Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð


Ár 2009, fimmtudaginn 19. nóvember kl. 15.30 var haldinn 39. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi að Borgartúni 12–14, Reykjavík. Fundinn sátu Gísli Marteinn Baldursson, Áslaug Friðriksdóttir, Brynjar Fransson, Dofri Hermannsson, Friðrik Dagur Arnarsson og Gerður Hauksdóttir. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Gunnar Hersveinn, Kolbrún Jónatansdóttir, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Sala bílastæðahúsa.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 4. september 2009 og bréf Bílastæðasjóðs dags. 2. nóvemer 2009.
Frestað.

- Ólafur F. Magnússon kom á fundinn kl. 16.15

2. Starfs- og fjárhagsáætlun Umhverfis- og samgöngusvið 2010.
Lögð fram greinagerð með fjárhagsáætlun ársins 2010 og drög að fjárhagsáætlun ársins. Gögnin eru lögð fram sem trúnaðarmál.

- Brynjar Fransson vék af fundi kl. 16.30
Fulltrúi Samfylkingar lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í Umhverfis- og samgönguráði þakkar sviðsstjóra og starfsfólki Umhverfis- og samgöngusviðs fyrir mikið og vel unnið starf við mótun fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Í drögum að fjárhagsáætlun Umhverfis- og samgöngusviðs er gert ráð fyrir umtalsverðum niðurskurði. Til viðbótar við þann niðurskurð verður sviðið að hagræða fyrir hækkun verðlags en í mörgum liðum er ekki unnt að hagræða t.d. þeirri þjónustu sem keypt er í Borgartúni, s.s. af skjala-, síma og þjónustuveri, þjónustu UTM, húsaleigu og húsfélagsgjald. Sama gildir um innri leigu húsnæðis og áhalda. Af þessum sökum vex því hagræðingarkrafa á aðra liði mikið. Við þetta gerir fulltrúi Samfylkingarinnar athugasemd því óviðunandi er að ekki sé allt gert sem mögulegt er til að ná fram hagræðingu í þessum liðum. Hér er um kaup á þjónustu einkaaðila að ræða og það sætir furðu að ekki skuli vera hreyft við samningum við slíka aðila á sama tíma og ekki er staðið við gerða samninga við ýmsa aðila í borgarkerfinu. Ljóst er af ofangreindu að borgarstarfsmenn hafa tekið á sig miklar byrðar og aukið álag meðal annars til að hægt sé að verðbæta þessa þjónustu sem borgin kaupir af einakaðilum. Það er afar ósanngjarnt, ekki síst í ljósi þess að loforð borgarstjóra um að launalækkanir sem borgarstarfsmenn hafa þurft að taka á sig gangi til baka um næstu áramót munu ekki standast. Í öllu fjárhagsáætlunarferlinu hefur skort á yfirsýn sem er óheppilegt þar sem forgangsröðun milli sviða er gríðarlega mikilvæg við þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum. Taka þarf fullt tillit til leiðbeinandi viðmiða atvinnumálahóps um forgangsröðun í atvinnumálum, sérstaklega hvað varðar sumarstörf ungs fólks en niðurskurður þar veldur áhyggjum.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Í tilefni bókunar fulltrúa Samfylkingar vil ég árétta að mikið skortir á réttláta og skynsamlega forgangsröðun hjá núverandi meirihluta einkavinavæðingarflokkanna, sem fremur forgangsraða í gælu- og flottræfilsverkefni en til bráðnauðsynlegra aðgerða í öryggis- velferðar- og umhverfismálum, eins og F-listinn vill. Fjórflokkurinn allur, þ.á.m. Samfylkingin og Vinstri græn, hefur hins vegar stutt flotræfilsverkefnin, eins og kröftug og rándýr uppbygging TRH vitnar um. Ég mótmæli nú sem fyrr tilviljanakenndum og óábyrgum niðurskurði meirihlutans til umhverfis- og samgöngumála, sem og til velferðar- og menntamála. Nær væri að forgangsraða í þágu þessara þýðingarmiklu málaflokka.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í umhverfis- og samgönguráði lýsir áhyggjum sínum yfir því að meirihlutinn í borgarstjórn ætli ekki að nýta sér heimildir til að leggja á útsvar í samræmi við það sem leyfilegt er. Þetta þýðir að borgin verður af umtalsverðum fjármunum og þó kappkostað hafi verið að forgangsraða og hagræða inni á sviðinu getur ekki hjá því farið að þetta bitni á málefnum þess.
Meirihluti Umhverfis- og samgönguráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Meginmarkmiðið við fjárhagsáætlunargerðina var að standa vörð um grunnþjónustu, vernda störfin og hækka ekki gjaldskrár. Borgarstjóri hefur haft það að markmiði að verja störfin í borgin, verja lífsgæði borgarbúa og að tryggja að sú þjónusta sem Reykvíkingar njóta verði áfram í fremstu röð. Með hagræðingu og sparnaði hefur Umhverfis og samgöngusviði tekist að ná þessum markmiðum og ber að fagna því. Starfsfólki sviðsins er þökkuð mikil og góð vinna sem unnin hefur verið við fjárhagsáætlunargerðina, og skilar sér í þeim tillögum sem nú eru sendar borgarráði. „

- Dofri Hermannsson vék af fundi kl. 17.05

Fundi slitið kl. 17.20

Gísli Marteinn Baldursson

Áslaug Friðriksdóttir Brynjar Fransson
Dofri Hermannsson Friðrik Dagur Arnarsson
Gerður Hauksdóttir