnvart öðrum. Það er skýrt að lágtekjumörk eru ráðstöfunartekjur að meðtöldum félagslegum greiðslum. Til að ná þessu markmiði myndi framfærsla einstakling hækka í 143.500 og hjóna í 223.000 enda gert ráð fyrir að fólk hafi húsaleigubætur vegna húsnæðiskostnaðar. Þetta er aðeins lítið og fyrsta skref í átt að því að vinna gegn þeim ójöfnuði sem ríkir í okkar samfélagi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Alls ekki er verið að stilla lágtekjuhópum upp hvorum gagnvart öðrum í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hins vegar verður ekki horft á annað vandamálið án þess að fjalla um hitt. Margt má betur fara í úthlutunum fjáraðstoðar og vert að skoða það en alltaf verður að gæta þess að hvati sé í kerfinu þannig að fólk sæki út á vinnumarkaðinn.
3. Staða mála gagnvart reykvískum ungmennum eftir lokun Götusmiðjunnar.
Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar ítrekar mikilvægi þess að á hverjum tíma séu vönduð og fjölbreytt úrræði fyrir hendi til að mæta meðferðarþörf reykvískra barna sem eiga við fíknivandamál að stríða. Það er einlæg ósk velferðarráðs að Barnaverndarstofa bjóði upp á annað úrræði til að mæta þörfum þeirra barna sem misst hafa skjól og stuðning eftir að Götusmiðjunni var lokað. Velferðarráð hrósar Barnavernd Reykjavíkur fyrir viðbrögð sín í erfiðum málum Götusmiðjunnar og góða niðurstöðu í samvinnu við börnin og foreldra sem hafa hrósað þessu við velferðarráð.
4. Heimili fyrir heimilislausar konur. Bréf skrifstofustjóri borgarstjórnar dags. 16. júní s.l. þess efnis lagt fram.
Eftirtaldir varamenn í velferðarráði mættu á fundinn til áheyrnar kl. 14.00: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Haukur Jóhannsson, Sveinn H. Skúlason, Lárus R. Haraldsson
5. Stöðumat á stefnu í málefnum utangarðsfólks 2008-2012.
Birna Sigurðardóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði, mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
Frekari umfjöllun er frestað til næsta fundar.
6. Skipan þjónustuhóps aldraðra.
Samþykkt samhljóða að skipa Margréti Kristínu Blöndal, varaformann velferðarráðs og Ellý A. Þorsteinsdóttur, skrifstofustjóra á Velferðarsviði í þjónustuhóp aldraða. Ellý A. Þorsteinsdóttir verði formaður hópsins.
7. Kynnt samþykkt borgarráðs um að fela Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða rekstur ráðgjafarhluta Alþjóðahúss frá 1. júlí til 31. desember 2010.
8. Bókun hverfisráðs Breiðholts um íþróttaþátttöku barna í íþróttamótum lögð fram.
Vísað til starfshóps um fátækt með beiðni um að kalla eftir upplýsingum frá íþróttafélögum varðandi málið.
9. Minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
10. Samningur Velferðarsviðs og Eirar - hjúkrunarheimilis um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrun í Eirborgum vegna Fróðengis lagður fram til kynningar. Ennfremur lagt fram minnisblað um verð og úthlutanir á þjónustuíbúðum í Fróðengi. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Jórunn Frímannsdóttir vék af fundi kl. 14.50.
Sveinn H. Skúlason tók sæti á fundinum kl. 14.50.
11. Samþykkt borgarráðs um aukinn þjónustustyrk til Fjölsmiðjunnar vegna aukins húsnæðiskostnaðar kynnt.
12. Lykiltölur janúar til apríl 2010 lagðar fram til kynningar.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir helstu atriðum.
13. Kynnt bókhaldsstaða janúar til apríl 2010.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
14. Þjónustusamningur við Félag einstæðra foreldra lagður fram.
Samþykkt samhljóða.
15. Lagðar fram og undirritaðar siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.
Fundi slitið kl. 15.40
Björk Vilhelmsdóttir
Margrét Kristín Blöndal Ágúst Már Garðarsson
Bjarni Karlsson Sveinn Skúlason
Áslaug Friðriksdóttir Þorleifur Gunnlaugsson