Velferðarráð - Fundur nr. 106

Velferðarráð

Velferðferðarráð


Ár 2009, mánudaginn 25. maí var haldinn 106. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.10 að Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Hallur Magnússon, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram úttekt á þjónustumiðstöðum, skipulag, stjórnun og rekstrarfyrirkomulag dags. janúar 2009 sbr. samþykkt velferðarráðs frá 28. maí 2008.
Jón Garðar Hreiðarsson ráðgjafi hjá Invis ehf, mætti á fundinn og gerði grein fyrir úttektinni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja þakka Invis fyrir úttektina á þjónustumiðstöðvunum. Margt jákvætt kemur þar fram en jafnframt er nauðsynlegt að fara betur ofan í saumana á ákveðnum þáttum. Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja til að úttekt Invis á þjónustumiðstöðvunum verði vísað inn í vinnuhóp um stefnumótun hverfatengdrar þjónustu í þágu borgarbúa til framtíðar sem samþykkt var að setja í gang í borgarstjórn Reykjavíkur þann 5. maí síðastliðinn og liggur nú fyrir borgarráði að setja í gang.
Tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn er svohljóðandi:
“Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hefja vinnu við mótun stefnu um samþætta þjónustu í hverfum borgarinnar. Markmið með mótun stefnu um samþætta þjónustu er að ná sameiginlegri pólitískri sýn á þróun, starfsemi, hlutverk og stefnu hverfatengdrar þjónustu í þágu borgarbúa til framtíðar. Borgarráð skipi sjö manna vinnuhóp sem vinni að mótun stefnunnar og leggi hana fyrir borgarráð á fyrsta fundi borgarráðs í október.”
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að hópurinn verði skipaður sem fyrst og geti hafið störf svo stefnumótunarvinnunni verði lokið fyrir október á þessu ári.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í velferðarráði þakka fyrir að úttekt sem lauk í janúar sl. um skipulag, stjórnun og rekstrarfyrirkomulag þjónustumiðstöðvanna sé nú loks gerð opinber. Skýrslunni er vísað til umræðu í vinnuhóp um stefnumótun hverfatengdrar þjónustu og munum við að sjálfsögðu taka fullan þátt í starfinu þar. Rétt er að taka fram að fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna geta ekki tekið undir hugmyndir og tillögur í skýrslunni sem miða að aukinni miðstýringu, fátækari fagþekkingu í hverfum og færri þjónustumiðstöðvum, enda byggja þær á stefnu núverandi meirihluta. Okkar sýn er sú að þjónusta borgarinnar eigi að vera sem næst íbúum og starfsfólki á öðrum borgarstofnunum úti í hverfunum. Reykjavíkurborg er að taka við nýjum verkefnum sem eiga að framkvæmast í nærsamfélaginu. Heimahjúkrun er nýlega komin, verið er að flytja málefni geðfatlaðra og önnur þjónusta við fatlaða mun flytjast til sveitarfélaganna eftir 1 1/2 ár og málefni aldraðra fljótlega þar á eftir. Við munum vinna að framtíðarsýn þjónustumiðstöðva með tilliti til framtíðarverkefna borgarinnar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti velferðarráðs vekur athygli á því að tillögur þær sem fram koma í úttekt Invis ehf eru tillögur úttektaraðila sem ekki hafa fengið pólitíska umfjöllun. Ákvörðun meirihluta í borgarstjórn um stofnun þjónustumiðstöðva árið 2005 var tekin í ágreiningi. Það sem aðallega var gagnrýnt var helst eftirfarandi:

• Miðstöðvarnar þóttu of litlar og ekki var talið að þær gætu orðið alhliða miðstöðvar fyrir alla þjónustu borgarinnar, “one stop shop” eins og lagt var upp með.
• Gagnrýnt var að framkvæmd þjónustunnar yrði dýrari en áður með því að dreifa henni með þessum hætti.
• Þjónusta sem flutt var undir stjórn þjónustumiðstöðva var að stærstum hluta velferðarþjónusta og aðeins hluti af annarri starfsemi borgarinnar var færður undir þeirra hatt. Strax í upphafi var því talið að þjónustmiðstöðvarnar væru ekki að ná upphaflegu markmiði sínu.
Ákveðin reynsla er nú komin á rekstur þjónustumiðstöðva þau þrjú og hálft ár sem þær hafa starfað. Kjörnir fulltrúar hafa haft mismunandi sýn hvað varðar þróun þjónustumiðstöðva og því hvort þjónustu borgarinnar sé betur fyrir komið dreifstýrt eða miðlægt. Af þessum ástæðum er talin þörf á mótun skýrrar stefnu borgarstjórnar, sem nýtur stuðnings bæði meiri- og minnihluta. Meirihluti velferðarráðs vill leggja ríka áherslu á mikilvægi þess að skapist sátt og sameiginleg framtíðarsýn um hverfatengda þjónustu. Vinnuhópi borgarstjórnar er ætlað að móta sameiginlega stefnu um þjónustuna með það að markmiði að veita sem besta þjónustu til borgarbúa. Því er sérkennilegt að minnihlutinn í velferðarráði skuli setja málið á þennan stað með bókun sinni.

2. Lögð fram að nýju tillaga samráðshóps um forvarnir um úthlutun styrkja til forvarnamála.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

3. Lögð fram að nýju breytt tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varðandi Fjölskylduhjálp Íslands.
Sif Sigfúsdóttir vék af fundi kl.14.58.
Elínbjörg Magnúsdóttir mætti á fundinn kl. 14.58
Tillagan var samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í velferðarráði geta ekki greitt því atkvæði að Fjölskylduhjálp Íslands fái til ráðstöfunar húsnæði sem ætlað er heimilislausum konum. Lagt er til að Fjölskylduhjálp Íslands verði í húsnæði borgarinnar að Eskihlíð 2-4 til 1. september 2010. Fyrirhugað var að Fjölskylduhjálpin færi úr húsnæðinu 1. júní næstkomandi og við tæki undirbúningur að því að heimilislausar konur fengju húsið til íbúðar. Það er löngu orðið tímabært að konur fái samsvarandi úrræði og karlar í sömu stöðu. Hugsunin var sú að Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hefði yfirumsjón með úrræðinu og hagkvæmni talin í nálægðinni við Konukot sem RRKÍ rekur en engar áætlanir liggja nú fyrir um lausn þessa máls.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Nú hefur verið leitað að nýju húsnæði fyrir Fjölskylduhjálpina í allnokkra mánuði án árangurs. Vegna aðstæðna í samfélaginu telur meirihluti velferðarráðs ekki ástæðu til að setja málefni Fjölskylduhjálparinnar í uppnám og leggur því til þessa breytingu. Samþykktin er með fyrirvara um að finnist annað hentugt húsnæði fyrir Fjölskylduhjálpina sé áfram möguleiki að vinna að útfærslu þeirra hugmynda sem uppi eru um heimili fyrir heimilislausar konur í núverandi húsnæði Fjölskylduhjálparinnar. Áfram verður unnið að undirbúningi heimilis fyrir heimilislausar konur og skoðaðir nýir möguleikar í þeim efnum í ljósi þessa.

4. Lögð fram tillaga um framtíðarskipan og þróun unglingasmiðja ásamt greinargerð.
Málinu er frestað til næsta fundar.

5. Lagður fram að nýju til kynningar leiðréttur þjónustusamningur Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða f.h. Velferðarsviðs og Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands um rekstur Konukots.

6. Lagður fram til kynningar samningur Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og hjúkrunarheimilisins Eirar um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar í Eirarhúsum.

7. Staða mála vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi. Lagt fram til kynningar minnisblað aðgerðateymis dags. 25. maí 2009.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

8. Lagðar fram lykiltölur janúar - mars 2009 og bráðabirgðartölur apríl 2009.

9. Málefni geðfatlaðra – staða mála.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir stöðunni.

10. Velferðarsjóður barna.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir framlagi úr Velferðarsjóði barna en Velferðarsviði er falið að ráðstafa fjármagninu til barnanna á grundvelli sérstakra reglna þar að lútandi.


Fundi slitið kl. 15.45

Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Jóhanna Hreiðarsdóttir
Elínbjörg Magnúsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Þorleifur Gunnlaugsson