Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2010, þriðjudaginn 31. ágúst kl. 13.00 var haldinn 55. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi að Borgartúni 12-14. Fundinn sátu Karl Sigurðsson, Hjördís S. Ingimundardóttir, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Stefán Agnar Finnsson, Óskar Í. Sigurðsson, Þórólfur Jónsson, Einar Kristjánsson, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Deiliskipulag TRH.
Kynnt var deiliskipulag við Hörpu, TRH. Á fundinn komu Sigurður Einarsson frá Batteríinu og Dagný Einarsdóttir frá Landslagi og kynntu lóðarhönnun. Ólafur Bjarnason kynnti umferðarlausnir.
Umhverfis- og samgönguráð bókaði einróma:
Umhverfis- og samgönguráð felur umhverfis- og samgöngusviði að endurskoða gatnahönnun við Hörpuna í samráði við hönnuði torgsins sem nú hefur verið teiknað upp við Hörpuna. Gatnahönnun verði endurskoðuð með eftirfarandi að leiðarljósi: Að gatan verði borgargata með yfirbragði miðborgargötu en ekki hraðbrautar. Gata sem er betur í takt við torg Hörpunnar og stillir Hörpunni betur upp sem hluta miðborgar. Gata sem þjónar betur gangandi og hjólandi og mannlífi í miðborg. Umferðarhraði verði lækkaður í götunni og veghelgunarsvæði minnkað. Endurskoðuð gatnahönnun verði kynnt fyrir umhverfis- og samgönguráði eigi síðar en 15. október n.k.

2. Fundargerðir.
a. Lagðar fram til kynningar 145 fundargerðir stjórnar Strætó bs.

3. Tímaáætlun fjárhagsáætlunar 2011-2014 og 5 ára áætlun.
Lagt fram til kynningar bréf fjármáladeildar dags. 18. ágúst 2010

4. Strætó bs. – Umferðarmiðstöð
Einar Kristjánsson, Strætó bs., kynnti hugmyndir um flutning miðstöðvar Strætó bs. frá Hlemmi að Umferðarmiðstöðinni BSÍ.
Umhverfis- og samgönguráð fagnar framkomnum hugmyndum um flutning að Umferðarmiðstöðinni BSÍ og styður þær.

5. Tjarnargata 12 – Tjarnarbíó. Bílastæði.
Lagt fram bréf Framkvæmda- og eignasviðs dags. 25. ágúst 2010 með tillögu um að leggja niður gjaldskyld bílastæði.
Tillagan var samþykkt einróma.

6. Einstefna Suðurgötu – göngu- og hjólreiðastígur.
Lögð fram svohljóðandi tillaga formanns:
Lagt er til að Suðurgata verði einstefnugata fyrir akandi umferð til suðurs frá Kirkjugarðsstíg að Skothúsvegi. Hjólandi umferð verður í báðar áttir samanber meðfylgjandi skýringarmynd. Umhverfis- og samgöngusviði er falið að hafa samráð við lögreglu um framkvæmd málsins.
Jafnframt var lögð fram yfirlitsmynd um útfærsluna.

Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi tillögu:
Það er fagnaðarefni að umferð um Suðurgötu verði takmörkuð og þarna verði einstefnugata í suður og hjólreiðafólki verði gert auðveldara að fara um götuna í báðar áttir. Fulltrú Vinstri grænna í umhverfis- og samgönguráði legur til að þetta hamli því þó ekki að gangandi getið farið götuna beggja vegna hennar.
Tillagan var felld með 6 atkvæðum gegn 1.

Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi bókun:
Suðurgatan er aðeins fær fyrir gangandi, að vestanverðu. Gönguleið á austanverðri götunni yrði án vafa ein sú fegursta í Reykjavík og það því löngu orðið tímabært að gangandi vegfarendur fái aftur að njóta hennar. Lausnin gæti verið í samræmi við tillögu sem samþykkt var fyrr, á þessum fundi um„shared space“ á Lækjargötu.

Fulltrúar S-, Æ- og D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar SÆD vilja taka fram að tillagan sem lögð var fram heftir á engan hátt aðgang gangandi um Suðurgötu. Aukinheldur skal benda á að með því að stýra umferð hjólandi af gangstétt yfir á sérstaka hjólastíga þá er aðgengi gangandi bætt.

Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D-lista í umhverfis- og samgönguráði styðja tillögu um að Suðurgata verði einstefnugata en leggja áherslu á að lokaútfærsla tillögunnar verði lögð fyrir ráðið.

Tillaga formanns var samþykkt með 6 atkvæðum.

7. Lækjargatan verði sameiginlegt rými (shared space).
Lögð fram á ný tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins ásamt greinargerð:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að Lækjargata verði gerð að sameiginlegu rými gangandi, hjólandi og akandi. Þetta verði gert í anda „shared space“ hugmyndafræði.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja til að tillagan verði samþykkt með því skilyrði að unnið verði að breytingu á Lækjargötu í „shared space“ á sama tíma og gatnakerfið í nágrenninu verður endurskoðað. Unnið skal að undirbúningi í vetur og meðal annars skoðað hvers konar götur henta best sem „shared space“. Stefnt skal að því að framkvæmdir við breytingar á Lækjargötu geti hafist næsta vor.
Tillagan var samþykkt einróma.

8. Hjólavefsjá fyrir Reykjavík
Lögð fram á ný tilaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks ásamt greinargerð:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði leggja til að gerð verði Hjólvefsjá fyrir Reykjavík. Vefsjáin verði gagnvirk vegvísun sem sýnir borgarbúum á einfaldan hátt hvernig hjólafólk kemst frá A til B á sem fljótlegastan og öruggastan hátt. Borgarbúar geti slegið inn upphafsstað og leiðarenda, og vefurinn sýni um leið fljótlegustu leiðina, öruggustu leiðina, vegalengd og ferðatíma.

Umhverfis- og samgönguráð bókaði:
Útfærsla hjólavefsjár skal leitast við að nýta þá lausn sem felur í sér opinn hugbúnað og opin gögn, enda sé það í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í upplýsingatæknimálum. Jafnframt verði hafin vinna við gerð vefsjár fyrir gangandi vegfarendur.
Tillagan var samþykkt einróma.

9. Staðsetning og opnunartími veitingastaða.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 9. júní 2010, minnisblað Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 19. febrúar 2010, bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 26. júlí 2010 og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 18. ágúst 2010.
Frestað.

10. Breytingar á deiliskipulagi Vatnsendalands – breyting á vatnsverndarsvæði.
Lögð fram orðsending skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. maí 2010 og minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Umhverfis- og samgönguráð bókaði:
Vísað er til erindis Skrifstofu borgarstjórnar dags. 12. maí 2010 varðandi bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um breytingu á vatnsverndarmökum innan jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. HER hefur farið aftur yfir erindið og minnir á að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur þegar bókað varðandi málið á fundi þann11. janúar 2010. Þar tekur heilbrigðisnefnd undir bókun Framkvæmdastjórnar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu 81. fundi þar sem segir: “Framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu hefur farið yfir framkomið erindi varðandi tillögu að enn breyttu svæðisskipulagi vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu í landi Kópavogs. Um er að ræða grannsvæði vatnsverndar nánast við brunnsvæði og núverandi vatnstökusvæði við Myllulæk í landi Reykjavíkur. Í drögunum er fjallað um tillöguna sem breytingu eða tilfærslu grannsvæðis. Að mati Framkvæmdastjórnar er um mikla breytingu á afar viðkæmu svæði að ræða í formi skerðingar á grannsvæði, sem í tillögu er lagt til að verði skilgreint sem fjarsvæði B. Grannsvæðinu með þeim takmörkunum sem því fylgja varðandi notkun er ætlað að vernda viðkvæm nærsvæði brunnsvæðanna. Á svæðinu er þungamiðja vatnsöflunar á höfuðborgarsvæðinu. Breyting sem þessi á svæðisskipulagi getur því ekki talist óveruleg. Komi til breytinga þurfa þær að vera vel ígrundaðar og metnar út frá bestu fáanlegum gögnum svo ekki hljótist tjón af.
Framkvæmdastjórnin telur því að málinu eigi að vísa til samvinnunefndar um svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar. Mikil ásókn er í að auka starfsemi inni á vatnsverndarsvæðinu og er nefnt í því sambandi umrædd tillaga, fyrirhugað athafnasvæði á Hólmsheiði, lagning suðvesturlína, ferðamannastaður við Þríhnúka, tvöföldun Suðurlandsvegar, breyting á deiliskipulagi Heiðmerkur m.a. með aukningu á stígagerð og veglagningu, skógrækt á svæðinu o.fl. Öllum þessum athöfnum fylgir aukið álag sem meta þarf heildstætt. Í drögum að greinargerð koma ekki fram rök né ástæður fyrir tillögu að breytingu á skipulagi, hins vegar kemur fram að ekki sé um matskylda framkvæmd að ræða án frekari skýringa. Framkvæmdastjórn um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu getur ekki mælt með breytingum á skipulagi innan eins sveitarfélag sem gæti sett vatnstöku annars staðar í uppnám.”
Umhverfis- og samgönguráð tók undir bókun Framkvæmdastjórnar frá 81. fundi þann 11. janúar sl. og ítrekar þá skoðun sína.

11. Vatnsmýrin, samgöngumiðstöð, breyting á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar.
Lagt fram á ný bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 20. maí 2010 og umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 18. ágúst 2010.
Umhverfis- og samgönguráð óskar eftir frekari hljóðvistargögnum vegna samgöngumiðstöðvar sem nú þegar eru til eða eru í vinnslu.
Frestað.

12. Bann við notkun leiksvæðis.
Lagt fram til kynningar bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur dags. 16. júlí 2010 og eftirlitsskýrsla dags. 14. júlí 2010.

13. Úrskurður úrskurðarnefndar skv. l. um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Lagður fram til kynningar úrskurður úrskurðarnefndarinnar varðandi hundahald að Þórðarsveig 6.

14. Samþykkt hundaleyfi.
Lagður fram listi um samþykkt hundaleyfi dags. 31. águst 2010.

15. Samþykkt starfsleyfi og tóbakssöluleyfi.
Lagðir fram listar um veitt starfsleyfi, umsagnir til lögreglustjóra um rekstrarleyfi og útgefin tóbakssöluleyfi dags. 31. ágúst 2010.

16. Hjólastígur í Skógarhlíð.
Fulltrúar D-lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar D-lista í umhverfis- og samgönguráði leggja til að öruggur hjólastígur verði gerður eftir Skógarhlíðinni, sem tengist inn á göngu- og hjólreiðastíginn sem liggur meðfram Bústaðavegi, austan við Litluhlíð. Stígurinn mun tengja saman Hlíðar, Kringlusvæðið, Hvassaleiti, Gerði, Smáíbúðahverfi og Fossvog.

17. Fyrirspurn.
Fulltrúi VG lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á borgarráðsfundi 19 október í fyrra var eftirfarandi tillaga lögð fram: „Í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 18. júní sl. um að borgarlögmaður móti samning um tímabundin afnot áhugahóps um nýtingu Toppstöðvarinnar, ásamt því að tryggt verði að öryggiskröfur verði uppfylltar, samþykkir borgarráð meðfylgjandi samkomulag við Toppstöðina, félagasamtök, kt. 521009-2410, um afnot og leigu á 602 m² afmörkuðu rými á fyrstu og annarri hæð varaaflstöðvarinnar, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal, til 1. október 2011. Heimilt er að framlengja samkomulagið tímabundið til eins árs í senn að þeim tíma liðnum. Leigutaka er skylt að veita eiganda upplýsingar um notkun húsnæðisins á fjögurra mánaða fresti. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi viðaukatillögu: Lagt er til að svæði vestan við Toppstöðina, sem í dag er nýtt sem bílastæði, verði tyrft. Greinargerð fylgir tillögunni. R07070122
Tillaga borgarstjóra samþykkt. Viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna samþykkt“. Viðaukatillagan var flutt vegna áhyggna af því að aukin viðvera í Toppstöðinni mynd kalla á aukna notkun á umræddu bílastæði sem liggur að bökkum Elliðaáa sem skapar aukna hættu á mengunarslysum og truflun á tveimur af bestu veiðistöðum ánna.
Fulltrúi VG í umhverfis- og samgönguráði óskar því eftir upplýsingnum um það hvort að svæðið vestan við Toppstöðina hafi verið tyrft og hafi það ekki verið gert, hver sé ástæðan fyrir því?

Fleira gerðist ekki.

Fundi slitið kl. 16.50

Karl Sigurðsson
Hjördís S. Ingimundardóttir Hjálmar Sveinsson
Kristín Soffía Jónsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Hildur Sverrisdóttir