Velferðarráð - Fundur nr. 116

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2009, miðvikudaginn 14. október var haldinn 116. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12.25 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir og Helga J. Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fjárhagsáætlun 2010.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna vilja lýsa yfir fullum fyrirvara á þeim hugmyndum sem Velferðarsvið sendir nú frá sér til aðgerðahóps borgarráðs um fjárhagsáætlun næsta árs þar sem við höfum efasemdir um forgangsröðun, raunhæfni og réttmæti einstakra tillagna.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð óskar eftir því að heilbrigðisráðneytið leiðrétti og/eða endurskoði RAI-mat hjúkrunarsjúklinga á Droplaugarstöðum fyrir yfirstandandi ár og það sem lagt er til grundvallar rekstri á komandi fjárhagsári í frumvarpi að fjárlögum. RAI-matið ákvarðar þau daggjöld sem hjúkrunarheimili fá til rekstrar og það er samdóma álit fagfólks hjá Reykjavíkurborg sem hefur farið yfir þessi mál að skekkja hafi orðið í RAI-matinu sem leitt hefur til aukins halla á rekstri hjúkrunarheimilisins.

2. Bókhaldsstaða, ágúst 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram tillaga dags. 12. október 2009 varðandi starfsendurhæfingarúrræðið Ekron.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

4. Lögð fram tillaga varðandi ferðaþjónustu fyrir fatlaða framhalds- og háskólanemendur.
Málinu er frestað til næsta fundar.

5. Lagt fram minnisblað aðgerðateymis vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

6. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar – ágúst 2009 og bráðabirgðatölur fyrir september 2009.

7. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi velferðarráðs 28. september um ítarlegri sundurliðun þjónustusamninga sviðsins.

8. Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fer þess hér með á leit við félagsmálanefnd Alþingis að lög nr. 53/1972 um orlof húsmæðra verði endurskoðuð. Lögin fela í sér íþyngjandi skyldur á sveitarfélög sem ástæða er til að endurskoða. Til frekari upplýsingar er vísað til erindis Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 16. mars 2009.

9. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Borgarstjóri hefur með bréfi til sviðsstjóra Velferðarsviðs ákveðið að flytja Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða yfir á Höfðatorg á næsta ári og þar með mun hlutverk miðstöðvarinnar breytast. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í velferðarráði mótmæla þessum vinnubrögðum borgarstjóra þar sem greinilega hefur ekki verið hugsað um eitt mikilvægasta hlutverk þjónustumiðstöðva sem er að vinna að hvers kyns framfaramálum í þeirra hverfum, efla félagsauð og vinna að bættri hverfisvitund. Vandséð er hvernig eigi að sinna nærþjónustu við hundruð borgarbúa í hverri viku frá Höfðatorgi sem er aðgangsstýrt stjórnsýslu og skrifstofuhúsnæði. Bent hefur verið á aðra og betri kosti til hagræðingar í húsnæðismálum miðstöðvarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs fagnar ákvörðun um flutning þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða í Borgartún 12, Höfðatorg, þar sem miðstöð þjónustu borgarinnar er til húsa. Kostir þess að flytja þjónustumiðstöðina í Höfðatorg eru ótvíræðir og flutningurinn mun efla þjónustu miðstöðvarinnar við borgarbúa. Hlutverk miðstöðvarinnar mun ekki á neinn hátt breytast með þessum flutningi. Höfðatorg er miðstöð þjónustu borgarinnar og þar er gott starfsumhverfi fyrir starfsmenn. Gott aðgengi er að öðrum sviðum borgarinnar og með breytingunni verður þjónustumiðstöðin í beinum tengslum við skrifstofu Velferðarsviðs sem er í sama húsi. Við flutninginn skapast mikil tækifæri til samnýtingar með stoðdeildum og sviðum borgarinnar. m.a. um þjónustuver og símaver. Aðgengi og samgöngur, þar með taldar almenningssamgöngur, að húsinu eru mjög góðar og aðgengi fatlaðra er til fyrirmyndar. Hagræðing sem af þessu hlýst er a.m.k. leigukostnaður upp á 33 milljónir á ári sem nýtist í þágu borgaranna. Aðrir kostir hafa verið skoðaðir og var niðurstaða þeirrar skoðunar að skynsamlegasti kosturinn í stöðunni væri að flytja miðstöðina í Höfðatorg.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Allar borgarstofnanir sem flutt hafa í Höfðatorg hafa þurft að greiða mun hærri leigu og aðstöðugjald en í fyrra húsnæði sínu. Með því að fá fleiri inn í Höfðatorg er verið að deila leigu á fleiri sem í raun þýðir að Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða mun greiða niður húsnæði annarra sviða, en ekki spara 33 milljónir. Meirihluti velferðarráðs er greinilega blindur á þær breytingar sem augljóslega er verið að gera á hlutverki þjónustumiðstöðvarinnar. Málið er vanhugsað með tilliti til samgangna, aðgengis, staðsetningar og þess hversu viðkvæm þjónustan er.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er sameiginlegt verkefni allra sviða að leita hagræðingarmöguleika og mikilvægt í því tilliti að leita allra leiða til frekari samnýtingar á húsnæði. Þessi ákvörðun er liður í þeirri viðleitni að forgangsraða í útgjöldum borgarinnar og standa vörð um störf og grunnþjónustu.

Fundi slitið kl. 13.55

Jórunn Frímannsdóttir
Eiríkur Sigurðsson Sif Sigfúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Drífa Snædal