Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2009, miðvikudaginn 28. október var haldinn 117. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:15 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Hallur Magnússon, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal.
Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram endurskoðuð verk- og tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar dags. 13. okt. 2009.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í velferðarráði Reykjavíkurborgar gagnrýnir vinnubrögðin sem einkenna starfið við fjárhagsáætlun 2010. Nefndarmönnum er ekki treyst fyrir nauðsynlegum gögnum og hefur það að sjálfsögðu áhrif á möguleika þeirra til að sinna sínum störfum. Ljóst er af umræðunni og þeim tillögum sem hafa verið lauslega kynntar að um stefnubreytingu í málefnum borgarinnar er að ræða við fjárhagsáætlun og er þá sérstaklega vísað til hlutverks þjónustumiðstöðva. Breytingar krefjast pólitískrar umræðu og umfjöllunar í velferðarráði og er því krafan sú að nefndarfulltrúum verði kynnt öll fyrirliggjandi gögn í því ferli sem nú stendur yfir.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í velferðarráði hefur fjárhagsáætlun verið unnin samkvæmt forskrift fjármálaskrifstofu borgarinnar á sama hátt og á öðrum sviðum borgarinnar. Fulltrúar velferðarráðs höfðu aðkomu að tillögum sviðsins um hagræðingaraðgerðir á tveimur fundum. Þetta eru viðkvæmar hugmyndir sem unnið er með og því voru þær ræddar í fullum trúnaði og ekki dreift. Fulltrúar allra flokka sitja í aðgerðarhópi borgarinnar sem hefur nú tillögurnar til rýningar og getur fulltrúi Vinstri grænna komið athugasemdum á framfæri þar í gegnum sinn fulltrúa í hópnum. Ákvörðun um flutning þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða í Höfðatorg sem vísað er til er engin stefnubreyting. Velferðarráð mun áfram koma að vinnu við fjárhagsáætlun 2010 samkvæmt endurskoðaðri verk- og tímaáætlun. Endurskoðuð verk og tímaáætlun var lögð fram á fundi ráðsins í dag.
2. Lögð fram tillaga að breytingu á gjaldi fatlaðra nema í ferðaþjónustu.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
3. Lagt fram að nýju bréf borgarráðs, dags. 17. júlí 2009, ásamt drögum að endurskoðuðum reglum um úthlutun styrkja á vegum hverfaráða.
Málinu er frestað til næsta fundar.
4. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi dags. 28. október 2009.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar því að Velferðasvið hefur gert sérstakt átak í að kynna foreldrum rétt þeirra til sérstaks stuðning vegna barna þeirra samkvæmt fjárhagsaðstoðarreglum. Það er einnig mikilvægt að foreldrar sem á því þurfa að halda séu hvattir til að nýta þennan rétt börnum sínum til handa. Öll börn eiga rétt á að njóta frístunda, leikja við jafnaldra og hollra skólamáltíða. Það er gleðiefni að hægt sé að veita slíka aðstoð og nauðsynlegt að kynna hana vel.
5. Lagt fram bréf skrifstofustjórna borgarstjórnar dags. 21. október 2009 varðandi siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg.
Fundarmenn undirrituðu yfirlýsingu að þeim hefðu verið kynntar reglurnar.
6. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur Velferðarsviðs og Námsflokka Reykjavíkur um verkefnið Starfskraft.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
7. Lögð fram til kynningar áfangaskýrsla um Dagsetur Hjálpræðishersins september 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
8. Lögð fram til kynningar skýrsla, dags. sept 2009. “Éf hefði aldrei haft efni á þessu“ upplifun foreldra og barna í Reykjavík af styrkjum samkvæmt grein 16A í fjárhagsaðstoðarreglum Reykjavíkurborgar.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
9. Lagður fram til kynningar samningur Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og Svæðisskrifstofu um málefna fatlaðra um samþætta þjónustu við íbúa í þjónustukjarna Rangárseli 16-20.
10. Lagður fram til kynningar viðauki við þjónustusamning Heimaþjónustu Reykjavíkur og Vinunar ehf. um heimahjúkrun fyrir fatlaða (tímabundið verkefni).
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er afar mikilvægt að þjónusta fyrir fólk sem býr við alvarlega fötlun og þarf mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs sé veitt og stjórnað af einum aðila. Þannig er hægt að bjóða upp á heildstæða þjónustu. Slíkt fyrirkomulag er ekki í boði á Sléttuvegi þar sem Vinun ehf., Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra og Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis koma öll að málum fyrir tiltekin hóp fólks. Þegar þjónustan er heildstæð er einnig auðveldara að bjóða upp á notendastýrða og einstaklingsmiðaða þjónustu sem er krafa flestra sem búa við alvarlegar fatlanir. Því er æskilegt að Reykjavíkurborg vinni nú þegar að heildstæðri áætlun um þjónustu á Sléttuvegi í stað þess að framlengja í stuttan tíma í senn samningum við þriðja aðila.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Velferðarsvið tók við þessari þjónustu 1. janúar 2009 og hefur síðan þá verið unnið að því að samþætta og efla þjónustu við íbúa við Sléttuveg 3-5. Í ljósi þess að verið er að vinna að því var ákveðið að framlengja samninginn einungis til 31. mars á næsta ári.
11. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í velferðarráði leggur til að fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar verði hækkuð að lágmarki um 18.000 krónur á mánuði og heimildagreiðslur í hlutfalli við það.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
12. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í velferðarráði leggja til að hækka fjárhagsaðstoð til samræmis við hækkun lágmarkslauna, um 13.500 á mánuði, frá og með 1. janúar 2010. Þá yrði fjárhagsaðstoð einstaklinga 129.067 kr. og hjóna/sambúðarfólks um 206.507 kr., en í dag eru upphæðirnar 115.567 og 184.907 kr. Hækkun þessi er í fullu samræmi við stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Kostnaður fyrir borgarsjóð er tæplega 163 milljónir króna á ársgrundvelli miðað við meðalfjölda notenda í júní til september 2009 samkvæmt svari Velferðarsviðs 28. sept. sl. við fyrirspurn okkar.
Afgreiðslu tillögunnar er frestað.
Fundi slitið kl. 14.05
Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Sif Sigfúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal