Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí var haldinn 135. fundur s og hófst hann kl. 12.20 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Kynnt drög að þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og drög að leigusamningi um þjónustukjarnann.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram tillögu um frestun málsins.
Tillagan var borin upp til atkvæða.
Tillagan var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Drög að samningunum voru þá borin upp til atkvæða.
Drögin voru samþykkt með áorðnum breytingum með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar gerir alvarlega athugasemd við að þjónustu- og leigusamningur upp á tugi milljóna á ári sé þrýst í gegnum ráðið þremur dögum fyrir kosningar. Samningurinn er á milli Reykjavíkurborgar og DAS. Samningurinn hefur ekki komið til umræðu innan ráðsins fyrr og miklar umræður spunnust um starfskjör, þjónustusamninga, fjármögnun o.s.frv. Þrátt fyrir mikil andmæli var ákveðið að keyra málið í gegn.
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ítrekar enn og aftur að ekki liggur fyrir hagræðing af því að útvista þjónustu á vegum borgarinnar - hvernig hún hefur áhrif á þá sem þjónustuna þiggur, starfsfólk viðkomandi stofnunar og skattgreiðendur. Engin merki eru um að aðrir geti náð hagræðingu sem borgin getur ekki, án þess að það komi einhvers staðar niður.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er með ólíkindum nú 3 dögum fyrir kosningar að gengið sé frá þjónustu- og leigusamningum við Hrafnistu um byggingarétt fyrir 100 þjónustuíbúðir við Sléttuveg og þjónustukjarna sem Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að leigja í 20 ár. Áætlaðar byggingaframkvæmdir munu hefjast árið 2012 og gert er ráð fyrir að samningurinn taki gildi 1. október 2013.
Samningarnir eru á grunni viljayfirlýsinga, sem allir stóðu að á árunum 2006 og 2007. Málið hefur síðan verið unnið án nokkurrar aðkomu velferðarráðs. Tillaga minnihlutans um frestun á afgreiðslu var felld þrátt fyrir að ýmsum spurningum sé ósvarað. Allt kapp er lagt í að klára málið, þó ekkert liggi á og endurskoða þarf áformin í ljósi fasteignamarkaðarins og greiðslugetu eldri borgara. Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja taka fram að fyrirhuguð uppbygging á Sléttuvegi á vegum Hrafnistu er jákvæð. Það þarf þó að yfirfara málið vegna efnahagshrunsins, stærð íbúða og væntanlegt verð þarf sérstaklega að skoða þar sem í ljós hefur komið að of dýrar íbúðir hafa verið byggðar á síðustu árum sem eldri borgarar hafa ekki haft efni á að kaupa né leigja.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Unnið hefur verið að leigu- og rekstrarsamningum við Hrafnistu um byggingu og leigu á þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg af núverandi meirihluta í langan tíma, eða allt frá undirritun viljayfirlýsingar sem undirrituð var 18. október 2006. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð samningsins frá því fyrstu drög komu fram. Þjónustukjarninn hefur m.a. verið minnkaður frá fyrstu áætlunum og leiguverð hefur lækkað umtalsvert frá fyrstu hugmyndum sem ræddar voru. Brýn þörf er fyrir þjónustukjarnann, ekki bara fyrir fyrirhugaðar íbúðir á vegum Hrafnistu, heldur einnig fyrir íbúðir á vegum Samtaka aldraðra á þessu svæði og aðra íbúa á svæðinu. Einstaklingar sem keypt hafa íbúðir á vegum samtakanna gerðu það m.a. á þeim forsendum að Reykjavíkurborg myndi reka þjónustukjarna á svæðinu. Í ljósi þessa er meirihluti velferðarráðs mjög ánægður með að hafa gengið frá þessum samningnum nú, enda er um að ræða eðlilegt framhald á vinnu sem hefur farið fram á þessu kjörtímabili.
Í samningunum er tekið fram að Félagsbústaðir muni leigja 20 þjónustu- og öryggisíbúðir af þeim 100 sem Hrafnista áætlar að byggja. Eftir er að semja um stærð og gerð þeirra íbúða og ljóst er að breyttar aðstæður kalla á minni íbúðir.
2. Lögð fram tillaga að framkvæmd tilraunaverkefnis um þjónustu fyrir fatlaða, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 24. mars s.l. Greinargerð fylgir.
Skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra gerði grein fyrir málinu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar fagnar því að Reykjavíkurborg komi til móts við hugmyndir hagsmunasamtaka fatlaðra um einstaklingsbundna þjónustu. Það tilraunaverkefni sem nú fer í gang auðveldar vonandi aðgengi að þjónustu og sinnir því markmiði að hver og einn geti sniðið þjónustuna að sínum þörfum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar lýsa yfir ánægju með tilraunaverkefni um einstaklingsbundna þjónustu við fatlaða íbúa á Sléttuvegi 3, 7 og 9.
Þróunin á þessu sviði í nágrannalöndum hefur verið í þá átt að einstaklingar geti sjálfir valið og stjórnað þeirri þjónustu sem þeir fá. Ljóst er að þróunin hér á landi stefnir í sömu átt og það er fagnaðarefni að nú sé að hefjast slíkt tilraunaverkefni fyrir íbúa á Sléttuvegi, í samráði og samstarfi við Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra, hagsmunaaðila og íbúana sjálfa.
Markmiðið með verkefninu er að íbúum standi til boða val um þjónustuaðila við athafnir daglegs lífs og starfsmenn Velferðarsviðs öðlist mikilvæga þekkingu og reynslu af skipulagningu einstaklingsbundinnar þjónustu.
3. Lagður fram til kynningar viðauki við þjónustusamning Heimaþjónustu Reykjavíkur og Vinunar ehf. um heimahjúkrun fyrir fatlaða (tímabundið verkefni).
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Enn og aftur er gerður skammtímasamningur við Vinun ehf. um heimahjúkrun fyrir 14 einstaklinga sem búa á Sléttuvegi 3. Hingað til hafa rökin fyrir skammtímasamningi verið að unnið sé að heildstæðri þjónustu við íbúa á þessu svæði þar sem samþætt verður öll þjónusta sem nú er á vegum Heimaþjónustu Reykjavíkur, Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra og Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis. Nú er að hefjast tilraunaverkefni síðastnefndu aðilanna sem munu bjóða þeim sem það vilja notendastýrða persónulega aðstoð. Það eru því vonbrigði að ekki hafi verið hægt að taka inn í það verkefni hjúkrunarþáttinn, því hluti þeirrar þjónustu snýr að því að mæta athöfnum dagslegs lífs og ætti því fremur heima inn í heildarpakkanum. Þannig væri einnig hægt að nýta betur fjármagnið sem fer í þennan samning í notendastýrða aðstoð sem íbúarnir velja sjálfir.
4. Lögð fram stöðuskýrsla verkefnisins Virkni til velferðar.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
5. Lögð fram til kynningar ársskýrsla Velferðarsviðs fyrir árið 2009.
Sviðsstjóri kynnti skýrsluna. Lára Kristín Sturludóttir, verkefnisstjóri á Velferðarsviði mætti á fundinn vegna kynningarinnar.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði ítrekar enn og aftur mikilvægi þess að greint sé milli kynja við söfnun og úrvinnslu gagna skv. jafnréttislögum. Þrátt fyrir sameiginlega bókum velferðarráðs þessa efnis við kynningu síðustu ársskýrslu hefur ekki verið gerð bragarbót á. Vinstri græn leggja það til að ársskýrslan verði endurútgefin í rafrænni útgáfu með lögbundnum upplýsingum.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað til næsta fundar.
6. Kynnt bókhaldsniðurstaða Velferðarsviðs fyrir árið 2009.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar því að Velferðarsvið hafi á síðasta ári náð að halda kostnaði við umfangsmikinn rekstur sviðsins innan marka fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar. Ennfremur þakkar ráðið öllum starfsmönnum sviðsins fyrir þá miklu og fórnfúsu vinnu sem liggur að baki þessum árangri við erfiðar ytri aðstæður.
7. Lögð fram til kynningar ársskýrsla Heimaþjónustu Reykjavíkur.
8. Kynnt bókhaldsstaða jan. – mars 2010. Ennfremur lögð fram til kynningar greining á fjárhagsaðstoð og húsaleigubótum fyrstu þrjá mánuði ársins.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.
9. Lagt fram til kynningar minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
10. Lagt fram til kynningar stöðumat vegna viðbragðsáætlunar í barnavernd og til frekari stuðnings börnum í borginni.
11. Lögð fram drög að samningi milli Velferðarsviðs og Félagsbústaða um skaðleysi og umsýslu vegna leigu þjónustu- og öryggisíbúða að Fróðengi 1-11.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
Ennfremur lagður fram til kynningar leigusamningur Félagsbústaða hf og Eirar hjúkrunarheimilis um leiguíbúðir að Fróðengi 1-11.
12. Lögð fram til kynningar drög að bæklingi þjónustuhóps aldraðra um þjónustu fyrir aldraða í Reykjavík ásamt minnisblaði.
13. Lögð fram til kynningar framvinda starfsáætlunar 2010.
14. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá fundi velferðarráðs 12. febrúar s.l. varðandi fyrirspurn um verð og leigugjald í sérhönnuðu leiguhúsnæði sem í boði eru fyrir eldri borgara í Reykjavík
Fundi slitið kl. 15.30
Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Elínbjörg Magnúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal