Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 11. október kl. 14.00 var haldinn 89. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi, Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Áslaug Friðriksdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Þórólfur Jónsson, Stefán Agnar Finnsson, Eygerður Margrétardóttir, Gunnar Hersveinn og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð 160. fundar Strætó bs.
2. Skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa um banaslys á Snorrabraut við Bergþórugötu.
Lögð fram á ný skýrsla Rannsóknarnefndar umferðarslysa dags. 8. júlí 2011 og tillaga Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 7. október 2011. Tillagan var samþykkt einróma.
Svohljóðandi tillaga var samþykkt einróma:
Umferðaljósum á mótum Snorrabrautar og Bergþórugötu verði breytt þannig að tíminn sem gangandi þurfa að bíða eftir grænum karli verði styttur, og að tíminn til að ganga yfir götuna verði lengdur. Samgönguskrifstofu borgarinnar er falið að útfæra tillöguna og kynna umhverfis- og samgönguráði hið fyrsta.
3. Klipping trjáa í Öskjuhlíð.
Lagt fram á ný bréf Isavia dags. 20. september 2011.
Frestað.
4. Lögð fram fundargerð 289. fundar Sorpu bs.
Oddný Sturludóttir, Björn Halldórsson og Guðmundur B. Friðriksson, komu á fundinn.
5. Sorpmál.
Kynnt tillaga stýrihóps SSH og lögð fram á ný drög að umsögn umhverfis- og samgöngusviðs dags. 16. september 2011.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis og samgönguráði fagnar aukinni samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt er tekið undir umsögn framkvæmdastjóra Sorpu bs og það áréttað að úrlausnir í úrgagnsmálum á höfuðborgarsvæðinu ættu að miða að því að styrkja almannafyrirtækið Sorpu bs. og vera í höndum opinberra aðila en ekki einkaaðila.
Fulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins og Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sambest sem og fulltrúar sjálfstæðisflokks í Umhverfis- og samgönguráði taka undir umsögn umhverfis- og samgöngusviðs um tillögu framtíðarhóps SSH, Sorphirða á Höfuðborgarsvæðinu - sameiginleg sýn á framtíð flokkunar sorps og sorphirðumála.
6. Tillaga að innleiðingu og fyrirkomulagi hirðu endurvinnsluefna 2012.
Lögð fram svohljóðandi tillaga dags. 10. október 2011:
Á árinu 2012 verður hafin söfnun á pappírsefnum frá öllum heimilum í Reykjavík. Sorpílátum fyrir dagblöð og tímarit, umbúðapappa og bylgjupappa verði komið fyrir við hvert heimili og efninu safnað til endurvinnslu. Lagt er til að innleiðing og fyrirkomulag hirðu verði með eftirfarandi hætti:
• Breytt hirða verði innleidd í tveim áföngum í borginni. Fyrri áfangi verði Reykjavík austan Elliðaáa ásamt Breiðholti og sá síðari vestan Elliðaáa. Ílátum verði dreift á öll heimili austan Elliðaáa í apríl 2012 og hirða hefjist þann 2. maí 2012. Ílátum verði dreift vestan Elliðaáa í september 2012 og hirða hefjist í þeim borgarhluta þann 1. október 2012.
• Eignasjóður Reykjavíkurborgar kaupi ný sorpílát fyrir pappírsúrgang en Umhverfis- og samgöngusvið leigi ílátin af sjóðnum með kaupleigu.
• Hirða á pappírsefnum verði boðin út. Verktaki sinni hirðu pappírsefna en sorphirða Reykjavíkurborgar sinni áfram hirðu á blönduðu heimilissorpi. Hirða plastefna sem hefst árið 2013 verði hluti af útboði á hirðu pappírsefna.
• Íbúar sem hafa endurvinnsluílát frá einkaaðilum geta haldið þeim áfram meðan eingöngu er safnað pappírsefnum í tunnur Reykjavíkurborgar. Þegar hafin verður söfnun á plasti árið 2013 er miðað við að allir verði með tunnur frá borginni.
• Hirðuaðila ber að skila pappírsefnum til Sorpu uns söfnun á plasti hefst árið 2013. Fyrir þann tíma verði skoðað hvaða áhrif útboðs á móttöku endurvinnsluefna muni hafa á rekstur Sorpu. Einnig verði skoðað hvort vilji sé til að breyta rekstrarformi Sorpu svo Sorpa geti boðið í móttöku endurvinnsluefna. Ráðstöfun frekari endurvinnsluefna verði ákveðin með hliðsjón af þeirri greiningu.
Tillögunni fylgir greinargerð.
Frestað.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði tekur undir tillögu þess efnis að farið verði í söfnun á öllum pappírs- og plastefnum frá heimilum á næsta og þarnæsta ári. Það er hinsvegar lagt til að sorphirða borgarinnar sjái áfram um söfnun umræddra efna eins og heimilissorps.
Frestað.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG leggur til að samráð verði haft við eigendur Sorpu bs. áður en Reykjavíkurborg samþykkir stefnumörkun, sem gefur sterklega í skyn að móttaka á pappírs- og plastefnum verði boðin út árið 2013. Samráðið inniberi úttekt á hæfi fyrirtækisins til að sinna allri móttöku heimilissorps á svæðinu og fjárhagslega og samfélagslega kosti þess.
Tillögunni fylgir greinargerð.
Frestað.
7. Hringtorg við Ánanaust – aðgerðir vegna hraðaaksturs.
Lögð fram tillaga umhverfis- og samgöngusviðs dags. 7. október 2011. Tillaga um hraðahindrun á gönguleið yfir Ánanaust við Vesturgötu var samþykkt einróma.
Tillögu um aðgerðir á hringtorgi var frestað.
8. 30 km götur – Ósland, Lambasel.
Lögð fram tillaga umhverfis- og samgöngusviðs dags. 6. október 2011.
Tillagan var samþykkt einróma.
9. Frágangur vegna bílastæða við Laugar.
Lagt fram á ný skipulag svæðisins ásamt tillögu um bráðabirgðafrágang.
Tillagan var samþykkt einróma.
10. Kynnt var tillaga um málun hjólastíga á Suðurgötu og Hofsvallagötu.
Tillagan var samþykkt einróma, enda verði stöðubann jafnframt sett við göturnar.
11. Kynnt fyrirhuguð ferðavenjukönnun.
- Hjálmar Jónsson vék af fundi kl. 16.17.
12. Torg í biðstöðu. Hans Heiðar Tryggvason kom á fundinn og kynnti verkefni sumarsins.
13. Starfs- og fjárhagsáætlun 2012.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 20. september 2011. Kynnt voru drög að fjárhagsáætlun umhverfis- og samgöngusvið fyrir árið 2012. Jafnframt voru lögð fram drög að helstu áherslum sviðsins fyrir árið 2012.
Frestað.
14. Aukafundur verður haldinn um starfs- og fjárhagsáætlun 2012 og sorpmál þriðjudaginn 18. október kl. 11.00.
Fundi slitið kl. 17.35.
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Margrét Vilhjálmsdóttir
Gísli Marteinn Baldursson Áslaug Friðriksdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson