Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2011, þriðjudaginn 18. janúar kl. 11.00 var haldinn 72. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnarbúð. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hildur Sverrisdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn Gunnar Hersveinn, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Leiðakerfi Strætó bs. – ósk um breytingu á leiðakerfi..
Lagt fram bréf Strætó bs. dags. 13. janúar 2011 með svohljóðandi tillögu um breytingar á leiðum 16 og 19:
Strætó bs. óskar eftir því að leið 16 verði lögð niður og að fjármunirnir, sem sparast, verði nýttir til að efla leið 19 á kvöldin og um helgar þannig að leiðin verð á 30 mín. fresti allan aksturstímann, sem þjónustan er veitt.
Reynir Jónsson og Einar Kristjánsson, Strætó bs. komu á fundinn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði telja nauðsynlegt að sölustöðum strætókorta- og miða verði fjölgað í borginni. Sú nauðsyn er enn brýnni nú þegar munurinn á stöku fargjaldi og gjaldi korthafa hefur aukist með gjaldskrárhækkunum. Einnig er óskað eftir því að fulltrúar Strætó kynni ráðinu á næsta fundi þess, áætlanir um fleiri greiðslumöguleika, svo sem möguleikann á því að greiða með greiðslukorti um borð í vögnunum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögur:
a. Umhverfis- og samgönguráð samþykkir að óska eftir umsögnum frá hverfisráðum borgarinnar vegna fyrirhugaðra breytinga á þjónustu Strætó bs.
b. Umhverfis- og samgönguráð samþykkir að fela sviðsstýru að láta gera úttekt á þeim kostnaðarauka sem mun leggjast á opinberar stofnanir og fyrirtæki vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu á þeim tíma sem Strætó ekur ekki þar sem nú stendur til að vagnarnir leggi seinna af stað á morgnana og hætti fyrr á kvöldin
c. Umhverfis- og samgönguráð samþykkir að fara þess á leit við borgarráð og borgarstjórn að fresta breytingum á þjónustu Strætó bs meðan málið er til skoðunar um umfjöllunar í nefndum og ráðum borgarinnar.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Ofangreindum tillögum Vinstri grænna var frestað.
Tillaga Strætó bs. var samþykkt með 4 atkvæðum gegn einu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D lista setja sig ekki upp á móti þeim breytingum sem hér eru samþykktar, enda batnar þjónusta í Árbæ verulega við þær. Þjónusta við HR versnar vissulega á móti, en talningar sýna að nemendur og starfsfólk HR hefur því miður lítið nýtt sér leiðina. Þar sem grunnurinn að þessum tillögum er að hluta til skerðing á þjónustu vegna niðurskurðar til Strætó bs., sem fulltrúar D lista hafa mótmælt, sitja fulltrúarnir hjá.

Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Besta flokks og Samfylkingar vilja taka fram að þeir harma það að leið 16 hafi ekki verið meira notuð af nemendum og starfsfólki HR. Nauðsynlegt er að kerfið aðlagi sig að notkun á leiðum og því eðlilegt að leggja niður leið 16 að svo stöddu. Fulltrúar Besta flokks og Samfylkingar vona þó að HR taki upp virka samgöngustefnu sem í framtíðinni muni snúa við þessari þróun og að réttlætanlegt verði að efla strætósamgöngur við HR í framtíðinni.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð hefur talað ákveðið fyrir eflingu almenningssamgangna og varað ítrekað við niðurskurði á þjónustu Strætó bs. Það segir sér sjálft að þegar skorið er niður er þjónustan skert þar sem notkunin er minnst eins og hér er lagt til og er því verið að stilla ráðinu upp við vegg með vali slæmra kosta, niðurskurðar A eða niðurskurðar B. Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggst alfarið gegn skerðingu á þjónustu Strætó bs. sem er tilkomin vegna niðurskurðar á framlagi sveitarfélaganna og hafnar því tillögunni. Það er skoðun borgarstjórnarflokks Vinstri grænna að aldrei hafi verið ríkari ástæða til að efla almenningssamgöngur í borginni. Góðar almenningssamgöngur jafna stöðu fólks, sér í lagi á tímum efnahagsþrenginga auk þess sem þær bera vitni um vaxandi umhverfisvitund borgarbúa. Sú þjónustuskerðing sem nú stendur fyrir dyrum mun skapa fyrirtækjum og einstaklingum ómældan kostnað þar sem einkabíllinn eða leigubíll verður í auknu mæli eini kosturinn vegna ferða úr og í vinnu.

Fleira gerðist ekki.
Fundi slitið kl. 13.05

Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjördís Sjafnar Ingimundardóttir
Hjálmar Sveinsson Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir Þorleifur Gunnlaugsson