Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2009, miðvikudaginn 18. nóvember, var haldinn 118. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.45 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram endurskoðuð verk- og tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2010, dags. 10. nóvember 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
2. Lögð fram tillaga að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Rannsóknir sýna að félagslegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis geta verið alvarlegar og samfélagslegur kostnaður mikill. Helstu afleiðingar eru fjárhagslegir erfiðleikar, félagsleg einangrun, fátækt, aukin samskiptavandamál í fjölskyldum, sinnuleysi, versnandi heilsufar o.fl. Fjöldi einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg hefur aukist mikið eða um rúmlega 50#PR ef bornir eru saman fyrstu 8 mánuðir ársins 2008 og 2009. Fjölgun er að verða í þeim hópi sem fengið hefur fjárhagsaðstoð sex mánuði eða lengur og tólf mánuði eða lengur. Einnig má merkja meiri fjölgun hjá yngra fólki, 18-30 ára en í öðrum hópum. Spá fyrir næsta ár gerir ráð fyrir enn frekari fjölgun í hópi þeirra sem fá fjárhagsaðstoð. Út frá þessum staðreyndum og þeirri útgjaldaaukningu sem fylgir aukinni fjárhagsaðstoð er mikilvægt að fá góða yfirsýn yfir þann hóp sem er að fá fjárhagsaðstoð með það að markmiði að grípa inn í ferlið, stuðla betur að virkni fólks og þar með auknum lífsgæðum og draga úr útgjöldum til fjárhagsaðstoðar til lengri tíma litið. Mikilvægt er veita fólki sem fær fjárhagsaðstoð markvissa ráðgjöf, stuðning og upplýsingagjöf meðan á atvinnuleit stendur. Meirihluti Velferðarráðs Reykjavíkurborgar telur afar mikilvægt að heimild til tímabundinnar skilyrðingar fjárhagsaðstoðar verði sett inn í lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mikilvægi þess að sveitarfélagið geti tryggt að umsækjendur sæki sér nauðsynlega aðstoð í formi skilgreindra úrræða sem eru til þess fallin að auka samfélagslega virkni hefur aldrei verið meiri en nú. Þetta er sérstaklega mikilvægt í tilfelli ungra umsækjenda. Mikilvægi þess að ná tengslum við einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð og aðstoða þá félagslega með því að hvetja til þátttöku og virkni verður seint vanmetið. Í ljósi þess að nú eru í endurskoðun hjá félagsmálaráðuneytinu lög um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 og ekki er skýr heimild fyrir því að skilyrða fjárhagsaðstoð í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, vill meirihluti velferðarráðs koma því á framfæri við félagsmálaráðherra að samhliða endurskoðun atvinnuleysistryggingalaga verði lög um félagsþjónustu sveitarfélaga jafnframt endurskoðuð og heimilt verði að binda fjárhagsaðstoð skilyrðum um þátttöku í félagslegum úrræðum. Slík skilyrði mega þó aldrei ganga of nærri þörf viðkomandi fyrir framfærslu og reglur varðandi mögulega skilyrðingu þurfa að vera hógværar, skýrar og gagnsæjar.
Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar taka undir mikilvægi þess að koma í veg fyrir félagslegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis, enda sýna rannsóknir að þær eru alvarlegar, bæði fyrir einstaklinga og samfélög. Það er því vissulega áhyggjuefni eins og staðan í samfélaginu er nú, hve margir bætast í hóp þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð í lengri tíma, en það er sá hópur sem ekki á rétt atvinnuleysisbótum vegna skammrar atvinnuþátttöku. Það er afar mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir slíkt m.a. með því að tryggja þátttöku þessara einstaklinga í úrræðum sem auka samfélagslega virkni. Slík úrræði virka sem forvörn gegn þeim erfiðleikum sem langtímaatvinnuleysi getur haft í för með sér s.s. félagslega einangrun, sinnuleysi og fátækt. Nú er verið að vinna að frumvarpi að breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar, sem hafa það markmið að virkja fólk. Mikilvægt er að sveitarfélög séu í samráði við ríkisvaldið í undirbúningi þessa máls til að koma í veg fyrir að fólk fari af atvinnuleysisskrá yfir á fjárhagsaðstoð sveitarfélags. Hvernig það verður tryggt og hvaða lögum og lagagreinum þarf að breyta geta fulltrúar Samfylkingarinnar ekki sagt til um hér og nú og taka því ekki undir bókun meirihlutans. Gögn vegna þessa máls voru ekki send út fyrir fund og því hefur ekki gefist tími til að kynna sér þau og fjölmörg álit Umboðsmanns Alþingis varðandi fjárhagsaðstoð.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði getur ekki samþykkt óskir meirihlutans um breytingar á lögum til að skilyrða fjárhagsaðstoð og óskar eftir því að þessi bókun verði send með bókun meirihlutans til félagsmálaráðherra. Fjárhagsaðstoð er síðasta öryggisnet samfélagsins og tengist lögbundinni skyldu sveitarfélaga að veita einstaklingum og fjölskyldum sem ekki geta séð sér og sínum farborða aðstoð. Meirihlutinn er því að óska eftir því að skyldur sveitarfélaga til framfærslu verði minnkaðar. Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði styður hins vegar hugmyndir um að virkja þá einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð því markmiðið hlýtur að vera að aðstoða fólk til að komast á vinnumarkaðinn aftur og vera virkir borgarar. Því hlýtur nálgunin að vera hvatning frekar en skilyrðing. Það getur ekki verið óskastaða neins að vera háður fjárhagsaðstoð og alltaf um neyðarúrræði að ræða.
3. Lagðar fram tillögur sviðsstjóra dags. 17. nóvember 2009 til að stuðla að aukinni virkni einstaklinga á fjárhagsaðstoð sbr. bókun velferðarráðs dags. 26. ágúst 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Samþykkt samhljóða.
4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 21. október 2009 þar sem tillögu um tilraunaverkefni um ráðgjöf fyrir langtímaatvinnulaust fólk er vísað til velferðarráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra.
Samþykkt að fela sviðsstjóra útfærslu verkefnisins í samræmi við framlagt minnisblað.
5. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi dags. 11. nóvember 2009.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
6. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – september 2009 og bráðabirgðatölur fyrir október 2009.
7. Lögð fram til kynningar úttektarskýrsla MHH-2009-1, útgáfa 1.0 dags. 15. október 2009 á Heimahjúkrun Reykjavíkur skv. ákvæði í kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytis dags. 22. desember 2008.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
8. Lagðar fram til kynningar siðareglur starfsmanna hjá Reykjavíkurborg sem samþykktar voru í borgarráði 22. október 2009.
9. Lagt fram til kynningar bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 29. október 2009 og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar.
10. Lögð fram til kynningar ársskýrsla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 2008.
11. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um hækkun fjárhagsaðstoðar frá fundi velferðarráðs 28. október s.l.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Miðað við núverandi forsendur Velferðarsviðs rúmast hækkunin ekki innan fjárhagsramma. Er því tillögunni vísað til gerðar fjárhagsáætlunar í borgarráði í þeirri heildarskoðun sem þar fer fram.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í velferðarráði harmar þá meðferð sem tillaga um hækkun fjárhagsaðstoðar fékk, en henni var vísað áfram til gerðar fjárhagsáætlunar. Óskandi hefði verið að velferðarráð hefði tekið afstöðu til nauðsynjar þess að hækka fjárhagsaðstoð um 18.000 krónur hið minnsta eins og lagt hefur verið til. Atvinnuleysisbætur eru nú um 150.000 krónur og er litið á þær sem tímabundna neyðaraðstoð. Því er undarlegt að fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar sé einungis 115.000 krónur. Samkvæmt viðmiðunarneyslu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna þarf einstaklingur að lágmarki 49.100 krónur fyrir brýnustu nauðsynjum. Þá er ekki talinn með húsnæðiskostnaður, rekstur bifreiðar og fjárhagslegar skuldbindingar. Viðmiðunarneyslan er að sjálfsögðu meiri ef fleiri eru á heimili. Sú upphæð sem fólki á fjárhagsaðstoð er ætlað að draga fram lífið á er því úr öllum tengslum við veruleikann og fylgja ekki takti launahækkana sem þó hafa verið litlar. Síðustu mánuði hefur komið til umræðu í velferðarráði af hverju eins fáir og raun ber vitni fái heimildargreiðslur vegna barna skv. 16. gr. A reglna um fjárhagsaðstoð. Reglurnar kveða á um að einungis þeir foreldrar fá slíkar heimildargreiðslur sem hafa tekjur sem eru við eða lægri en grunnfjárhæðin. Vegna þessa má ætla að heimildargreiðslurnar nái ekki til þeirra sem á þurfa að halda, til dæmis fólks á atvinnuleysisbótum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Mikill samdráttur í tekjum borgarinnar hefur áhrif á allt borgarkerfið. Í ljósi þess getur meirihluti velferðarráðs ekki samþykkt tillögur minnihlutans að svo stöddu um hækkun fjárhagsaðstoðar og vísar þeim til gerðar fjárhagsáætlunar í borgarráði.
12. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar um hækkun fjárhagsaðstoðar frá fundi velferðarráðs 28. október s.l.
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Miðað við núverandi forsendur Velferðarsviðs rúmast hækkunin ekki innan fjárhagsramma. Er því tillögunni vísað til gerðar fjárhagsáætlunar í borgarráði í þeirri heildarskoðun sem þar fer fram.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það eru vonbrigði að meirihluti velferðarráðs vísi tillögu um hækkun fjárhagsaðstoðar til gerðar fjárhagsáætlunar án þess að taka undir mikilvægi þess að hækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og sem væri þá skilaboð til borgarráðs. Vissulega eru margir á fjárhagsaðstoð í ár en þess ber að geta að mun fleiri voru þó á fjárhagsaðstoð á árunum 2002, 2003 og 2004 en samt sem áður hækkaði fjárhagsaðstoð á þeim árum samkvæmt verðlagi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er ólíku saman að jafna stöðunni nú eða árin 2002 – 2004 og ljóst að mikill samdráttur í tekjum borgarinnar hefur áhrif á allt borgarkerfið. Í ljósi þess getur meirihluti velferðarráðs ekki samþykkt tillögur minnihlutans að svo stöddu um hækkun fjárhagsaðstoðar og vísar þeim til gerðar fjárhagsáætlunar í borgarráði.
Fundi slitið kl. 16.00
Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Sif Sigfúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal