Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2012, þriðjudaginn 10. apríl kl. 12.15 var 104. fundur umhverfis- og samgönguráðs haldinn í Hofi, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir, Hjálmar Sveinsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn: Ólafur Bjarnason, Örn Sigurðsson, Kolbrún Jónatansdóttir og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Almenningssamgöngur – samstarf við ríkið.
Kynnt drög að samkomulagi um frestun samgönguframkvæmda.
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna fagna þeim áfanga sem náðst hefur í samningi milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess. Samningurinn er gerður í framhaldi af viljayfirlýsingu frá 22. september 2011 milli fjármálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um framkvæmd 10 ára tilraunaverkefnis. Með þessum samningi verður stigið afar mikilvægt skref í aðkomu ríkisins að rekstri almenningssamgangna og ef vel er haldið á spilum gæti hér verið um að ræða algera byltingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Áður hefur Umhverfis- og samgönguráði verið kynnt samgönguáætlun ríkisins og kom fram í umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs um hana að fagnað væri a) nýjum áherslum er lúta að stuðningi við almenningssamgöngur og hjólreiðar, b) áherslum sem stuðla að breyttum ferðavenjum, gegnsærri verðlagningu í samgöngum og hagkvæmni við uppbyggingu samgöngumannvirkja, c) áherslum og ábyrgð á umhverfisþáttum umferðar svo sem hávaða og loftmengun og d) metnaðarfullu verkefni til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu með 1000 mkr. árlegu framlagi ríkisins til höfuðborgarsvæðisins. Þrátt fyrir mikla ánægju með samninginn og fylgiskjöl hans vilja fulltrúar Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna þó benda á að þær aðstæður geta skapast að það henti síður Reykjavíkurborg að fresta sumum framkvæmdunum á svokölluðum frestunarlista um öll tíu ár samningstímans. Vilja þau því beina því til borgarráðs að Reykjavíkurborg áskilji sér rétt til að taka upp málefni einstakra framkvæmda við endurskoðun samningsins á tveggja ára fresti.
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluta Samfylkinginar og Besta flokksins hefur tekist einstaklega illa til við gerð samkomulags við ríkið um frestun samgönguframkvæmda. Engin samningsmarkmið voru til staðar af hálfu Reykjavíkurborgar og engin tilraun virðist hafa verið gerð til að fá aukið fé til framkvæmda í Reykjavík. Þvert á móti virðist meirihlutanum í Reykjavík finnast jákvætt að mikilvægar framkvæmdir í Reykjavík, svo sem Sundabraut, verði ekki að veruleika á næsta áratug. Allt of lítill tími hefur gefist til að fara yfir samninginn og þau gögn sem honum fylgja. Fyrir vikið liggur ekki fyrir hver upphæðin er sem rennur til SSH vegna verkefnisins. Lengi var talað um milljarð á ári í 10 ár, en líklegt er að upphæðin verði undir 800 milljónum að ári að meðaltali. Þá er hjólreiðakaflinn í samningum miklu rýrari en hægt var að vonast til. Þá hefur umhverfis- og samgönguráð, sem á að fara með stefnumótun í samgöngumálum borgarinnar, ekki mótað neina stefnu um það hvernig þeir fjármunir sem nú fást í almenningssamgöngur verða nýttir. Það er eðlilegt og sjálfsagt að fyrst ríkið hefur ákveðið að styrkja almenningssamgöngur, skuli það einnig gera það á höfuðborgarsvæðinu. En sá samningur sem meirihluti umhverfis- og samgönguráð vill nú samþykkja er einfaldlega ekki nógu góður og grátlegt verður að teljast að svo illa hafi verið farið með það tækifæri sem hér gafst
Ellý K. Guðmundsdóttir, Páll Guðjónsson og Einar Kristjánsson komu á fundinn.
2. Fundargerðir.
a. Lögð fram á ný 167. fundargerð stjórnar Strætó bs. ásamt minnisblaði dags. 29. febrúar 2012 og 168. Fundargerð stjórnarinnar.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga VG: „Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggur til að boðað verði til opins fundar um flutning miðstöðvar leiðakerfis Strætó bs. til BSÍ og breytingar á leiðarkerfi tengdar honum.“
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti að vísa tillögunni til Stjórnar Strætó.
Lagðar fram til kynningar starfs- og siðareglur stjórnar Strætó bs.
3. Upphitun Strætóbiðskýla.
Tillaga D-lista lögð fram á ný:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að gólfin í biðskýlum Strætó í Reykjavík verði upphituð. Einnig verði áætlun um upphitun gönguleiða að og frá helstu biðskýlum Strætó.
Lagt fram á ný bréf frá Umhverfis- og samgöngusviði dags. 12. mars og minnisblöð Verkís dags. 9. og 17. mars 2012.
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti að samgöngustjóra verði falið að gera áætlun um það með hvaða hætti og hversu hratt verði hægt að ráðast í þessar aðgerðir
4. Stöðubann í Pósthússtræti.
Lögð fram tillaga Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 3. apríl 2012.
Samþykkt einróma.
5. Opnun Laugavegar 2012.
Rætt um opnun Laugavegar 2012.
6. Hjólastígur í Öskjuhlíð að HR.
Lagt fram bréf Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 4. apríl 2012.
Tillaga Umhverfis- og samgöngusviðs samþykkt einróma.
7. Viðhorfskönnun meðal starfsmanna
Helga Björg Ragnarsdóttir kom á fundinn og kynnti niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal starfsmanna.
8. Pósthússtræti norðan Austurstrætis.
Kynntar tillögur að frumhönnun yfirborðs og tenginga við hliðargötur. Lagt fram bréf Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 4. apríl 2012.
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti að tillögurnar verði grundvöllur að nánari útfærslu.
Hans H. Tryggvason kom á fundinn.
9. Torg í biðstöðu.
Hans H. Tryggvason kynnti vinnu við verkefnið „Torg í biðstöðu“.
10. Umferðarskipulag á uppbyggingartíma NLSH.
Guðmundur Guðnason frá verkfræðistofunni Eflu kom á fundinn og kynnti áfangaskiptingu á umferðarskipulagi á uppbyggingartíma nýs Landspítala við Hringbraut.
11. Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að farið verði í nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr hraðakstri í Ánanaustum, Grandatorgi, Hólmaslóð, Mýrargötu og nágrenni. Göturnar á þessu svæði eru mjög breiðar, aðgengi gangandi mjög slæmt og umhverfi fyrir fallegt borgarlíf ekki til staðar. Þessu er hægt að breyta og mikilvægasti þátturinn er að draga úr ofsaakstri bíla á svæðinu. Samgöngustjóra verði falið að leggja tillögur til úrbóta fyrir ráðið sem fyrst. „
Umhverfis- og samgönguráð samþykkti að vísa tillögunni til samgöngustjóra.
Fundi slitið kl. 17.00
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Margrét Vilhjálmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson