Velferðarráð - Fundir nr. 112

Velferðarráð

Ár 2009, mánudagurinn 21. september var haldinn 112. fundur velferðarráðs og hófst hann kl. 15:36 í Borgartúni 12-14. Mættir: Eiríkur Sigurðsson, Elínbjörg Magnúsdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Áheyrnarfulltrúi: Gunnar Hólm Hjálmarsson. Af hálfu starfsmanna: Stella K. Víðisdóttir, Ellý A. Þorsteinsdóttir, Hörður Hilmarsson og Valgerður Sveinbjörnsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 17. september 2009 um tillögu að úthlutun fjárhagsramma fyrir árið 2010 ásamt verk- og tímaáætlun. Ennfremur lagt fram bréf borgarhagfræðings dags. 15. september 2009.
Sviðsstjóri gerði grein fyrir málinu.
Marsibil Sæmundardóttir mætti á fundinn kl. 15:43.
Marsibil vék af fundi16:37.

Velferðarráð samþykkti eftirfarandi bókun:
Velferðarráð tekur undir það að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 þarf að forgangsraða í þágu grunnþjónustu, barna og velferðar.
Vinna við fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er nú í gangi og gert er ráð fyrir að heildarframlag til málaflokka velferðarsviðs borgarinnar hækki með sérstöku framlagi vegna fjölgunar þeirra sem fá fjárhagsaðstoð og húsaleigubætur.
Útgjöld sviðsins til fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta eru svokölluð bundin útgjöld og reynist fjárheimildir ekki nægar mun borgarsjóður eigi að síður standa við skuldbindingar samkvæmt gildandi reglum.
Velferðarráð bendir jafnframt á mikilvægi þess að einstaklingum og fjölskyldum sem þiggja fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé hjálpað sem fyrst til að fóta sig að nýju án þess að þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð. Einnig er mikilvægt að tekið verði tillit til fjölgunar notenda á þjónustumiðstöðvum sviðsins.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í velferðarráði vara við frekari niðurskurði í velferðarmálum í Reykjavík og hvetja til aukinna framlaga til málaflokksins.
Það fer ekki á milli mála að fátækt fer vaxandi í Reykjavík. Þeim fjölgar ört sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sem er rúmar 115.000 kr. á mánuði en hún hefur lækkað í hlutfalli við önnur laun. Húsaleigubætur hafa staðið í stað síðan í maí 2008 á meðan leiga Félagsbústaða hækkar samkvæmt vístölu. Fjölmargir foreldrar geta ekki sinnt börnum sínum vegna erfiðrar fjárhagsstöðu, gríðarlegt álag er á barnavernd Reykjavíkur og svo mætti lengi telja.
Það er því einsýnt að í fjarhagsáætlunargerð borgarinnar þarf að forgangsraða í þágu velferðar þannig að tryggt sé að allir borgarbúar fái lifað með reisn.

Fundi slitið kl. 16:55

Eiríkur Sigurðsson
Sif Sigfúsdóttir Elínbjörg Magnúsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Björk Vilhelmsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson