Velferðarráð
VELFERÐARRÁÐ
Ár 2009, miðvikudaginn 11. mars var haldinn 101. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 13.20 að Borgartúni 10-12. Mættir: Hallur Magnússon, Sif Sigúsdóttir, Ingvar Jónsson, Björk Vilhelmsdóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson, Hulda Dóra Styrmisdóttir og Helga Jóna Benediktsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Staða mála vegna aðgerðaáætlunar Velferðarsviðs vegna aðstæðna í efnahagslífi.
Lagt fram minnisblað aðgerðateymis Velferðarsviðs. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Jórunn Frímannsdóttir mætti á fundinn kl. 13.30.
Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Velferðarráð samþykkti í starfsáætlun ársins 2008 að skipa starfshóp til að skoða þau úrræði sem til staðar eru fyrir börn og fjölskyldur sem eiga mál hjá Barnavernd Reykjavíkur. Starfshópurinn átti m.a að framkvæma þarfagreiningu á úrræðum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hvernig miðar vinnu hópsins og hvenær er áætlað að hann skili af sér ? Hefur starfshópurinn tekið tillit til óhjákvæmilegrar fjölgunar mála á borði Barnaverndar í kjölfar þeirra efnahagslegu erfiðleika sem nú herja á samfélagið?
Hver er nú fjöldi mála hjá Barnavernd, hvaða tíma tekur að sinna hverju máli og í hvaða farveg fara þau? Hvað eru mörg mál á borðum hvers félagsráðgjafa hjá Barnavernd ? Hvernig greinast mál hjá Barnavernd nú eftir erfiðleikastuðlum ?
Fyrirspurninni verður svarað á næsta fundi.
2. Kynning um réttindi atvinnulausra. Lagt fram minnisblað lögfræðings Velferðarsviðs um atvinnuleysisbætur og vinnumarkaðsaðgerðir. Forstöðumaður lögfræðiskrifstofu gerði grein fyrir málinu.
Helga Sigurjónsdóttir, þjónustustjóri á Þjónustumiðstöð Breiðholts, mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála á Þjónustumiðstöð Breiðholts.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Í forsendum fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir því að sveiflur verði í atvinnuleysi í Reykjavík á árinu en að meðalatvinnuleysi í Reykjavík yfir árið verði 7#PR.
Atvinnuleysi í Reykjavík í janúar var 6.9 #PR skv. tölum Vinnumálastofnunar og þó að það hafi aukist í febrúar er ekki hægt að fullyrða að meðalatvinnuleysi yfir árið verði meira en áætlanir Reykjavíkurborgar geri ráð fyrir.
Bent skal á að atvinnuleysi í janúarmánuði var undir áætluðu meðalatvinnuleysi ársins 2009 í forsendum fjárhagsáætlunar eða 6.9#PR. Hins vegar er að sjálfsögðu ljóst að meðalatvinnuleysi ársins 2009 getur orðið yfir 7#PR þegar upp verður staðið. Í forsendum fjárhagsáætlunar er fjárhagsaðstoð því bundinn liður sem þýðir að aukið fé kemur með aukinni þörf.
3. Lögð fram drög að umsögn velferðarráðs varðandi bráðabirgðaskýrslu starfshóps um mat á áhrifum atvinnuleysis í Reykjavík sbr. samþykkt borgarráðs frá 19. febrúar s.l.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykktu drögin með fjórum samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi umsögn:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í velferðarráði hafa yfirfarið áfangaskýrslu starfshóps um mat á áhrifum atvinnuleysis og fagna þeim tillögum sem þar koma fram. Sú nöturlega staðreynd að atvinnuleysi skuli nú þegar vera orðið meira en reiknað var með í forsendum fjárhagsáætlunar borgarinnar sem samþykkt var fyrir aðeins tveimur mánuðum undirstrikar þörfina á ákveðnum aðgerðum. Tekið er undir mikilvægi þess að viðbrögð borgarinnar verði samræmd og markviss og til þess fallin að draga úr félagslegum afleiðingum og skaða atvinnuleysis. Tillögur um að skerða ekki sumarstörf fyrir skólafólk, huga sérstaklega að nemendum í brottfallshættu og endurmat á aðkomu Reykjavíkurborgar að Nýsköpunarsjóði námsmanna túlka mikilvægi þess að huga sérstaklega að ungmennum á atvinnuleysistímum. Þá er tekið undir hugmyndir um að kostnaður vegna atvinnuleysis verði skoðaður og að fólk verði ráðið til starfa sem er á fjárhagsaðstoð hjá borginni. Sérstaklega er fagnað hugmyndum starfshópsins um að sá kostur verði athugaður að bjóða atvinnulausum frítt í sund, í strætó, bókasöfn og að fella niður gjaldtöku á skólamat, leikskólagjöld og frístundaheimili barna atvinnulausra. Fara þarf í viðræður við Vinnumálastofnun, aðila vinnumarkaðarins og frjáls félagasamtök um miðstöð atvinnulausra í Reykjavík. Tekið er undir nauðsyn þess að starfshópurinn verði skipaður með formlegri hætti af borgarráði til lengri tíma og að sérstaklega verði hugað að fjárveitingum vegna atvinnuleysis í miðlægan pott. Mikilvægast er þó að tillögum hópsins verði þegar í stað ýtt úr vör og þannig verði brugðist við því neyðarástandi sem ríkir víða í Reykjavík.
4. Lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 ásamt tímaáætlun fjármálaskrifstofu til hliðsjónar. Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Fjármálastjóri Velferðarsviðs kynnti endurskoðaða fjárhagsáætlun 2009. Jafnframt kynnti hann þróun og útgjalda til fjárhagsaðstoðar jan/febr. 2009.
5. Lagður fram samningur Velferðarsviðs og Áss - styrktarfélags varðandi heimaþjónustu inn í 15 íbúðir þar sem félagið veitir frekari liðveislu, sbr. samþykkt velferðarráðs 27. febrúar 2008. Skrifstofustjóri velferðarmála gerði grein fyrir málinu.
Drögin voru samþykkt samhljóða.
6. Lagður fram til kynningar samningur um Atvinnutengt nám í Vinnuskóla Reykjavíkur fyrir grunnskólanemendur.
7. Lagt fram til kynningar yfirlit um innkaup Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar fyrir Velferðarsvið í febrúar 2009 skv. 2.mgr. 27. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar.
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. mars 2009 varðandi áskoranir til borgarstjórnar Reykjavíkur frá Félagi eldri borgara.
Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð þakkar Félagi eldri borgara fyrir áskoranir til borgarstjórnar frá aðalfundi félagsins. Velferðarráð vill í framhaldinu koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri um stöðu þeirra mála sem áréttuð eru af FEB. Í undirbúningi, hönnun og framkvæmd er uppbygging fyrir eldri borgara á um 336 öryggis- og þjónustuíbúðum. Þegar hefur verið farið í tilraunaverkefni varðandi það að gera breytingar á eldra húsnæði í samráði við eigendur og gera þannig eldri borgurum kleift að búa áfram heima. Sjóvá-Forvarnarhús hefur tekið að sér fræðslu og úttektir á húsnæði félagsmiðstöðva aldraðra og verður þeirri vinnu framhaldið. Margt hefur verið gert til að auðvelda eldri borgurum að njóta útivistar. Gerð hefur verið úttekt á hverfum borgarinnar m.t.t. staðsetninga setbekkja og tillögur að staðsetningu nýrra setbekkja. Á hverju ári hafa verið að meðaltali settir um 20 nýir bekkir en í fyrra var gert sérstakt átak og komið fyrir 60 nýjum bekkjum. Auk þess sem fleira hefur verið gert s.s. aukið við sundleikfimi, gerð púttflata og fleira mætti telja. Nærþjónustuhóparnir hafa starfað frá 2006 og voru skipaðir í öllum þjónustuhverfum. Í hópunum eru fulltrúar frá Rauða Krossinum, Kirkjunni, Félagi Eldri borgara, Heilsugæslu og Velferðarsviði. Verkefni hópanna ráðast m.a. af þörf á hverjum stað. Sem dæmi má nefna að í Breiðholti hefur nærþjónustuhópurinn lagt áherslu á félagsstarf en í Laugardal – Háaleiti þar sem starfa þrír hópar vegna stærðar og umfangs hverfisins hefur m.a. verið lögð áhersla á að vinna saman með atvinnulausa og aldraða í kreppunni. Líklegt er að áherslur hópanna beinist á næstunni meira að forvörnum. Markmið akstursþjónustunnar er að eldri borgarar geti búið sjálfstætt heima hjá sér. Þeir sem búa heima geta farið allt að 30 ferðir á mánuði og nýtt ferðirnar í hvaða erindi sem er. Mikilvægt er að líta til þessa við allar framtíðarákvarðanir í skipulagi þjónustumiðstöðva og Heilsugæslustöðva að samræma hverfamörk eins og frekast er kostur.
9. Lagt fram bréf Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna dags. 4. mars 2009 þar sem óskað er eftir viðbótarframlagi Reykjavíkurborgar. Ennfremur lögð fram tillaga dags. 9. mars 2009 um viðbótarframlag til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
10. Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingarinnar frá síðasta fundi:
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í janúar var það ákveðið að áætlunin yrði tekin upp í mars. Þar kom ennfremur fram í málflutningi borgarstjóra og formanns velferðarráðs að til stæði náið samráð minnihluta og meirihluta um áætlunina. Af þessu tilefni óska fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar eftir upplýsingum um vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunarinnar og hvernig samráði við minnihlutann verður háttað.
Lagt fram svar fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks:
Aðferðafræði við endurskoðun fjárhagsáætlunar var sú að starfsfólk á sviðum Reykjavíkurborgar vann að tillögum að sparnaði vegna endurskoðunar fjárhagsáætlunar í sérstöku verkefni sem unnið var þvert á svið borgarinnar. Mikill fjöldi starfsmanna Reykjavíkurborgar kom að þeirri vinnu. Niðurstaða þeirrar vinnu liggur nú fyrir. Þar sem framangreint vinnulag við tillögur að sparnaði var viðhaft komu einstök ráð og nefndir ekki að endurskoðun fjárhagsáætlunar á sama hátt og áður enda ekki um að ræða tillögur að sparnaði frá einstökum nefndum. Niðurstaða þessarar vinnu er nú lögð fram til kynningar fyrir Velferðarráð í heild. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í velferðarráði þakkar stjórnendum og starfsfólki Velferðarsviðs fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið að mörkum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009. Ljóst er að sett markmið við endurskoðun fjárhagsáætlunar hafa náðst um að hagræða í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og sameiginlegan vilja borgarstjórnar um að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar, störf starfsmanna og gjaldskrár í samræmi við aðgerðaráætlun borgarstjórnar frá 7. október sl.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í janúar var það ákveðið að áætlunin yrði endurskoðuð í mars. Þar kom ennfremur fram í málflutningi borgarstjóra og formanns velferðarráðs að til stæði náið samráð minnihluta og meirihluta um áætlunina. Fyrst nú 11. mars fá fulltrúar minnihlutans í hendur endurskoðaða fjárhagsáætlun og um leið upplýsingar um að hana eigi að staðfesta á morgun í borgarráði og svo endanlega í borgarstjórn á þriðjudag. Aðkoma minnihlutans er eins takmörkuð og hugsast getur þar sem endurskoðuð fjárhagsáætlun var ekki með í útsendum gögnum og því enginn möguleiki að grandskoða hana og gera athugasemdir með tilliti til slíkrar skoðunar.
Samráðsvilji meirihlutans virðist því enginn og er það sorglegt nú þegar svo mikið liggur við að í borgarstjórn ríki náið samstarf um lausnir á vanda borgarsjóðs sem og fjölmargra borgarbúa.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Velferðarráði vilja benda á að ekki hefur verið tekin upp fjárhagsáætlun vegna Velferðarsviðs vegna ársins 2009, enda ekki ástæða til, að öðru leyti en því að lögð er fram áætlun um lækkun launakostnaðar um 103 milljónir. Pólitískir fulltrúar í Velferðarráði hafa því ekki þurft að koma að þeirri vinnu.
11. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð:
Velferðarráð felur Velferðarsviði að hefja nú þegar undirbúningsvinnu sem miði að því að Reykjavíkurborg taki við félagslegri þjónustu við fatlaða frá ríkinu eftir tæp 2 ár eða eigi síðar en 1. janúar 2011 í samræmi við stefnu ríkisvaldsins og Samtaka íslenskra sveitarfélaga.
Fundi slitið kl. 15.50
Jórunn Frímannsdóttir
Hallur Magnússon Sif Sigúsdóttir
Ingvar Jónsson Björk Vilhelmsdóttir
Marsibil Sæmundardóttir Þorleifur Gunnlaugsson