Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2011, þriðjudaginn 20. desember kl. 13.00 var haldinn 97. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Borgarráðssal í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Örn Sigurðsson, Stefán Agnar Finnsson, Þórólfur Jónsson, Árný Sigurðardóttir, og Gunnar Hersveinn sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:


1. Atvinnustefna Reykjavíkur – Skapandi borg.
Lögð fram til kynningar drög að atvinnustefnu Reykjavíkur og bréf Borgarstjórans í Reykjavík, dags. 2. desember 2011 og ósk um umsögn ráðsins.
Umsögn ráðsins var samþykkt einróma.
Fulltrúar D listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tekið er undir umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs um atvinnustefnu Reykjavíkur - skapandi borgar. Stefnan ber þess merki að aðeins einn borgarfulltrúi hefur unnið að stefnunni. Til dæmis eru í henni teknar ákvarðanir margskonar mál sem þegar eru í lýðræðislegu ferli og vinnslu í nefndum og ráðum borgarinnar. Slík vinnubrögð eru lítt í anda Staðardagskrár 21, sem gerir ráð fyrir að ákvarðanir af þessum toga séu teknar á breiðum lýðræðislegum grunni, með þátttöku sem flestra borgarbúa að leiðarljósi. Þannig er til dæmis aðalskipulag Reykjavíkur unnið, en í þessari stefnu eru teknar ákvarðanir sem enn eru í því ferli. Á sínum tíma samþykkti borgarstjórn að þessi stefna skyldi unninn af þverpólitískum hópi borgarfulltrúa, en án nokkurrar heimildar borgarstjórnar setti núverandi meirihluti þessa vinnu í þann farveg sem við nú stöndum frammi fyrir. Eins og segir í umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs er í stefnunni tæpt naumlega á mörgum atriðum og enn minna á sumum, sem þó ættu að mati ráðsins heima í stefnumörkun varðandi atvinnuþróun til lengri og skemmri tíma. Eins og kemur fram í umsögn sviðsins er hér m.a. átt við mikilvæga þætti einsog skipulag og samgöngur. Koma hefði mátt í veg fyrir gagnrýni af þessum toga með því að hleypa fleirum að verkinu fyrr, og nýta þá þekkingu og kunnáttu sem liggur út á sviðum borgarinnar og meðal kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum.
Fulltrúi VG lagði fram eftirfarandi bókun:
Mótun atvinnustefnunnar var upphaflega í samvinnu allra flokka í borgarstjórn en á endanum var hún eingöngu í höndum meirihlutans. Drögin sem hér liggja frammi bera þess merki að nokkur vinna er eftir til að um geti verið að ræða ásættanlegt skjal. Þetta er bagalegt þegar svo mikilvægt mál er á ferðinni en tillaga minnihluta borgarstjórnar um samvinnu allra flokka um atvinnustefnu borgarinnar var nýlega felld í borgarstjórn. Drög að atvinustefnu Reykjavíkurborgar er hinsvegar um margt áhugaverð lesning og þörfin fyrir slíka stefnu verður ekki dregin í efa. Það er umhugsunarvert hversu einskorðuð hún er við atvinnulíf almenna markaðarins og að ekki sé lögð rík áhersla á mikilvægi menntunnar og velferðar sem undirstöðu. Jafnframt vekur það furðu að ekkert sé fjallað um hlutverk borgarinnar sem eins stærsta atvinnurekanda landsins, en þar leynast mýmörg tækifæri sem gætu stuðlað að bættri heilsu og menntun til framtíðar auk þess að efla atvinnuþátttöku. Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði tekur að öðru leyti undir umsögn ráðsins.

Fundi slitið kl. 13.40

Karl Sigurðsson

Kristín Soffía Jónsdóttir Margrét Vilhjálmsdóttir
Hjálmar Sveinsson Gísli Marteinn Baldursson
Þorleifur Gunnlaugsson Hildur Sverrisdóttir