Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2011, þriðjudaginn 8. mars kl. 14.00 var haldinn 76. fundur umhverfis- og samgönguráðs á 7. hæð í Hofi í Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Kolbrún Jónatansdóttir, Einar Kristjánsson, Gunnar Hersveinn, Þórólfur Jónsson, Árný Sigurðardóttir, Rósa Magnúsdóttir, Eygerður Margrétardóttir, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Sorpa bs. – Fimm ára rekstraráætlun 2012 – 2016.
Lagt fram á ný bréf Sorpu bs. dags. 20. desember 2010 þar sem með fylgdi fimm ára rekstraráætlun Sorpu bs., sem samþykkt var í stjórn þess 22. nóvember 2010 og umsögn fjármálastjóra borgarinnar og Umhverfis-og samgönguráðs.
Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu bs. kom á fundinn og gerði grein fyrir 5 ára rekstraráætluninni og svaraði fyrirspurnum og athugasemdum. Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri, kom á fundinn og gerði grein fyrir athugasemdum við áætlunina.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggur til að framkvæmdastjóri Sorpu bs. eða fulltrúi hans öðlist seturétt á fundum umhverfis- og samgönguráðs og hafi þar málfrelsi og tillögurétt, þegar fjallað er um mál sem beinlínis hafa áhrif á úrgangsmál eða þróun þeirra.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Frestað.

2. Kaup á strætisvögnum.
Lagt fram á ný bréf Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 17. febrúar 2011 þar sem fram kom tillaga sviðsins um að Reykjavíkurborg kaupi allt 15 metan strætisvagna og endurleigi Strætó bs.
Smári Ólafsson, VSÓ, kom á fundinn og kynnti skýrslu endurnýjun strætóflotans í metan vagna.
Tillagan var samþykkt einróma.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði styðja tillögu þess efnis að því sé beint til borgarráðs að fjárfesta í metanvögnum til að leigja til Strætó bs. Kaupin yrðu fjármögnuð með hagstæðu láni frá Evrópska fjárfestingarbankanum sem hann veitir til verkefna sem draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þau eru einnig forsenda fyrir hagstæðu láni til uppbyggingu hjólastíganets, sem borgin hefur samþykkt að ráðast í. Því er ráðlegt að ráðast í kaupin sem hluta af umhverfisvænu verkefni, þrátt fyrir að mikilvægasti umhverfisþáttur almenningssamgangna sé öflug og góð þjónusta við notendur. Þeir útreikningar sem liggja fyrir sýna að ólíklegt er að kostnaður við reksturs metanvagna verði meiri til lengri tíma en af hefðbundnum díselvögnum, og það án tillits til umhverfis- og þjóðhagslegs ávinnings sem er líklegt að verði talsverður. Hins vegar er ljóst að stór áhættuþáttur er hvernig ríkið mun standa að efnahagslegu umhverfi annarra og umhverfisvænni orkugjafa. Það er bagalegt að ríkisstjórn Íslands skuli að þessu leyti standa í vegi fyrir uppbyggingu grænnar höfuðborgar, eins og raunin er í dag.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði fagnar ákvörðun ráðsins um að beina því til borgarráðs að kaupa 15 metan vagna á hagstæðum kjörum í samvinnu við Elena verkefnið. Hér er fetað í fótspor fyrri ákvörðunar borgarráðs um metanvæðingu sorpbílanna og þjónað því markmiði að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í borginni. Í framhaldi af þessu er það einboðið að Reykjavíkurborg hefji undirbúning að eigin metanframleiðslu og þjónustu fyrir metanbíla í eigu Reykjavíkurborgar.

3. Ástandsskoðun trjáa í Miðborginni.
Magnús Bjarklind frá Eflu, verkfræðistofu, kom á fundinn og kynnti fyrstu niðurstöður könnunar á ástandi götutrjáa í miðborginni.

4. Samgöngustefna stofnana Reykjavíkur.
Pálmi F. Randversson, Umhverfis- og samgöngusviði, kom á fundinn og kynnti stefnuna.
Ráðið sameinaðist um svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð leggur áherslu á að samgöngustefna fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í borgarráði árið 2009, verði innleidd af fullum krafti í allri starfsemi borgarinnar.
Í ljósi þessa óskar umhverfis- og samgönguráð eftir neðangreindum upplýsingum:
1. Að mannauðsstjóri borgarinnar upplýsi ráðið um fjölda starfsmanna borgarinnar sem enn eru með aksturssamninga eða bílastyrki frá borginni. Þess er einnig óskað að hann upplýsi ráðið hvenær verði hægt að bjóða starfsfólki borgarinnar upp á samgöngusamninga eða samgöngustyrki sem styðja við vistvænar samgöngur í starfsemi borgarinnar og starfsfólki hennar i samræmi við stefnu og áherslu borgarinnar í þeim efnum.
2. Að Framkvæmda- og eignasvið upplýsi ráðið um stöðu bílaflota borgarinnar m.t.t. umhverfismála. Hversu stór hluti bílaflota borgarinnar er vistvænn eða visthæfur og hvernig miðar því verkefni Framkvæmda- og eignasviðs að undirbúa innkaup vistvænna bíla fyrir borgina.

5. Miklabraut – umferðarhraði.
Kynnt áhrif af lækkuðum umferðarhraða á Miklubraut og lögð fram svohljóðandi tillaga:
Umhverfis- og samgönguráð samþykkir, með fyrirvara um samþykki lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að hámarkshraði Miklubrautar frá Stakkahlíð að Snorrabraut verði lækkaður niður í 50 km/klst.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Tillagan var samþykkt einróma.

6. 1. áfangi hjólreiðaáætlunar- frumhönnun. – Hofsvallagata og brú yfir Elliðaárósa.
Kynntar framkomnar tillögur um útfærslu á hjólastíg og öðrum breytingum á Hofsvallagötu og á göngu- og hjólastíg yfir Elliðaárósa. Ráðið samþykkti útfærslurnar einróma.

7. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Nýjar tillögur meirihlutans í Reykjavík í skólamálum, munu leiða til sameiningar skóla og lengri gönguleiða skólabarna. Kannanir sýna að það mun leiða til þess að fleiri börn verða keyrð til skóla en áður, sem gengur gegn markmiðum borgarinnar í samgöngumálum og dregur úr öryggi fyrir þá sem áfram koma gangandi. Mikið og gott starf hefur verið unnið í að auka öryggi á gönguleiðum skólabarna, en með sameiningu skóla er ljóst að fjöldi barna mun ganga nýjar leiðir sem ekki hafa verið gönguleiðir skólabarna hingað til. Því spyrja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins:
1. Var þessi þáttur málsins skoðaður áður en tillögur að sameiningu skóla voru lagðar fram?
2. Til hvaða aðgerða á að grípa til að tryggja öryggi skólabarna á þeim nýju leiðum sem verða til, ef af breytingunum verður?

Fundi slitið kl. 17.50

Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir
Hjálmar Sveinsson Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson.