No translated content text
Umhverfis- og skipulagsráð
Umhverfis- og samgönguráð
Ár 2008, föstudaginn 29. ágúst kl. 14.00 var haldinn 12. fundur umhverfis- og samgönguráðs að Borgartúni 10–12, 3. hæð. Fundinn sátu Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Ragnar Sær Ragnarsson, Gestur Guðjónsson, Gerður Hauksdóttir, Dofri Hermannsson, Þorleifur Gunnlaugsson og Margrét Sverrisdóttir. Enn fremur sátu fundinn Árný Sigurðardóttir, Ólafur Bjarnason, Gunnar Hersveinn, Eygerður Margrétardóttir, Kolbrún Jónatansdóttir, Ellý Katrín Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
Formaður bauð ráðsmenn velkomna á fyrsta fund nýkjörins umhverfis- og samgönguráðs.
1. Kosning varaformanns umhverfis- og samgönguráðs.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 22. ágúst 2008.
Formaður lagði til að Gestur Guðjónsson yrði kjörinn varaformaður ráðsins og var það samþykkt einróma.
2. Tilnefningar í starfshópa umhverfis- og samgönguráðs.
a. Hjólreiðahópur: Snæþór Halldórsson var tilnefndur í stað Ástu Þorleifsdóttur.
b. Starfshópur um endurnýjun Miklatúns: Gerður Hauksdóttir var tilnefnd í stað Ástu Þorleifsdóttur og Gestur Guðjónsson í stað Jakobs Hrafnssonar.
c. Starfshópur um kaffihús í Hljómskálagarði: Ragnar Sær Ragnarsson var tilnefndur í stað Þorbjargar Helgu Vigfúsdótturr og Gestur Guðjónsson í stað Ástu Þorleifsdóttur.
d. Samráðshópur um Hallsveg: Gestur Guðjónsson var tilnefndur í stað Ástu Þorleifsdóttur og skipaður formaður hópsins.
e. Samráðshópur um framkvæmdir við Miklubraut-Kringulumýrarbraut: Gerður Hauksdóttir var skipuð í stað Ástu Þorleifsdóttur.
f. Ráðgjafahópur um Elliðaárnar: Jakob Hrafnsson var skipaður í stað Kristins Vilbergssonar.
3. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta fundi USR var á dagskrá tillaga um að bjóða út 20#PR af sorphirðu borgarinnar. Þetta útboð á sorphirðu borgarinnar hefur verið mikið áhugamál Sjálfstæðisflokksins en hann setti málið á dagskrá í 1. meirihluta. Það var tekið af dagskrá af meirihluta Tjarnarkvartettsins en aftur sett á dagskrá í tíð 3. meirihluta. Ekki er við öðru að búast en að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram að vinna að þessu áhugamáli sínu í núverandi samstarfi – meirihluta númer fjögur á kjörtímabilinu. Um það bera greinaskrif borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vitni. Þegar málið var sett á dagskrá fyrir síðasta fund Umhverfis- og samgönguráðs voru lagðar fram tölur um kostnað við sorphirðu í borginni til stuðnings þessu máli. Það er gott og gilt að leggja fram útreikninga til stuðnings sannfæringu sinni en hitt er verra ef sannfæringin ber útreikningana ofurliði. Þannig er því farið í þessu tilviki. Í útreikningunum er borinn saman kostnaður við sorphirðu á hverja tunnu og fundið út að hann sé nokkrum krónum ódýrari í nágrannasveitarfélagi. Það sem gerir þennan samanburð ómarktækan er einkum tvennt, annars vegar að í samanburðarsveitarfélaginu er sorp hirt á 10 daga fresti í stað 7 daga fresti í Reykjavík og hins vegar að færri tunnur eru að jafnaði við hvert hús í Reykjavík en samanburðarsveitarfélaginu. Ekki hefur verið sýnt fram á að heildarkostnaður af sorphirðu í umræddu sveitarfélagi sé lægri en í Reykjavík. Ekki hefur farið fram nein umræða um fákeppni á þessum markaði þar sem aðeins tvö fyrirtæki eru auk Sorphirðunnar í Reykjavík. Ljóst má vera að með því að leggja sorphirðuna í Reykjavík niður er hættunni á einokun boðið heim. Staðreyndin er sú að sorphirðan í Reykjavík er gríðarlega vel rekin, hún sinnir samfélagslegri ábyrgð með eftirbreytiverðum hætti og þjónusta hennar nýtur mikillar ánægju borgarbúa. Fulltrúm Samfylkingarinnar í Umhverfis- og samgönguráði er til efs að sérfræðingar sviðsins í þessum málum telji fyrrnefnda útreikninga vandaðan samanburð á verði og gæðum þjónustunnar. Þessir útreikningar bera því miður keim af því að hér sé farið í reiknikúnstir til að styðja vonda ákvörðun.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Útboðsmál sorphirðu eru ekki sérstakt áhugamál Sjálfstæðismanna né Framsóknarmanna og allar ákvarðanir verða teknar að vel athuguðu máli. Starfsmenn sviðsins eru að skoða málið á ábyrgan og faglegan hátt og fulltrúar umhverfis- og samgönguráðs fá allar upplýsingar sem hægt er að útvega er varða þetta mál.
4. Fulltrúar minnihlutans í umhverfis- og samgönguráði lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir:
a. Nagladekk – fyrirspurn.
Frá því Sjálfstæðisflokkur myndaði meirihluta með Ólafi F Magnússyni hefur fulltrúi Samfylkingarinnar í Umhverfis- og samgönguráði ítrekað spurt hvað líði vinnu við hagræna rannsókn á samfélagslegum kostnaði af notkun nagladekka en fengið dræm svör. Í tíð 2. meirihluta var samþykkt að ráðast í þessa rannsókn svo hægt væri að sjá beinan og óbeinan kostnað af völdum nagladekkja en eins og margir vita er nagladekkjanotkun stærsti einstaki þátturinn í svifryksmengun í borginni. Nú nálgast sá tími að borgarbúar velja vetrardekk undir bíla sína og því spyrja fulltrúar Samfylkingarinnar:
Hvað líður vinnu við gerð hagrænnar rannsóknar á samfélagslegum kostnaði af notkun nagladekkja í borginni?
Munu þær tafir á vinnunni sem orðið hafa vegna seinagangs og andvaraleysis 3. meirihluta í málinu verða til þess að rannsóknin verður ekki tilbúin áður en tími nagladekkjanna gengur í garð nú í haust?
Skriflegt svar óskast.
b. Leigubílar – fyrirspurn.
Á fundi Umhverfis- og samgönguráðs 9. júní sl. lýsti áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokksins yfir áhuga á að niðurgreiða leigubíla í borginni líkt og um almenningssamgöngur væri að ræða og að gefa leyfi til að aka leigubifreiðum frjáls. Fulltrúinn bar fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hefur það verið skoðað hvaða áhrif það hefði ef að borgin myndi niðurgreiða fargjöld leigubifreiða eins og gert er víða í borgum erlendis? Jafnframt hver yrðu áhrifin af því að leyfi til að aka leigubifreið yrðu gerð frjáls?
Nú þegar Framsóknarflokkurinn er á ný kominn í meirihluta í borginni er við hæfi að spyrja hvort þetta baráttumál Framsóknarflokksins, að niðurgreiða akstur leigubifreiða og gefa leyfi til aksturs leigubíla frjáls, verði hluti af markmiðum og starfsáætlun næsta árs í Umhverfis- og samgönguráði.
Skriflegt svar óskast.
c. Fyrirspurn vegna kjörs í starfshópa USR.
Slæmt er hversu mjög starf hefur tafist í þeim starfshópum sem hér um ræðir, vegna tíðra meirihlutaskipta. Tekið skal fram að embættismenn hafa ávallt verið reiðubúnir með faglegar upplýsingar og ráðgjöf til hópanna þegar óskað hefur verið eftir þeim.
Hve mikið seinkar framkvæmdum vegna þessara tafa?
Hvaða áhrif hafa þessar tafir á gerð fjárhagsáætlunar?
Skriflegt svar óskast.
Fundi slitið kl. 10.35
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Ragnar Sær Ragnarsson Gestur Guðjónsson
Gerður Hauksdóttir Dofri Hermannsson
Þorleifur Gunnlaugsson Margrét Sverrisdóttir