Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2004, fimmtudaginn 11. nóvember, var haldinn 4867. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:15. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson, Dagur B. Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram leiðrétt fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 29. október. R04010042

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 4. nóvember. R04010018

3. Lögð fram fundargerð jafnréttisnefndar frá 1. nóvember. R04010005

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 29. október. R04010012

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Vinnuskólans frá 5. nóvember. R04010009

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál. R04100491

7. Lagt fram svohljóðandi bréf Þórólfs Árnasonar, dags. í dag:

Af ástæðum, sem borgarfulltrúum er kunnugt um, óska ég hér með eftir lausn frá störfum borgarstjóra frá og með 1. desember nk.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til við borgarstjórn að Steinunn Valdís Óskarsdóttir verði borgarstjóri til loka kjörtímabilsins í samræmi við ákvæði 64. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001. Ráðningarkjör hennar verða skv. reglum um kjör borgarstjóra.

Vísað til borgarstjórnar.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Ég var beðinn um að taka að mér störf borgarstjóra fyrir tæpum tveimur árum og bar það skjótt að. Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér gafst til þess að gegna störfum í almannaþágu og láta gott af mér leiða. Ástæðan fyrir því að ég tók það að mér var sú að mér þótti vænt um Reykjavíkurlistann og það sem hann stendur fyrir. Ég stend upp úr stóli borgarstjóra af sömu ástæðum og ég settist í hann. Það er sameiginleg niðurstaða mín og borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans að ég láti af störfum borgarstjóra hinn 30. nóvember næstkomandi. Ég er sannfærður um það að það er rétt ákvörðun og ég óska Reykjavíkurborg, starfsmönnum hennar og borgarbúum alls hins besta á komandi tímum. Eftirmanni mínum, borgarfulltrúanum Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, óska ég allra heilla og velfarnaðar. Dugnaður hennar og heilindi í starfi sem borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans síðastliðinn áratug hefur skapað henni orðspor sem er henni gott veganesti í því mikla starfi sem bíður hennar sem borgarstjóri í Reykjavík.

Lagt fram Ráðningarbréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 3. febrúar 2003.

Borgarstjóri óskaði bókað:

Í tilefni opinberra ummæla borgarfulltrúa Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er lagt fram í borgarráði ráðningarbréf Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, dags 3. febrúar 2003. Í því koma fram hverjum skilmálum ráðning borgarstjóra er bundin og hvernig kjör borgarstjóra eru ákvörðuð. Allar upplýsingar um ráðningu borgarstjóra og starfskjör hans eru opinber og hafa ítrekað verið birtar í fjölmiðlum á síðustu misserum. Eftirfarandi eru orðrétt ummæli sem höfð voru eftir borgarfulltrúanum í dagblaði þ. 10. nóv. sl.:
#GLÞau láta hann hætta og því liggur beint við að ætla að borgarstjóri fái laun út kjörtímabilið. Miðað við að borgarstjóri sé á sömu launum og forsætisráðherra og 19 mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu hverfur Þórólfur Árnason á braut með 20 milljónir króna.#GL
Borgarfulltrúinn Vilhjámur Þ. Vilhjámsson var viðstaddur þegar tillaga um ráðningu Þórólfs Árnasonar var lögð fram í borgarráði þ. 14. janúar 2003 og einnig þegar hún var afgreidd í borgarstjórn 16. janúar 2003. Þá lá ljóst fyrir að um ráðningu hans giltu sömu reglur og forvera hans í starfi, en í tillögu um ráðningu hans segir: #GLRáðningarkjör hans verði þau hin sömu og gilda skv. reglum um kjör borgarstjóra.#GL Borgarstjórn ákvað árið 1982 að ráðningar- og starfskjör borgarstjóra tækju mið af embætti forsætisráðherra. Samkvæmt ráðningarbréfi nýtur borgarstjóri #GLsömu almennra réttinda og aðrir starfsmenn Reykjavíkurborgar.#GL Biðlaunaréttur skapast eftir tvö ár í starfi og á því ekki við núverandi borgarstjóra, sem hóf störf 1. febrúar 2003. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur 22 ára feril að baki sem borgarfulltrúi og hefur setið í borgarráði í 18 ár. Þórólfur Árnason er fimmti borgarstjórinn sem lætur af störfum frá því borgarfulltrúinn var fyrst kjörinn og hefur ráðningarskilmálum borgarstjóra ekki verið breytt síðan. Þá hefur lögfræðingurinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verið formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í 14 ár. Honum eru því allir hnútar kunnugir í stjórnsýslu sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar sérstaklega.
Því er ljóst að ofangreind ummæli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar falla gegn betri vitund. Þau eru vísvitandi rógur.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskaði bókað:

Ég undrast bókun borgarstjóra, enda fólust í ummælum mínum við blaðamann DV engar aðdróttanir í garð borgarstjóra. Mér þykir miður hvernig borgarstjóri kýs að túlka orð mín, enda fullyrti ég ekkert um að Þórólfur Árnason fengi full laun greidd til loka kjörtímabilsins. Ég nefndi aðeins að ég teldi það ekki útilokað miðað við á hvern hátt starfslok hans báru að, enda er það þekkt í borgarkerfinu að gerðir eru lengri starfslokasamningar við æðstu starfsmenn borgarinnar. Ég áréttaði að ég vissi þó ekkert um það hvernig samið yrði um hans starfslok. Það væri borgarráðs að ákveða það og engin vitneskja eða tillaga lægi fyrir um það. Ég ræð því ekki á hvern hátt fjölmiðlar kjósa að matreiða sínar fréttir, en harma á hver hátt DV kaus að slá upp umræddri frétt. Það var síður en svo ætlan mín að gefa til kynna að borgarstjóri krefðist sérstakra biðlauna umfram það sem segir í hans ráðningarsamningi. R04110066

8. Rætt um fjárhagsáætlun ársins 2005.
Lagt fram bréf menningarmálastjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt menningarmálanefndar s.d. varðandi breytingar á gjaldskrám Borgarbókasafns, Minjasafns Reykjavíkur og Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Jafnframt lagt fram bréf menningarmálastjóra, dags. í dag, sbr. samþykkt menningarmálanefndar 10 þ.m. varðandi viðbótarfjárveitingu til Minjasafns Reykjavíkur og húsakönnunar í Reykjavík.
Frestað.

Þá er lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra Leikskóla Reykjavíkur frá 1. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 29. f.m. varðandi tillögu að nýrri gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. R04070012

9. Lögð fram að nýju skýrslan Stöðumat - undirbúningur að stofnun þjónustmiðstöðva, dags. í nóvember 2004. Jafnframt lagðar fram tillögur félagsmálastjóra að tilflutningi á starfsemi fjölskylduþjónustunnar Lausnar og unglingasmiðjanna Traðar og Stígs, dags. 11. f.m., sbr. samþykkt félagsmálaráðs 13. s.m. og stjórnkerfisnefndar 3. þ.m. R04060194
Tillögur félagsmálastjóra samþykktar með 4 samhljóða atkvæðum.

10. Lagt fram bréf skólanefndar Skóla Ísaks Jónssonar frá 1. f.m. um fjáhagsstöðu skólans ásamt umsögn forstöðumanns fjármálasviðs Fræðslumiðstöðvar frá 3. þ.m.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð felur Fræðslumiðstöð að hefja formlegar viðræður við fulltrúa einkarekinna skóla um stöðu þeirra og framtíðarhorfur.

Greinargerð fylgir tillögunni. R01070059
Tillagan samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar sjálfstæðisflokksins styðja tillöguna, en geta ekki samþykkt allt sem fram kemur í greinargerð en vísa til afstöðu sinnar í neðangreindri fyrirspurn.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:

Vegna umsagnar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur um erfiða fjárhagsstöðu Skóla Ísaks Jónssonar er rétt að taka fram að á árinu 1997-1998 var Ísaksskóli tvísetinn og þess vegna voru 230 grunnskólanemendur í skólanum. Haustið 1999 var skólinn einsetinn og það gefur augaleið að við hana (einsetninguna) fækkaði nemendum. Önnur skýring á fækkun nemenda er gríðarleg hækkun á skólagjöldum sem er tilkomin vegna naums fjárstuðnings frá borginni. Í hvert sinn sem skólagjöld hafa verið hækkuð hefur nemendum fækkað.
Augljóst er að of lítið var gefið í upphafi eftir yfirtöku sveitarfélaga á rekstri grunnskóla. Ekki er til skýr stefna borgaryfirvalda til einkarekinna grunnskóla enda eru allar ákvarðanir um fjárstuðning handahófskenndar. Þó skín andstaða R-listans til einkaframtaksins í gegn enda er augljóst að hann vill miðstýra kerfinu sem hlýtur að virka öfugsnúið og andstætt stefnu um einstaklingsmiðað nám. Stefnan um einstaklingsmiðað nám krefst ákveðins upphafskostnaðar sem ekki hefur verið tekið tillit til við ákvörðun fjárveitinga til einkarekinna skóla.
Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
Hve mikið hefur rekstrarkostnaður grunnskólanna í Reykjavík hækkað frá 1997?
Laun eru um 75#PR af rekstrarkostnaði skóla - hve mikið hafa þau hækkað á sama tímabili?
Hvað hefur kostnaður per nemanda hækkað mikið?
Hver er rekstrarkostnaður borgarrekins skóla af sambærilegri stærð og Ísaksskóla?
Hver er kostnaður per nemanda í #GLdýrasta#GL skóla borgarinnar?

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 5. þ.m. þar sem lagt er til að Þursaborg ehf. verði lóðarhafi lóðar nr. 6-8 við Vínlandsleið með sömu skilmálum og giltu gagnvart fyrri lóðarhafa. R04020001
Samþykkt.

12. Lögð fram rekstraráætlun Sorpu bs. fyrir árið 2005. R04070012

13. Lagt fram bréf fulltrúa skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 9. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um fjölda spilakassa í Reykjavík, sbr. 23. liður fundargerðar borgarráðs 21. f.m. R04100199

14. Lögð fram umsókn Unnar Högnadóttur og Guðna Indriðasonar um stofnun lögbýlis á jörðinni Norðurkot 2 á Kjalarnesi. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 8. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð geri fyrir sitt leyti ekki athugasemd við stofnun lögbýlisins. R04100233
Umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings samþykkt.

15. Lagt fram bréf ritara samgöngunefndar frá 28. f.m., sbr. samþykkt samgöngunefndar 26. s.m., um tillögu að reglum um styrki vegna endurgerðar heimtraða við íbúðarhús í Reykjavík. R04110006
Samþykkt.

- Kl. 12.45 vék borgarstjóri af fundi.

16. Lagðar fram að nýju tillögur nefndar um mótun stefnu í úrgangsmálum, dags. í september 2004, ásamt bréfi deildarstjóra sorphirðu og dýraeftirlits Umhverfis- og heilbrigðisstofu frá 13. s.m. Jafnframt lagðar fram umsagnir umhverfis- og heilbrigðisnefndar frá 14. f.m., sbr. bréf forstöðumanns Umhverfis- og heilbrigðisstofu 19. s.m., og stjórnar Sorpu bs. frá 13. s.m. Þá er lagt fram minnisblað nefndar um mótun stefnu í úrgangsmálum, dags. 30. f.m., sbr. bréf deildarstjóra sorphirðu og dýraeftirlits 8. þ.m. R03070091
Tillögur nefndarinnar samþykktar.

17. Lagt fram bréf stjórnar Skátasambands Reykjavíkur frá 30 ágúst sl. varðandi niðurfellingu fasteignagjalda og lóðaleigu. Jafnframt lögð fram umsögn borgarritara, dags. 19. f.m. varðandi málið. R04090010
Samþykkt.
Borgarritara jafnframt falið að kanna nánar veitingu viðhaldsstyrkja vegna fasteigna Skátasambandsins.

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi starfslokasamninga, sbr. 23. liður fundargerðar borgarráðs 2. september sl. R04090011

19. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks varðandi stjórnkerfisbreytingar, sbr. 28. liður fundargerðar borgarráðs 4. þ.m. R04100035

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka svarið, en í því er spurningu okkar ekki svarað, þ.e. hver séu viðhorf borgarstjóra og formanns stjórnkerfisnefndar til ummæla formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Fundi slitið kl. 13:00.

Alfreð Þorsteinsson
Árni Þór Sigurðsson Dagur B. Eggertsson
Guðrún Ebba Ólafsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Stefán Jón Hafstein Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson