Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 10. maí kl. 14.00 var haldinn 81. fundur umhverfis- og samgönguráðs á 7. hæð í Hofi í Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Páll Hjaltason, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Kolbrún Jónatansdóttir, Þórólfur Jónsson, Gunnar Hersveinn, Einar Kristjánsson, Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fundargerðir:
Lagðar fram eftirtaldar fundargerðir:
a. 155. fundargerð Strætó bs.
b. 285. fundargerð Sorpu bs. Björn S. Halldórsson, Sorpu bs. kom á fundinn.
2. Kalkofnsvegur - útfærsla.
Kynnt var útfærsla umferðarmannvirkja og gönguleiða við Tónlistarhúsið Hörpu.
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð fagnar nýrri útfærslu á Kalkofnsvegi við Hörpu. Hún miðar að því að lækka hraðann á bílaumferðinni verulega og gera leiðir fyrir fótgangandi og hjólandi öruggari og meira aðlaðandi. Ráðið telur nauðsynlegt að farið verði í þessar framkvæmdir sem fyrst og þær kláraðar eins fljótt og mögulegt er. Umhverfis- og samgönguráð telur afar mikilvægt að Harpan tengist miðborginni með greiðum og öruggum hætti. Til þess þurfa leiðirnar fyrir fótgangandi, og hjólandi, að vera sem allra bestar. Ráðið leggur áherslu á að gönguljós verði sett upp við Pósthússtrætið og austustu gönguleiðina við Hörpuna, og þau verði þannig úr garði gerð að grænt gönguljós byrji að loga um leið og gangandi vegfarandi hefur kallað eftir því.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði styður tillögur um að umferðahraði verði lækkaður við Kalkofnsveg og göngu og hjólaleiðir verði öruggar og huggulegar. Það er ástæða til að fagna því að hætt hafi verið við ákvörðun um rándýran stokk fyrir bílaumferð fram hjá Hörpunni sem tekin var af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á síðasta kjörtímabili. Það skal hinsvegar bent á það að ákvörðun um framkvæmdir, framkvæmdahraða og kostnaðarauka á að taka í samræmi við núverandi þarfir borgarsamfélagsins. Opnun Hörpunnar vakti blendnar tilfinningar og stórkallalegar framkvæmdir sem ríki og borg tóku í arf frá fjárglæframönnum úr röðum útrásavíkinga eru mikil blóðtaka fyrir borgarsjóð. Það er mat fulltrúa VG í umhverfis- og samgönguráði að við núverandi aðstæður þurfi að forgangsraða fjármunum Reykjavíkurborgar í þágu barna og velferðamála almennt.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram svohljóðandi bókun:
Framtíðaruppbygging í Örfyrisey og nærliggjandi svæðum mun kalla á nýjar útfærslur í umferðarskipulagi. Fyrir efnahagshrunið stóð til að nýta tækifærið og leiða bílaumferð í stokk fram hjá Hörpunni, sem hefði gert gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Þegar skera þurfti niður var ákveðið að fresta slíkum framkvæmdum og er nú líklegra að Örfyrisey verði tengd Sæbraut með lengri jarðgöngum.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram bókun:
Ákvörðun um stokk fyrir bílaumferð fram hjá Hörpunni var tekin á síðasta kjörtímabili af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir miklar deilur og í andstöðu við fulltrúa VG sem lögðu til lausnir í ætt við þær sem nú hafa verið ákveðnar. Þetta má lesa í bókunum umhverfisráðs og borgarráðs en fulltrúar VG bentu á að stokkalausnin væri ónauðsynleg og allt of kostnaðarsöm.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram bókun:
Ákvörðun um núverandi skipulag þar sem öll umferð er í plani, var tekin veturinn 2009-2010 í tíð D og B-lista. Umferðarskipulagið sem samþykkt var þegar VG var hluti af R-listanum, gekk út á að upphækkuð hraðbraut yrði fyrir framan Hörpuna og allir gangandi og hjólandi vegfarendur yrðu settir í jarðgöng á leið sinni í Hörpuna. Sem betur fer var horfið frá því skipulagi.
Fulltrúi VG lagði fram bókun:
Það er tekið undir það að ákvörðun um brú yfir gangandi við Hörpuna var röng ákvörðun. Það er hinsvegar staðreynd að Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa til skamms tíma barist fyrir gríðarlega kostnaðarsömum umferðalausnum fyrir einkabílinn og stokkurinn í Geirsgötuna er gott dæmi um það. Það er ekki að furða að fulltrúar Sjálfstæðisflokks vilji sem minnst um þetta tala í dag.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks lagði fram bókun:
Sjálfstæðismenn vilja sem mest um þessi mál tala, enda stoltir af því að hafa komið skipulagi á svæðinu í það horf sem nú er.
3. Hverfisgata – rútubílastæði.
Lögð fram tillaga Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 14. apríl 2010.
Tillagan var samþykkt einróma.
4. Leiksvæðastefna.
Lagt fram minnisblað starfshóps dags. 5. maí 2011.
Margrét Sigurðardóttir kom á fundinn.
Frestað.
5. Hraðatakmarkanir á Miklubraut.
Lagt fram bréf lögreglustjórans í Reykjavík dags. 19. apríl 2011.
Frestað.
6. Ægisgarður – umferðarmerkingar.
Lagt fram bréf Faxaflóahafna ódags. ásamt fylgiskjali með tillögu um merkingar hraðatakmarkana og stöðubanns við Ægisgarð.
Tillagan var samþykkt einróma.
7. Tvístefna í Tryggvagötu.
Lagt fram minnisblað Vinnustofunnar Þverá dags. 4. maí s.l ásamt teikningu vegna tillögu KSJ um breytta akstursstefnu í Tryggvagötu.
Kristín Soffía Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að sá hluti Tryggvagötu sem liggur milli Lækjargötu og Pósthússtræti verði breytt í tvístefnu í tilraunaskyni til eins árs sbr. meðfylgjandi uppdrátt. Að tilraunatíma loknum verði tekin ákvörðun um framhaldið í ljósi fenginnar reynslu. Standi vilji til þess að festa breytinguna í sessi, þarf að endurskoða deiliskipulag svæðisins með það í huga.
Tillagan var samþykkt einróma.
8. Reglur og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 17. mars 2011.
Lögð fram umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs. Ráðið samþykkti umsögn sviðsins einróma.
9. LSH – umferð – bílastæði - frárennsli.
Kynnt var umferðarskipulag, fyrirhuguð bílastæði og meðferð frárennslismála.Helga Bragadóttir, Bergþóra Kristinsdóttir og Pétur Jónsson komu á fundinn.
Umhverfis- og samgönguráð bókaði eftirfarandi:
Uppbygging nýs Landsspítala við Hringbraut (NLSH) mun verða til þess að enn fleiri störf í borginni flytjast vestur fyrir Kringlumýrarbraut. Til að bílaumferð aukist ekki óhóflega er nauðsynlegt að ferðavenjur breytist og fleiri noti almenningssamgöngur, fari fótgangandi, hjóli eða sameinist um bílnotkun. Metnaðarfullt samgönguskipulag sem styðst við skýra samgöngustefnu er forsenda þess að hægt sé að ná því markmiði.
Samkvæmt deiliskipulagstillögunni mun störfum fjölga á svæðinu í fyrsta áfanga og bílastæðum einnig. Ef bílastæðum er fjölgað eykst umferð að svæðinu. Umhverfis- og samgönguráð er mótfallið þeirri þróun. Það telur að hún gangi þvert gegn samgöngustefnu borgarinnar, samgöngustefnu spítalans sjálfs og markmiðum með þéttingu borgarinnar. Það er fagnaðarefni að bæta eigi aðstöðu fyrir hjólreiðafólk en ef framboð af bílastæðum verður jafnmikið og jafnvel meira er hætt við að sú aðstaða verði lítið notuð. Umhverfis- og samgönguráð telur brýnt að við nýtt samgönguskipulag á svæðinu fækki bílastæðum á hvert starf við spítalann. Ein ástæða þess að NLSH var valinn staður við Hringbrautina er sú að hvergi eru betri almenningssamgöngur í borginni. Einnig var horft til þess að byggðin er mjög þétt í nágrenni við spítalann. Þéttleiki byggðarinnar mun aukast enn meira þegar Vatnsmýrin byggist upp sem íbúabyggð. Það þýðir að hlutfallslega margir borgarbúar munu eiga þess kost að komast að spítalanum öðruvísi en á bíl. Umhverfis- og samgönguráð leggur áherslu á að NLSH móti sér skýra og metnaðarfulla samgöngustefnu sem hvetji til notkunar annarra samgöngumáta en einkabílsins. Með því minnka skaðleg áhrif bílaumferðar í næsta nágrenni spítalans en einnig í öðrum borgarhlutum sem verða fyrir skaðlegum áhrifum bílaumferðar á leið til og frá spítalanum. Umhverfis- og samgönguráð telur nauðsynlegt að deiliskipulagstillögunni verði breytt þannig að bílastæðum í 1. áfanga verði fækkað. Umhverfis- og samgönguráð leggur einnig áherslu á að deiliskipulagstillögunni verði breytt þannig að byggt verði nær Hringbrautinni, en ekki skilin eftir ræma hljóðmana, sem gerir umhverfi Hringbrautarinnar líkt hraðbrautarskipulagi, sem alls ekki á heima á miðborgarsvæði.
10. Loftslagssáttmáli sveitarfélaga – orkuaðgerðaráætlun.
Lögð fram til samþykktar áætlun Umhverfis- og samgöngusviðs.
Eygerður Margrétardóttir og Anna Rósa Böðvarsdóttir komu á fundinn.
Frestað.
11. Reykjavíkurráð ungmenna.
Lögð fram á ný bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. apríl 2011:
a. Breyting á gjaldskrá Strætó til hagsbóta fyrir ungt fólk – tillaga.
Eva Brá Önnudóttir kom á fundinn og kynnti tillöguna. Umhverfis- og samgönguráð tekur undir tillöguna og vísar henni til stjórnar Strætó bs.
b. Breytt leiðakerfi Strætó – tillaga. Heiðar Þór Stefánsson kom á fundinn og kynnti tillöguna. Umhverfis- og samgönguráð samþykkti að vísa tillögunni til meðferðar Umhverfis- og samgöngusviðs.
12. Grunnnet almenningssamgangna.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 15. apríl 2011.
Þorsteinn Hermannsson, Innanríkisráðuneytinu. kom á fundinn.
Frestað.
13. Flotbryggja í Viðey.
Lagt fram bréf Snarfara, siglingaklúbbs, dags. 12. ágúst 2010 og minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 9. maí 2011. Ráðið gerir ekki athugasemdir við minnisblaðið.
14. Tillaga VG um leiðakerfisbreytingar Strætó bs.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggur til að fyrirhugaðar leiðarkerfisbreytingar Strætó bs. verði sendar hverfisráðum sem þær varða, Reykjavikurráði ungmenna og Hollvinasamtökum strætó, til umsagnar.
Tillagan var samþykkt einróma.
15. Opnun Laugavegar fyrir gangandi vegfarendur.
Rætt um kynningu og framkvæmd.
Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 18.55.
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Páll Hjaltason Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson.