Velferðarráð - Fundur nr. 102

Velferðarráð

VELFERÐARRÁÐ

Ár 2009, miðvikudaginn 25. mars var haldinn 102. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.15 að Borgartúni 12-14. Mættir: Jórunn Frímannsdóttir, Hallur Magnússon, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Elín Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Samþykkt var að taka nýtt mál fyrst á dagskrá:
Lögð fram tillaga sviðsstjóra varðandi ferðaþjónustu fatlaðra.
Tillagan var samþykkt samhljóða.

2. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra í málefnum fatlaðra vegna yfirlýsingar milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjvíkurborgar, dags. 28. ágúst 2008 um þjónustu við geðfatlaða.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

3. Lögð fram viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga dags. 13. mars 2009 um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Ennfremur lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 18. mars 2009 um undirbúning að flutningi á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.
Velferðarráð lagði fram eftirfarandi bókun.
Velferðarráð fagnar viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá 13. mars síðastliðnum um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Á síðasta fundi borgarstjórnar samþykkti borgarstjórn að fela velferðarráði og Velferðarsviði að hefja nú þegar undirbúningsvinnu sem miðar að því að Reykjavíkurborg taki við félagslegri þjónustu við fatlaða frá ríkinu eigi síðar en 1. janúar 2011.
Velferðarráð felur sviðsstjóra Velferðarsviðs að hefja undirbúningsvinnu og vinna málinu framgang innan sviðsins á tilskildum tíma. Undirbúningurinn fari fram í nánu samstarfi við starfsmenn og hagsmunasamtök fatlaðra.

4. Lagt fram ársuppgjör Velferðarsviðs 2008 með fyrirvara um birtingu ársreiknings Reykjavíkurborgar 2008.
Skrifstofustjóri fjármála og rekstrar gerði grein fyrir málinu.

5. Lagt fram til kynningar álit Umboðsmanns Alþingis dags. 6. mars 2009 í máli nr. 5061/2007.
Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

6. Lagðar fram til kynningar lykiltölur janúar 2009 ásamt yfirliti yfir biðlista 1. mars 2009.

7. Lögð fram til kynningar lokaskýrsla, janúar 2009, vegna móttöku flóttamanna í Reykjavík 2007 – 2008 ásamt greinargerð um fjárhagslega stöðu flóttamannaverkefnisins 2007-2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

8. Lagður fram til kynningar samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Forvarnarhúss ehf. um slysavarnir aldraðra.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð fagnar samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Forvarnarhússins um slysavarnir aldraðra. Markmið samningsins er að auka þekkingu og reynslu þeirra einstaklinga sem vinna með aldraða hjá Reykjavíkurborg í slysavörnum. Jafnframt að upplýsa og fræða eldri borgara um slysavarnir á heimilum og í umferðinni svo að þeir geti átt ánægjuleg efri ár.

9. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá fundi 11. mars 2009 um þarfagreiningu úrræða Barnaverndar Reykjavíkur.
Formaður velferðarráðs gerði grein fyrir málinu.

10. Lagt fram svar við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar frá fundi 25. febrúar 2009 um húsaleigubætur leigjenda Félagsbústaða.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.

11. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna frá síðasta fundi:
Velferðarráð felur Velferðarsviði að hefja nú þegar undirbúningsvinnu sem miði að því að Reykjavíkurborg taki við félagslegri þjónustu við fatlaða frá ríkinu eftir tæp 2 ár eða eigi síðar en 1. janúar 2011 í samræmi við stefnu ríkisvaldsins og Samtaka íslenskra sveitarfélaga.
Tillögunni er vísað frá í ljósi þess sem fram kemur í dagskrárlið nr. 2.

12. Staða mála vegna aðgerðaráætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi, lagt fram minnisblað aðgerðateymis Velferðarsviðs.
Í samræmi við samþykkt Velferðarráðs frá 2. febrúar sl. hafa nú verið mynduð samráðsteymi í flestum hverfum borgarinnar. Fundir teymanna hafa farið vel af stað. Í ljósi umræðu um að til boða standi að nýta hluta húsnæðis Félags- og menningarmiðstöðvarinnar að Gerðubergi fyrir starfsemi í þágu atvinnulausra leggur velferðarráð áherslu á að leitað sé leiða til að allar félagsmiðstöðvar Velferðarsviðs geti nýst sem vettvangur fyrir stuðning og fræðslu fyrir atvinnulausa ef svo þykir henta.
Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.

13. Velferðarvakt. Sviðsstjóri gerði grein fyrir velferðarvakt sem starfar á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

14. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í janúar segir:
Gert er ráð fyrir að unnið verði að endurskoðun á starfsemi Unglingasmiðja að Keilufelli og Amtmannsstíg á árinu en starfsemin verður óbreytt fyrri hluta ársins
Af því tilefni óska fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar eftir svörum við eftirfarandi:
1. Hver er staðan á Unglingasmiðjunum Stíg og Tröð miðað við þær áherslur sem fram koma í fjárhagsáætluninni?
2. Á hvern hátt hafa forstöðumenn Stígs og Traðar komið að þeirri vinnu?
3. Hvernig hefur samráð við börn og foreldra þeirra verið háttað?
4. Hvernig ætlar Velferðarsvið/Þjónustumiðstöðvar að veita félagslega einangruðum börnum þjónustu næsta vetur?
5. Hafa foreldrar verið upplýstir um áform Velferðarsviðs varðandi félagslega einangruð börn þeirra?
6. Munu allir starfsmenn unglingasmiðjanna halda störfum sínum?

Fundi slitið kl. 14.25

Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Sif Sigfúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Elín Sigurðardóttir