Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

FRAMKVÆMDARÁÐ

Ár 2005, mánudaginn 11. apríl, var haldinn 6. fundur framkvæmdaráðs. Fundurinn var haldinn í Skúlatúni 2 og hófst kl. 08:30. Þessir sátu fundinn: Anna Kristinsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Helgi Hjörvar, Jórunn Frímannsdóttir, Kristján Guðmundsson og Margrét Sverrisdóttir. Einnig kom á fundinn: Ólafur Bjarnason.
Fundarritari var Ágúst Jónsson.

Þetta gerðist:

1. Á fundinn komu frá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, og Kolbrún Jónatansdóttir og kynntu starfsemi Bílastæðasjóð.

- Kjartan Magnússon tók sæti á fundinum kl. 8:55.

2. Ólafur Bjarnason, aðstoðarsviðsstjóri, kynnti tillögu að vegaáætlun 2005 – 2008.

Mál nr. 2004070038
3. Lögð fram tillaga Stefáns A. Finnssonar, yfirverkfræðings, um aðgerðir í umferðarmálum í Skipholti á milli Nóatúns og Bolholts.
Samþykkt.

4. Ólafur Bjarnason, aðstoðarsviðsstjóri, gerði grein fyrir ráðningum nýrra yfirmanna á Framkvæmdasviði. Ennfremur lagt fram 5. tbl. innanhússfréttablaðsins Verkin tala.

- Helgi Hjörvar vék af fundi kl. 9:45

5. Lagt fram minnisblað, dags. 6.4.2005 um stöðu framkvæmda við Ölduselsskóla og framkvæmdir við Laugarnesskóla.
Þorkell Jónsson, tæknifræðingur, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu. Framkvæmdaráð beinir því til hverfisráðs Breiðholts að það í samvinnu við Framkvæmdasvið haldi fund með foreldrum barna í Ölduselsskóla vegna framkvæmda við mötuneyti skólans.

6. Lagt fram yfirlit yfir áfangaskiptingu vegna framvæmda við færslu Hringbrautar og umferðarskipulag meðan á þeim stendur.
Höskuldur Tryggvason, verkfræðingur, kom á fundinn og gerði grein fyrir málinu.

7. Lagt fram svar, dags. 11.4.2005 við fyrirspurn Kjartans Magnússonar frá fundi framkvæmdaráðs 14.3.2005.
Kjartan Magnússon lagði fram svofellda bókun:

Um síðustu áramót réðst Reykjavíkurborg í kaup á þrennum hjólbörum í því skyni að verða við lánsbeiðni vegna tímabundinna persónulegra afnota eins borgarfulltrúa. Umræddar hjólbörur voru keyptar gagngert vegna umræddrar lánsbeiðni og síðan sendar og sóttar, ásamt þrennum öðrum hjólbörum í eigu borgarinnar, til umrædds borgarfulltrúa. Flutninginn önnuðust starfsmenn borgarinnar og notaðar voru bifreiðar á vegum borgarinnar á rúmhelgum frídegi. Ekki var skrifaður reikningur vegna þessarar vinnu svo vitað sé, sem þó mun vera regla þegar innt er af hendi vinna sem ekki er á verksviði viðkomandi sviðs. Samkvæmt svörum við fyrirspurnum, sem fengist hafa á fundinum, verður ekki séð að borgarstarfsmenn eigi almennt kost á þeirri fyrirgreiðslu sem umræddur borgarfulltrúa naut í þessu tilviki.
Að undanförnu hefur nýskipað framkvæmdaráð unnið að setningu reglna og samþykkta í því skyni að bæta verklag innan borgarkerfisins, tryggja jafnræði og bæta eignaumsýslu. Athugasemdir og fyrirspurnir um málið frá starfmönnum Reykjavíkurborgar og svör aðstoðarsviðsstjóra vekja upp spurningu um hvort ástæða sé til að setja og/eða festa betur í sessi almennar og samræmdar reglur um notkun áhalda og bifreiða á vegum Reykjavíkurborgar og tryggja að allir starfsmenn borgarinnar njóti jafnræðis gagnvart slíkum reglum.

- Björk Vilhelmsdóttir vék af fundi kl. 10:35

Formaður lagði fram svofellda bókun:

Fulltrúar Reykjavíkurlista munu skoða það mál sem bókað var um á fundi framkvæmdaráðs. Jafnframt að fram fari skoðun á nauðsyn þess að mótaðar verði reglur um útlán á tækjum og tólum í eigu borgarinnar.

Fundi slitið kl. 10:15.

Anna Kristinsdóttir
Margrét Sverrisdóttir Kristján Guðmundsson
Kjartan Magnússon Jórunn Frímannsdóttir