No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2011, þriðjudaginn 12. apríl kl. 14.07 var haldinn 78. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Páll Hjaltason, Hjálmar Sveinsson, Árni Helgason, Hildur Sverrisdóttir og Claudia Overesch. Enn fremur sátu fundinn Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Árný Sigurðardóttir, Rósa Magnúsdóttir, Guðmundur B. Friðriksson, Einar Kristjánsson, Þórólfur Jónsson, Örn Sigurðsson og Gunnar Hersveinn sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fundargerðir.
a. Lögð fram 154. fundargerð Strætó bs.
b. Lögð fram 284. fundargerð Sorpu bs.
2. Lækjargata – breyting.
Kynntar hugmyndir að breytingum Lækjargötu.
Ólafur Bjarnason kynnti.
Claudia Overesch kom á fundinn kl. 14.17.
3. Sorpa bs. – Tillaga um seturétt fulltrúa Sorpu bs.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggur til að framkvæmdastjóri Sorpu bs. eða fulltrúi hans öðlist seturétt á fundum umhverfis- og samgönguráðs og hafi þar málfrelsi og tillögurétt, þegar fjallað er um mál sem beinlínis hafa áhrif á úrgangsmál eða þróun þeirra.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Tillagan var samþykkt einróma.
4. Ormurinn langi.
Lögð fram tillaga garðyrkjustjóra um úrlausn dags. 2. mars 2011 og bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 6. júlí 2009.
Þórólfur Jónsson kynnti.
Tillagan var samþykkt einróma.
5. Sorpmál.
Kynnt staða mála.
Guðmundur B. Friðriksson kynnti.
Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja jákvæða þróun að leita leiða til að borgarbúar geti ákveðið sjálfir að hvaða marki þeir nýta þjónustu borgarinnar. Það er sanngjarnt að borgarbúar fái sjálfir að velja hvort að þeir kjósi að aðstoða við að gera þjónustuna kostnaðarminni eða greiða fyrir kostnaðaraukann. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að í slíkum aðgerðum sé gætt vel að jafnræði, sanngirni og góðu samstarfi við borgarbúa. Framkvæmd vegna svokallaðar 15 metra reglu hefur verið um margt metnaðarfull en ekki hefur náðst að taka fyrir nokkur atriði sem valda því að reglan er ekki eins sanngjörn og vonir stóðu til um. Þar má til dæmis nefna að það getur ekki talist sanngjarnt að íbúar í stigagangi blokkar fjær lóðarmörkum eða í húsi raðhúsalengju fjær lóðarmörkum séu ekki til jafns við nágranna sína. Ekki getur heldur talist sanngjarnt að íbúar við gróna öskustíga eða í gömlum hverfum miðbæjarins eða vegna annarra skipulagsatriða þurfi að hlíta reglunni þar sem oftar en ekki hafa þeir ekki mikið val þessa efnis. Til að regla sem þessi nái tilgangi sínum verður hún að vera unnin í sátt við borgarbúa. Því er mikilvægt að öll vafaatriði reglunnar séu túlkuð borgarbúum í hag og borgin verður hvarvetna að sýna sanngirni og jafnræði gagnvart viðskiptavinum sínum.
Bókun fulltrúa meirihlutans:
Þjónusta sorphirðunnar í Reykjavík er til fyrirmyndar. Starfsfólk sorphirðunnar sér um að sækja, tæma og skila aftur sorpílátum og á þeirri þjónustu eru engar hömlur en á sama tíma greiða allir Reykvíkingar sama gjald. Þetta þýðir að sama gjald er innheimt fyrir tæmingu á sorpíláti sem stendur við gangstétt og á sorpíláti sem er í 150 m fjarlægð frá sorpbíl, eins og dæmi eru um í borginni. Einn af hvötunum á bak við þessa breytingu er að auka jafnræði og sanngirni við ákvörðun sorphirðugjalda. Það er stefna Reykjavíkurborgar að sorphirða og eyðing standi undir kostnaði - kerfið eins og það er í dag býður upp á mjög góða þjónustu við íbúa en er jafnframt dýrt. Með því að lækka þjónustustig en gera fólki kleyft að kaupa sér viðbótarþjónustu þá gerum við kerfið hagkvæmara. Hverfi borgarinnar eru æði misjöfn og á einhverjum stöðum er sennilega óumflýjanlegt að veita undaþágur frá þessari reglu. Þrátt fyrir hve ólík vafamálin sem koma upp eru í eðli sínu er það trú fulltrúa Sambest að hægt verði að innleiða þessar breytingar í borginni í sátt með jákvæðni og þjónustulund að vopni.
6. Tillaga um ljósabeygju við Birkimel.
Lagt fram á ný bréf hverfisráðs Vesturbæjar dags. 27. janúar 2011 og umsögn Vinnustofunnar Þverár.
Frestað.
7. Reglur og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 17. mars 2011.
Frestað.
8. Tækifæri til sameiningar bækistöðva Umhverfis- og samgöngusviðs og Framkvæmda- og eignasviðs.
Kynnt niðurstaða starfshóps.
Frestað.
9. Rekstrarniðurstaða Umhverfis- og samgöngusviðs 2010.
Kynnt niðurstaða rekstrar ársins 2010.
Frestað.
10. Vatnsmýrin – kortlagning á mögulegum mengunarstöðum.
Kynntar fyrstu niðurstöður af kortlagningu mengunarstaða í Vatnsmýrinni.
Frestað.
Fundi slitið kl. 15.48
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Páll Hjaltason
Hjálmar Sveinsson Hildur Sverrisdóttir
Árni Helgason Claudia Overesch