Umhverfis- og skipulagsráð
Ár 2004, föstudaginn 14. maí, hélt stjórn Vinnuskóla Reykjavíkur 96. fund sinn.
Fundurinn var haldinn á Skúlagötu 19 og hófst kl. 10,00.
Mættir voru: Katrín Jakobsdóttir, formaður, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Sigrún Jónsdóttir.
Auk þeirra sátu fundinn Ómar Einarsson, Guðrún Þórsdóttir og Arnfinnur U. Jónsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík dagsett 6. maí 2004 um að Katrín Jakobsdóttir taki sæti í stjórn Vinnuskólans sem formaður og Guðný Hildur Magnúsdóttir taki sæti varamanns.
Stjórnin samþykkti samhljóða þakkir til Kolbeins Óttarssonar Proppé fyrir störf hans í stjórninni, en hann hefur beðist lausnar.
2. Lagt fram til fróðleiks yfirlit um laun og vinnutíma unglinga í 11 vinnuskólum á SV-horni landsins, frá Árborg í Borgarbyggð.
3. Skólastjóri greindi frá stöðu mála varðandi ráðningar leiðbeinenda og skráningar unglinga í sumarstörf 2004.
4. Skólastjóri lagði fram drög að fræðsludagskrá sumarsins 2004.
5. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu:
Tillögur um fegrunarátak Vinnuskóla Reykjavíkur sumarið 2004.
Á hverfafundum borgarstjóra í vetur komu fram hugmyndir um sérstakt fegrunarátak sem hófst með hreinsunarviku í kringum sumardaginn fyrsta. Stjórn Vinnuskólans leggur til að borgarstjóri ferðist um borgarhverfin í byrjun sumars, heimsæki yngstu hópana sem eru að störfum úti í hverfunum og ávarpi hópana og geri þeim grein fyrir mikilvægu hlutverki sínu. Ennfremur leggur stjórnin áherslu á að innan hvers nemendahóps, eða hreinsunarherdeildar, fari fram umræða í upphafi sumars um hvaða leiðir sé hægt að fara til að berjast gegn rusli, veggjakroti og slæmri umgengni. Herdeildirnar geta rætt málin út frá sínum hverfum; hvað þeim finnst að betur megi fara og hvaða blettir séu mestu ruslablettirnir. Slík umræða hentar yngstu hópunum mjög vel þar sem þeir starfa í eigin hverfum og jafnvel við eigin skóla.
Tilgangurinn með þessu er að vekja nemendur til umhugsunar um umhverfi sitt, auka hjá þeim virðingu fyrir því og gera þá ábyrgari í eigin umgengni og vinnu sinni yfir sumartímann. Ennfremur að venja nemendur við lýðræðisleg vinnubrögð í starfi, áhrif og skyldur.
Í lok sumars væri svo vinnan gerð upp og hver hópur mæti sitt starf. Bestu hóparnir fengju sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Með þessu væri hverjum og einum falin aukin ábyrgð á starfinu. Þetta uppeldisstarf væri liður í almennri vitundarvakningu á vegum Umhverfis- og heilbrigðisstofu um nauðsyn góðrar umgengni í borginni okkar.
Samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 11,10
Katrín Jakobsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Sigrún Jónsdóttir