No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2010, þriðjudaginn 16. nóvember kl. 9.00 var haldinn 66. fundur umhverfis- og samgönguráðs á 3. hæð í Arnarholti að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson og Þorleifur Gunnlaugsson. Enn fremur sátu fundinn, Gunnar Hersveinn, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Úrgangsmál – framtíðarstefna.
Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa meirihluta Umhverfis- og samgönguráðs um framtíðarmál í úrgangsmálum:
Lagt er til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á sorphirðu frá heimilum í Reykjavík:
1. Sorp verði framvegis sótt á 10 daga fresti í stað 7 daga. Þetta er í samræmi við sorphirðu hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Breytingarnar komi til framkvæmda 1. janúar 2011.
2. Sorpílát verði að hámarki sótt 15 metra inn á lóð. Íbúar geti keypt viðbótarþjónustu þar sem ílát eru sótt lengra. Hægt verði að sækja um undanþágu frá gjaldtöku fyrir viðbótarþjónustu samkvæmt nánari reglum. Breytingarnar komi til framkvæmda 1. apríl 2011.
3. Söfnun á flokkuðu sorpi verði við öll heimili í Reykjavík. Við hvert heimili verði ílát fyrir sorp til endurvinnslu auk núverandi íláts fyrir blandað sorp. Skilgreint verði hvaða úrgangsflokka megi setja í hvora tunnu. Breytingarnar verði innleiddar í áföngum árið 2011.
4. Árið 2013 verði hafin söfnun og vinnsla á lífrænum eldhúsúrgangi. Söfnunin verði með íláti sem hengt verði inn í núverandi ílát fyrir blandað sorp.
Tillögunni fylgdi greinargerð.
Lögð fram á ný svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa VG:
Í lið 3. Segir: „Skilgreint verði hvaða úrgangsflokka megi setja í hvora tunnu“.
Verður þetta ekki að liggja fyrir til að hægt sé að ákvarða fyrirkomulag og áætla kostnað íbúa?
Í greinargerð með tillögunni segir: „Sú leið sem hér er lögð til er metin umhverfislega og fjárhagslega hagkvæmari fyrir Reykjavíkurborg“.
Hvar er þetta umhverfislega og fjárhaglsega mat að finna?
Hefur farið fram lífsferilsgreining (LCA) á mismunandi flokkunar og söfnunarleiðum?
Í greinargerð með tillögunni segir: „...hún gefur einkaaðilum á markaði svigrúm til þátttöku“.
Hvernig sér meirihlutinn fyrir sér framtíð SORPU bs?
Getur Sorpa sem byggðarsamlag gert tilboð í móttöku endurvinnsluefna að óbreyttu?
Sorpa er byggðarsamlag sem sinnir lögboðnum skyldum, vill meirihlutinn breyta því og sé svo, á hvaða hátt?
Verði þau endurvinnsluefni sem sveitarfélögin hafa falið í umsjá Sorpu ekki lengur á höndum fyrirtækisins , hvaða áhrif hefur það á rekstragrundvöll Sorpu?
Í greinargerð með tillögunni segir: „....auðvelt er að fylgjast með því að úrgangur sé rétt flokkaður“.
Er þá meiningin að setja úrganginn í glæra plastpoka?
Sé svo, mun fjöldi plastpoka í umferð ekki margfaldast með þessari aðferð?
Eru glærir plastpokar ekki dýrustu plastpokarnir á markaðnum.
Sé ætlunin að fara í maíspoka, eru þeir ekki ógagnsæir þannig að „jafn erfitt“ verður að fylgjast með réttri flokkun í þá poka eins og meirihlutinn ætlar að sé að fylgjast með lituðum pokum.
Hvernig verður eftirliti háttað?
Hvað tekur langan tíma að rýna hvern poka?
Hver verður kostnaðurinn
Í greinargerð með tillögunni segir: „... í takt við þá flokkun sem íbúar hafa kynnst“.
Er hér verið að vísa til þeirra sem skipta nú þegar við einkaaðila?
Hefur þessi aðferð samsvörun hjá meirihluta íbúa sem hafa enga „flokkunartunnu“ í dag?
Í greinargerð með tillögunni segir: ....“flokkaður með vélbúnaði í stað þess að setja fólk í þau verk“
Er það mat meirihlutans að hægt sé að flokka án þess að nota vélbúnað, gryfju, færibönd og húsnæði?
Í greinargerð með tillögunni segir: „..Stofnkostnaður kerfisins er hins vegar hár, á bilinu 600 – 700 milljónir....“
Í samanburði við hvað er þetta hár stofnkostnaður?
Er rétt að meta þetta háan kostnað þegar tekið er tillit til þess að SORPA er nú þegar með þrjár sorppressur í Gufunesi sem pressa úrgang til urðunar og til endurvinnslu og hver þeirra kostar upp sett um 100 milljónir króna og hver rein í Álfsnesi kostar um 100 milljónir, frá upphafi hafa verið gerðar 12 reinar?
Áttar meirihlutinn sig á því að þessi kostnaður (bygging litgreiningarbúnaðar) er nánast allur innlendur og hægt er að smíða nánast alla hluti hér heima?
Í greinargerð með tillögunni segir: „...erfitt að fylgjast með flokkun úrgangs“
Hefur þetta verið til teljandi vandræða þar sem litgreiningarkerfi hafa verið sett upp s.s Osló, Tromsö, Bromölla, Eskilstuna, London, Nantes?
Er ekki rétt að treysta fólki en ekki taka það fyrir gefið að íbúar ætli að svindla?
Má ekki reikna með að alltaf verði einhverjir á móti , hvaða kerfi sem verður sett upp og til þess að ná til þeirra þarf að beita áróðri?
Í greinargerð með tillögunni segir : “þessi leið býður ekki upp á hagræna hvata“
Um hvað hagræna hvata væri að ræð miðað við hagsmuni íbúa?
Í greinargerð með tillögunni segir: „..takmarkar aðgang markaðarins að móttöku á endurvinnsluefnum....“.
Hvernig á að skilja þessa setningu, hvernig hefur aðgangurinn verið takmarkaður?“
Lagt fram skriflegt svar.
Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri, kom á fundinn.
- Pawel Bartoszek kom á fundinn kl. 09.25
Fulltrúi VG lagði fram skriflegar athugasemdir við svörin, sem verða aðgengilegar með fundargögnum fundarins.
Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði leggur til að fram fari úttekt óháðra sérfræðinga til að meta þær tvær aðferðir sem fjallað er um í tillögu meirihluta ráðsins út frá umhverfis- og hagkvæmniástæðum.“ Tillögunni fylgdi greinargerð.
Tillagan var felld með 5 atkvæðum gegn 1.
Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi bókun:
Það er með ólíkindum hve hart meirihluti umhverfis- og samgönguráðs keyrir ákvarðanir sem varða mikilvæga framtíðarhagsmuni Reykvíkinga. Það kemur skýrt fram að í greinargerð með tillögunni og svörum við spurningum fulltrúa VG að tillögur meirihlutans ógna framtíðarhagsmunum byggðarsamlagsins Sorpu bs. sem er í 66#PR eigu Reykvíkinga og miða að einkavæðingu nauðsynlegrar almannaþjónustu á tímum sem það ætti að vera forgangsverkefni að snú ofan af eikavæðingunni. Í svörum við spurningum fulltrúa VG, véfengir meirihluti umhverfis- og samgönguráðs þær leiðir sem Sorpa bs. hefur kynnt en þar er um að ræða heildarlausn, með litgreiningaraðferð, gasgerðarlausn ofl. sem fullyrt er að tryggi óbreyttan heildarkostnað sveitarfélaganna og nái umhverfislegum markmiðum. Í svörum meirihlutans er hvergi hægt að ráða hver kostnaður fyrir íbúa yrði með þeirri leið sem meirihlutinn mælir með. Það kemur ennfremur fram í svörnum að ekki hafi farið fram lífsferilsgreiningar á mismunandi flokkunar og söfnunarleiðum en slíkar greiningar eru nútímanleg tæki til að meta umhverfisáhrif mismunandi leiða frá upphafi til enda. Fulltrúi VG í umhverfis og samgönguráði bendir borgarbúum og öðrum hagsmunaaðilum á athugasemdir sínar við svörum meirihlutans við spurningum um málið sem lagðar eru fram á þessum fundi og hvetur eindregið til þess að hafin verði barátta til varnar almannahagsmuna hvað varðar sorphirðu og aðrar úrlausnir í úrgagnsmálum.
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði fór fram á að greidd verði atkvæði um þær 4 tillögur sem liggja frammi, hverja fyrir sig.
Formaður hafnaði þeirri beiðni.
Meirihluti Umhverfis- og samgönguráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Samþykkt ráðsins er fyrst og fremst stefnumótandi, og ekki er fjallað um mismunandi aðferðir í tillögunni sjálfri, þótt möguleikum sé velt upp í greinargerð. Engin ástæða er til að ætla að það mat og sú ráðgjöf sem sérfræðingar á Umhverfissviði hafi lagt fram skorti hlutleysi og/eða trúverðugleika. Tillagan um breytta sorphirðu hefur verið lengi í vinnslu og ástæðulaust að fresta henni frekar og er tillögu fulltrúa VG hafnað.
Tillaga um breytingar á sorphirðu í Reykjavík var samþykkt með 5 atkvæðum gegn 1.
Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu fagna þeirri stefnu sem hér er mörkuð í endurvinnslumálum borgarinnar. Hún miðar að því að sorphirða í borginni standi undir sér og menn greiði fyrir þá þjónustu sem þeir fá. Endurvinnsla verði einnig aukin, en kannanir sýna að borgarbúar vilja endurvinna og eru jafnan ánægðir með tækifæri sem þeir fá til þess. Margt af því sem hér er samþykkt hefur verið í vinnslu mánuðum saman og hefur þverpólitísk sátt að mestu ríkt um þær leiðir sem hér eru valdar, eins og atkvæðagreiðslan ber með sér. Framundan er nánari útfærsla tillagnanna, og munu fulltrúar D listans taka fullan þátt í þeirri vinnu, með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi. Það er von fulltrúa D listans að sú stefnumörkun sem hér er samþykkt leiði til grænni og umhverfisvænni Reykjavíkur.
2. Starfs- og fjárhagsáætlun 2011
Lögð fram á ný starfs- og fjárhagsáætlun fyrir 2011 og bréf Borgarstjórans í Reykjavík frá 10. nóv. 2010, nýtt yfirlit frá 11. þ.m. um fjárhagsramma sviðsins og drög að greinargerð með fjárhagsáætlun.
Lögð fram á ný svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa VG:
1. Má ætla að með fjárhagsáætlun Umhverfis- og samgöngusviðs fyrri árið 2011 hafi í för með sér fækkun á fastráðnu starfsfólki sviðsins og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf væri að ræða?
2. Má ætla að með fjárhagsáætlun Umhverfis- og samgöngusviðs fyrri árið 2011 hafi í för með sér fækkun á lausráðnu starfsfólki og sumarstarfsmönnum og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf væri að ræða?“
Lagt fram skriflegt svar.
- Þórólfur Jónsson, skrifstofustjóri, kom á fundinn.
-
Starfsáætlun Umhverfis- og samgöngusviðs fyrir árið 2011 var samþykkt með 3 atkvæðum. Fulltrúar D-lista og VG sátu hjá.
Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki á þessu stigi lýsa afstöðu sinni til einstakra tillagna sem ræddar hafa verið í ráðinu vegna fjárhagsáætlunar, enda skal um þær ríkja trúnaður þar til þær eru framlagðar í borgarráði. Hins vegar ítreka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægi þess að betur sé staðið að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar, eigi hún að skila borgarbúum góðum og farsælum lausnum. Sú staðreynd að skýra forgangsröðun skortir, engin aðgerðaráætlun er í gildi og meirihlutinn hefur lítið nýtt vilja borgarstjórnar til þverpólitískrar samvinnu, veldur því ástæða er til að hvetja meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar enn og aftur til nýrra og betri vinnubragða vegna fjárhagsáætlunar. Tíminn er að vísu orðinn afar lítill, þar sem öll vinna vegna áætlunarinnar er langt á eftir settum tímaviðmiðum, en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka engu að síður nauðsyn þess að sá tími verði vel nýttur og komandi fjárhagsáætlun endurspegli öfluga forgangsröðun í þágu íbúa, áframhaldandi góða grunnþjónustu og skilning á því að verkefnið verður ekki leyst með auknum álögum á íbúa sem treysta því að borgin standi áfram með þeim á erfiðum tímum.
Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði þakkar sviðsstjóra og starfsfólki Umhverfis- og samgöngusviðs fyrir mikið og erfitt starf við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011. Í þeim tillögum sem hér liggja frammi er gert ráð fyrir talsverðum niðurskurði og er þetta þá þriðja árið í röð sem skorið er niður á málaflokkinn. Það má því segja að verið að skera inn í bein, með auknu álagi á starfsfólk sem þar að auki hefur orðið að taka á sig launalækkanir. Eins og ítrekað hefur komið fram hefur það ekki verið til að auðvelda vinnuna að tímaáætlanir meirihlutans hafa reynst orðin tóm og skilaboðin verið óljós og ómarkviss. Það er bagalegt að nú sem og á síðustu árum hefur skort yfirsýn meðal fulltrúa í fagráðum um heildarmynd fjárhagsáætlunar. Þetta heftir það sem mestu máli skiptir, umræðu um forgangsröðun á milli sviða. Í leiðarljósi meirihlutans sem kom seint og um síðir segir að það sé „ forgangsverkefni að verja velferðarkerfið og þjónustu við börn og unglinga“. Þetta rímar ekki við þær tillögur sem hér liggja frammi en þar er meðal annars gert ráð fyrir því að fækka stórlega sumarstörfum ungmenna. Fulltrúi VG í umhverfis og samgönguráði áskilur sér rétt til að taka áframhaldandi þátt í gerð fjárhagsáætlunar umhverfis- og samgönguráðs með það að meginmarkmiði að verja sumarstörfin og vinnuskólann.
Fundi slitið kl. 11.25.
Karl Sigurðsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Hjálmar Sveinsson
Gísli Marteinn Baldursson Þorleifur Gunnlaugsson
Pawel Bartoszek