Velferðarráð - Fundur nr. 111

Velferðarráð

Ár 2009, miðvikudagurinn 9. september var haldinn 111. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 12:15 í Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Eiríkur Sigurðsson, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Drífa Snædal. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan “Utangarðsmenn í Reykjavík, kortlagning og rannsókn”, samvinnuverkefni Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Velferðarsviðs.
Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, félagsfræðingur og Erla Guðrún Sigurðardóttir, MA nemi í félagsráðgjöf mættu á fundinn og kynntu skýrsluna ásamt Guðrúnu Reykdal, verkefnisstjóra.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks 2008-2012, sem samþykkt var í velferðarráði og borgarráði í september 2008, er lögð fram metnaðarfull aðgerðaráætlun í málefnum heimilislausra. Í henni kemur meðal annars fram að öllum sé tryggt lágmarkshúsaskjól og að enginn gisti fangageymslur lögreglu sökum húsnæðisleysis. Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og fulltrúar Samfylkingarinnar spyrja því hvernig miðar að framkvæma aðgerðaráætlunina, sérstaklega með tilliti til ofangreindra þátta.

2. Lagt fram að nýju bréf borgarráðs, dags. 17. júlí 2009, ásamt drögum að endurskoðuðum reglum um úthlutun styrkja á vegum hverfaráða.
Málinu er frestað.

3. Lögð fram skýrsla um starf nærþjónustuhópa aldraðra, júlí 2009. Ennfremur lagt fram minnisblað með skýrslu um störf vinnuhópa um bætta nærþjónustu við eldri borgara í Reykjavík.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Velferðaráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð ítrekar bókun sína frá 22. ágúst 2007 og 12. nóvember 2008 um mikilvægi þess að tengslanet um nærþjónustu við eldri borgara sé eflt með skipulögðum hætti. Þá leggur verlferðarráð til að hverfaráðum verði falið að hafa umsjón með starfi hópanna og tryggja að þeir séu virkir í öllum hverfum borgarinnar. Sviðsstjóra verði falið að móta skýrari ramma um starf þessara hópa og eftirfylgni við þá. Velferðarráð óskar eftir því að fá árlega skýrslu um starf hópanna.

Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar í velferðarráði leggja til að nærþjónustuhópar verði efldir og jafnvel farið út í tilraunaverkefni í samstarfi við eina þjónustumiðstöð um sjálfboðaliðastarf s.s. á vegum félagsráðgjafarnema (gegn einingum) til að efla nærþjónustu og jafnvel að stýra notendahópum á félagsmiðstöðvum. Aldrei er mikilvægara en núna að gæta þess að aldraðir einangrist ekki og að skert fjárráð hafi ekki áhrif á möguleika þeirra til félagsstarfs og að njóta annarrar þjónustu innan borgarinnar.
Vísað til afgreiðslu sviðsstjóra.

4. Lagðar fram til kynningar áherslur þjónustuhóps aldraðra í Reykjavík fyrir árið 2010.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð lýsir ánægju með áherslur þjónustuhóps aldraðra í Reykjavík og vísar þeim til gerðar starfsáætlunar sviðsins eftir því sem við á. Velferðarráð tekur sérstaklega undir mikilvægi þess að vel sé hugað að þörfum þeirra eldri borgara sem búa við sértæk vandamál, s.s. geðfötlun eða áfengisvanda í þeim þjónustutilboðum sem standa öldruðum til boða s.s. þjónustuíbúðum og hjúkrunarheimilum.

5. Lögð fram til kynningar áfangaskýrsla II stýrihóps Velferðarvaktar Félags- og tryggingarmálaráðuneytis, ágúst 2009
Sviðstjóri gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð Reykjavíkurborgar tekur undir nýbirtar tillögur stýrihóps velferðarvaktar félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Miklir erfiðleikar steðja nú að íslenskum heimilum og nauðsynlegt er að stjórnvöld grípi til raunhæfra og róttækra aðgerða sem fyrst til að koma í veg fyrir að stór hluti fjölskyldna lendi í fjárhagserfiðleikum með tilheyrandi félagslegum vandamálum. Stefna Reykjavíkurborgar er að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa í fyrirsjáanlegum niðurskurði. Velferðarráð telur jafnframt að lykilatriði sé að komið verði í veg fyrir að stór hópur ungs fólks bætist í hóp langtímaatvinnulausra. Í því skyni hefur m.a. mikil áhersla verið lögð á að lögð á að auka samstarf Velferðarsviðs borgarinnar við Vinnumálastofnun. Meðal annars hefur verið sóst eftir því, eins og lagt er til af stýrihóp ráðuneytisins, að úrræði Vinnumiðlunar standi þeim til boða sem njóta fjárhagsaðstoðar frá borginni. Til þess að það sé mögulegt er brýnt að Vinnumálastofnun sé gert kleift að sinna sínu lögbundna hlutverki við breyttar aðstæður. Þá óskar Velferðarráð eftir tillögum frá aðgerðateymi Velferðarsviðs og hópnum Börnin í borginni um hvernig mæta megi þeim barnafjölskyldum þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir, en velferðarvaktin hefur sérstakar áhyggjur af þeim.

6. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur Menntasviðs, Velferðarsvið og ÍTR um Skólaselið Keilufelli.
Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í velferðarráði óskar eftir yfirliti yfir þjónustusamninga sviðsins og sundurliðaðar fjárhagslegar breytingar á þeim síðustu 3 ár.

7. Lögð fram til kynningar árskýrsla Unglingasmiðjunnar Traðar árið 2008.

8. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Fjárhagsaðstoð til einstaklinga í Reykjavík er í dag 115.567 kr. á mánuði og til hjóna/sambúðarfólks 184.907 kr. Í kjölfar stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins var ákveðið að hækka laun sem eru undir 180.000 þús. á mánuði um 6.750 kr. þann 1. júlí og aftur 1. nóvember 2009.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í velferðarráði óska eftir því að fá upplýsingar um hvað það kostar borgarsjóð að hækka fjárhagsaðstoð einstaklinga sem nemur hækkun lágmarkslauna, eða um 13.500 á mánuði, frá og með 1. janúar 2010. Þá yrði fjárhagsaðstoð einstaklinga 129.067 kr. og hjóna um 206.507 kr.

9. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Svo virðist sem vinna við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sé á byrjunarreit. Engar upplýsingar hafa fengist um hvaða fjármagn fagsvið borgarinnar og borgarstofnanir geta vænst á næsta ári né hver verða leiðarljós borgarstjórnar fyrir næsta fjárhagsár. Velferðarráð hefur ekki fengið fjárhagsramma til að vinna eftir og ekki bólar á efnahagslegum forsendum fyrir fjárhagsáætlun næsta árs.
Spurt er:
1) Hvenær mega fagráð og fagsvið borgarinnar eiga von á úthlutun fjárhagsramma?
2) Hvenær munu forsendur fyrir fjárhagsáætlun næsta árs liggja fyrir?

Marsibil Sæmundardóttir vék af fundi kl. 14.00.
Björk Vilhelmsdóttir vék af fundi kl. 14.02
Eiríkur Sigurðsson vék af fundi kl. 14.03

Fundi slitið kl. 14.08

Jórunn Frímannsdóttir
Elínborg Magnúsdóttir Jóhanna Hreiðarsdótitr
Drífa Snædal