Velferðarráð - Fundur nr. 127

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ


Ár 2010, föstudaginn 12. febrúar var haldinn 127. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 10:15 að Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram að nýju tillaga að breytingu á reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.
Samþykkt samhljóða.

2. Lögð fram að nýja tillaga um leiguverð í þjónustuíbúðum í Fróðengi ásamt leigusamningi um þjónusturými.
Tillagan var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum
Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar telur að varlega þurfi að stíga til jarðar í samningum við þriðja aðila um þjónustu- og öryggisíbúðir. Ljóst er að þau reynast dýrt úrræði, bæði fyrir Reykjavíkurborg og notendur þjónustunnar, eins og leigugjald fyrir Fróðengi 1-11 sýnir glöggt. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að útvistun verkefna sé til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, notendur þjónustu eða starfsfólk, heldur þveröfugt. Þetta verður að hafa í huga áður en lengra er haldið á þessari braut.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Breyting á reglum og nýr leigusamningur við Eir, veita væntanlegum leigjendum rétt til sérstakra húsaleigubóta og þar með verður leiga í þjónustuíbúðum Eirar á viðráðanlegra verði fyrir þá eldri Reykvíkinga sem fá úthlutað þessum íbúðum á vegum borgarinnar. Íbúðirnar verða teknar á leigu af Félagsbústöðum sem framleigir síðan eldri borgurum sem uppfylla þarfir fyrir þjónustu og önnur skilyrði fyrir úthlutun þjónustuíbúða á vegum Velferðarsviðs. Fulltrúar Samfylkingarinnar vöktu athygli á óviðráðanlegri leigu á sínum tíma og líta svo á þessi breyting sé lausn til að mæta tekjulágum og verr stöddum öldruðum Reykvíkingum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna því að nú liggi fyrir hver leiga og greiðslubyrði leigjenda Félagsbústaða verður í íbúðunum við Fróðengi. Leigan í þjónustu og öryggisíbúðum Eirar við Fróðengi er í samræmi við það sem kynnt var á fundi velferðarráðs þann 9. desember síðastliðinn og með breytingum á reglum er komið til móts við tekjulægri einstaklinga í öryggis- og þjónustuíbúðum á vegum Velferðarsviðs.

3. Lagt fram að nýju bréf Barnaverndarstofu dags. 12. janúar 2010 ásamt skýrslu um fundi Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum tímabilið mars til júní 2009. Ennfremur lagt fram minnisblað sviðsstjóra Velferðarsviðs og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur dags. 12. febrúar 2010.

4. Fulltrúar Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í ljósi upplýsinga í fjölmiðlum á undanförnum vikum um óheyrilega háa húsaleigu og búsetugjald í tilteknum íbúðum sem eru sérhannaðar fyrir eldri borgara er óskað eftir að Velferðarsvið afli upplýsinga um verð og leigugjald í sérhönnuðu íbúðahúsnæði sem í boði eru fyrir eldri borgara í Reykjavík og leggi fyrir velferðarráð. Mikilvægt er að fá fram heildarmynd af slíku verði, til að umræðan geti verði markviss.

Fundi slitið kl. 10.45

Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Sif Sigfúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal