Umhverfis- og skipulagsráð - og skipulagsráð

Umhverfis- og skipulagsráð

SAMGÖNGUNEFND

Ár 2003, mánudaginn 3. mars kl. 09:00 var haldinn 51. fundur samgöngunefndar Reykjavíkur í Skúlatúni 2, 5. hæð. Þessir sátu fundinn: Árni Þór Sigurðsson, Gísli Marteinn Baldursson, Haukur Logi Karlsson, Kjartan Magnússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Einnig komu á fundinn: Ásgeir Eiríksson, Baldvin Baldvinsson, Haraldur Sigurðsson, Ólafur Bjarnason, Ólafur Stefánsson, Stefán A. Finnsson, Stefán Haraldsson og Stefán Hermannsson. Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

Mál nr. 2002090044 1. Lagt fram bréf Jónínu Björgvinsdóttur f.h. skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20.02.2003, varðandi bann við lagningu ökutækja á Vitastíg.

- Gísli Marteinn Baldursson kom á fundinn kl. 09.05.

Mál nr. 2002110040 2. Lagt fram bréf Jónínu Björgvinsdóttur f.h. skrifstofu borgarstjórnar, dags. 20.02.2003, varðandi stöðubann á Þingholtsstræti.

Mál nr. 2002120035 3. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 18.02.03, varðandi framkvæmdir við Bankastræti.

Mál nr. 2001040174 4. Lagt fram bréf Ólafs Kr. Hjörleifssonar f.h. skrifstofu borgarstjórnar dags. 24.02.03, bréf Þórhildar L. Ólafsdóttur dags. 19.02.03, samþykkt samgöngunefndar, stofnsamningur Strætó bs. og eigendasamkomulag, öll varðandi fyrirspurn fulltrúa R-listans í samgöngunefnd um 8. tölulið 3. gr. samþykktar fyrir samgöngunefnd.

- Steinunn Valdís Óskarsdóttir kom á fundinn kl. 09.15.

Mál nr. 2003020057 5. Lagt fram bréf Baldvins Baldvinssonar, verkfræðings á Verkfræðistofu RUT dags. 18.02.03, varðandi biðskyldu á Tangarbryggju. Samþykkt.

Mál nr. 2001050109 6. Samgönguáætlun. Ólafur Bjarnason, forstöðumaður Verkfræðistofu RUT kynnti.

Fulltrúar R-listans í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi bókun; Samgöngunefnd Reykjavíkur fagnar því að nú skuli samin og lögð fyrir alþingi sameiginleg áætlun í samgöngumálum í stað 3ja framkvæmdaáætlana áður. Samgöngunefndin telur að með sameiginlegri áætlun gefist tækifæri til að skipuleggja fjárfestingar og uppbyggingu í vegamálum, hafnamálum og flugmálum með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Eftirfarandi atriði telur samgöngunefndin vert að draga sérstaklega fram:

1. Sérstök áhersla er lögð á markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, bæði með því að auka rannsóknir á því sviði en eins með því að nota skattlagningu og gjaldtöku í samgöngukerfinu með markvissum hætti. Ekki er þó að finna í áætluninni ákveðnar tillögur um breytingar á gjaldtöku eða hvernig á að auka hlut vistvænna samgöngumáta. Kallað er eftir skýrum tillögum í þessu efni. 2. Stefnt er að því að auka öryggi í samgöngum hér á landi með samstarfi við alþjóðlegar stofnanir á sviði samgönguöryggismála, fræðslu, rannsóknum og samstarfi þeirra aðila sem vinna að öryggismálum hérlendis. Þetta er jákvætt markmið en fjármagn til þessara mála þarf hins vegar að aukast verulega ef viðunandi árangur á að nást. Sérstaklega þarf að viðhalda gagnabanka um svartbletti og beina fjármagni til umferðaröryggismála að þeim, bæta aðstæður óvarinnar umferðar og draga úr umferðarhraða. 3. Mörkuð er stefna um að ríkið styðji frekar við almenningssamgöngur í þéttbýli en nú er og lagt til að teknar verði upp viðræður ríkis og sveitarfélaga í þessu sambandi. Þessari stefnumörkun er fagnað og er Reykjavíkurborg reiðubúin að hefja þegar viðræður um þessa hluti. Í umfjöllun um almenningssamgöngur er þó ekki fjallað um annað en ferjur og flóabáta, áætlunarflug og sérleyfi á landi. Er löngu tímabært að ríkisvaldið komi myndarlega að uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að stórauka hlut þeirra og ráðstafi jafnframt fjármagni til þeirra í stað þess að beina því nær undantekningarlaust að hefðbundnum gatnaframkvæmdum. Minnt er í þessu sambandi á stefnumörkun í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur um athugun á hagkvæmni sporbundinnar umferðar. 4. Fram kemur að Reykjavíkurflugvöllur verði fyrst og fremst miðstöð innanlandsflugsins en jafnframt tekið fram að æfingaflug muni flytjast af vellinum. Í nýsamþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir rekstri flugvallarins til ársins 2016, þó þannig að ein flugbraut verði lögð af á tímabilinu 2005-2008. Skv. ákvörðun umhverfisráðherra er að störfum sérstök nefnd ríkis og borgar sem fjallar um málefni flugvallarins. Samgöngunefnd Reykjavíkur vísar hvað þetta mál varðar til þeirrar nefndar og stefnumörkunar aðalskipulagsins. 5. Hlutur Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins í uppbyggingu í vegakerfinu er áfram lágur eða nálægt þriðjungur, en hefur þó heldur aukist undanfarin ár. Á hitt verður þó að benda að á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni þess býr um 2/3 hlutar landsmanna og markaðar tekjur til vegamála eiga væntanlega uppruna sinn í áþekku hlutfalli hér á svæðinu. Mikilvæg stórverkefni eru framundan í Reykjavík, s.s. jarðgöng, ný gatnamót og endurbætur stórra gatnamóta. Tímabært er að höfuðborgarsvæðið fái í sinn hlut sanngjarnan skerf af því fjármagni sem fer til uppbyggingar í vegamálum og hafi meira að segja um ráðstöfun þess en nú er.

Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Mál nr. 2003010062 7. Flýtiframkvæmdir. Lagt fram bréf Stefáns Hermannsonar, borgarverkfræðings dags. 24.02.2003, varðandi mögulega flýtingu framkvæmda.

Fulltrúar sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi bókun; Í umsögn borgarverkfræðings um flýtingu framkvæmda kemur skýrt í ljós að bið verður á því að hægt verði að ráðast í ýmsar samgönguframkvæmdir í Reykjavík þar sem skipulagsvinna vegna þeirra er stutt á veg komin. Frammistöðuleysi R-listans í skipulagsmálum leiðir því til þess að enn frekari dráttur verður á mikilvægum samgönguframkvæmdum sem miða að því að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð í borginni.

Fulltrúar R-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Staða einstakra skipulagsverkefna í samgöngumálum er með mjög mismunandi hætti í Reykjavík, líkt og gerist í góðum sveitarfélögum. Mörg verkefni eru tilbúin, önnur eru á undirbúningsstigi og ekkert stendur í vegi fyrir því að hægt sé að nýta þá fjármuni sem koma frá ríkinu til þjóðvegaframkvæmda í borginni. Umsögn borgarverkfræðings sýnir, þvert á það sem sjálfstæðismenn halda fram, að næg verkefni eru framundan í Reykjavík fáist til þess fjármagn frá ríkinu.

Fulltrúar Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd óskuðu bókað: Æskilegt er að þær þjóðvegaframkvæmdir hafi forgang sem eru helst til þess fallnar að auka umferðaröryggi. Þegar rætt er um flýtingu framkvæmda í Reykjavík kemur í ljós að ekki er hægt að ráðast í þær framkvæmdir sem skila hvað mestu umferðaröryggi þar sem R-listinn hefur dregið lappirnar í skipulagsvinnu þeirra árum saman, t.d. varðandi hönnun mislægra gatnamóta Miklubrautar – Kringlumýrarbrautar.

Mál nr. 2003020107 8. ICLEI, the International Council for Local Enviroments Lagt fram bréf C. Erdmengue og G. Van Begin f.h. ICLEI samtakanna dags. 07.02.2003. Formaður nefndarinnar tekur jákvætt í málið og að því verði vísað til athugunar hjá fjármáladeild borgarinnar og hjá borgarverkfræðingi. Samþykkt.

Mál nr. 2002020026 9. Miklubraut - Kringlumýrarbraut. Lagt fram minnisblað Verkfræðistofu RUT dags. 03.03.2003, varðandi umferðaröryggi og umferðarafköst. Einnig lagt fram framkvæmdarlegt yfirlit úr TMS skýrslu um Miklubraut – Kringlumýrarbraut dags. 27.02.2003. Frestað.

Mál nr. 2003020109 10. Skipulag leiðarkerfa Strætó bs. Lagt fram bréf Ásgeirs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Strætó bs., dags. 25.02.2003 um samanburð á markmiðum skipulag leiðarkerfis Strætó bs. Ásgeir Eiríksson framkvæmdastjóri Strætó bs., kynnti.

Mál nr. 11. Kjartan Magnússon fulltrúi Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lagði fram fyrirspurn varðandi bílastæði við Skólavörðustíg við Hegningarhúsið og sérmerkingu stæðanna. Samþykkt að framkvæmdastjóri bílastæðasjóðs kanni málið.

Mál nr. 12. Fulltrúar Sjálfstæðismanna í samgöngunefnd lögðu fram eftirfarandi bókun: Á síðasta fundi samgöngunefndar voru breytingar á deiliskipulagi Stjörnubíósreits samþykktar vegna fyrirhugaðs bílastæðakjallara. Var nefndarmönnum þá tjáð að önnur staðsetning fyrir byggingu bílastæðahúss kæmi ekki til greina í nágrenninu. Til dæmis væri ekki unnt að semja við Landsbankann um bílastæðahús á baklóð Laugavegar 77 en áður hafði samgöngunefnd verið tjáð að sá kostur væri að mörgu leyti álitlegri en bygging bílastæðahúss á Stjörnubíósreit. Fyrir nokkru var stofnað fasteignafélag um húseignir Landsbankans og hefur undirrituðum borist vitneskja um að þar sé áhugi á samvinnu við Reykjavíkurborg um uppbyggingu bílastæðahúss að Laugavegi 77. Ef á annað borð er stefnt að því að ráðast í byggingu nýs bílastæðahúss við ofanverðan Laugaveg er sjálfsagt og eðlilegt að skoða alla kosti með það að leiðarljósi að finna hagkvæmustu lausnina. Í ljósi þessa er eðlilegt að óska eftir viðræðum við fasteignafélag Landsbankans um slíka samvinnu áður en ákvörðun verður tekin um byggingu bílastæðahúss á stjörnubíósreit.

Fulltrúar R-listans í samgöngunefnd óskuðu bókað: Deiliskipulagið við stjörnubíó er í auglýsingu og hefur sinn gang. Undanfarna mánuði og misseri hefur borgin þráfaldlega leitað eftir samvinnu við Landsbankann um bílastæðakjallara við Laugaveg 77. Þegar Landsbankinn loks svaraði reyndist hann ekki hafa áhuga á slíkri samvinnu. Hafi Landsbankanum snúist hugur ætti hann að snúa sér til réttra aðila innan borgarinnar á auglýsingatíma skipulagsins

Fundi slitið kl. 10.55.

Árni Þór Sigurðsson
Haukur Logi Karlsson
Steinunn V. Óskarsdóttir
Kjartan Magnússon
Gísli Marteinn Baldursson