No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 18. október kl. 11.00 var haldinn 90. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Ellý K. Guðmundsdóttir, Ólafur Bjarnason, Kolbrún Jónatansdóttir, Gunnar Hersveinn, Eygerður Margrétardóttir, Guðmundur B. Friðriksson, Þórólfur Jónsson og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Tillaga að innleiðingu og fyrirkomulagi hirðu endurvinnsluefna 2012.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga dags. 10. október 2011:
Á árinu 2012 verður hafin söfnun á pappírsefnum frá öllum heimilum í Reykjavík. Sorpílátum fyrir dagblöð og tímarit, umbúðapappa og bylgjupappa verði komið fyrir við hvert heimili og efninu safnað til endurvinnslu. Lagt er til að innleiðing og fyrirkomulag hirðu verði með eftirfarandi hætti:
• Endurvinnsla verði innleidd í tveim áföngum í borginni. Fyrri áfangi verði Reykjavík austan Elliðaáa ásamt Breiðholti og sá síðari vestan Elliðaáa. Ílátum verði dreift á öll heimili austan Elliðaáa í apríl 2012 og hirða hefjist þann 2. maí 2012. Ílátum verði dreift vestan Elliðaáa í september 2012 og hirða hefjist í þeim borgarhluta þann 1. október 2012.
• Eignasjóður Reykjavíkurborgar kaupi ný sorpílát fyrir pappírsúrgang en Umhverfis- og samgöngusvið leigi ílátin af sjóðnum með kaupleigu.
• Hirða á pappírsefnum verði boðin út. Verktaki sinni hirðu pappírsefna en sorphirða Reykjavíkurborgar sinni áfram hirðu á blönduðu heimilissorpi. Hluti af útboðinu verði hirða plastefna sem hefst árið 2013.
• Íbúar sem hafa endurvinnsluílát frá einkaaðilum geta haldið þeim áfram meðan eingöngu er safnað pappírsefnum í tunnur Reykjavíkurborgar.
• Þegar söfnun hefst á plasti árið 2013 verður móttaka plasts og pappírsefna boðin út. Þangað til ber hirðuaðila að skila pappírsefnum til Sorpu.
Tillögunni fylgir greinargerð.
Tillögunni var frestað og jafnframt samþykkt að óska eftir umsögnum hagsmun aðila um tillöguna.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði tekur undir tillögu þess efnis að farið verði í söfnun á öllum pappírs- og plastefnum frá heimilum á næsta og þarnæsta ári. Það er hinsvegar lagt til að sorphirða borgarinnar sjái áfram um söfnun umræddra efna eins og heimilissorps.
Frestað.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi VG leggur til að samráð verði haft við eigendur Sorpu bs. áður en Reykjavíkurborg samþykkir stefnumörkun, sem gefur sterklega í skyn að móttaka á pappírs- og plastefnum verði boðin út árið 2013. Samráðið inniberi úttekt á hæfi fyrirtækisins til að sinna allri móttöku heimilissorps á svæðinu og fjárhagslega og samfélagslega kosti þess.
Tillögunni fylgir greinargerð.
Frestað.
Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Hér er verið að leggja leggja til þrjár ólíkar tillögur í einni. Fulltrúi VG fer fram á að afgreiðslan endurspegli þetta og tillagan afgreidd í þrennu lagi. Í fyrsta lagi úrlausnir í flokkunarmálum og leigu á tunnum. Í öðru lagi útvistun á hirðu pappírsefna og plasts sem verið hefur í höndum Sorphirðu Reykjavíkur og í þriðja lagi útboð á móttöku pappírsefna og plasts sem verið hefur í höndum Sorpu bs.
Formaður hafnað þessari málsmeðferð.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG fer fram á úrskurð ráðsins um ákvörðun formanns þess efnis að umrædd tillaga verði ekki afgreidd í þrennu lagi.
Tillagan var felld með 4 atkvæðum gegn 1.
2. Starfs- og fjárhagsáætlun 2012.
Lagt fram á ný bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 20. september 2011, drög að megináherslum og breytingum fyrir árið 2011 og drög að fjárhagsáætlun Umhverfis- og samgöngusviðs fyrir árið 2012.
Frestað.
Fundi slitið kl. 12.45.
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Margrét Vilhjálmsdóttir
Hjálmar Sveinsson Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson.