Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Framkvæmda- og eignaráð


Ár 2010, mánudaginn 10. maí var haldinn 45. fundur framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst kl. 13.31. Þessir sátu fundinn: Óskar Bergsson, Sigrún Magnúsdóttir, Ólafur R. Jónsson, Stefán J. Stefánsson og áheyrnarfulltrúinn Kjartan Eggertsson. Einnig sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Ámundi Brynjólfsson, Jón Halldór Jónasson, Sighvatur Arnarson, Ágúst Jónsson, Hreinn Ólafsson og Ása Sif Guðbjörnsdóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:


Mál nr. 2010050021
1. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar 2009 dagsettur 10. maí 2010.
Framkvæmda- og eignaráðsfulltrúi Samfylkingar óskaði bókað:
Hinn mikli rekstrarhalli á eignasjóði á árinu 2009 hlýtur að valda verulegum áhyggjum, auk mikilla skulda og lágrar eiginfjárstöðu.
Framkvæmda- og eignaráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Framkvæmda- og eignasvið náði fram rúmlega 600 milljóna króna hagræðingu í rekstri sviðsins sem verður að teljast góður árangur við erfiðar aðstæður. Rekstrarhallinn er tilkominn vegna þess að áform um eignasölu gengu ekki eftir.Samgöngu og sveitastjórnarráðuneytið gaf nýlega út breyttar reglur um útreikning eigin fjár sveitarfélaga. Nýju reglurnar hækka eigið fé Reykjavíkurborgar um 15 milljarða króna og því er eigin fjárhlutfall borgarinnar hærra en kemur fram í ársreikningi sem því nemur.

Mál nr. 2010050008
2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs dagsett 6. maí 2010 varðandi nýframkvæmdir í maí 2010, einnig lögð fram verkstöðuskýrsla nýframkvæmda dagsett í maí 2010.
Skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs kynnti.

Mál nr. 2010040044
3. Lagt fram bréf Agnars Bjarnarsonar dagsett 30. apríl 2010 varðandi framkvæmdir á lóð við Kambsveg 37.
Samþykkt að vísa málinu til afgreiðslu Framkvæmda- og eignasviðs.

4. Forstöðumaður gæði, þróunar og greiningar hjá Framkvæmda - og eignasviði kynnti og lagði fram verkefnaskrá stýrishóps fyrir árin 2006-2008 varðandi búsetuúrræði fyrir eldri borgara í Reykjavík dagsett 3. maí 2010.

5. Mál nr. 2010050002
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dagsett 30. apríl 2010 varðandi tillögu frá fundi borgarráðs 29. apríl 2010 um sölu á Miðbæjarskólanum.

- Sigrún Elsa Smáradóttir tók sæti á fundinum kl. 14.06

6. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra Framkvæmda- og eignasviðs dagsett 4. maí 2010 varðandi kaup á skipulagseignum.
Framkvæmda- og eignaráðsfulltrúar Samfylkingar óskuðu bókað:
Ekki fæst annað séð en að meirihlutinn ætli sér að auglýsa eftir aðilum til að borgin geti keypt af þeim skipulagseignir í miðbænum fyrir allt að 400 milljónir. Slíkt á sér engin fordæmi. Ljóst er að ekkert fjármagn er í hendi til þessa frekar en margra annarra verkefna. Það sætir furðu að það sé forgangsmál hjá meirihlutanum að auglýsa eftir aðilum til að kaupa af eignir í miðbænum meðan borgin t.d. þráast við að taka við lóðum í úthverfum af skuldsettum fjölskyldum þrátt fyrir að hafa verið margdæmd til þess.
Framkvæmda- og eignaráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Kaup á skipulagseignum voru samþykkt í fjárhagsáætlun 2010 og eru til umræðu og kynningar í framkvæmda- og eignaráði og hafa einnig verið kynnt í skipulagsráði. Endaleg afgreiðsla mun fara fram í borgarráði. Hörð viðbrögð Samfylkingar um átak í endurbyggingu gamalla húsa í miðborginni koma á óvart.

7. Mál nr. 2010020009
Lögð fram tillaga skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs dagsett 6. maí 2010 varðandi endurbætur og meiriháttar viðhald, átaksverkefni 2010.
Tillagan samþykkt samhljóða.

8. Margrét Leifsdóttir og Örn Baldursson fulltrúar Völundarverks kynntu stöðu á verkefnunum hjá Völundarverki.

Sigrún Magnúsdóttir vék af fundinum kl. 14.41

9. Mál nr. 2010050022
Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dagsett 5. maí 2010 varðandi samþykkt borgarstjórnar frá 5. maí 2010 um heildstæða hjólreiðastefnu.

10. Lagt fram yfirlit yfir áætluð ársverk á skrifstofu gatna- og eignaumsýslu Framkvæmda- og eignasviðs og mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs fyrir árin 2000-2010.
Framkvæmda- og eignaráðsfulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Hvað þarf fermetra verðið að vera annars vegar við Laugaveg 4-6 og hins vegar á brunareitnum á Lækjartorgi ef sala eignanna á að standa undir kaupverði, endurbótum og öðrum kostnaði vegna verkefnanna ?. Óskað er eftir skjótum svörum sérstaklega í ljósi hugmynda meirihlutans um að auglýsa eftir fleiri skipulagseiningum til að láta borgina kaupa í miðbænum.


Fundi slitið kl. 15.58

Óskar Bergsson
Ólafur R. Jónsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Heimir Janusarson Stefán J. Stefánsson