Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

Umhverfis- og samgönguráð

Ár 2010, þriðjudaginn 9. febrúar kl. 14.00 var haldinn 44. fundur umhverfis- og samgönguráðs í Hofi að Borgartúni 12-14. Gísli Marteinn Baldursson, Kolfinna Jóhannesdóttir, Gerður Hauksdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Dofri Hermannsson, Friðrik Dagur Arnarson og Margrét Sverrisdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Enn fremur sátu fundinn Ólafur Bjarnason, Þórólfur Jónsson, Kolbrún Jónatansdóttir, Árný Sigurðardóttir, Rósa Magnúsdóttir, Eygerður Margrétardóttir, Gunnar Hersveinn, Ellý K. Guðmundsdóttir og Örn Sigurðsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fylkisvegur 6, íþróttasvæði Fylkis, deiliskipulag, grasæfingasvæði.
Lagt fram á ný bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 10. desember 2009. Lögð fram á ný greinargerð og tillaga um 100 metra helgunarsvæði áa og vatna í Reykjavík.
Lögð fram umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 26. janúar 2010.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Minnugur orða Sivjar Friðleifsdóttur frá árinu 1998 og kjörorði umhverfissinna frá árinu 1999 um að „náttúran njóti vafans“, legg ég til að máli þessu verði frestað a.m.k. fram á haust. Brýnt er að nánari rannsóknir fari fram á umhverfisáhrifum framkvæmda við Elliðaár. Einnig þurfa borgarbúar á nýjum og umhverfisvænni meirihluta að halda í borginni áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um lífríki Elliðaánna.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingarinnar og VG í umhverfis- og samgönguráði leggjast gegn því að settir verði boltavellir austan Árbæjarsundlaugar, á ósnortið svæði sem er um 40 metrum frá bökkum Elliðaánna. Í aðalskipulagi borgarinnar kemur fram að ekki skuli byggt nær ánum en 100 metrum. Fyrirhugað framkvæmdarsvæði er allt innan við 100 metra frá ánum og vegna landhalla er þörf á talsverðum tilflutningi á jarðefnum inn og/eða út af svæðinu. Veiðimálastofnun varaði eindregið við því að breyta skipulagi í átt að umræddri tillögu í ágúst síðastliðnum, og benti þá á að horfa skyldi á lífríki alls vatnasviðsins í heild sinni. Í framhaldi af umsögn Veiðimálastofnunar lagði Skipulags- og byggingasvið til breytingar og mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum framkvæmda og rekstur svæðisins á lífríki ánna. Ef fylgt verður öllum varúðarreglum og mótvægisaðgerðum telur Veiðimálastofnun að þetta íþróttasvæði muni ekki hafa langtímaáhrif á lífríki Elliðaánna. Veiðimálastofnun leggur þó sem fyrr áherslu á að fram fari heildstæð stefnumótun varðandi framtíðarskipulag svæðisins og segir m.a.: “Ein afmörkuð framkvæmd í nágrenni straumvatna getur haft takmörkuð áhrif á lífríkið en þegar farið er í margar slíkar framkvæmdir geta samlegðaráhrif þeirra orðið veruleg og varanleg. Sú breyting á deiliskipulagi íþróttasvæði Fylkis sem hér er kynnt er ein af þessum smáu framkvæmdum.” Þá minna fulltrúar Samfylkingar og VG á að hingað til hafa 100 metra mörkin ekki verið virt sem helgunarsvæði áa og engin trygging er fyrir því að mótvægisaðgerðum verði fylgt eftir. Fulltrúar Samfylkingarinnar og VG vilja fylgja eftir yfirlýstri stefnu Reykjavíkurborgar um að ráðast ekki í framkvæmdir sem ógnað geta lífríki Elliðaánna, en lýsa sig reiðubúna til að vinna að heildarskipulagi fyrir allt svæði Elliðaánna og eins að skoða aðra möguleika á boltavöllum á nærliggjandi svæðum.“
Frestað.

2. Samgönguáætlun Háskólans í Reykjavík.
Kynning. Á fundinn komu Ari Kristinn Jónsson, rektor ásamt Þorkeli Sigurlaugssyni og Gunnari Guðna Tómassyni.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég fagna því að horfið hafi verið frá fyrirætlunum í anda verðlaunatillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar þar sem gert var ráð fyrir ferköntuðu gatnaskipulagi austan Reykjavíkurflugvallar. Gegn slíkum áformum barðist ég hart í borgarstjóratíð minni við litla hrifningu fjórflokkanna og annarra flugvallarandastæðinga í borgarstjórn Reykjavíkur. Með því að reisa nýja flugstöð vestan flugvallarins og nýta áfram Umferðarmiðstöð á núverandi stað í stað samgöngumiðstöðvar austan flugvallarins, má tryggja betra mannlíf og umferðaröryggi í nágrenni Háskólans í Reykjavík og víðar.“

3. Fundargerðir.
a. Lögð fram til kynningar fundargerð 269. fundar stjórnar Sorpu bs.
b. Lögð fram til kynningar fundargerð 130. og 131. fundar stjórnar Strætó bs.

4. Atvinnumálahópur Reykjavíkur.
Kynning. Á fundinn komu Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi og Sigurður Snævarr, borgarhagfræðingur.
Ólafur F. Magnússon lagði fram svohljóðandi bókun:
Ég minni á að þeim 24 miljörðum króna, sem varið er til framkvæmda við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina væri betur varið til annarra verkefna í borginni. Ég mótmæli nú sem fyrr þeirri siðlausu forgangsröðun sem fjórflokkaurinn með sína 14 borgarfulltrúa stendur fyrir í þessu sambandi. Væri forgangsröðunin önnur mætti verja velferðina og öryggismálin í borginni og fjölga störfum við grunnþjónustuna í borginni, í stað þess að segja þeim upp störfum, sem síst skyldi. Að gefnu tilefni er spurt, hvort svokölluð „kynjuð hagstjórn“ fjórflokksins eigi eitthvað skylt við þá forgangsröðun, sem áður er lýst. Hugleiða þarf, hversu margar konur í umönnunar og kennslustofum missa einmitt vinnuna vegna forgangsröðunar fjórflokksins.“

5. Breytingar á hámarkshraða á þjóðvegum á Höfuðborgarsvæðinu
Lagt fram bréf Umhverfis- og samgöngusviðs dags. 12. janúar 2010 með tillögu um breytingar á hámarkshraða á Reykjanesbraut og Hafravatnsvegi. Tillagan var samþykkt einróma.

6. Víkingahátíð í Reykjavík – umsókn.
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dags. 7. janúar 2010.
Erindinu var vísað til umsagnar Umhverfis- og samgöngusviðs.

7. Þriggja ára áætlun Umhverfis- og samgöngusviðs.
Lögð fram drög að þriggja ára áætlun Umhverfis- og samgöngusviðs fyrir árin 2011, 2012 og 2013.
Frestað.

8. Loftslags- og loftgæðamálefni – kynning stefnumótunar.
Lögð fram tillaga sviðstýru Umhverfis- og samgöngusviðs um innleiðingu stefnumótunar á svið umhverfismála.5 Jafnframt lagður fram bæklingurinn „Framtíðin liggur í loftinu“ Loftslags – og loftgæðastefna Reykjavíkur.
Tillagan var samþykkt einróma.
Ráðið samþykkti einróma svohljóðandi bókun:
Umhverfis- og samgönguráð samþykkir ofangreinda tillögu og leggur til að haldinn verði fundur Umhverfis- og samgönguráðs, Framkvæmda- og eignaráðs og Skipulagsráðs, ásamt embættismönnum, til að ýta starfinu úr vör og skapa vettvang, þar sem hægt væri að móta áframhald samvinnunnar um sókn í loftslagsmálum.

Fundi slitið kl. 16.40


Gísli Marteinn Baldursson
Kolfinna Jóhannesdóttir Gerður Hauksdóttir
Áslaug Friðriksdóttir Dofri Hermannsson
Friðrik Dagur Arnarson Margrét Sverrisdóttir